Bloggfærslur mánaðarins, október 2018

Hver er réttur ófæddra barna í móðurkviði?

Réttur ófæddra barna í móðurkviði er að heilsu þeirra sé gætt og að þau fái rétt til þess að fá að lifa. Íslensk lög standa ekki vörð um líf og heilsu allra ófæddra barna. Heilbrigðisstarfsfólki er ekki aðeins ætlað að standa vörð um líf fólks og ófæddra barna heldur er það svo að ef vissar félagslegar aðstæður eru fyrir hendi þá er félagsráðgjöfum heimilt að ráðleggja móður eða foreldrum að "láta eyða fóstri". Og fólki innan heilbrigðisþjónustunnar er þá heimilt með undangengnu samþykki móður/foreldra að deyða viðkomandi barn í móðurkviði. Þetta á líka við um ef barn í móðurkviði er greint með einhverskonar fósturgalla eða Downs heilkenni.

Þetta er mikill smánarblettur á íslensku heilbrigðiskerfi og á löggjöf Íslands. Lögin leyfa þetta, jafnvel þótt smávægilegar ástæður liggi þarna að baki.

Í yfir­lýs­ingu Sameinuðu Þjóðanna um rétt­indi barns­ins segir:

"Vegna líkam­legs og and­legs þroska­leysis þarfn­ast barnið sérstakrar verndar og umhyggju, þar með talið viðeigandi réttarverndar, fyrir fæðingu jafnt sem eftir hana." (Úr inngangi þessarar samþykktar Sam­ein­uðu þjóð­anna 1959). Einnig er þar að finna 4. frumregluna sem hljóðar svo: "Barnið skal hafa rétt til heilbrigðs vaxtar og þroska. Í þeim tilgangi skal veita bæði barni og móður sérstaka umhyggju og vernd, þar með talið umönnun bæði fyrir og eftir fæðingu."

Eins flestum er kunnugt hyggst heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir umturna núgildandi lög­gjöf um fóst­ur­eyð­ing­ar. Hefur hún lagt fram frumvarp um ný heildarlög um svonefnt þungunarrof þar sem fóst­ur­eyðing verður heim­iluð fram að lok­um 18. viku meðgöngu, en hefur hingað til verið fram að lok­um 12. viku í miklum meirihluta tilvika (93,8% árið 2015), en í undantekningartilfellum á 13.-16. viku meðgöngu (4,2% árið 2015). Hefur orðinu fóstureyðing þarna verið breytt í þungunarrof sem er í raun fegrunaryrði. Í drög­un­um að frumvarpinu verður einnig heim­ilt að fram­kvæma fósturvíg eftir 18 viku meðgöngu ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áfram­hald­andi þung­un eða ef fóst­ur telst ekki líf­væn­legt til fram­búðar eins og sagt er. Sagði heil­brigðisráðherra í færslu á Face­book-síðu sinni að frum­varpið tryggi með skýr­um hætti sjálfs­ákvörðun­ar­rétt kvenna til þung­un­ar­rofs. Með öðrum orðum þurfa mæður því ekki að gefa neina sérstaka ástæðu fyrir fósturvíginu nema þá eina að þær VILJI það!

Að vilji og hentisemi konu sé nóg til þess að heimila slíka "aðgerð" er að mínu mati fullkomin lítilsvirðing fyrir lífi því sem Guð gefur foreldrum þegar barn er getið í móðurkviði. Þarna er verið að brjóta boðorð Guðs: "þú skalt ekki morð fremja". Það er ekki umhyggja fyrir þeim ófæddu að taka frá þeim lífsréttinn og vega að honum í sjálfum helgustu véum lífsins!

Læknarnir sjálfir eru í raun ekki vanmáttugir að verja ófædd börn – því þeir geta neitað að taka þátt í þessu. Þeim ber raunverulega skylda til að skoða hug sinn í hverju læknisverki. En þeim hefur lærst að líta á sig sem þögult verkfæri löggjafans og hafa vanist því. Því miður. Hér er vert að benda á aðalatriðið sem að læknum snýr: Þeim ber ekki skylda til deyða fóstur því fóstureyðing er ekki læknisaðgerð í neinum venjulegum skilningi þess orðs og læknar sem stunda þær ættu að hugleiða alvarlega hvort þeir séu að brjóta læknaeiðinn. Neitun þarf að virða og taka vandræðalaust.

Að síðustu eru hér nokkrar vísindalega sannaðar staðreyndir um mannsfóstur.

Á 1. degi: Getnaður á sér stað. Allir erfðaeiginleikar ákvarðaðir.
Á 17. degi verða blóðkorn fóstursins til.
Á 20. degi er grundvöllur lagður að öllu taugakerfinu.
Á 21. degi slær hjartað.
Á 30. degi er komin regluleg blóðrás innan lokaðs æðakerfis. Eyru og nef byrja að þróast.
Á 42. degi er beinagrind mynduð (fyrst úr brjóski).
Á 56. degi eru öll líffæri starfandi. Úr þessu er aðeins um frekari vöxt að ræða.
Á 65. degi getur barnið kreppt hnefann og grípur um hlut sem strýkst við lófa þess.
Eftir 16. vikur hefur barnið náð hálfri þeirri lengd, sem það mun hafa við fæðingu.

Mættu stjórnvöld og þingmenn á Alþingi fá hugarfarsbreytingu í málum ófæddra barna og samþykkja ekki umrætt frumvarp. Er það skoðun greinarhöfundar að banna ætti fóstureyðingar hér á landi.


mbl.is Páfi líkti þungunarrofi við leigumorð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband