Færsluflokkur: Bloggar

Samhjálp er best til þess fallin að sjá um rekstur Gistiskýlisins á Lindargötu

Það eru dapurlegar fréttir á Mbl.is í gær, að á fundi velferðarráðs Reykjavíkur hafi verið ákveðið að Reykjavíkurborg taki yfir rekstur Gistiskýlis Samhjálpar á Lindargötu.  Samhjálp hefur rekið Gistiskýlið í samstarfi við Velferðarsvið Reykjavíkur um árabil með miklum metnaði, þar er áherslan lögð á kristna trú og umhyggjusemi við náungann.  Samhjálp hefur verið rekin síðan 1972 með frjálsum fjárframlögum einstaklinga og fyrirtækja, útgáfu ýmiskonar kristilegs efnis eins og tónlistar og bóka og með sölu happdrættismiða ofl. Samhjálp er því ákaflega ódýr og skilvirk stofnun þar sem hún aflar fjármuna sinna að miklu leiti sjálf en hún nýtur einnig stuðnings Reykjavíkurborgar.

Rökin fyrir þessari ákvörðun borgarstjórnarmeirihlutans er með þessu að spara nokkra þúsundkalla í kostnað fyrir borgina.  Aðrar ástæður er mér ókunnugt um, en ég veit að vinstri meirihlutinn, bæði sá sem nú hefur völdin og sá sem var á undan þeim hefur sett sig á móti trúarinnrætingu barna í grunnskólum.  Það er þá að mínu mati ekki von til þess að þeir sem að þessari tillögu unnu hafi mikinn skilning á því að Samhjálp sé best treystandi til þess að reka Gistiskýlið.  Ekki síst í ljósi þess að starf Samhjálpar er rekið með Kristnum hugsunarhætti þar sem kærleikur Krists er sýndur í verki.  Gegn þessari tillögu borgarmeirihlutans tóku afstöðu borgarfulltrúar Framsóknar og Flugvallarvina ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokks.  Í tilkynningu frá Framsókn og Flugvallarvinum segir "að Samhjálp hafi áralanga reynslu í rekstri gistiskýlisins með góðum árangri.  Ekkert gefi til kynna að Reykjavíkurborg geti sinnt þessu verkefni fyrir lægri fjárhæð eða með betri þjónustu en núverandi rekstraraðili.  Við teljum kost að leyfa frjálsum félagasamtökum að koma að rekstri úrræða til þess að auka fjölbreyttni og val þjónustuþega". 

En þær Sveinbjörg og Guðfinna hafa sett sig á móti ýmsu miður góðu sem vinstrimeirihlutinn hefur fundið upp á eins og niðurrif Neyðarflugbrautar Reykjavíkurflugvallar, þrengingu gatna í og við miðbæinn, þrengingu byggðar og svo mætti lengi telja.  Hafi þær þakkir fyrir.

Kær kveðja.


mbl.is Vilja ekki að borgin taki við rekstrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirgengileg framganga flugvallarandstæðinga og þeirra sem byggja vilja á flugvallarsvæðinu.

Samkvæmt frétt á Mbl.is var vinnuhópur sem annast hefur mat á nauðsyn neyðarflugbrautar Reykjavíkurflugvallar leystur upp nú fyrir jól.  Og í kjölfarið hefur forstjóri Ísavía lýst því yfir að mat vinnuhópsins sé rangt, að neyðarflugbrautin sé í raun óþörf.  Að sögn Þorkels Ásgeirs Jóhannessonar hjá Mýflugi sem átti sæti í vinnuhópnum sendi forstjóri Isavía frá sér skýrslu viðvíkjandi neyðarflugbrautina fyrir ári síðan, sem gengur í berhögg við reglur um útreikninga um nothæfistuðul.  "Það getir hann ekki hafa gert nema vegna þess að hann hefur viljað komast að einhverri ákveðinni niðurstöðu."

Það er skoðun þess sem þetta skrifar að hér er augsýnilega  ekki verið að ganga hreint til verks heldur er hér verið að þóknast ákveðnum öflum sem vilja flugvöllinn burt eða eða hluta hans svo hægt verði að hefja byggingaframkvæmdir á svæðinu.  Til að réttlæta skýrslu forstjóra Isavía var verkfræðistofan Efla látin gera úttekt á málinu.  En niðurstaða hennar var samhljóma skýrslu forstjóra Isavía.  Reykjavíkurborg ákvað að taka álit þessara tveggja aðila sem gott og gilt.  Enda er það yfirlýstur vilji borgarstjórnar meirihlutans að Reykjavíkurflugvöllur eða allavega neyðarflugbrautin skuli víkja fyrir íbúðabyggð.

Það er ekki rétt að hagsmunir þeirra sem hefja vilja framkvæmdir á flugvallarsvæðinu seu látnir ganga fyrir öryggi flugvallarins. 

Kær kveðja.


mbl.is Óvönduð vinnubrögð í besta falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir vita sínu viti kettirnir.

Það er gott til þess að vita að Bengal kettirnir sem stolið voru nýlega, séu nú komnir í hendur eiganda síns.  Sá hlýtur að vera feginn að hafa endurheimt þessa vini sína eftir að hafa saknað þeirra um nokkuð skeið án þess að vita hvort hann fengi að sjá þá aftur. 

Ég er svo lánsamur að hafa átt nokkra ketti um ævina.  Það er gaman að kynnast köttunum þegar maður fær þá og fylgjast með þeim vaxa og þroskast við leik og aðrar athafnir.  Það er athygglisvert að hver þeirra hefur sinn eigin persónuleika, sitt eigið lundarfar.  Þeir eru eru reyndar hálfgerðir kjánar þegar þeir eru litlir, uppátækjasamir og líkar að leika sér.  Einn kötturinn minn sem heitir Stuart nagaði sundur vírinn á heyrnartólunum fyrir tölvuna mína þegar hann var kettlingur.  Hann er reyndar ennþá frekar smávaxinn þótt hann sé orðinn 6 ára gamall, hann er svartur með óvenju stutt skott.  Ég veit ekki hvað því veldur en hann var þannig þegar við fjölskyldan fengum hann 2 mánaða gamlan.  Ein nágrannakonan kallar hann "Litla Skotta"  Hann er ákaflega blíður og góður, svolítið tilfinninganæmur.  Þegar hann var yngri tókst honum stundum að opna svefnherbergisdyrnar hjá okkur því hann vildi koma til okkar þegar við vorum farin að sofa.  Hvernig hann fór að því vitum við ekki.  Annar kötturinn sem við eigum nefnist Hnoðri.  Hann er allt öðru vísi, rólegur og yfirvegaður, stór, með gráan feld.  Honum líkar að hvila sig og láta fara vel um sig.  Hann er mjög glöggskyggn og gáfaður köttur, í augnaráði hans merki ég einbeitingu og hugrekki. 

Það er merkilegt hvað kettir taka vel eftir breytingum sem maður gerir heima fyrir.  Einu sinni létum við stækka gluggana í stofunni okkar og einn kötturinn okkar skoðaði gaumgæfilega þessa nýju glugga.  Það sama var upp á teningnum þegar við keyptum nýja eldavél um daginn.  Kettir eru miklu sjálfstæðari og meira sjálfum sér nógir en hundar, en við eigum einn hund Trítlu sem er smávaxin blendingur, Jack Russel Terrier og Border Collie.  Hún hefur allt annað lundarfar en kettirnir, er meira upp á okkur komin.  Hún hefur líka allt önnur svipbrigði, sýnir meiri tilfinningar, er mjög glöð að sjá mig þegar ég kem heim úr vinnunni og lætur mjög fjörlega.  Andlitssvipur hennar getur verið á ýmsan máta eftir því í hvaða skapi hún  er.  Hjá köttunum greini ég mun færri andlitssvipi, augu þeirra eru yfirleitt gal-opin (nema þegar þeir eru syfjaðir)og tjá ekki mikil svipbrigði, ég greini reyndar stundum undrunarsvip hjá þeim.  Kettir eru mjög skemmtileg gæludýr og geta gefið fólki mikla gleði og vellíðan.

Kær kveðja.

img_7882_1253564.jpg


mbl.is Bengal-kettirnir komnir heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er von á öðru en framfarir og uppbygging eigi sér stað á valdatíma Framsóknar og Sjálfsæðisflokks?

Ég hlustaði á ármótaávarp háttvirts forsætisráðherrans okkar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.  Var ég ánægður með orð hans því ég vissi sem svo að á bak við þessi orð og yfirlýsingar voru þrotlaus vinna ríkisstjórnar hans og þrautseigja við að koma fyrirætlunum ríkisstórnarinnar og kosningaloforðum ríkisstjórnarflokkanna í framkvæmd.  Snemma hófst vinna ríkisstjórnarinnar við að koma til leiðar fyrirhugaðri höfuðstólsleiðréttingu til handa skuldugum húsnæðiskaupendum.  Þeir Sigmundur og Bjarni unnu heimavinnuna sína þar sem þeir tvinnuðu saman í eitt fyrirætlanir beggja ríkisstjórnaflokkana hvað þetta málefni varðar og varð úr leið sem nýtti bæði innborgun beint í höfuðstólin og nýtingu séreignarlífeyrissparnaðar til lækkunar höfuðstóls.  Voru þeir Sigmundur og Bjarni jafnvel gagnrýndir af stjórnarandstöðunni á Alþingi þegar þeir huggðust koma þessum kjarabótum til fólks.  Eins og aðrir tugir þúsunda Íslendinga, fékk ég jólagjöf mína frá Sigmundi og Bjarna núna rétt eftir jólin senda inn í heimabankann minn og inn á íbúðalán mitt (1,3 millj í mínu tilviki).  Er ég þvílíkt þakklátur fyrir þetta og tel að þetta muni bæta fjárhagstöðu mína verulega á komandi árum. 

Sigmundur nefndi í ávarpi sínu að framlög til heilbrigðiskerfisins hafi verið stóraukin á valdatíma ríkisstjónar hans og nefndi hann að framlög til tækjakaupa á Landspítalanum hafi verið sjöfölduð ef ég man rétt.  Það er skoðun þess sem þetta ritar að vandi heilbrigðiskerfisins sé vandi okkar allra og að ríkisstjórnin eigi ekki sök á langvarandi launadeilu og verkfalla lækna.  Því staða sú sem heilbrigðiskerfið er komið í með allt of miklu álagi á lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og launum lækna sem eru lægri en þekkjast í löndum sem hvað best borga læknum, sé vegna uppsafnaðs vanda vegna margra ára niðurskurðar til Landspítalans og heilbrigðiskerfisins í landinu. 

Það kann að vera að þeim launavæntingum lækna þurfi að svara með nokkrum smærri skrefum.  Skrefum sem fært gætu læknum nægjanleg laun til framfærslu sem yrðu, fyrst í stað kannski ekki alveg sambærileg launum lækna í landi því sem Íslenskir læknar sækja gjarnarn til; Noregs, en uppbyggingarstarf ríkisstjórnarinnar og fólksins í landinu myndu með tíð og tíma færa lífskjör lækna til þess sem best þekkist í nágrannalöndunum.  Yrði það gert með nokkrum taktföstum skrefum ríkisstjórnarinnar sem hefðu hag lækna og landsmanna allra að leiðarljósi.  Margra tuga prósenta launahækkun launa mundi óhjákvæmlega leiða til stórkarlalegra krafna annara stétta launafólks, háskólamenntaðra og annara.  Sagt er "sígandi lukka sé best", það er best að samningar við lækna náist með grundvelli stöðugleika fyrir atvinnu- og efnahagsþróun í landinu og viðunandi lífskjör allra einkum þess fólks sem lægstar hafa tekjurnar.

Kær kveðja.


mbl.is Árangur 2014 traustur grunnur framfara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðgöngumæðrun samræmist ekki kristnum sjónarmiðum.

Samkvæmt lagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram til umsagnar á Alþingi, verður staðgöngumæðrun leyfð hér á landi og hafa verið sett viss skilyrði og reglur þar að lútandi.  Er það meðal annars; að greiða skuli staðgöngumóður útlagagðan kostnað en enga þóknun umfram það, að greina þurfi barni frá uppruna sínum þegar það nær aldri og þroska til og að ekki megi auglýsa þessa þjónustu og að staðgöngumæðrun skuli ekki vera framkvæmd í hagnaðarskyni heldur aðeins í velgjörðarskyni. 

Ég verð að segja að leyfi til staðgöngumæðrunar gengur á móti öllu sem ég tel rétt og samkvæmt góðu siðferði.  Ég tel að lög um þetta sem varða peningagreiðslur séu heldur losaralegar og það sé auðvelt fyrir fólk að ganga á bak þessara reglna.  Þetta opnar að mínu mati dyrnar fyrir þann möguleika að efnað fólk geti nýtt sér fátækt kvenna.  Óprúttið fólk geti hugsanlega notfært sér þetta og fengið konur í "þjónustu sína" og að aflokinni fæðingu grætt verulegar fjárhæðir.  Staðgöngumæðrun er einnig vafasöm í ljósi þess að móðurtilfinning og ást móður til barns þróast venjulega á meðgöngu og ákvörðun sem var tekin til að hjálpa barnlausum foreldrum snýst þá upp í löngun til að halda barninu þegar það er fætt.

Ég vil hvetja háttvirtan Iðnaðar-og Viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og fleiri flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar að falla frá frumvarpi sínu um staðgöngumæðrun.  Mér finnst slík heimild ganga gegn kristinni hugsun, með velferð hugsanlegra staðgöngumæðra í huga og vegna þess að lög sem þessi opna gátt fyrir efnað fólk að nýta sér fátækt kvenna og hugsanlega að leynileg gróðastarfsemi spretti upp í tengslum við staðgöngumæðrun.  Mér skilst að þingmaður Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdóttir hafi sett sig á móti frumvarpinu.  Á hún heiður skilið fyrir þá réttsýni og hugrekki sem hún sýndi.


mbl.is Ber að segja barni frá staðgöngumæðrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er að vinna að bættum hag allra landsmanna.

Í dag kom fjölmenni saman á Austurvelli, til þess, samkvæmt því sem að mótmælunum standa; að mótmæla aðgerðum og aðgerðarleysi stjórnvalda.  Er það svonefnd jæja-samtök sem standa fyrir mótmælendunum. En mótmælin í dag bera yfirskriftina "jæja Hanna Birna"

Mig langar til þess að tjá mig um mótmæli þessi:  Jæja, mótmælendur sem viljið Hönnu Birnu úr ráðherrastól:  Samkvæmt því sem Hanna Birna hefur lýst yfir nýverið hefur hún reynt að vinna verk sín sem Innanríkisráðherra eins vel og samviskusamlega og hún gat og að hennar sögn var henni ekki kunnugt um meintan leka aðstoðarmanns hennar.  Og þegar grunsemdir komu upp um leka í ráðuneyti hennar sagði hún af sér umsjón dómsmála.  Hún er að mínu áliti mjög heiðarleg og vönduð manneskja.

Það sem mótmælt er einnig að sögn aðstandenda mótmælana er "að stjónmálamenn taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni flokka". Vil ég um það segja að nýverið var landsmönnum kynnt niðurstaða skuldanleiðréttingu skuldara verðtryggðra húsnæðislána.  Sem er náttúrulega langþráð leiðrétting fyrir hóp fólks sem ekki fékk lán sín leiðrétt þegar fólk með gengistryggð lán fengu sína leiðréttingu. 

Ríkisstjórnin hefur gengið í gegn um mikið umrót varðandi kjaradeilur fólks með háskólamenntun eins og Kennarar, tónlistarkennara, flugmanna ofl.  Hafa kennara í grunn og framhaldskólum hlotið verulegar launahækkanir. Laun lækna og tónlistarkennara hefur ekki verið samið um ennþá.  En það er ekki auðvelt mál að semja um 30-50% próstent launahækkanir til lækna þegar gæta þarf aðhalds og forðast skriðu hárra launakrafna hjá öðrum hópum með verðbólgu sem því fylgir.

Ríkisstjórnin er að vinna að bættum hag allra landsmanna að mínu mati. Niðurfelling vörugjalds og lækkun efra þreps virðisaukaskatts er stórt stórt skref fram á við og hækkun matarskatts verður að skoða í samhengi við það.  Að sögn fjármálaráðherra munu matvörur á heildina litið hækka 2,5-3 prósent ma. vegna fyrirhugaðs afnáms sykurskatts.  En almenn vörugjöld sem verða felld niður eru á bilinu 15-25 prósent.  Ég vænti þess að Alþingi muni ganga þannig frá málum að hlutur þeirra sem lægstar hafa ráðstöfunartekjurnar verði ekki skertur. 


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga stjórnarmyndunarviðræðna Sigmundar og Bjarna.

Eftir að Sigmundur Davíð hafði tekið við stjórnmyndunarumboði frá Forseta Íslands sneri hann sér fyrst til vinstri framboðanna með gottið sem hann hyggst færa Íslensku þjóðinni sem eru aðgerðir þær sem hann hefur í hyggju að framkvæma þjóðinni til góðs.  Hann var svolítið smeykur við að koma til Bjarna með gottið því hann var hræddur um að Bjarni myndi kíkja í pokann hans og taka uppáhaldsmola hans sem eru lausnir þær sem hann hefur varðandi lánamál heimilanna.  Vegna þess sneri hann sér fyrst til vinstri til að kanna alla möguleika fyrst og sjá hvort hin höfðu ekki betra gotterí en Bjarni.  Eftir að hafa kíkt á gottið sem hin í vinstri framboðunum höfðu í nammi pokum sínum, tók hann sér stuttan umhugsunarfrest.  Og hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri óhætt að láta á það reyna að snúa sér til Bjarna. 
Og það var eins og við manninn mælt.  Bjarni tók honum mjög vel, og hann lét uppáhalds molann hans alveg vera.  Hann hafði prýðilega góðar hugmyndir um hvernig þeir gætu skipt molunum og mótað þá eftir hvernig þeim báðum líkaði og eftir því sem best kemur fyrir þjóðarhag.  Og Bjarni bauð Sigmundi í sumarbústað á suðurlandsundirlendinu þar sem aðstoðarkona Bjarna bakaði vöflur fyrir þá með sultu og rjóma.  Og fljótt hvarf öll hræðsla úr huga Sigmundar eins og dögg fyrir sólu og hann fann sig öruggan hjá Bjarna.  Og þeir settu molana saman í stóra skál, sem eru aðgerðir þær sem þeir hyggjast koma í verk, fólkinu í landinu og atvinnuvegunum til handa.
Og stjórnarmyndunarviðræðurnar gengu vel og oft komu fréttir af þeim félögum með myndum af þeim brosandi vegna þess góða árangurs sem þeir voru að ná og líka vegna vorangans í loftinu sem hafði eins og keim af betri tíð.  Og þeir fóru með sælgætisskálina, stjórnarsáttmálann til Reykjavíkur í Alþingishúsið og brátt var ríkisstjórn þeirra, hægristjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduð.
Og núna þegar styttist til jóla útdeildu þeir gottinu sem eru aðgerðir þær til handa skuldugum íbúðaeigendum.  Og fólkið var fegið að fá að snæða úr skálinni því það var svangt eftir langa bið eftir gottinu sem Bjarni og Sigmundur höfðu að færa.


mbl.is „Aldrei hefur verið jafn gaman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáranlegt að halda því fram að ríkisstjórnin sé að standa sig illa.

Mótmæli héldu áfram á Austurvelli í gær. Það sem mótmælt var meðal annars slæm staða heilbrigðiskrefisins vegna verkfalls lækna og vöntun á meira fé til Landspítala og heilbrigðiskerfisins alls.  Það er fáránlegt að saka ríkisstjórnina um þessa bágu stöðu heilbrigðiskerfisins.  Núverandi ríkisstórn hefur stór aukið framlög til heilbrigðiskrefisins frá því sem var í tíð fyrri ríkisstórn.  Vandi heilbrigðiskerfisins er ekki vegna bágrar frammistöðu ríkisstjórnarinnar heldur er þetta uppsafnaður vandi samdráttar sem hefur verið allsráðandi mörg undanfarin ár. Ég tel að kröfur háskólamenntaðs fólks eins og lækna, kennara, leikskólakennara prófessora ofl með háum launahækkunum séu að koma nú vegna þess að fólk sér að nú sjái til lands í ríkissbúskapnum með bættri tíð og stóraukinni velferð. 

Annað sem fólk mótmælti á Austurvelli í gær var að þeim peningum sem varið er í skuldaleiðréttingu ríkisstórnarinnar á verðtryggðum lánum hefði mátt nota í heilbrigðiskerfið eða einhver önnur mikilvæg málefni.  Sú lækkun á útborgunum á fasteignalánum sem margt fólk uppsker vegna skuldaleiðréttingarinnar er einmitt það sem margt fólk, skuldum hlaðið og láglaunafólk hefur þörf fyrir.  Það er margt fólk að basla á lágum launum og á mikið erfiðara með að láta enda ná saman en stéttir eins og læknar og kennarar.  Fyrir það fólk er þessi upphæð á við stór launahækkun sem lækkun afborgana færir þeim.


mbl.is Virðingarleysi og röng forgangsröðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heildaráhrif breytinga á virðisaukaskatti og niðurfelling vörugjalda eru jákvæð fyrir heimilin.

Samskvæmt frétt á Mbl.is og myndbroti sem henni fylgdi varð háttvirtum forsætisráðherra býsna heitt í hamsi er hann svaraði fyrirspurn Helga Hjörvars þingmanns Samfylkingarinnar.  Sagði Sigmundur reyndar "ef fyrirspurn skyldi kalla."  Því háttvirtur þingmaður Samfylkingarinnar fór óvægum orðum um verk ríkisstjórnarinnar, hvað varðar breytingar á virðisaukaskattsþrepunum og skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar sem hann sagði að ekki yrðu greiddar af hrægammasjóðunum svonefndu heldur með því að láta heimilin borga fyrir þær með hækkun á virðisaukaskatti á matvæli.  Sagði hann ennfremur "að hagur heimilana hafi versnað mjög frá síðasta kjörtímabili". 

Bragst forsætisráðherra við með ákveðni og góðri mælskulist, þar sem hann hratt til baka ummælum Helga Hjörvars, sagði hann ekki hafa farið rétt með neitt atriði rétt í ræðu sinni.   Sagði hann að ríkisstjórnin væri að lækka skatta en ekki hækka.  Ríkisstjórnin væri "að lækka álögur á heimili en ekki hækka sem síðsta ríkisstjórn hefði gert á allan mögulegan hátt".   Sagði Sigmundur að ríkisstjórnin færi skuldir heimilana niður og skattleggur fjármálafyrirtækin um tugi milljarða á ári.  Sem er ólíkt því sem fyrri ríkisstjórn gerði, en hún notaði ekki tækifærið þegar gullið tækifæri gafst til þess að  lækka skuldir heimilana og hafi barist fyrir því að koma skuldum fallina einkafyrirtækja yfir á heimilin.

Ég er hjartanlega sammála Sigmundi Davíð.  Ríkisstjórnin er með skulda- lækkunar áformum sínum að koma í verk aðgerðum sem eru löngu tímabærar.  Engin ríkisstjórn hefur komið slíkum áformum í verk sem koma sér eins vel fyrir skuldug heimili svo ég viti.  Varðandi breytingar á virðisaukaskattsþrepunum og hækkun matarskatts vil ég segja að  hækkun virðisaukaskatts á matvæli gæti við fyrstu sýn virst vera hækkun á álögur á einstaklinga og heimili.  En með nánari íhugun og með því að velta fyrir mér þessum málum þá tel ég að heildaráhrifin verði jákvæð fyrir heimilin og jafnvel einstaklinga.  Því á móti hækkunum á neðra þrepinu úr 7 í 12 prósent kemur lækkun efra þrepsins úr 25,5 í 24 prósent.  Í því þrepi eru innifaldar vörur eins og td. snyrtivörur. hreinlætisvörur klósettpappír, eldhúsrúllur og margt fleira.  Til mótvægis við hækkun matarskattsins svokallaða kemur svo að sykurskattur af matvælum verður lagður niður.  Ekki er mér kunnugt um nákvæmlega hvaða lækkun það skilar, fer það eftir hlutfallslegu sykurinnihaldi í matvörunum.  Samkvæmt frétt í vef Rúv 6 apríl á síðasta ári var hækkun sú sem sykurskatturinn hafi skilað á matvæli vera um 1-3 prósent.  Háttvirtur fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sagði nýlega að hækkun á matvæli vegna hækkunar á matarskatt yrði ekki 5 prósent eins og halda mætti heldur 2,5 - 3 prósent.  Trúi ég því vel, því til mótvægis við hækkun á matarskattinum kemur lækkun á vörum sem innihalda sykur.  Það eru býsna margar vörur og vöruflokkar matvæla sem bera þennan skatt.  En það eru td. mjólkurvörur eins og jógúrt sem innihalda viðbættan sykur, bakarísvörur eins og vínarbrauð, kökur og kex og að sjálfsögðu gos og sælgæti, jafnvel brauð sem inniheldur sykur og margt fleira.  Það sem gerir virkilega útskagið í lækkun útgjalda á heimilin og einstaklinga er svo niðurfelling vörugjalda sem mér skilst að skilað geti kringum 15-25prósent lækkun á fjöldamörgum vöruflokkum. 

Má þar nefna; rafmagnstæki, eins og sjónvörp, sjónvarpsflakkarar, hljóm- og myndlutningstæki, handfrjáls búnaður fyrir farsíma (25%).

Heimilistæki eins og eldavélar, ofnar, örbylgjuofnar, gasgrill, ísskápar, frystar, uppþvottavélar, þvottavélar og þurrkarar(20%)

byggingarvörur eins og gólfefni, teppi, flísar, baðker, salerni, handlaugar, blöndunartæki, heitir pottar(15%)

og margar aðrar vörur fyrir heimilið eins og ljós, lampar og ljósaperur, kertastjakar, hleðslurafhlöður(15%)

Það er klárt mál í mínum huga að jafnvel efnaminni fjölskyldur og einstaklingar þurfa oft að endurnýja ýmiskonar raftæki og kaupa vörur sem falla undir þennan lið.  Lækkunin á þessum vöruflokkum er það há 15-25  prósent eða meira að það þarf ekki að kaupa mikið af vörum sem falla undir þennan lið til þess að viðkomandi einstaklingur eða heimili hagnist af og að kaupmáttur fólks verði heldur meiri heldur en ef ekki væri farið út í þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin stefnir að hrinda í framkvæmd með bættan hag fólksins í landinu að leiðarljósi. 

Við megum vera þakklát fyrir núverandi ríkisstjórn.


mbl.is „Allt sem háttvirtur þingmaður sagði er rangt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útreikningar Hagstofunar sýna fram á að fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hækki kaupmátt um hálft prósent.

Ég hef verið fylgjast með Kastljósi í kvöld þar sem Háttvirtur forsætisráðherra situr fyrir svörum varðandi fjármálafrumvarp fyrir árið 2015.  Þar er gott að sjá hversu formenn stjórnarflokkana tveggja eru samsíða í málflutningi sínum varðandi fjárlagafrumvarpið og hvað sé heillavænlegast fyrir þjóðina, fólkið í landinu.  Hefur Sigmundur sömu sýn á breytingu virðisaukaskattskerfinu, sem sé breyting á skattþrepunum tveimur og einnig niðurfellingu vörugjalda.  Að sjálfsögðu virðist við fyrstu sýn að með hækkun lægra þreps virðisaukaskatts á matvæli úr 7% í 12% sé verið að vega að láglaunafólki, öryrkjum og öðrum sem ekki hafa mikið á milli handanna.  En samkvæmt rannsókn Hagstofunnar þá er heilldarútkoma þessara aðgerða sú að þegar litið er á heildarmyndina eykst kaupmáttur heimilanna um hálft prósent.  Ég geri mér ekki grein fyrir hvernig Hagstofan reiknar þetta út, en ég treysti Hagstofunni nokkuð vel að komast að nokkuð raunhæfri niðurstöðu.  Fannst mér gott að sjá hversu einarður Sigmundur var í málflutningi sínum, mátti sjá og heyra að hann hafi hlotið þá réttu yfirsýn yfir þetta mál, sem Sjálfstæðisflokkurinn og þeir sem eru á hægri væng stjórnmálana eru.  Minnist ég þess að hafa heyrt Bjarna Benediktsson segja á Alþingi í dag eitthvað á þá leið að Vinstri menn sjái ekki hvað skattalækkun er.  Finnst mér gott að Sigmundur og Bjarni hafi þarna mótað sér skoðun og gerst sammála um hvað þeir telja þjóðinni fyrir bestu og landsmönnum.  Þarna er á ferðinni hugmyndir sem ég býst við að eigi uppruna sinn í tjaldbúðum Sjálfstæðismanna, þeim flokki sem sá sem þetta skrifar aðhyllist og telur að sé sá besti í safni Íslenskra stjórnmálaflokka.
mbl.is Mesta skattahækkun Íslandssögunnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband