Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020

Þetta gjörðu nú hermennirnir

    „Og þeir fléttuðu kórónu af þyrnum og settu á höfuð honum og reyrstaf í hægri hönd honum; og þeir féllu á kné frammi fyrir honum, hæddu hann og sögðu: Heill vertu Gyðinga konungur!" Matt. 27,29.
    „Þeir sögðu því hver við annan: Skerum hann ekki í sundur, köstum heldur hlut um hann. hver skuli fá hann; því rætast hlaut sú ritning, er segir: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu nú hermennirnir." Jóh. 19,21.
    Þannig hljóða þessi orð úr píslarsögu Jesú frá Nazaret, þar sem hann er handtekinn og grimmir hermenn taka að pína hann, hæða og smána. Vegna þess að hann hafði sagst vera konungur, þá fara þeir af stað og flétta kórónu úr þyrnum og setja á höfuð hans. Við getum vel skilið, hve sársaukafullt það hefur verið, þegar hinir hvössu broddar stungust djúpt inn í hið hreina, saklausa enni Freisarans. því þar var ekki tekið á með mjúkum höndum. Heldur stendur, að þeir slógu hann í höfuðið, og þá skiljum við, að þyrnarnir hafi þrýstst enn dýpra inn í enni hans.
    En þar stendur Frelsarinn og mælir ekki orð af vörum. Hann líður þetta allt með mestu þolinmæði, því hann stendur þar í stað okkar mannanna. Vegna synda okkar verðskuldum við alls konar pyndingar og kvalir. En þegar Jesús á að greiða syndasekt og græða sár hins fallna mannkyns, þá verður hann að þola allt þetta, sem við lesum um, að hafi gjörzt þar í hallargarðinum og á krossinum. Hann þurfti að líða háðung og neyð og bera þyrnikórónu til þess að geta áunnið handa okkur dýrð og sælu og eilífa kórónu lífsins í ríki Guðs.
    Þegar nú hermennirnir voru búnir að pína og hæða hann, þá finnst þeim það viðeigandi að skipta með sér klæðum hans og kasta hlut um kyrtil hans. Hjörtu okkar komast við, þegar við hugsum um þetta, og við segjum: Þetta var hræðilegt! Að þeir skuli hafa farið svona að með Jesúm! En þetta gjörðu nú hermennirnir.
    En hvað gjöra svo menn þann dag í dag og hafa gjört á öllum tímum, síðan Kristur lifði og dó? Með lífi og athöfnum sínum flétta menn kórónur sínar og þrýsta á höfuð Drottins. Þeir segjast vera kristnir og bera hið guðdómlega nafn hans, sem trúarjátningu. En hvar er hinn sanna guðsdýrkun og tilbeiðsla?
    Verður það ekki oft eins og hjá hermönnunum?
    Það verður háð og spott, þyrnar og stingandi broddar, af því að hjartað er ekki gagntekið af elsku til Frelsarans. Þeir játa trúarskoðanir ýmiskonar og segjast vera kristnir, en lífið og orðin eru eins og stingandi þyrnigerði. Og heldurðu að Kristur finni það ekki og líði fyrir það?
    Hér þarf að koma vakning, svo að menn leiti til Jesú í auðmýkt og trú og frelsist frá hinni heimslegu og syndsamleg breyttni, til þess að þeir af hug og sál geti elskað hann og þjónað honum, sem leið vegna synda þeirra.
    En hve margir eru þeir, sem gjöra eins og hermennirnir? Þegar þeir hafa hætt og spottað og staðið gegn kærleika Krists, og hafnað kenningu hans um hreint og heilagt líf, þá fara þeir að skipta milli sín klæðum hans. Það er: gjöra tilkall til blessunar og gæða Jesú Krists hér í tímanum og í eilífðinni. Þeir vilja vera með og njóta þess, sem Kristur hefur komið til leiðar. En þeir vilja ekki ganga hinn mjóa veg lífsins með Kristi, sem enn í dag, eins og fyrr, er kross- og þyrnivegur. En einmitt á þessum vegi er sælu Guðs að finna. Þar getum við í stað broddanna áunnið okkur perlur og gimsteina til að prýða hina fögru dýrðarkórónu eilífa lífsins.
    Hvað gjörum við? Hvað veljum við? Sækjumst við eftir stundaránægiu með þeim, sem hæða og spotta og afneita Kristi? Eða viljum við taka krossinn upp daglega og fylgja okkar ástkæra Frelsara hér? Ef við veljum Krist hér, þá vitum við, að við fáum að vera með honum í ríki Guðs um alla eilífð.
    Sérhver maður athugi þetta, á meðan hann hefur tíma til þess.

Endurbirt grein úr Aftureldingu 01.04.1953. Höfundur E.E.


mbl.is Skráningum í Siðmennt fjölgar mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband