Ekki er gott að Ungir sjálfstæðismenn vilji brjóta niður kristin gildi í landinu þar á meðal tengsl ríkis og kirkju.

Leitt var að lesa grein í Mbl.is í fyrradag þar sem greint er frá að Ungir Sjálfstæðismenn vilji leggja fram á næsta aðalfundi að hjónavígslur færist alfarið í hendur sýslumannsembætta.  Og að í framhaldi af því verði hafin vinna við að aðskilja ríki og kirkju.  Einnig stendur vilji til þess að afglæpavæða eiturlyfjaneyslu og að heimila samkynhneygðum karlmönnum að gefa blóð.  En við því síðastnefnda eru skýr rök fyrir að slíkt teflir í hættu heilbrigði fólks sem þiggir blóð.

Ég veit eiginlega ekki hvert í stefnir hjá Sjálfstæðisflokknum og einkum þeim yngri þeirra á meðal.  Flokkurinn sem ég taldi aðhyllast kristin gildi er nú að beita sér gegn góðu fyrirkomulagi sem reynst hefur vel; að láta kirkjur sjá um hjónavígslur.  Unga fólkið í flokknum vill nú láta þrýsting minnihlutahóps í þjóðfélaginu fá sig til að leggjast gegn þjóðkirkjunni og taka hjónavígslur úr hendi hennar.  Er ekkert heilagt í huga þeirra?  Er veraldarhyggjan sem ég skilgreini sem vilji til þess að gera það sem fólki hentar án þess að taka tillit til Guðs eða það sem Orð Guðs segir, búin að taka yfir í hugum þeirra?  En þau vilja feta í spor vinstri manna og vantrúarfólks að krefjast aðskilnaðar ríkis og kirkju.  

Ungt sjálfstæðisfólk vill rífa niður það sem hefur verið við lýði um langan aldur og hefur reynst vel.  Að þjóðkirkjan sé samofin ríkisvaldinu. Hún er reyndar sjálfstætt starfandi samkvæmt stjórnarskrá en studd af ríkinu.  Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel því ef litið er út frá praktískum sjónarmiðum; þá sér hún um útfarir sem vantrúaðir og fólk í ýmsum frísöfnuðum nýta sér.  Og að maður tali nú ekki um hjónavígslur í kristnum sið sem til stendur að taka frá þjóðkirkjunni.

Kristin trú er ekkert sem við eigum að skammast okkar fyrir eða virða að vettugi.  Jesú Kristur gaf líf sitt fyir okkur svo að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Eins og ég minntist á fyrir ofan þá vilja yngri sjálfstæðissinnar að refsilöggjöf verði afnumin fyrir eiturlyfjaneyslu.  Væri þetta mikið óheillaskref til baka fyrir Íslendinga því þetta væri síður en svo til að hjálpa þeim sem þessari fíkn hafa ánetjast.  Því að fíkniefnaneysla er stórhættuleg ungmennum sem og eldri og margir hafa fallið fyrir þeim vágesti.  Stjórnvöldum ber að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk hefji neyslu vímuefna og að hjálpa þeim sem ánetjast hafa.

Ég vil hvetja ungt sjálfstæðisfólk að sjá að sér og snúa frá þeirri óheillabraut sem mér sýnist þau vera komin inn á.  Og ekki síst þeir sem eldri eru því sjálfur formaðurinn, háttvirtur fjármálaráðherra; Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir einu máli sem stríðir á móti góðu kristilegu siðferði og öryggi kvenna; afglæpavæðingu vændis árið 2007.  Ég vildi óska að flokkurinn sem ég hef fylgt frá unglingsárum stefni inn í braut kristilegs siðgæðis og heilinda.

Ég tel að það sé kominn tími á það að nýtt kristilegt stjórnmálaafl sjái dagsins ljós á Íslandi.

Ég vil benda á góða grein Guðmundar Pálssonar Læknis varðandi Sjálfstæðisflokkinn hér.

 


mbl.is Hjónavígslur aðeins hjá sýslumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mjög góð grein og þakkarverð, Steindór! smile

Þú ert alveg með fingurinn á vandanum - og verkefnunum.

Og vafalaust eru mjög margir af traustum fylgismönnum Sjálfstæðisflokksins sammála þér í mati á þessum hlutum. Það er virkilega sorglegt þeirra vegna, ef yfirtaka ungra, eflaust vel meinandi, en róttækra, reynslulítilla og skammsýnna afla ætlar að gera það fólk nánast "munaðarlaust í pólitískum efnum", án stöðuglynds flokks sem það getur treyst.

En við erum reiðubúir, ýmsir kristnir menn, að freista þess að koma hér til hjálpar. Og svo margt hefur gerzt í uppstokkun flokkakerfisins á Íslandi, að menn ættu ekki að láta sér koma það á óvart, ef að því rekur (ekki hvað sízt vegna breyttrar stefnu Sjálfstæðisflokksins), að hér eins og í flestum Evrópuríkjum* verði kristinn flokkur í náinni framtíð einn af þingflokkunum á löggjafarþinginu.

* Sbr. þessa grein: Kristnir stjórnmálaflokkar í Evrópu

-- og einnig þessa: Kristnir stjórnmálaflokkar í 36 löndum Evrópu – en ekki hér?

Jón Valur Jensson, 25.10.2015 kl. 13:14

2 identicon

Leitt þykir mér að trufla gott partý yðar en rétt þykir mér að leiðrétta þær rangfærslur um að blóðgjöf samkynhneigðra stofni lífi heilbrigðs fólks í hættu. Þetta mun vera alrangt hjá þér. Ef þú gefur þér svolítinn tíma til þess að líta upp úr bókinni helgu þá sérðu líklega að hér í heimi hafa orðið framfarir undanfarin 2000 ár eða svo. Þar með talið er allt blóð sem gefið er skimað og því sáralítil hætta á að sýkt blóð sleppi í gegn. Ef svo olíklega vill til að sýkt blóð sleppi í gegn er ekki hægt að kenna samkynhneigðum sérstaklega um það heldur því hversu góð eða slæleg skimunin er. Má vera að þetta fái þig til þess að hugsa svolítið út fyrir rammann. Ég reyndar hef aldrei heyrt um það að heilbrigt fólk þiggi blóð svona sem nokkurskonar tómstundargaman en það má vel vera að þú vitir um dæmi þess.

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 25.10.2015 kl. 15:46

3 identicon

Fleiri gagnkynhneigðir eru smitaðir en samkynhneigðir. Og þannig hefur það verið nokkuð lengi, fréttir virðast ekki hafa borist til Hellu síðan þú fluttir þangað. En það virðist algeng hjá mikið trúuðum að þeir tala út frá ástandi sem ekki er lengur til staðar og tíma sem löngu er liðinn.

Hjónavígslur koma kristni ekkert við. Enda tók kirkjan ekki að sér hjónavígslur fyrstu 1100 ár kristninnar. Hjónavígslur geta allir sem hafa heimild frá ríkinu framkvæmt.

Og "gott kristilegt siðferði" virðist vera nokkuð teygjanlegt og óljóst hugtak. Mótað af einhverju öðru en kristnum boðskap. Ýmislegt sem áður þótti passa vel innan þess hugtaks er í dag fordæmt. Og margt af því sem "gott kristilegt siðferði" fordæmdi er jafnvel lofað í dag. Þrælahald, jafnrétti, pyntingar, mannréttindi, skilnaðir, vændi o.s.frv. eru, til dæmis, atriði sem "gott kristilegt siðferði" hefur tekið hugarfarsbreytingum til. Og ekki er að sjá að neitt í þessu "góða kristilega siðferði" eigi upptök í kristni eða sé einskorðað við kristna. Boðskapur Krists er nærri 2000 ára en "gott kristilegt siðferði" er annað í dag en þegar Amma var ung.

Espolin (IP-tala skráð) 25.10.2015 kl. 16:04

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Tek undir með Aðalsteini. Að útiloka samkynhneigða frá því að gefa blóð er falskt öryggi. Í það fyrsta hvernig eiga starfsmenn að vita fyrir víst hvort fólk sem kemur inn sé samkynhneigt eða ekki( heyrist það kannski á röddinni?). Í öðru lagi: Það er ekki hægt að sjá smit í blóði fyrr en eftir 4 daga og þessvegna er það miklu tryggara að aðskilja dagskammtinn í þessa 4 daga og skima hann þá. Konan í vestmannaeyjum sem fékk lifrabólgu c fékk sjúkdóminn við blóðgjöf í blóðbankanum svo ekki er þetta nú öruggt kerfi. Varðandi þessar ályktanir ungra sjálfstæðismanna sem ykkur er í nöp við þá skipta þær í rauninni engu máli. Meirihluti þjóðarinnar á eftir að skera úr um þessi atriði og það kemur væntanlega í ljós eftir næstu kosningar hver niðurstaðan verður.

Jósef Smári Ásmundsson, 25.10.2015 kl. 16:08

5 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér Steindór fyrir mjög góða grein þína, ég tek undir með þér heilshugar, þú hittir naglann á höfuðið.

Tómas Ibsen Halldórsson, 25.10.2015 kl. 20:31

6 identicon

Ég er hræddur um að þið þrír hafið rangt fyrir ykkur varðandi blóðgjöfina Jósef, Espolin og Aðalsteinn.

Hvað varðar HIV skimun þá er hegðun vírusins þannig að hann finnst ekki við skimun fyrstu 6 mánuðina eftir smit. Það eru tvær til þrjár blóðgjafir frá smituðum einstakling áður en smit kemur í ljós við skimun.

Þessi hegðun HIV er það sem gerir það mikilvægt að lágmarka áhættuna fyrir blóðþega með því að útiloka hópa sem eru í sérstakri áhættu fyrir smiti sem eru fíklar og karlmenn sem stunda kynmök með karlmönnum.

Það skiptir ekki máli að fleitir gagnkynhneigðir eru smitaðir en samkynhneigðir karlmenn þar em þú verður að meta áhættuna út frá stærð hópsins.

Til dæmis ef við göngum út frá því að samkynhneigðir karlar eru 6% af karlmönnum þá hefur smit þeirra síðustu 10 ára verið 33 af 16.000 manna hóp en gagnkynhneigðir hafa haft 63 smit af 315.000 manna hóp. Það þýðir að samkynhneigður karlmaður, að öllu öðru jöfnu, hafi verið 16 falt líklegri að smitast en gagnkynhneigður einstaklingur þessi síðustu 10 ár. Það er ástæðan fyrir því að þeir eru skilgreindir sem há áhættu hópur fyrir HIV.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 25.10.2015 kl. 20:34

7 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Þakka þér Jón fyrir þín uppörvandi orð.  Það eru góðar greinarnar sem þú vísaðir á þar sem bent er nauðsyn stofnunar kristins stjórnmálaflokks.  Það eru margir sem skilja að þær tillögur ungra sjálfstæðismanna sem mikill styr stendur um eru rangar og í raun siðlausar.  En þeir sem hafa peningagróða að leiðarljósi og selja vilja áfengi í búðum eru ánægðir með vissar tilögur SUS.  Einnig vantrúaðir og þeir sem meta meira nautnahyggju en hreinleika hugarfarsins og kristilegt siðferði þeir telja að SUS hafi rétt fyrir sér, ma þeir sem telja lögleiðingu vændis vænlega.  Að mannréttindi séu Guðstrú rétthærri; rétturinn til að gera það sem manneskjunni langar til og telur vera í lagi þrátt fyrir að það stangist á við boðskap Biblíunnar. 

Steindór Sigursteinsson, 25.10.2015 kl. 20:40

8 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Þakka þér Elfar fyrir þín greinargóðu og skynsamlegu rök gegn blóðgjöfum samkynhneygðra karlmanna.  Þetta dæmir úr leik ummæli tveggja einstaklinga hér að ofan sem koma ekki fram undir fullu nafni og Jósefs. 

Þakka þér Tómas fyrir þín uppörvunarorð.

Steindór Sigursteinsson, 25.10.2015 kl. 21:04

9 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Jósef mér er ekki í nöp við Unga sjálfstæðismenn heldur er það stefna þeirra sem veldur mér ugg og reynsluleysi.  En vonandi munu þessar tillögur þeirra ekki ná fram að ganga að hinir reyndari og trúhollari flokksmenn muni ekki samþykkja þær.  Og Alþingi mun ákveða á lögformlegan hátt hver framvindan verður.  Þess vegna er svo mikilvægt að á Alþingi séu Guðs elskandi menn og konur sem virða það sem Guð skaparinn lagði fyrir manninn í orði sínu.  Til þess að okkur mætti vel vegna.

"Því svo elskaði Guð heiminn að hann sendi son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf" Jóh 3,16  Og "hver sem ákallar nafn Drottins mun hópinn verða" Róm 10,13

Steindór Sigursteinsson, 25.10.2015 kl. 21:15

10 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Varðandi þau ummæli sem féllu hérna að ofan varðandi að kristið siðgæði sé að einhverju leiti teygjanlegt.  Þá vil ég segja að Kristin trú hefur aldrei haldið fram þrælahaldi, pyntingum, skilnuðum eða vændi.  Slíkt var og er stundað en kristin kenning heldur slíku ekki fram.  Kristin trú er trú á náð Guðs og elsku hans til okkar mannana að hann sendi son sinn til þess að deyja fyrir syndir okkar svo við sem tökum trú á hann mættum verða hólpin og fær til sérhvers góðs verks.  Kristur kom ekki til þess að dæma okkur heldur að fræða okkur um leiðina til Guðs.  Að við getum fengið náð og fyrirgefningu syndanna fyrir Jesú Krist. Jesús sagði; "ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, enginn kemur til föðurins nema fyrir mig". Jóh 14,6 

Steindór Sigursteinsson, 25.10.2015 kl. 21:40

11 identicon

Það er semsagt í lagi að taka áhættuna, því hún er vissulega fyrir hendi, ef blóðið kemur ekki úr homma. Það skal vera mælikvarðinn en ekki einstaklingsbundið áhættumat og kynhegðun. Ekki þarf að spyrja gagnkynhneigðan sem sefur hjá nýrri um hverja helgi án varna um kynhegðun en hommi sem ekki hefur stundað kynmök í nokkur ár, og aldrei án smokks, flokkast vegna kynhneigðar sem hættulegur. Að sjálfsögðu, kristilegt hugarfar að verki frekar en rökrétt hugsun og læknisfræðileg rök.

Vagn (IP-tala skráð) 25.10.2015 kl. 21:48

12 identicon

Elfar. Þess vegna er aðeins tekið sýni fyrst þegar fólk gerist blóðgjafar og ekkert blóð tekið til gjafar fyrst um sinn. Starfsfólk blóðbankans eru engir viðvaningar að þessu leyti eins og þú gefur hér í skyn. Það er heldur ekkert sem tryggir að gagnkynhneigðir blóðgjafar smitist ekki á því tímabili sem þeir eru skráðir sem blóðgjafar. Svo rök þín hafa hér fallið um sig sjálf.

HIV er ekki einungis bundið við samkynhneigða eins og flestir vita og hættan á smiti er ekkert meiri hjá samkynhneigðum. Hér er lesefni fyrir hina fáfróðu.

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item2758/2767.pdf

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 25.10.2015 kl. 22:03

13 identicon

Ég er ekki að gefa neitt í skyn. Þvert á móti þá treysti starfsmönnum blóðbankans fullkomlega fyrir því að tryggja öryggi blóðþega.

Það ert þú Aðalsteinn sem ert ósammála blóðbankanum í þessu málefni og þar að leiðandi að efast um dómgreind þeirra.

Það var engin að segja að HIV er bundið við samkynhneigða karlmenn. Þeir eru bara tölfræðilega séð mun líklegri en restin af landsmönnum (konum og körlum) að verða fyrir smiti.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 25.10.2015 kl. 22:38

14 identicon

Elfar. Þú last auðsjáanlega ekki það sem kemur fram í hlekknum sem fylgdi með síðustu athugasemd minni. Í þeim hlekk sem vísar á Landlæknisembættið kemur einmitt fram að engin ein kynhneigð umfram aðra er líklegri til að smitast. 

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 25.10.2015 kl. 23:24

15 identicon

Ég las textan og fann ekki neitt sem renndi stoð undir fullyrðingu þína Aðalsteinn, þér er velkomið að "copy/pasta" textan ef þú telur að ég hafi verið að missa af honum.

Einnig bendir þessi texti á galla í fullyrðinguni þinni með því að benda á að samkynhneigðar konur smitist ekki af HIV í gegnum kynmök (við aðrar konur auðvitað). Á bls 3 "HIV getur smitast frá karli til konu, frá konu til karls og frá karli til karls"

Síðan er þetta bara virkilega einföld tölfræði. Við höfum tölfræði Landlæknis um fjölda tilfella, við höfum fjölda Íslendinga og við höfum um það bil fjölda samkynhneigðra karlmanna (þær rannsóknir sem ég fann bentu á 3,5% til 10%).

Ef þú vinnur þessar tölur með einföldustu tölfræði þá muntu sjá að líkur samkynhneigðra karla að smitast eru umtalsvert hærri þótt fjöldi tilfella smita er lægri hjá þeim en öðrum hópum.

Það er ástæðan fyrir því að Blóðbankinn vill ekki sjá breytingu á núverandi fyrirkomulagi.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.10.2015 kl. 00:10

16 identicon

Steindór,:

Kristnir sáu ekki ástæðu til að agnúast út í þrælahald í 1800 ár. Tóku þar virkan þátt eins og kristið siðferði þeirra bauð þeim. Baráttumenn gegn þrælahaldi voru bannfærðir af kirkjunni og biskupar mótmæltu þegar Breska þingið afnám þrælahald í nýlendunum. Bæði kirkjan og prestar áttu þræla. Og það var ekki fyrr en 1965 sem Vatíkanið fordæmdi þrælahald.  

Bæði í Frakklandi og á Ítalíu hafa verið vændishús rekin af kirkjunni. Þvinguð hjónabönd voru blessuð af kirkjunni og nauðganir innan hjónabands sjálfsagður réttur sannkristinna eiginmanna og í takt við gott kristið siðferði.

Afstaðan til skilnaða hefur breyst frá því að kirkjan skipti sér ekkert af skilnuðum til þess að þeir voru fordæmdir og þeir sem skildu bannfærðir og nú hversdagsleg athöfn þar sem auðvelt er að giftast aftur með fullri blessun.

Rannsóknarréttur kirkjunnar voru ekki neinar sumarbúðir, pyntingar voru á þeim tíma taldar guði þóknanlegar. Um galdrabrennur sagði kirkjan að betra væri að 10 saklausir brynnu en að einn sekur slyppi. Og drekking fyrir lauslæti taldist góð kristileg aðgerð.

Hver sem kristin kenning kann að vera þá er augljóst að hið undarlega kristna siðferði tekur örum breytingum.

Espolin (IP-tala skráð) 26.10.2015 kl. 01:42

17 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Espolin.  

"Guð skal reynast sannorður, þótt sérhver maður reyndist lygari"  Róm 3,4  

Það er ekki við kristna kenningu eða siðferði að sakast þótt kristnir menn og kirkjan hafi framkvæmt myrkvaverk oft á tíðum í nafni trúarinnar.  Þetta sem þú nefndir er mjög slæmt og hef ég ekki heyrt sumt af því eins og að í bæði Frakklandi og Ítalíu hafi verin rekin vændishús af kirkjunni og þar sem þú minntist á; "nauðganir innan fjölskyldunnar".  Þetta er náttúrulega ekkert annað en "verk holdsins" eða "synd" eins og Biblían kennir.  

"Holdsins verk eru augljós:  Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkyngi, fjandskapur, deilur metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt.  Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki. En ávöxtur andans er:  Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.  Gegn slíku er lögmálið ekki.  En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum." Galatabréfið 5,20-25  

Kristin kenning mælir ekki með því sem þú nefndir þótt menn sem kenna sig við kristna trú eða þykist vera kristnir hafi gert slík myrkvaverk sem þú mynntist á.

Steindór Sigursteinsson, 26.10.2015 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband