Hugleiðing um krossfestingu Jesú Krists í tilefni páskahátíðarinnar

Núna, á föstudaginn langa, þegar kirkjan heldur upp á og heiðrar þján­ingu Frels­arans og dauða hans á krossi og upp­risu, er vert að minnast þess sem Jesús Kristur gerði fyrir okkur.

Hann hafði verið svikinn af einum læri­sveina sinna, Júdasi Ís­kar­íot. Vinir hans, hinir læris­veinarnir, höfðu yfirgefið hann af hræðslu við að þeir kynnu líka að verða handteknir og þeim refsað ef þeir reyndu að koma honum til hjálpar. Hann hafði verið yfirheyrður af öldungaráði lýðsins, æðstu prestunum og fræði­mönn­unum sem dæmdu hann dauða sekan. Þeir fengu lýðinn til að samþykkja að hann yrði kross­festur þegar Pontíus Pílatus vildi bjóða þeim að hann yrði látinn laus í stað Barnabasar sem var ræningi. En það var hefð fyrir því hjá Pílatusi að frelsa einn bandingja á páskunum.

Við þekkjum flest frásögnina af því hvað gerðist eftir það. Hann var hýddur með gaddasvipu höggin 40, þyrni­kóróna var sett á höfuð hans, hann var látinn bera kross sinn til Golgatahæðar, en hann kiknaði undan byrðinni og maður að nafni Símon var látinn bera kross Jesú síðasta spölinn til aftökustaðarins. Þar á Golgatahæð var hann krossfestur, rómverskir hermenn ráku nagla í gegnum hendur hans og fætur og síðan var hann látinn hanga á krossinum. Eftir nokkurn tíma, um nón, gaf hann upp andann.

Jesú Kristur gerði þetta allt fyrir okkur. Hann vildi að við fengjum í gegnum fórnar­dauða hans eilíft líf og fyrirgefningu synda okkar. Hann gerðist staðgengill fyrir okkur. Við áttum skilda refsingu fyrir það illa sem við höfðum gert, en hann tók á sig refsingu okkar. Hann býður okkur öllum að koma til sín, taka trú á hann og fá hjá honum fyrirgefningu synd­anna og eilíft líf. Jóhannes postuli segir svo fallega í guðspjalli sínu: "Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver, sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf." Jóh 3:16.

Nafnið JESÚS þýðir Frelsarinn. Nafnið, sem honum var gefið af Guði, áður en hann var fæddur. "Eigi er heldur annað nafn undir himninum, er menn kunna að nefna, er oss sé ætlað fyrir hólpnum að verða". Post 4,12b. Einasti möguleikinn til frelsis fyrir alla menn er að þeir líti upp til Krists í trú. Og “í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði”, eins og stendur í Efesus 3,12b. En það er miklu meira í friðþægingarverki Krists en fyrirgefning syndanna. Þessi Jesús er Frelsarinn, sem frelsar okkur frá allri synd. Hann er Sigurvegarinn, sem gefur þann kraft, sem þarf til að lifa sigrandi lífi. Aðeins að við lítum upp til hans, því TRÚ VOR, hún ER SIGURAFLIÐ, sem hefur sigrað heiminn.

En lítum nú til hans, sem negldur er þar á krossinn á Golgata, með þyrnikórónu á höfðinu. Blóðið streymir úr sárum hans. Hver dropi er dýrmætur, því að það er líf Guðssonarins, sem gefið er í syndafórn. Hann er hlýðinn allt fram í dauðann á krossinum. Hann leið ekki aðeins líkamlegar kvalir, heldur miklu meira. Þegar hann tók syndir okkar á sig, þá sneri Guð sér frá honum, því að synd mannkynsins kom þá upp á milli hans og Guðs. Hann hrópaði í angist sinni á krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig”.

Kristur var þarna gerður að synd vor vegna, og þess vegna varð hann yfirgefinn af Guði. En um leið og hin kalda hönd dauðans kramdi hjarta hans til dauða, gat hann sigri hrósandi hrópað: „Það er fullkomnað! Faðir í þínar hendur fel ég anda minn!" Þá skelfdist himinn og jörð, sólin varð svört eins og hærusekkur og björgin klofnuðu. Einnig fortjaldið í musterinu rifnaði frá ofanverðu og allt niður í gegn.

Þá opnaðist hinn nýi og lifandi vegur alla leið inn í himininn. Þessi vegur byrjar þarna við Golgata og þegar maðurinn kemst til lifandi trúar á Krist, sem Frelsara sinn, þá fær hann að reyna sannleika þeirra orða, að Kristur er Vegurinn, og ef hann gengur Veginn, kemst hann heim til himna að lokum. En frásögn ritn­inganna endar ekki þarna því dauðinn fékk ekki haldið syni Guðs. Eftir dauða Jesú á kross­inum reis hann upp frá dauðum á þriðja degi. Að lokum eru hérna orð Krists í Jóhannes 11,25: "Jesús mælti: "Ég er upp­risan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi."

Steindór Sigursteinsson.


mbl.is Hvöss norðanátt og blint til aksturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband