Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Margt röflar ölvaður maður

Það má nefna Miðflokks­mönnum og þing­mönnum Flokks fólksins til varnar að um­mæli þeirra á Klaust­ur­barn­um voru ekki ætluð að særa neinn heldur áttu þessi orða­skipti að vera á milli þeirra einna. Hefði ekki komið til ólög­leg upp­taka og ítrek­uð birt­ing hennar í sjón­varpi, útvarpi og á netinu hefðu þær persónur sem um var rætt aldrei verið særðar.

Þingmenn voru þarna undir áhrifum áfengis og málfar þeirra bar þess að einhverju leyti vitni. Að sjálfsögðu voru orð látin falla sem eru algerlega óviðeigandi og siðlaus og hefðu ekki átt að vera sögð af fólki sem á sæti á hinu háa Alþingi. En reyndin er sú, hvort sem maðurinn sem við á er venjulegur alþýðu­maður eða ráðherra, að þegar ölið er annars vegar, þá verður margur maðurinn að bjána. Og margt röflar ölvaður maður.

Þörf er á þeim Miðflokksmönnum til að standa á móti ýmsum málum sem m.a. stórveldis-sinnaðir þingmenn og ráðherrar hyggjast koma í gegn um þingið. Má þar nefna 3. orkupakkann. Þeir einu, sem eru líklegir til þess að standa í lappirnar og krefjast þjóðaratkvæðis um 3. orkupakkann, eru núna vængstýfðir eftir þetta Klaustursfyllerí.

Sigmundur Davíð sagði í viðtali á Útvarpi Sögu: "Fyrri orkupakkar sem samþykktir hafa verið hér á landi hafa síður en svo reynst vel og því lítil ástæða til þess að ætla að sá þriðji verði mikill hvalreki". Nei þriðji orkupakkinn yrði síður en svo til hagsbóta fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, og ef gerður væri sæstrengur á milli Íslands og Skotlands eins og vilji er hjá sumum þingmönnum og auðmönnum sem eiga hagsmuna að gæta, þá mundi orkuverð á Íslandi margfaldast.

Þingmaður Miðflokksins Þorsteinn Sæmundsson hefur margoft stigið í pontu Alþingis og krafist svara hjá ríkisstjórninni varðandi 3.600 íbúðir sem Íbúðalánasjóður seldi óþekktum aðilum á 57 milljarða króna, og þá hvaða einstaklingar og hvaða fyrirtæki og hverjir áttu fyrirtækin. Samkvæmt Fb-síðu Miðflokksins hefur ekkert svar borist frá félagsmálaráðherra.

Birgir Þórarinsson, nefndarmaður Miðflokksins í fjárlaganefnd, lagði meðal annars fram breytingartillögu við fjárlögin um lækkun kolefnagjalds um 2.300 m.kr., lækkun tryggingagjalds um 4.000 m.kr. og að arðgreiðslur frá innlendum aðilum hækki um 2.600 m.kr.

Þorsteinn Sæmundsson er einn reyndasti þingmaður Miðflokksins. Hans baráttumál hafa alla tíð verið mál eldri borgara, öryrkja og bættur hagur heimilanna. Þingmál sem hann lagði fram er meðal annarra: frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu.

Að lokum er rétt að geta þess að Miðflokkurinn lagði fram frumvarp á Alþingi um að 1. desember verði framvegis almennur frídagur. Væri þetta vel viðeigandi ef það yrði samþykkt svo að þessi merkisdagur fái á nýjan leik þann sess sem hann verðskuldar.

Gleðilegt nýtt ár og megi árið 2019 færa landsmönnum gæfu og Guðs blessun.


mbl.is Svara engu um tímasetningu endurkomu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband