Nú ætlar sú stefna í pólítík, sem allt vill selja, að rústa því frábæra forvarnarstarfi sem náðst hefur meðal unglinga á Íslandi

Hinn góði árang­ur Íslend­inga við að draga úr áfeng­is- og fíkni­efna­notk­un ung­menna hef­ur vakið mikla athygli utan landsteinana. Frétta­stofa AFP birti í gær ítar­lega frá­sögn af verk­efn­inu og stutt er síðan breska rík­is­út­varpið, BBC, fjallaði um málið. Er því svo farið að aðferðir Íslendinga við að draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu ungs fólks, „ís­lenska mód­elið“, er þegar orðið út­flutn­ings­vara og hef­ur fjöldi borga í Evr­ópu unnið eft­ir aðferðafræði þess. Evr­ópska vímu­efn­a­rann­sókn­in (ESP­AD) sýndi í fyrra að 48% evr­ópska ung­menna neyttu áfeng­is síðustu 30 daga samanborið við ein­ung­is 9% ís­lenskra ung­menna.

Það er leitt til þess að hugsa með góðan árangur Íslendinga í forvarnarmálum í huga að undanfarin misseri hefur verið reynt að koma áfengisfrumvarpinu svonefnda í gegn. En það hljóðar upp á að sala áfengis verði gerð frjáls í matvöruverslunum og að banni við áfengisauglýsingum verði aflétt. Ef Alþingi tekur um þetta ákvörðun, verður henni ekki snúið til baka og allir vita hvað þetta er skaðlegt.

Rannsóknir sýna ótvírætt að aukið aðgengi að áfengi eykur drykkju. Í Danmörku er þessi sala leyfð í matvörubúðum, og þar er mikið áfengisvandamál unglinga, mest á Norðurlöndunum. 16 ára geta jafnvel keypt bjór í búðum. Við getum ímyndað okkur hvernig ástandið væri hér! Í Svíþjóð var þessi frjálsari sala leyfð, en þeir hættu aftur við það, þegar þeir sáu, að hún stuðlaði að mikilli áfengisneyzlu ungmenna. Þeir lærðu af reynslunni -- er íslenzkum þingmönnum það ofviða?

Við sköpum aldrei neina "suðræna drykkjumenningu" hér uppi á Íslandi í allt annarri menn­ingu og hörðu lífsgæðakapphlaupi, árangurinn af því verður aukin ÖLVUN. Áfengi er og verður aldrei eins og hver önnur neysluvara og er skelfilegt til þess að vita að hægt verði að nálgast bjór og léttvín á næsta götuhorni. Unglingar munu þrýsta á foreldra að kaupa fyrir sig áfengi. Á mörgum heimilum verður þetta eins sjálfsagt og gosdrykkirnir áður. Unglingadrykkja mun tvímælalaust aukast!

Stuðlum ekki að óförum í áfengismálum unga fólksins!

Hægri armurinn er lengi búinn að reyna að koma áfengis­frumvarpinu gegnum þingið. Frumvarpsmenn taka ekkert tillit til norrænnar reynslu: búið er að prófa þetta þar, reynslan er SLÆM fyrir unga fólkið. Ætla ráðandi öfl að gera það fyrir gróðafyrirtæki að gefa áfengissölu "frjálsa"? Þvert á móti ætti að hugsa hér um þjóðarhag og umfram allt að gæta heilsufars ungmenna. Það gerist ekki með auðveldu aðgengi að áfengi í matvörubúðum.

Vitað er með rannsóknum, að áfengisneyzla heftir vöxt og þroska heilans í fólki undir tvítugsaldri. Kemur þetta fram í sænskri könnun frá 2013 sem Peter Nordström stýrði. Í rannsókninni kom fram:

1. "mikil drykkja og eiturlyfjanotkun á unglingsárum getur aukið líkurnar á því að fólk þjáist af elliglöpum fyrir 65 ára aldur.
2. Misnotkun áfengis er mesti áhættuþátturinn þegar leitað er skýringa á snemmbúnum elliglöpum, samkvæmt rannsókninni. Alls tóku 488.484 sænskir karlmenn þátt í rannsókninni sem var gerð á tímabilinu september 1969 til ársloka 1979. Meðalaldur þeirra var átján ár.
3. Fylgst var með mönnunum í 37 ár og á því tímabili voru 487 greindir með snemmbær elliglöp. Meðalaldur þeirra við greiningu var 54 ár. (Mbl.is 13 ágúst 2013)

Hér er komin enn ein góð ástæða fyrir foreldra til að halda börnum sínum eða táningum frá áfengisdrykkju. Já, það er hin bezta fjárfesting í farsælu lífi, að kosta miklu til barnanna með námskeiðum í íþróttum, tónlist og öðru uppbyggilegu sem eflir sjálfstraust og einstaklingsþroska. Ásamt því að innræta þeim kristna trú – í stað þess að krakkarnir okkar leiti gæfunnar á öldurhúsum þar sem ýmsar óhollar freistingar bíða þeirra.

Endurbirt grein mín úr Kristbloggi laugardaginn, 1. apríl 2017.


mbl.is Varað við áfengisfrumvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband