Bloggfærslur mánaðarins, september 2015

Hjónavígsla er trúarleg athöfn sem ekki ber að færa úr höndum Þjóðkirkjunnar

Samkvæmt frétt á Mbl.is í dag lét Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafa eftir sér að hjónavígsla sé "löggjörningur" sem hafi "réttaráhrif.  Og svo vitnað sé áfram í orð hans að "Ein­hverra hluta vegna hafa ýms­ir í frjáls­um fé­laga­sam­tök­um heim­ild til að fram­kvæma þenn­an lög­gern­ing. Með því eru þeir op­in­ber­ir sýsl­un­ar­menn."

Ég verð að segja að hjónavígsla er trúarleg athöfn sem ekki ber að taka úr höndum kirkjunnar manna.  Að færa þessa athöfn niður á veraldlegt plan og láta embættismenn utan þjóðkirkjunnar og annara kristinna trúfélga sjá um þessa athöfn er vanvirðing við kristna trú og Guðs Orð.  

Hjónabandið er heilög stofnun, fundin upp af Guði, sem er sagt fyrir um í Biblíunni.  En í Matteus 19,5 stendur; "Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður."

Þjóðkirkjan má teljast lánsöm að hafa tvo biskupa sem ekki láta veraldlegar hugmyndir færa sig út af laginu varðandi það að prestar fái að halda samviskufrelsi sínu þegar kemur að því að ákveða hvort þeir gefi saman tvo einstaklinga af sama kyni.  Þau eru Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands og Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholtsumdæmi.  

Það er mikilvægt að Þjóðkirkjan láti ekki bifast þegar veraldarhyggjan og vantrúaröflin gera atlögu að kristinni trú í landinu og því sem Orð Guðs heldur fram.  Páll postuli sagði í bréfi sínu til Tímóteusar; "til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans".  1 Tím 3,15  

Eigum við að láta tíðarandann ráða för þegar kemur að þjónustu kirkjunnar manna? - eða að láta Guðs orðið ráða för?  Eins og Páll sagði á kirkjan að vera stólpi og grundvöllur sannleikans.  Kristið fólk og kristin kirkja eiga að vera ljós og salt í heiminum.  "Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum".  Matteus 5,13

Guð gefi Þjóðkirkjunni og hinum kristnu söfnuðunum náð til þess að vera salt og ljós í heiminum og halda fast við sannleikann sem er Guðs Orð.


mbl.is Trúfélög sjái ekki um hjónavígslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það á að leyfa fólki að byggja sitt eigið íbúðarhús sjálft, og eftir eigin teikningu.

Samkvæmt frétt í Mbl.is í dag þá eru óverðtryggðu lánin hjá Arion banka nú vinsælli en verðtryggðu lánin.  Kom fram í fréttinni að bæjarstjórinn í Seltjarnarnesi Ásgerður Halldórsdóttir hyggst kanna hvort fara eigi að veita ungu fólki í sveitarfélaginu lán fyrir innborgun í íbúð.

Finnst mér þetta vera gott innlegg hjá Ágerði, því ungt fólk á Íslandi á oftast ekki fyrir innborgun í íbúð.  Margir festast því á leigumarkaði og erfitt getur verið að standast greiðslumat, en oft er ódýrari kostur að borga mánaðarlegar afborganir af eigin húsnæði heldur en að leigja.  Greiðslumat er að mínu mati allt of strangt, því af hverju má ekki veita fólki lán til íbúðakaupa með 100 þúsund króna afborgun á mánuði þegar viðkomandi hefur verið að borga 120-150 þúsund krónur í leigu á mánuði?

Í gamla daga var það oft að fólk byggði hús sitt sjálft.  Enda reglur um byggingar og teikningar fyrir þær rýmri en nú er.  Það á að afleggja þessar reglur varðandi það að fólk þurfi að skila inn teikningu unna af viðurkenndum arkitekt.  Fólk á að fá að teikna sítt hús sjálft og fá að skila inn sinni eigin teikningu.  

Árið 1988 byggði ég ásamt föður mínum sólskála við hús foreldra minna.  Ég teiknaði sólskálann sjálfur og faðir minn skilaði henni inn til byggingarfulltrúa og var teikningin samþykkt.  

Það þarf ekki arkitekt til að teikna íbúðarhús heldur ætti fólk að geta teiknað sjálft.  Að sjálfsögðu yrði fólk að vanda sig og gera grein fyrir stærðum á timbri ofl. í veggjum og hversu svert efni sé notað í þaksperrur og hvernig burðarvirki sé háttað.  Hlutverk byggingarfulltrúa ætti að vera að líta eftir að byggingar séu rétt byggðar og nógu traustar, og ætti hann að geta gefið ráð í því sambandi.  Það þarf ekki flókna útreikninga til þess að reikna út burð og annað þessháttar því það er löngu búið að finna upp hjólið hvað húsbyggingar varðar.   Það þarf ekki útreikninga verkfræðings eins og nú tíðkast (og er lögum samkvæmt) til að reikna út hvort hús standist byggingakröfur.  

Einbýlishús úr timbri er tiltölulega auðvelt að hanna og teikna. Það mætti hafa upplýsingar til taks fyrir húsbyggjendur á vef viðkomandi sveitarfélags og þá í tengslum við byggingafulltrúa viðkomandi svæðis. Þar mættu vera leiðbeiningar fyrir tilvonandi húsbyggjendur td. hvað varðar burðarbita í veggjum eftir því hvort hús sé 1 eða 2 hæða, fyrirkomulag á þaksperrum og mismunandi uppbygging á þeim.  Það er hægt að sýna hvað þaksperrur þurfi að vera efnismiklar miðað við mismunandi breidd hús og þar af leiðandi lengd sperra.  Þetta er ekki  flókið mál að skilja og það væri hægt að gera þetta aðgengilegt fyrir fólk að fara eftir.  Samskonar upplýsingar ættu einnig að vera um steinhús en ég þekki uppbyggingu á þeim mjög lítið.  Með þessu væri hægt að spara fólki umtalsverðar fjárhæðir.

Fólki ætti að sjálfsögðu að vera frjálst að byggja sitt eigið húsnæði sjálft. Núverandi reglugerð hljóðar upp á að húsasmíðameistarar sjái um það verk og meira að segja er krafist byggingastjóra (síðast þegar ég kynnti mér það mál).  En þetta er mjög íþyngjandi reglugerð og bindur hendur fólks sem vill byggja sitt hús sjálft og spara með því miklar fjárjhæðir - jafnvel helming kaupverðs húss eða meira.  En það er hægt að komast undan þessu ákvæði með einhverjum krókaleiðum að láta aðila skrifa upp á hjá sér en það er mikið vesen og leiðinlegt fyrir fólk að þurfa að kvabba á byggingameisturum til að fá undirskrifað.

Þegar maður ekur eftir aðalgötunni á Eyrarbakka þá getur maður séð mörg falleg gömul hús.  Þau hús sem vekja mesta aðdáun hjá mér eru minnstu húsin sem eru oft hæð með háu þaki og risi þar sem eru svefnherbergi.  Oft er búið að bæta við lítilli viðbyggingu 1 hæð við annan enda hússins.  Þessháttar hús ættu að vera byggð enn þann dag í dag.  Fólk gæti byggt slíkt hús fyrir ekki svo margar milljónir, byggt á mjög lítilli lóð jafnvel á helmingi eða þriðjungi því svæðis sem venjulegt einbýlishús þarfnast.  Húsið gæti verið tiltölulega lítið eða 40-55 fm að grunnfleti, rishæðin yrði jafnvel fokheld þegar fólk flytti inn og biði betri tíma.  

En þegar fjölskyldan hefur flutt inn þá má innrétta efri hæðina þegar efni og aðstæður leyfa.  Eftir visst mörg ár gæti húseigandi svo stækkað húsið með viðbyggingu sem tiltölulega auðvelt og ódýrt væri að byggja, við annan enda hússins.  Þá mundi gólfflötur viðkomandi húss fara td. úr 45 upp í 105-120 fm eða meira, (45 + 38-45 fm rishæð + 20-30 fm viðbygging)  Seinna mætti svo bæta við bílskúr.  Í staðinn fyrir að borga 4 milljónir í afborgun og svo 100 þúsund eða meira í afborgun af venjulegu húsi eða íbúð, væri hægt að byggja ofangreint hús fyrir tiltölulega fáar milljónir.  Reyndar yrði að borga töluvert margar miljónir fyrir lóð á höfuðborgarsvæðinu en þeirri upphæð mætti halda tiltölulega lágri ef lóðin væri óvenju lítil sem svona hús gæti hæglega komist fyrir á.  Best væri þá ef borgin mundi skipulegga svæði þar sem væru hús af svipaðri stærð.  

Með þessum hætti gæti fjölskylda eða einstaklingur komist inn í eigið húsnæði á ódýran hátt.  Það eru margir sem hefðu hugrekki og dugnað til þess að fara þessa leið eins og margt verkafólk eins og td. Pólverjar hér á landi sem hafa til að bera mikinn dugnað en litlar tekjur.  Vinir og vandamenn gætu sameinast um að hjálpa til við húsbygginguna.  Á þennan hátt gæti fólk komið sér undan þeirri fátæktargildru sem kaup á húsnæði eru.  En tíminn sem tæki að byggja slíkt hús og erfiðið við það (og ánægjan) væri léttvægt í samanburði við þann þrældóm og fjárhagsáhyggjur sem kaup á venjulegu húsnæði kostar.  En þar er maður að tala um kaupverð húss/íbúðar 15-40 milljónir og að fólk þurfi jafnvel að vinna 2-3 vinnur til að ná endum saman.  En það slítir fólki óneytanlega út og rænir frá þeim þeim tíma sem annars færi í samvistir við fjölskylduna eða eitthvað annað uppbyggilegt.

Kær kveðja


mbl.is Óverðtryggðu lánin í sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir er elska þig.

"Sjá, ég gjöri Jerúsalem að vímuskál fyrir allar þjóðirnar, sem umhverfis hana eru. Jafnvel Júda mun vera með í umsáttinni um Jerúsalem. Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir. Hver sá, er hefur hann upp, mun hrufla sig til blóðs, og allar þjóðir jarðarinnar munu safnast gegn henni."
(Sak. 12:2,3)

Við nálgumst hratt þá daga sem nefndir eru í ofangreindu versi. Nærri því daglega heyrum við í fjölmiðlum eitthvað frá Jerúsalem. Það eru fáar fréttir sem vekja upp jafnmargar spurningar sem umræðan um framtíð Jerúsalem. Þeir sem heimsækja gamla borgarhlutann í Jerúsalem komast ekki hjá því að leiða hugann aftur í aldir til hinnar merku sögu, ekki aðeins hinnar Biblíulegu heldur einnig hinnar veraldlegu. Margar þjóðir hafa ráðið þar ríkjum, m.a, Babýloníumenn, Rómverjar, Grikkir, Egyptar, Tyrkir og Englendingar. 

Spámaðurinn Esekíel segir: "Svo segir Drottinn Guð: Þetta er Jerúsalem sem ég hef sett mitt á meðal þjóðanna."

 Drottinn nefnir Jerúsalem (Zíon) fjallið mitt helga. (Sálm. 2:6)
Hún er borg vors Guðs á sínu helga fjalli. (Sálm 48:2)
Því að Drottinn hefur útvalið Zíon, þráð hana sér til bústaðar. (Sálm. 132:13)
 Það er vegna þess að Drottinn elskar Jerúsalem og hefur útvalið hana á sérstakan hátt fyrir þjóð sína Ísrael, að þrátt fyrir útlegð Gyðinga um aldir hafa þeir aldrei gleymt Jerúsalem. Jerúsalem var í hjarta þeirra og von. Þeir báðu í áttina að Jerúsalem. Á sérhverri Páskahátíð heyrðist meðal þeirra, við lok hátíðarinnar: "Næsta ár Jerúsalem!"

Fætur Yeshua (Jesú) gengu um stræti þessarar borgar, þar sem Hann boðaði Guðs ríki meðal mannanna, læknaði sjúka og opinberaði kærleika Föðurins til allra sem hrópuðu á hjálp Hans. Á hæð fyrir utan borgarmúranna gaf Hann líf sitt og blóð. Frá þeim stað reis Hann upp frá dauða. Gröfin er tóm. Frá Olíufjallinu við Jerúsalem var Hann uppnuminn til himins. Þegar Hann kemur aftur munu fætur Hans stíga á Olíufjallið og stofna friðarríki á jörðu.

 Orð Guðs = Ritningarnar segja okkur berlega að markmið komu Hans eigi eftir að opinberast í þessari borg og gegnum þjóð Hans, Ísrael. Er það nokkuð undarlegt að óvinir Ísraels hrópi: “Sigrum þá og deyðum! Takið borgina frá Gyðingunum, hún tilheyrir þeim ekki!”? Því miður virðist Ísraels/Gyðinga hatur fara vaxandi í heiminum og jafnvel hér á Íslandi finnum við fyrir slíku.  

Finnst mönnum ekki skrítið,

 að 59% Evrópubúa skuli telja lýðræðis- og réttarríkið Ísrael vera mestu ógnunina við heimsfriðinn af öllum löndum jarðar?
Finnst mönnum ekkert undarlegt að margir fjölmiðlar heimsins skuli útmála Ísraela sem yfirgangsseggi gagnvart Palestínuaröbum, þegar þeir sömu arabar beita sjálfir morðum og ógnarverkum gegn saklausu fólki til að koma sér upp ríki inni á fornu heimalandi Gyðinga? Er ekki framkoma Palestínuaraba einmitt skólabókardæmi um miskunnarlausan yfirgang og frekju?  Fasista-áróðurstækni eða þjóðernisraus getur ekki falið þá staðreynd að þeir hafa aldrei átt sjálfstætt ríki á Palestínusvæðinu, heldur eru landakröfur þeirra aðeins og eingöngu hluti af yfirgangs- og útþenslustefnu arabaþjóðanna!
Finnst mönnum ekkert skrítið að arabar skuli í fjölmiðlum geta útmálað sig sem fórnarlömb ímyndaðrar útþenslustefnu Ísraels, þótt sagan segi okkur að arabaríkin sjálf, eða leiðtogar þeirra,hafa efnt til allra stríðsátaka, sem þau hafa átt í við Ísrael frá stofnun þess og alltaf í þeim tilgangi að leggja svæði Ísraels undir sig í útþenslustefnu arabanna sjálfra? 
Finnst engum það skrítið að arabaríkin skuli aldrei vera dregin til ábyrgðar fyrir sína sök á flóttamannavanda Palestínuaraba? Það var árásar- og útþenslustríð þeirra sjálfra á Ísrael 1948, sem skapaði vandann!
Finnst engum það stórskrítið að allar tillögur um lausn á flóttamannavanda Palestínuaraba skuli miða að því að þeir fái hluta úr hinu forna Ísrael undir sjálfstætt ríki sitt, fremur en að þeir fái hluta af risastórum löndum arabaríkjanna, sem eiga þó alla sök á vandanum?

 

Undirritaður setti saman þessa grein með því að stikla á stóru úr 2 góðum greinum sem eru á vefsíðu hins ágæta félags; Vinir Ísraels.  www.zion.is

Með friðarkveðju - Shalom

Steindór Sigursteinsson

 

 


mbl.is Tillagan verði dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum með Ísrael

Í frétt á Ísraelska fréttavefnum  Jewish Press er sagt frá innkaupabanni Reykjavíkurborgar á Ísraelskum vörum.  En eins og mörgum er kunnugt samþykkti vinstri- meirihlutinn tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael.  Fullyrðir greinarhöfundur sem er sérfræðingur í alþjóðalögum að bannið sé brot á sáttmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.  

Mig langar til þess að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til varnar Ísrael.  Ísrael er lítið land þar sem nágrannalöndin hafa það að markmiði að eyða Ísrael og Gyðingum.  Ísrael hefur lengi verið bitbein margra þjóða, eftir að Gyðingar fengu landið sitt aftur 1948.  Ísraelsmenn hafa verið hernumdir oftar en einu sinni og hafa verið dreifðir um heimsbyggðina.  Reynt hefur verið að útrýma þeim, en Guð stendur með Gyðingum.  neikvæður fréttaflutningur og Gyðingahatur einkennir oft fréttaflutning af því sem er að gerast í Ísrael.  En Ísrael þarf oft og einatt að verja sig þegar gerðar eru árásir á landið af hryðjuverkamönnum sem fá vopn þar á meðal flugskeyti send í gegnum jarðgöng.

Það er hneykslanlegt að Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur látið neikvæðan fréttaflutning (ég vil ekki segja að allt sem Ísraelsmenn gera sé rétt) eða jafnvel gyðingahatur fá sig til þess að samþykkja slíka tillögu.  En viðskiptabann á Ísrael er ólöglegt gagnvart alþjóðaviðskiptalögum og það er ekki rétt gagnvart Plestínumönnum (og Gyðingum)sem kynnu að missa vinnuna sína sem starfa fyrir Ísraelsk fyrirtæki sem bannið nær til.  Það eru fleiri vörur framleiddar í Ísrael en margan grunar þar á meðal íhlutir í hátæknitæki enda Ísrael langt á veg komið á því sviði.  Reyndar mun bannið ekki hafa teljandi áhrif á Ísraelskan iðnað en það mun setja blett á orðspor Íslendinga í Ísrael (og víðar í heiminum) og spilla fyrir því góða samstarfi sem hefur verið á milli Íslands og Ísrael.

Ég vil hvetja Borgarstjóra Dag .B Eggertsson og vinstri meirihlutann í Borgarstjórn að endurskoða þess afstöðu sína gegn Ísrael þjóð Guðs og aflétta viðskiptabanni Reykjavíkurborgar á Ísraelskum vörum.    Að síðustu er hérna vers úr Bilíunni úr Sakaría 2,12:  "Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður: Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn".

Það er alltaf hægt að bæta sig - Stöndum með Ísrael.


mbl.is „Ósvífni sjálfumglaðra slettireka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband