Kjördæmaþing Framsóknarfélagana í Reykjavík vill flugvöllinn í óbreyttri mynd.

Í frétt á Mbl.is í kvöld kemur fram að Kjördæmaþing Framsóknarfélagana í Reykjavík hafi sent frá sér ályktanir um nokkur brýn úrlausnarefni.  Kemur ma fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Guðlaugssonar geti verið "stolt af mörgum stórmálum á stuttum tíma".  Kom fram í niðurlagi fréttarinnar að þess verði "einnig kraf­ist að flug­völl­ur verði áfram í Vatns­mýri í óbreyttri mynd".

Eins og flestum er kunnugt hafa Valsmenn nýlega hafið framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu svonefnda.  Samkvæmt þeim teikningum sem gerðar hafa verið af fyrirhugaðri byggð á svæðinu verða háreistar byggingar í fluglínu 06/24 neyðarflugbrautarinnar svonefndu en það þýðir að aðflug verður ekki mögulegt og flugbrautin því úr sögunni.  

Það er bagaleg staða sem komin er upp að Reykjavíkurborg hafi lofað upp í ermina á sér og gefið Valsmönnum vilyrði um jörð sem er ekki alfarið í eigu borgarinnar og gefið framkvæmdaleifi á Hlíðarendasvæðinu.  Er það í trássi við vilja ríkisvaldsins, kjósenda og allra landsmanna.  Í grein í morgunblaðinu 1 október sagði Ólöf Norðdal innanríkisráðherra "að á meðan ríkið reki inn­an­lands­flug­völl í Vatns­mýr­inni, megi ekki reisa bygg­ing­ar sem fari í bága við flug­línu og stefni flu­gör­yggi í hættu á meðan ríkið reki inn­an­lands­flug­völl í Vatns­mýr­inni".

Brynj­ar Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri Vals­manna hf. seg­ir að yf­ir­lýs­ing Ólaf­ar Nor­dal, hafi eng­in áhrif á bygg­ingaráform Vals­manna hf. á Hlíðar­enda­svæðinu.

Það hefur komið fram í fréttum undanfarið að mat sem Isavia hafi lagt á nothæfistuðul flugvallarins án neyðarflugbrautarinnar sé ekki rétt unnið og nothæfistuðullinn því rangt reiknaður. Allir sem koma nálægt flugi í landinu benda á að neyðarflugbrautin sé nauðsynleg þar á meðal Félag atvinnuflugmanna.

Þeir sem glöggt þekkja til þessa máls hafa bent á að vel mætti koma öllu byggingamagni fyrir á svæðinu með því að hliðra til byggð og lækka hæstu byggingarnar um nokkrar hæðir.  Það er augljóst að í skipulagi byggðarinnar að í fluglínu 06/24 flugbrautarinnar er gert ráð fyrir háum byggingum.  Virðist mér að það sé gert af ásettu ráði af hálfu Borgarstjórnar til þess að hefja niðurrif Reykjavíkurflugvallar.  Ef Reykjavíkurborg kemst upp með þetta hvert verður þá framhaldið?  Verður næsta skrefið að spilla fyrir þeim tveimur flugbrautum sem eftir verða?  

Eins og ég sagði hér að ofan þá stendur vilji Framsóknarfólagana í Reykjavíkur til þess að flugvöllurinn verði á sínum stað í óbreyttri mynd.  Framsóknarflokkurinn ætti því beita valdi sínu í ríkisstjórn ásamt innanríkisráðherra og stöðva framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu.  Það þyrfti ekki að banna fyrirhuguð byggingaáform alfarið heldur leyfa framkvæmdir á ný þegar nýtt deiliskipulag með breyttu fyrirkomulagi byggðar hefur verið lagt fram þar sem áframhaldandi notkun 06/24 flugbrautarinnar sé tryggð. 


mbl.is Ríkisstjórnin geti verið stolt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er gott að Ungir sjálfstæðismenn vilji brjóta niður kristin gildi í landinu þar á meðal tengsl ríkis og kirkju.

Leitt var að lesa grein í Mbl.is í fyrradag þar sem greint er frá að Ungir Sjálfstæðismenn vilji leggja fram á næsta aðalfundi að hjónavígslur færist alfarið í hendur sýslumannsembætta.  Og að í framhaldi af því verði hafin vinna við að aðskilja ríki og kirkju.  Einnig stendur vilji til þess að afglæpavæða eiturlyfjaneyslu og að heimila samkynhneygðum karlmönnum að gefa blóð.  En við því síðastnefnda eru skýr rök fyrir að slíkt teflir í hættu heilbrigði fólks sem þiggir blóð.

Ég veit eiginlega ekki hvert í stefnir hjá Sjálfstæðisflokknum og einkum þeim yngri þeirra á meðal.  Flokkurinn sem ég taldi aðhyllast kristin gildi er nú að beita sér gegn góðu fyrirkomulagi sem reynst hefur vel; að láta kirkjur sjá um hjónavígslur.  Unga fólkið í flokknum vill nú láta þrýsting minnihlutahóps í þjóðfélaginu fá sig til að leggjast gegn þjóðkirkjunni og taka hjónavígslur úr hendi hennar.  Er ekkert heilagt í huga þeirra?  Er veraldarhyggjan sem ég skilgreini sem vilji til þess að gera það sem fólki hentar án þess að taka tillit til Guðs eða það sem Orð Guðs segir, búin að taka yfir í hugum þeirra?  En þau vilja feta í spor vinstri manna og vantrúarfólks að krefjast aðskilnaðar ríkis og kirkju.  

Ungt sjálfstæðisfólk vill rífa niður það sem hefur verið við lýði um langan aldur og hefur reynst vel.  Að þjóðkirkjan sé samofin ríkisvaldinu. Hún er reyndar sjálfstætt starfandi samkvæmt stjórnarskrá en studd af ríkinu.  Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel því ef litið er út frá praktískum sjónarmiðum; þá sér hún um útfarir sem vantrúaðir og fólk í ýmsum frísöfnuðum nýta sér.  Og að maður tali nú ekki um hjónavígslur í kristnum sið sem til stendur að taka frá þjóðkirkjunni.

Kristin trú er ekkert sem við eigum að skammast okkar fyrir eða virða að vettugi.  Jesú Kristur gaf líf sitt fyir okkur svo að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Eins og ég minntist á fyrir ofan þá vilja yngri sjálfstæðissinnar að refsilöggjöf verði afnumin fyrir eiturlyfjaneyslu.  Væri þetta mikið óheillaskref til baka fyrir Íslendinga því þetta væri síður en svo til að hjálpa þeim sem þessari fíkn hafa ánetjast.  Því að fíkniefnaneysla er stórhættuleg ungmennum sem og eldri og margir hafa fallið fyrir þeim vágesti.  Stjórnvöldum ber að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk hefji neyslu vímuefna og að hjálpa þeim sem ánetjast hafa.

Ég vil hvetja ungt sjálfstæðisfólk að sjá að sér og snúa frá þeirri óheillabraut sem mér sýnist þau vera komin inn á.  Og ekki síst þeir sem eldri eru því sjálfur formaðurinn, háttvirtur fjármálaráðherra; Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir einu máli sem stríðir á móti góðu kristilegu siðferði og öryggi kvenna; afglæpavæðingu vændis árið 2007.  Ég vildi óska að flokkurinn sem ég hef fylgt frá unglingsárum stefni inn í braut kristilegs siðgæðis og heilinda.

Ég tel að það sé kominn tími á það að nýtt kristilegt stjórnmálaafl sjái dagsins ljós á Íslandi.

Ég vil benda á góða grein Guðmundar Pálssonar Læknis varðandi Sjálfstæðisflokkinn hér.

 


mbl.is Hjónavígslur aðeins hjá sýslumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sala á áfengi í matvöruverslunum mun setja stein í veg ungs fólks

Það er með eindæmum að áfengisfrumvarpið sem lagt var fram aftur í síðasta mánuði skuli ekki hafa verið slegið út af borðinu.  En miklar umræður hafa nú farið fram á Alþingi um frumvarpið. Samkvæmt frétt á Mbl.is 10 september sl. voru 16 þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum sem lögðu frumvarpið fram á nýjan leik.  Hljóðar frumvarpið upp á breytingar á lögum um að ríkið láti af einkasölu sinni af áfengi og sala þess verði gefin frjáls.

Það er mikil hneysa að svo margir þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum skuli taka þann ranga pól í hæðina að meta hag gróðafyrirtækja meira en heilsufar landsmanna og þá einkum unglinga og ungmenna.  Áfengisneysla hefur verið töluvert vandamál á Íslandi og það mun ekki batna ef áfengi verður sett í matvörubúðir til sölu þar sem það verður fyrir allra augum.  Er reynslan af samskonar löggjöf í Danmörku sú að áfengisneysla er þar mest á meðal unglinga á Norðurlöndunum.  

Eru þessir þingmenn svona ginkeyptir fyrir þrýstingi gróðafyrirtækja að þeir láta sér engu skipta æsku landsins?  Reynslan af þessu í nágrannalöndum okkar hefur sýnt að þessu fylgir aukin áfengisneysla.  En í Svíþjóð þar sem áfengissala var leyfð í matvörubúðum var hætt við umrædda löggjöf þegar auðsýnt þótti að hún orsakaði meiri áfengisneyslu á meðal unglinga. 

Látum reynslu nágrannaþjóða okkar vera okkur víti til varnaðar.  Mótmælum því að stjórnmálamenn láti undan þrýstingi manna sem hafa eigin gróða og fyrirtækja þeirra að meginmarkmiði.  Þeir stjórnmálamenn sem taka gróða fram fyrir velfarnað fólks ættu að skammast sín.

Hér á landi hefur verið unnið frábært forvarnarstarf gegn áfengisneyslu ungs fólks.  Sala á Bjór og víni í matvöruverslunum mun setja stein í veg ungs fólks þar sem þetta mun breyta ímynd þeirra varðandi áfengi.  Sú ranghugmynd mun óhjákvæmilega síast inn í huga þeirra að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara.  Unglingar og ungt fólk mun sjá hina fullorðnu kaupa þetta eins og hverja aðra vöru og það mun verða meira sjálfsagt mál í hugum þeirra að kaupa áfengi.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum eru frábær samtök sem standa gegn áfengisfrumvarpinu eins og allir sem eitthvað hugsa!  Þau hafa það að markmiði að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og fyrir bættu auglýsingasiðferði, með sérstaka áherslu á vernd barna og unglinga.  Skráum okkur á Facebook síðu samtakanna.

 

 


mbl.is Áfengisfrumvarpið flutt aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjónavígsla er trúarleg athöfn sem ekki ber að færa úr höndum Þjóðkirkjunnar

Samkvæmt frétt á Mbl.is í dag lét Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafa eftir sér að hjónavígsla sé "löggjörningur" sem hafi "réttaráhrif.  Og svo vitnað sé áfram í orð hans að "Ein­hverra hluta vegna hafa ýms­ir í frjáls­um fé­laga­sam­tök­um heim­ild til að fram­kvæma þenn­an lög­gern­ing. Með því eru þeir op­in­ber­ir sýsl­un­ar­menn."

Ég verð að segja að hjónavígsla er trúarleg athöfn sem ekki ber að taka úr höndum kirkjunnar manna.  Að færa þessa athöfn niður á veraldlegt plan og láta embættismenn utan þjóðkirkjunnar og annara kristinna trúfélga sjá um þessa athöfn er vanvirðing við kristna trú og Guðs Orð.  

Hjónabandið er heilög stofnun, fundin upp af Guði, sem er sagt fyrir um í Biblíunni.  En í Matteus 19,5 stendur; "Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður."

Þjóðkirkjan má teljast lánsöm að hafa tvo biskupa sem ekki láta veraldlegar hugmyndir færa sig út af laginu varðandi það að prestar fái að halda samviskufrelsi sínu þegar kemur að því að ákveða hvort þeir gefi saman tvo einstaklinga af sama kyni.  Þau eru Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands og Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholtsumdæmi.  

Það er mikilvægt að Þjóðkirkjan láti ekki bifast þegar veraldarhyggjan og vantrúaröflin gera atlögu að kristinni trú í landinu og því sem Orð Guðs heldur fram.  Páll postuli sagði í bréfi sínu til Tímóteusar; "til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans".  1 Tím 3,15  

Eigum við að láta tíðarandann ráða för þegar kemur að þjónustu kirkjunnar manna? - eða að láta Guðs orðið ráða för?  Eins og Páll sagði á kirkjan að vera stólpi og grundvöllur sannleikans.  Kristið fólk og kristin kirkja eiga að vera ljós og salt í heiminum.  "Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum".  Matteus 5,13

Guð gefi Þjóðkirkjunni og hinum kristnu söfnuðunum náð til þess að vera salt og ljós í heiminum og halda fast við sannleikann sem er Guðs Orð.


mbl.is Trúfélög sjái ekki um hjónavígslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það á að leyfa fólki að byggja sitt eigið íbúðarhús sjálft, og eftir eigin teikningu.

Samkvæmt frétt í Mbl.is í dag þá eru óverðtryggðu lánin hjá Arion banka nú vinsælli en verðtryggðu lánin.  Kom fram í fréttinni að bæjarstjórinn í Seltjarnarnesi Ásgerður Halldórsdóttir hyggst kanna hvort fara eigi að veita ungu fólki í sveitarfélaginu lán fyrir innborgun í íbúð.

Finnst mér þetta vera gott innlegg hjá Ágerði, því ungt fólk á Íslandi á oftast ekki fyrir innborgun í íbúð.  Margir festast því á leigumarkaði og erfitt getur verið að standast greiðslumat, en oft er ódýrari kostur að borga mánaðarlegar afborganir af eigin húsnæði heldur en að leigja.  Greiðslumat er að mínu mati allt of strangt, því af hverju má ekki veita fólki lán til íbúðakaupa með 100 þúsund króna afborgun á mánuði þegar viðkomandi hefur verið að borga 120-150 þúsund krónur í leigu á mánuði?

Í gamla daga var það oft að fólk byggði hús sitt sjálft.  Enda reglur um byggingar og teikningar fyrir þær rýmri en nú er.  Það á að afleggja þessar reglur varðandi það að fólk þurfi að skila inn teikningu unna af viðurkenndum arkitekt.  Fólk á að fá að teikna sítt hús sjálft og fá að skila inn sinni eigin teikningu.  

Árið 1988 byggði ég ásamt föður mínum sólskála við hús foreldra minna.  Ég teiknaði sólskálann sjálfur og faðir minn skilaði henni inn til byggingarfulltrúa og var teikningin samþykkt.  

Það þarf ekki arkitekt til að teikna íbúðarhús heldur ætti fólk að geta teiknað sjálft.  Að sjálfsögðu yrði fólk að vanda sig og gera grein fyrir stærðum á timbri ofl. í veggjum og hversu svert efni sé notað í þaksperrur og hvernig burðarvirki sé háttað.  Hlutverk byggingarfulltrúa ætti að vera að líta eftir að byggingar séu rétt byggðar og nógu traustar, og ætti hann að geta gefið ráð í því sambandi.  Það þarf ekki flókna útreikninga til þess að reikna út burð og annað þessháttar því það er löngu búið að finna upp hjólið hvað húsbyggingar varðar.   Það þarf ekki útreikninga verkfræðings eins og nú tíðkast (og er lögum samkvæmt) til að reikna út hvort hús standist byggingakröfur.  

Einbýlishús úr timbri er tiltölulega auðvelt að hanna og teikna. Það mætti hafa upplýsingar til taks fyrir húsbyggjendur á vef viðkomandi sveitarfélags og þá í tengslum við byggingafulltrúa viðkomandi svæðis. Þar mættu vera leiðbeiningar fyrir tilvonandi húsbyggjendur td. hvað varðar burðarbita í veggjum eftir því hvort hús sé 1 eða 2 hæða, fyrirkomulag á þaksperrum og mismunandi uppbygging á þeim.  Það er hægt að sýna hvað þaksperrur þurfi að vera efnismiklar miðað við mismunandi breidd hús og þar af leiðandi lengd sperra.  Þetta er ekki  flókið mál að skilja og það væri hægt að gera þetta aðgengilegt fyrir fólk að fara eftir.  Samskonar upplýsingar ættu einnig að vera um steinhús en ég þekki uppbyggingu á þeim mjög lítið.  Með þessu væri hægt að spara fólki umtalsverðar fjárhæðir.

Fólki ætti að sjálfsögðu að vera frjálst að byggja sitt eigið húsnæði sjálft. Núverandi reglugerð hljóðar upp á að húsasmíðameistarar sjái um það verk og meira að segja er krafist byggingastjóra (síðast þegar ég kynnti mér það mál).  En þetta er mjög íþyngjandi reglugerð og bindur hendur fólks sem vill byggja sitt hús sjálft og spara með því miklar fjárjhæðir - jafnvel helming kaupverðs húss eða meira.  En það er hægt að komast undan þessu ákvæði með einhverjum krókaleiðum að láta aðila skrifa upp á hjá sér en það er mikið vesen og leiðinlegt fyrir fólk að þurfa að kvabba á byggingameisturum til að fá undirskrifað.

Þegar maður ekur eftir aðalgötunni á Eyrarbakka þá getur maður séð mörg falleg gömul hús.  Þau hús sem vekja mesta aðdáun hjá mér eru minnstu húsin sem eru oft hæð með háu þaki og risi þar sem eru svefnherbergi.  Oft er búið að bæta við lítilli viðbyggingu 1 hæð við annan enda hússins.  Þessháttar hús ættu að vera byggð enn þann dag í dag.  Fólk gæti byggt slíkt hús fyrir ekki svo margar milljónir, byggt á mjög lítilli lóð jafnvel á helmingi eða þriðjungi því svæðis sem venjulegt einbýlishús þarfnast.  Húsið gæti verið tiltölulega lítið eða 40-55 fm að grunnfleti, rishæðin yrði jafnvel fokheld þegar fólk flytti inn og biði betri tíma.  

En þegar fjölskyldan hefur flutt inn þá má innrétta efri hæðina þegar efni og aðstæður leyfa.  Eftir visst mörg ár gæti húseigandi svo stækkað húsið með viðbyggingu sem tiltölulega auðvelt og ódýrt væri að byggja, við annan enda hússins.  Þá mundi gólfflötur viðkomandi húss fara td. úr 45 upp í 105-120 fm eða meira, (45 + 38-45 fm rishæð + 20-30 fm viðbygging)  Seinna mætti svo bæta við bílskúr.  Í staðinn fyrir að borga 4 milljónir í afborgun og svo 100 þúsund eða meira í afborgun af venjulegu húsi eða íbúð, væri hægt að byggja ofangreint hús fyrir tiltölulega fáar milljónir.  Reyndar yrði að borga töluvert margar miljónir fyrir lóð á höfuðborgarsvæðinu en þeirri upphæð mætti halda tiltölulega lágri ef lóðin væri óvenju lítil sem svona hús gæti hæglega komist fyrir á.  Best væri þá ef borgin mundi skipulegga svæði þar sem væru hús af svipaðri stærð.  

Með þessum hætti gæti fjölskylda eða einstaklingur komist inn í eigið húsnæði á ódýran hátt.  Það eru margir sem hefðu hugrekki og dugnað til þess að fara þessa leið eins og margt verkafólk eins og td. Pólverjar hér á landi sem hafa til að bera mikinn dugnað en litlar tekjur.  Vinir og vandamenn gætu sameinast um að hjálpa til við húsbygginguna.  Á þennan hátt gæti fólk komið sér undan þeirri fátæktargildru sem kaup á húsnæði eru.  En tíminn sem tæki að byggja slíkt hús og erfiðið við það (og ánægjan) væri léttvægt í samanburði við þann þrældóm og fjárhagsáhyggjur sem kaup á venjulegu húsnæði kostar.  En þar er maður að tala um kaupverð húss/íbúðar 15-40 milljónir og að fólk þurfi jafnvel að vinna 2-3 vinnur til að ná endum saman.  En það slítir fólki óneytanlega út og rænir frá þeim þeim tíma sem annars færi í samvistir við fjölskylduna eða eitthvað annað uppbyggilegt.

Kær kveðja


mbl.is Óverðtryggðu lánin í sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir er elska þig.

"Sjá, ég gjöri Jerúsalem að vímuskál fyrir allar þjóðirnar, sem umhverfis hana eru. Jafnvel Júda mun vera með í umsáttinni um Jerúsalem. Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir. Hver sá, er hefur hann upp, mun hrufla sig til blóðs, og allar þjóðir jarðarinnar munu safnast gegn henni."
(Sak. 12:2,3)

Við nálgumst hratt þá daga sem nefndir eru í ofangreindu versi. Nærri því daglega heyrum við í fjölmiðlum eitthvað frá Jerúsalem. Það eru fáar fréttir sem vekja upp jafnmargar spurningar sem umræðan um framtíð Jerúsalem. Þeir sem heimsækja gamla borgarhlutann í Jerúsalem komast ekki hjá því að leiða hugann aftur í aldir til hinnar merku sögu, ekki aðeins hinnar Biblíulegu heldur einnig hinnar veraldlegu. Margar þjóðir hafa ráðið þar ríkjum, m.a, Babýloníumenn, Rómverjar, Grikkir, Egyptar, Tyrkir og Englendingar. 

Spámaðurinn Esekíel segir: "Svo segir Drottinn Guð: Þetta er Jerúsalem sem ég hef sett mitt á meðal þjóðanna."

 Drottinn nefnir Jerúsalem (Zíon) fjallið mitt helga. (Sálm. 2:6)
Hún er borg vors Guðs á sínu helga fjalli. (Sálm 48:2)
Því að Drottinn hefur útvalið Zíon, þráð hana sér til bústaðar. (Sálm. 132:13)
 Það er vegna þess að Drottinn elskar Jerúsalem og hefur útvalið hana á sérstakan hátt fyrir þjóð sína Ísrael, að þrátt fyrir útlegð Gyðinga um aldir hafa þeir aldrei gleymt Jerúsalem. Jerúsalem var í hjarta þeirra og von. Þeir báðu í áttina að Jerúsalem. Á sérhverri Páskahátíð heyrðist meðal þeirra, við lok hátíðarinnar: "Næsta ár Jerúsalem!"

Fætur Yeshua (Jesú) gengu um stræti þessarar borgar, þar sem Hann boðaði Guðs ríki meðal mannanna, læknaði sjúka og opinberaði kærleika Föðurins til allra sem hrópuðu á hjálp Hans. Á hæð fyrir utan borgarmúranna gaf Hann líf sitt og blóð. Frá þeim stað reis Hann upp frá dauða. Gröfin er tóm. Frá Olíufjallinu við Jerúsalem var Hann uppnuminn til himins. Þegar Hann kemur aftur munu fætur Hans stíga á Olíufjallið og stofna friðarríki á jörðu.

 Orð Guðs = Ritningarnar segja okkur berlega að markmið komu Hans eigi eftir að opinberast í þessari borg og gegnum þjóð Hans, Ísrael. Er það nokkuð undarlegt að óvinir Ísraels hrópi: “Sigrum þá og deyðum! Takið borgina frá Gyðingunum, hún tilheyrir þeim ekki!”? Því miður virðist Ísraels/Gyðinga hatur fara vaxandi í heiminum og jafnvel hér á Íslandi finnum við fyrir slíku.  

Finnst mönnum ekki skrítið,

 að 59% Evrópubúa skuli telja lýðræðis- og réttarríkið Ísrael vera mestu ógnunina við heimsfriðinn af öllum löndum jarðar?
Finnst mönnum ekkert undarlegt að margir fjölmiðlar heimsins skuli útmála Ísraela sem yfirgangsseggi gagnvart Palestínuaröbum, þegar þeir sömu arabar beita sjálfir morðum og ógnarverkum gegn saklausu fólki til að koma sér upp ríki inni á fornu heimalandi Gyðinga? Er ekki framkoma Palestínuaraba einmitt skólabókardæmi um miskunnarlausan yfirgang og frekju?  Fasista-áróðurstækni eða þjóðernisraus getur ekki falið þá staðreynd að þeir hafa aldrei átt sjálfstætt ríki á Palestínusvæðinu, heldur eru landakröfur þeirra aðeins og eingöngu hluti af yfirgangs- og útþenslustefnu arabaþjóðanna!
Finnst mönnum ekkert skrítið að arabar skuli í fjölmiðlum geta útmálað sig sem fórnarlömb ímyndaðrar útþenslustefnu Ísraels, þótt sagan segi okkur að arabaríkin sjálf, eða leiðtogar þeirra,hafa efnt til allra stríðsátaka, sem þau hafa átt í við Ísrael frá stofnun þess og alltaf í þeim tilgangi að leggja svæði Ísraels undir sig í útþenslustefnu arabanna sjálfra? 
Finnst engum það skrítið að arabaríkin skuli aldrei vera dregin til ábyrgðar fyrir sína sök á flóttamannavanda Palestínuaraba? Það var árásar- og útþenslustríð þeirra sjálfra á Ísrael 1948, sem skapaði vandann!
Finnst engum það stórskrítið að allar tillögur um lausn á flóttamannavanda Palestínuaraba skuli miða að því að þeir fái hluta úr hinu forna Ísrael undir sjálfstætt ríki sitt, fremur en að þeir fái hluta af risastórum löndum arabaríkjanna, sem eiga þó alla sök á vandanum?

 

Undirritaður setti saman þessa grein með því að stikla á stóru úr 2 góðum greinum sem eru á vefsíðu hins ágæta félags; Vinir Ísraels.  www.zion.is

Með friðarkveðju - Shalom

Steindór Sigursteinsson

 

 


mbl.is Tillagan verði dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum með Ísrael

Í frétt á Ísraelska fréttavefnum  Jewish Press er sagt frá innkaupabanni Reykjavíkurborgar á Ísraelskum vörum.  En eins og mörgum er kunnugt samþykkti vinstri- meirihlutinn tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael.  Fullyrðir greinarhöfundur sem er sérfræðingur í alþjóðalögum að bannið sé brot á sáttmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.  

Mig langar til þess að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til varnar Ísrael.  Ísrael er lítið land þar sem nágrannalöndin hafa það að markmiði að eyða Ísrael og Gyðingum.  Ísrael hefur lengi verið bitbein margra þjóða, eftir að Gyðingar fengu landið sitt aftur 1948.  Ísraelsmenn hafa verið hernumdir oftar en einu sinni og hafa verið dreifðir um heimsbyggðina.  Reynt hefur verið að útrýma þeim, en Guð stendur með Gyðingum.  neikvæður fréttaflutningur og Gyðingahatur einkennir oft fréttaflutning af því sem er að gerast í Ísrael.  En Ísrael þarf oft og einatt að verja sig þegar gerðar eru árásir á landið af hryðjuverkamönnum sem fá vopn þar á meðal flugskeyti send í gegnum jarðgöng.

Það er hneykslanlegt að Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur látið neikvæðan fréttaflutning (ég vil ekki segja að allt sem Ísraelsmenn gera sé rétt) eða jafnvel gyðingahatur fá sig til þess að samþykkja slíka tillögu.  En viðskiptabann á Ísrael er ólöglegt gagnvart alþjóðaviðskiptalögum og það er ekki rétt gagnvart Plestínumönnum (og Gyðingum)sem kynnu að missa vinnuna sína sem starfa fyrir Ísraelsk fyrirtæki sem bannið nær til.  Það eru fleiri vörur framleiddar í Ísrael en margan grunar þar á meðal íhlutir í hátæknitæki enda Ísrael langt á veg komið á því sviði.  Reyndar mun bannið ekki hafa teljandi áhrif á Ísraelskan iðnað en það mun setja blett á orðspor Íslendinga í Ísrael (og víðar í heiminum) og spilla fyrir því góða samstarfi sem hefur verið á milli Íslands og Ísrael.

Ég vil hvetja Borgarstjóra Dag .B Eggertsson og vinstri meirihlutann í Borgarstjórn að endurskoða þess afstöðu sína gegn Ísrael þjóð Guðs og aflétta viðskiptabanni Reykjavíkurborgar á Ísraelskum vörum.    Að síðustu er hérna vers úr Bilíunni úr Sakaría 2,12:  "Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður: Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn".

Það er alltaf hægt að bæta sig - Stöndum með Ísrael.


mbl.is „Ósvífni sjálfumglaðra slettireka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga Amnesty International um lögleyðingu vændis hryggileg.

Þann 11. Ágúst sl. samþykktu Mannréttindasmtökin Amnesty International tillögu um afglæpavæðingu vændis á heimsþingi samtakanna í Dublin.  Hefur þetta eins og við má búast verið mikið reiðarslag fyrir marga utan og innan samtakanna.  En töluvert hefur borið á afsögn meðlima úr samtökunum eftir þetta.  Íslandsdeild Amnesty sat hjá við atkvæðagreiðsluna sem eru dapurleg tíðindi því réttast hefði verið að leggjast gegn slíkri tillögu.

Það er svo margt sem mælir gegn afglæpavæðingu á vændi að stuttur pistill nægir ekki til að útlista það allt.  En það eru bæði siðferðileg og heilsufarsleg rök svo og spurningin hvort afglæpavæðing vændis komi vændisfólki yfirleitt til góða.  Því tengt má nefna að í Hollandi þar sem afglæpavæðing vændis hefur verið innleidd, er þvingað vændi og mannsal enn þar til staðar í miklum mæli.

Eins og formaður Kvennréttindasamtaka Íslands sagði svo listavel þá er vændi nær þrælahaldi en atvinnugrein.  En fjöldamörg samtök á Íslandi hafa lýst yfir vanþóknun sinni á tillögunni þar á meðal: Stígamót, Kvennaráðgjöfin, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvennfélagadeild Íslands, Feministafélag Íslands.  Reynslan hefur sýnt að í þeim löndum í Evrópu þar sem kaup og sala vændis hefur verið lögleidd, er mannsal og þvingað vændi mikið vandamál en þar trónir einmitt Holland hæst á lista.  Hin löndin eru Þýskaland (þar sem vandmál við mannsal og þvingað vændi eru í öðru sæti), Tyrkland og Grikkland.  En ég hef lesið en get ekki staðfest það að af talið sé að 1000 manns starfi löglega við vændi en 20000 ólöglega.  

Það er mikill misskilningur að í lögleiðingu vændis felist einhverskonar kvennfrelsi eða mannréttindi, því rannsóknir hafa sýnt að yfirfnæfandi meirihluti vændiskvenna er í þvinguðu vændi og eiga hórumangarar og glæpasamtök þar oft hlut að máli með mannsali sem slíku fylgir.  Það er slæmt að nokkrir íslenskir stjórnmálamenn hafa talað fyrir þess háttar lögleiðingu.  

Það er rangt gagnvart Kristinni trú að kaupa eða selja vændi.  Því vændi grefur undan heilagleika hjónabandsins. Því vændiskaup eiginmanns og eða föður getur eyðilagt hjónaband og hryggt viðkvæmar barnssálir, komist verknaðurinn upp.  Ritað stendur: "En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á meðal yðar.  Svo hæfir heilögum." Efesus 5,3

Það er alkunnugt að kynsjúkdómar eru mun algengari á meðal vændisfólks en annara.  Eiginmaður getur borið HIV. smit yfir úr vændiskonu í saklausa eiginkonu sína.  Og lífslíkur vændikvenna eru oft taldar lægri en annara kvenna.

Það ætti að vera hverjum manni augljóst að lögleiðing eða afglæpavæðing á sölu og kaupa á vændi er bæði óréttlát gagnvart vændisfólki sem er í ánauð glæpamann og skapar aukna smithættu og er skaðlegt fyrir kynheilbrigði fólks og siðferði og siðferðisímynd þjóðarinnar allrar.  Ég vil hvetja stjórn Amnesty á Íslandi til þess að lýsa yfir vanþóknun sinni á þessari samþykkt og Íslensk stjórnvöld og stjórnmálamenn til að standa í gegn afglæpavæðingu á sölu og kaupa á vændi.

 


mbl.is Leggja til afglæpavæðingu vændis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkun verðs á skólabækum í Eymundsson er kjarabót fyrir framhaldsskólanemendur ofl.

Samkvæmt frétt á Mbl.is á föstudaginnkom sl. gerði ASÍ á verðkönnun á nýjum skólabókum í 5 bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu sl. þriðjudag.  Í könnuninni voru borin saman verð á 20 bókatitlum saman við verð þeirra í samskonar könnun sem ASÍ gerði 2014.  Þar kom fram að Penninn- Eymundsson hafi lækkað verð á 11 af 18 bókatitlum (allt að 24%) sem þeir áttu til í báðum mælingunum.  Aðrar bóka/ritfangaverslanir komu lakar út í könnuni, en Forlagið Fiskislóð hafði engann bókatitil lækkað.  Næst best stóð sig A4 samkvæmt útkomu þessarar mælingar en þeir höfðu lækkað verð á 7 bókatitlum.

Vil ég segja að lækkanir sem þessar í ritfangabúðum og fleiri verslunum eru skref í rétta átt til þess að bæta kjör almennings.  Þetta er rétt stefna hjá verslunareigindum að lækka verð til neytenda og minnka þannig hugsanlega eigin gróða en koma til móts við fólkið í landinu og stuðla þannig að hag allra.  Lækkað vöruverð skilar sér sem beinharðir peningar í vasa almennings, það er þjóðfélaginu til hagsbóta.  Sérhagsmunastefna fyrirtækja og verslana þar sem hugsunin er aðeins að mata eigin krók er í raun skaðleg fyrir þjóðfélagið og reyndar þegar málið er skoðað á heimsvísu þar sem hinir efnaminni verða sífellt fátækari og þeir ríku efnaðari.

Þetta er rétt hugarfar sem þeir ættu að hafa sem eru í aðstöðu til þess að stjórna sinni innkomu sjálfir.  Aðgerðir ríkisstjórnar duga skammt ef fyrirtæki og á ég þá einnig við fjármálastofnanir gera allt til þess að hafa sem mest úr vösum fólks.  

Skattahækkun Seðlabankastjóra á stýrivöxtum úr 5 í 5,5pósent er algerlega út úr myndinni að mínu mati.  Þessu hækkun á vöxtum mun hækka greiðslubyrði húsnæðiskaupenda og fleiri lánagreiðenda, ef maður talar nú ekki um kreditkortalánin, bílalánin ofl.  Þetta mun hækka verð á húsaleigu, hækka verð á fasteignum.  Þessi leið vaxtahækkana, þegar þennsla er fyrirsjáanleg í efnahagslífinu með hugsanlegri aukningu á verðbólgu er gamaldags steinrunnin aðferð sem eykur aðeins hagnað bankanna en skilur hinn almenna borgara eftir með verri lífskjör.


mbl.is Penninn-Eymundsson lækkar verð í meira en helmingi tilvika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál að Krónan skuli bjóða fólki upp á vel neysluhæf, útrunnin matvæli.

Ég rak augun í þessa frétt á Mbl.is nú í kvöld að matvöruverslunin Krónan Lindum hefur frá því í byrjun sumars boðið upp á vörur, sem eru við það að renna út eða þegar runnar út.  Hafa þessar vörur verið seldar á verulega niðursettu verði.  

Finnst mér þetta vera gott framtak hjá eigendum Krónunnar sem bæði stuðlar að minni matarsóun og gerir fólki kost á að kaupa vel neysluhæfar vörur á mjög lágu verði.  Í greininni kemur fram að stefnt sé að gera það sama í fleiri Krónuverslunum.  Það er klárt mál að matvörur eru oft vel neysluhæfar þótt þær séu komnar fram yfir síðasta söludag.

Mig langar til þess að segja að á Hvolsvelli þar sem ég bý er Kjarvalsverslun en hún er eins og kunnugt er í eign sömu aðila sem eiga og reka Krónubúðirnar.  Síðustu misseri hefur Kjarvalsverslunin á Hvolsvelli tekið miklum stakkaskiptum.  Þegar maður gengur um verslunina tekur maður eftir gulum verðmerkingum sem eru undir mörgum vörutegundum.  Er skýringin sú að sífellt fleiri vörutegundir hafa verið settar á svonefnd "Krónuverð", en þau eru gul á litin og því auðþekkjanleg.  Hefur þetta ágerst síðustu mánuði, og er nú þannig farið að í dag eru yfir 1000 vörutegundir á Krónuverði.  

Finnst mér þetta vera mjög göfugt framtak hjá verslunareigendunum að lækka verð í Kjarval sem var þekkt fyrir nokkuð hátt vöruverð og færa mikinn hluta matvara niður í lágvöruverð.  Í sumar voru td. flestir Ávextir og grænmeti sett á Krónuverð.   Mjólkurvörur, ostar og flestar vörur í mjólkurkæli fengu líka gulu verðmerkingarnar.  Er einkar gleðilegt að líta yfir vöruúrvalið og sjá allar þessar gulu verðmerkingar.  Því Hvolsvellingar hafa árum saman beðið eftir því að lágvöruverslun líti dagsins ljós á Hvolsvelli og er þetta skref í þá átt.  Núna þarf maður ekki að kaupa margar matvörutegundir í Bónus Selfossi, einkum grænmeti, því hvers vegna að eyða bensíni á Selfoss og byrgja sig upp af grænmeti fyrir næstu vikuna þegar maður getur keypt ferskt grænmeti á hverjum degi á Hvolsvelli?  Þetta framtak er skref í rétta átt, þar sem hagur neytenda er hafður að leiðarljósi en ekki aðeins stefnt að hámarks hagnaði verslunarinnar.  Mættu fleiri verslunir og verslunarsamstæður feta í spor Krónunnar og Kjarvals Hvolsvelli.


mbl.is Sala á útrunnum mat gengið vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband