Sala á áfengi í matvöruverslunum mun setja stein í veg ungs fólks

Það er með eindæmum að áfengisfrumvarpið sem lagt var fram aftur í síðasta mánuði skuli ekki hafa verið slegið út af borðinu.  En miklar umræður hafa nú farið fram á Alþingi um frumvarpið. Samkvæmt frétt á Mbl.is 10 september sl. voru 16 þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum sem lögðu frumvarpið fram á nýjan leik.  Hljóðar frumvarpið upp á breytingar á lögum um að ríkið láti af einkasölu sinni af áfengi og sala þess verði gefin frjáls.

Það er mikil hneysa að svo margir þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum skuli taka þann ranga pól í hæðina að meta hag gróðafyrirtækja meira en heilsufar landsmanna og þá einkum unglinga og ungmenna.  Áfengisneysla hefur verið töluvert vandamál á Íslandi og það mun ekki batna ef áfengi verður sett í matvörubúðir til sölu þar sem það verður fyrir allra augum.  Er reynslan af samskonar löggjöf í Danmörku sú að áfengisneysla er þar mest á meðal unglinga á Norðurlöndunum.  

Eru þessir þingmenn svona ginkeyptir fyrir þrýstingi gróðafyrirtækja að þeir láta sér engu skipta æsku landsins?  Reynslan af þessu í nágrannalöndum okkar hefur sýnt að þessu fylgir aukin áfengisneysla.  En í Svíþjóð þar sem áfengissala var leyfð í matvörubúðum var hætt við umrædda löggjöf þegar auðsýnt þótti að hún orsakaði meiri áfengisneyslu á meðal unglinga. 

Látum reynslu nágrannaþjóða okkar vera okkur víti til varnaðar.  Mótmælum því að stjórnmálamenn láti undan þrýstingi manna sem hafa eigin gróða og fyrirtækja þeirra að meginmarkmiði.  Þeir stjórnmálamenn sem taka gróða fram fyrir velfarnað fólks ættu að skammast sín.

Hér á landi hefur verið unnið frábært forvarnarstarf gegn áfengisneyslu ungs fólks.  Sala á Bjór og víni í matvöruverslunum mun setja stein í veg ungs fólks þar sem þetta mun breyta ímynd þeirra varðandi áfengi.  Sú ranghugmynd mun óhjákvæmilega síast inn í huga þeirra að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara.  Unglingar og ungt fólk mun sjá hina fullorðnu kaupa þetta eins og hverja aðra vöru og það mun verða meira sjálfsagt mál í hugum þeirra að kaupa áfengi.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum eru frábær samtök sem standa gegn áfengisfrumvarpinu eins og allir sem eitthvað hugsa!  Þau hafa það að markmiði að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og fyrir bættu auglýsingasiðferði, með sérstaka áherslu á vernd barna og unglinga.  Skráum okkur á Facebook síðu samtakanna.

 

 


mbl.is Áfengisfrumvarpið flutt aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 identicon

Það er ekki hægt að bera saman við Danmörku þar sem áfengiskaupaaldurinn er ekki sá sami. Það er nokkuð ljóst að áfengiskaup unglinga verða meiri þar sem aldurstakmarkið er 16 ára en ekki 20 eins og hér. Og ekkert sem segir að aðgengi unglinga verði eitthvað meira þó fullorðnum verði leift að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Rök sem byggja á auknu aðgengi unglinga standast ekki skoðun og falla því dauð og ómerk.

Eftir standa sem rök gegn málinu hræðsla við að einhver græði og forræðishyggja. Fátækleg og lítilmannleg rök sem byggja á öfund, stjórnsemi og vantrausti.

Davíð12 (IP-tala skráð) 10.10.2015 kl. 15:31

3 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Kristin stjórnmálasamtök.  Ég þakka fyrir uppörvandi orð.  Það er mikilvægt að koma þeim boðum til stjórnmálamanna að það sé óráðlegt að samþykkja umrætt áfengisfrumvarp.  Það er að mínu mati mikið niðurrif á annars ágætu forvarnarstarfi á meðal unglinga að setja áfengi til sölu í matvöruverslanir þar sem áfengið er beint fyrir augum þeirra og auðvelt að nálgast það.

Steindór Sigursteinsson, 10.10.2015 kl. 20:27

4 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Þakka þér fyrir Davíð.  Formaður læknafélags Íslands Þorbjörn Jónsson leggst gegn breytingum á áfengislöggjöfinni.  Í grein hans í Læknablaðinu greinir hann frá að Embætti landlæknis, Félag lýðheilsufræðinga,Barnaverndarstofa, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, umboðsmaður barna og margir fleiri leggist gegn þeim breytingum á áfengislöggjöfinni sem lagðar hafa verið til.  Meginröksemdin er auðvitað að rýmkaðar reglur auki sýnileika áfengis og aðgengileika og það muni auka neyslu og þann skaða sem af drykkju hlýst.  

Landlæknir hefur nýlega birt samantekt á sænskri greiningu þar sem spáð var fyrir um það hverjar afleiðingar yrðu ef einkasala sænska ríkisins á áfengi yrði afnumin.  Niðurstaðan var afdráttarlaust sú að áfengistengdum dauðsföllum (slysum, sjálfsmorðum, morðum og svo framvegis) myndi fjölga og veikindafjarvistir vegna áfengisneyslu ykust sömuleiðis.

Sagði Þorbjörn að fyrirkomulag áfengissölu væri almennt gott hér á landi og að almenningur hafi engann sérstakan áhuga á að breyta því.  Benti hann á niðurstöðu könnunar Fréttablaðsins um þetta mál en þar kom fram að 55 prósent landsmanna sögðu "nei" þegar spurt var hvort leyfa eigi sölu á bjór og áfengi í matvöruverslunum.

Steindór Sigursteinsson, 11.10.2015 kl. 09:44

5 identicon

Hefðbundnar mótbárur og yfirlýsingar frá hinum hefðbundnu hópum sem ætíð leggjast gegn breytingum á áfengislöggjöfinni í frjálsræðisátt. Lenging opnunartíma, heimilun greiðslukorta, aflétting bjórbanns, allt átti þetta að steypa okkur í glötun. Sænskir spádómar eru jafnvel dregnir upp eins og heilagur sannleikur. Innantóm slagorð og marg afsannað bull.

Þar sem áfengi er selt í matvöruverslunum, jafnvel án ofurskattlagningar eins og hér, og áfengisauglýsingar eru leifðar í fjölmiðlum er ástandið ekki verra en hér þar sem höft og bönn ríkja. Þetta veit Þorbjörn og kemur því með einu marktæku rökin í lokin, almenningur virðist ekki vera fylgjandi sölu áfengis í matvöruverslunum.

Davíð12 (IP-tala skráð) 11.10.2015 kl. 13:54

6 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Þakka þér fyrir.  Ég tel að rök Landlæknis, Barnaverndarstofu og fleiri samtaka og stofnana sem vara við umræddu áfingisfrumvarpi vera meira sannfærandi en þeirra sem vilja áfengi í matvöruverslanir.

Steindór Sigursteinsson, 11.10.2015 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband