Færsluflokkur: Trúmál

Hugvekja um persónu og líf Jesú Krists

Nú í dag, á föstudaginn langa, finnst mér við hæfi að hugleiða aðeins persónu Jesú Krists, eiginleika hans og ástæðu þess að hann kom til jarðar sem lítið barn.

Þegar Jesús var að koma að lokum þriggja ára þjónustu sinnar hér á jörðu, sendu æðstu prestarnir og farísearnir þjóna til að handtaka hann. Þeir komu til baka tómhentir, þeir höfðu ekki handtekið Jesúm. Vitnisburður þeirra sýndi að þeir höfðu orðið tilfinningalega, siðferðislega og andlega snertir af nærveru Jesú og því sem hann hafði að segja. Þegar þeir voru spurðir: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?" þá svöruðu þeir: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig." Með því að heyra í Kristi og finna máttinn í orðum hans, fylltust þeir slíkri lotningu á honum og ótta, að þeir gátu ekki handtekið hann.

Hann hafði eiginleika eins og: siðferðileg heilindi og guðlegt réttlæti, sem gerðu hann ólíkan öllum öðrum mönnum, ólíkan rabbínunum, kennimönnum Gyðinga, og spámönnunum sem voru sendir af Guði. Það sem hann hélt fram og kenndi fór langt fram úr því sem rabbínarnir höfðu fram að færa. Kennsla hans var þrungin sannleika og einlægri ást á Guði. Hann var heill, heilagur á öllum sviðum lífs síns, hann hafði samúð með þeim sem höfðu fallið á einhvern hátt, eins og til dæmis tollheimtumönnum og bersyndugum. Hann bauð þeim fyrirgefningu sína.

Þekking hans á lögmálinu, jafnvel þegar hann var aðeins 12 ára, gerði rabbínana forviða. Jesús átti ríkt bænasamfélag við Guð, hann beið hljóðlega og hæversklega en með krafti, hann fór oft upp á fjall til að biðjast fyrir. Kraftaverkin sem hann gerði tóku fram úr þeim kraftaverkum sem Elía og Elísa spámenn gerðu, þvílík kraftaverk höfðu ekki sést í Ísrael í 15 aldir síðan brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi átti sér stað. Þrátt fyrir það kallaði hann sjálfan sig hógværan og hann hrokaðist ekki upp.

Þótt hann væri maður, var hann einstakur og aðgreindur frá öllum öðrum. Persónu­eiginleikarnir sem hann bjó yfir og verkin sem hann gerði sýndu svo ekki varð um villst að hann var Messías sem lofað hafði verið og koma átti í heiminn. Þessir eiginleikar voru hans fullkomlega siðferðislega heill persónuleiki. Hann var Messías, og hann var í heiminum; orðin hans, gerðir hans og hvernig hann lifði lífinu staðfestu guðlegt hlutverk hans og stöðu. Í Guðs orði, Jóhannesarguðspjalli 1:10-12, stendur: "Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim er trúa á nafn hans."


Við skulum líta aðeins á fæðingu hans.

Fæðing hans var einstök. Lúkasarguðspjall 1:26-35. a) Hann var fæddur af mey sem Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um 700 árum áður. b) Hann fæddist í Betlehem samkvæmt spádómi Míka 700 árum áður. c) Fæðing hans var kunngjörð af englum. d) Hann fæddist nokkrum vikum eftir fæðingu Jóhannesar, sem engillinn Gabríel sagði um að væri sá sem myndi ryðja brautina fyrir hann. e) Vitringar komu að veita honum lotningu þegar hann lá í jötu. f) Fæðing hans var kunngjörð með stjörnu sem birtist á himni. g) Herskarar engla lofuðu Guð við fæðingu hans. h) Heródes reyndi að myrða hann. i) Fæðingu hans var fagnað af Símeon og Önnu sem sögðu hann vera Messías. í) Fyrir fæðingu hans gaf engill honum nafnið Jesús, sem þýðir Guð frelsar.

Að lokum er hérna ljóð eftir Helga Hálfdánarson.


Velkominn vertu,
vor Immanúel,
ástgjöf sú ertu,
allt sem bætir vel
böl, er hjörtu hrjáir,
haldin eymd og synd,
hvíld, er þreyta þjáir,
þyrstum svalalind.
Jesú góði, þökk sé þér,
þig að bróður fengum vér,
þitt oss blóðið lífgjöf lér,
ljóminn Guðs og mynd.

Kirkjusöngbók, sálmur 71.2.

Steindór Sigursteinsson.


mbl.is Trúin speglar mannlega tilveru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég lifi og þér munuð lifa

    Hver hefir sagt: ,,Ég lifi og þér munuð lifa?" Og hverjum sagði hann það? Jú, hann sagði það við lærisveina sína, skömmu áður en hann skildi við þá og fór til Föðurins. Jóh. 14, 19.
    Undursamlega huggunarrík hafa þessi áðurgreindu orð Krists verið fyrir lærisveina hans á þessari stóru stundu. En hvað er í raun og veru það að hugleiða þau, borið saman við það, að heyra þau flutt af Jesú Kristi sjálfum.
    Mér finnst eins og ég sjái lærisveina Krists einna gleggst í þetta skipti. Viðræða Drottins var að vísu æfinlega þrungin lífi og krafti, en í þetta skipti var það nokkuð nýtt og einkennandi. Meðal annars þetta, að hann færi burt til Föðurins.
    Kæri lesandi, vilt þú reyna að standa í sporum þessara lærisveina, þessara nemenda, í þetta skipti. Vilt þú hugleiða þetta, að Meistarinn mikli, Drottinn Jesús Kristur sagði til þeirra: „Ég fer burt." Hann, sem þeim hefir eflaust svo oft, já mörgum sinnum, verið búið að finnast mikið til um í orði og verki.
    Þú kæra sál, sem hefir átt trúan og góðan vin, hefði það ekki snert tilfinningar þínar að sjá honum á bak, lífs eða liðnum. Efalaust er slíkt eitt af vorum mestu tilfinningamálum.
    En það í sjálfu sér er lítil mynd af þeim mikla veruleika, sem hér er um að ræða. Þeim alheims sannleika, að Drottinn Jesús Kristur var í þann veginn að yfirgefa lærisveina sína og fara til Föðurins á himnum, eftir allar þær mörgu og guðdómlegu samverustundir, er þeir höfðu átt með honum. Mér finnst eins og andinn í brjósti mér segi: Hallelúja, lof sé Guði! Þegar ég hugsa um framhaldið á ræðu Jesú í þetta skipti, þá finnst mér það vera dýrðlegt fyrir allar sanntrúaðar sálir um allan heim.
    „Allt miðar þeim til góðs, sem Guð elskar." Þetta, að Drottinn Jesús færi burt og sem olli lærisveinum hans svo mikillar hryggðar, átti að miða þeim til góðs. Hvernig mátti það verða? í því var það fólgið, að ef hann færi ekki burt kæmi ekki Huggarinn, Andinn heilagi til þeirra, en þegar ég er farinn, þá sendi ég hann til yðar frá Föðurnum.
    Hvað átti svo Huggarinn, Andinn heilagi, að gera? Meðal annars: Sannfæra heiminn um synd, um réttlæti og um dóm, Jóh. 16, 8, bera Jesú Kristi vitni, Jóh. 15, 26., leiða þjóna Drottins í allan sannleikann og kunngera þeim það, sem koma á, Jóh. 16, 13., að því ógleymdu, að kenna þeim alt og minna. þá á alt, sem Kristur hafði sagt. Jóh. 14, 26. Að síðustu: Vegsama Jesúm Krist, vegsama Konung Konunganna og Drottinn Drottnanna. Lofað sé Drottins heilaga nafn!
    Þökk, kæri Jesús, fyrir allt, allt, sem þú hefir gert fyrir oss mennina, hvað viðvíkur eilífðarmálunum! Frá mínu sjónarmiði séð eru þau allt. Hins vegar játa allir menn og allar konur, er þekkja orð Krists, hans heilnæmu kenningu, sem er að finna í guðspjöllunum, að Drottinn Jesús gefur fyrirheit fyrir þetta jarðneska líf. Já, fyrir vorri tímanlegu heill. Meðal annars: „Leitið fyrst Guðs og hans réttlætis og þá mun yður veitast allt annað að auki." Minnist þess, kæru menn og konur, að loforð Drottins Jesú Krists eru skilorðsbundin, Trúið — og treystið Jesú.
    Kristur er hið sanna ljós, er koma átti í þennan heim, til þess að hrekja burtu myrkur, efasemda og hleypidóma. Gefa oss mönnunum andlegt ljós í stað hins andlega myrkurs, er vér sátum í. Gleði í stað hryggðar, frið í stað friðleysis og líf í stað dauða. Kæra sál, hefur þú öðlast þetta fyrir trúna á Krist? Ef ekki þá kepptu eftir því. Minnstu þess, að Kristur sagði: „Leitið og þér munuð finna." Ef til vill hefur þú leitað Krists, ef til vill hefur þú fundið. En sorgleg er þessi staðreynd, að margir menn og konur virðast leita að öllu öðru í þessum heimi en Jesú Kristi. En kæri lesandi, það, sem þér ríður mest á að leita að og finna í þessu lífi, er Jesús Kristur, hafir þú ekki þegar fundið hann. Hvers vegna? Vegna þess, að þú átt ódauðlega sál, sál, sem enginn getur bjargað nema Jesús Kristur. Hvers vegna? Vegna þess að Kristur sagði: „Enginn kemur til Föðurins nema fyrir mig."
    „Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið." Jóh. 14, 6.
    Mannleg skynsemi fær aldrei til fulls skilið þann mikla leyndardóm, sem fólginn er í Jesú Kristi. Nei. „Svo miklu sem himininn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum", segir Drottinn. Jesaja 55, 9. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir allt, vilja svo margir menn og konur skilja allt Guðs ráð.
    Líf Jesú Krists hér á jörðu, verk hans og hin guðdómlega kenning hans færir oss heim sannin um, að honum ber að trúa og treysta. Hann er meðalgangarinn milli Guðs og vor. Minnumst þess, er Páll postuli, hinn stórvitri maður, sagði í bréfinu til „Efususmanna".
    „Á honum — Kristi — grundvallast nú djörfung vor og hinn öruggi aðgangur að Guði, er vér eigum fyrir trúna á hann." 3, 12.
    Ef til vill kynnu einhverjir að segja, sem hafa litla eða enga þekkingu á orðum Krists, að hann hafi einvörðungu átt við þá lærisveina sína, er voru hjá honum á þessum stað og á. þessari téðu stundu. Þeir aftur á móti, er hafa kynnt sér orð Krists, sjá, að Drottin Jesús hefir haft fleiri í huga, því að hann segir í þetta sama sinn, á þessum sama stað, í bæn til Föðurins, Jóh. 17, 20.: „En ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem trúa á mig fyrir orð þeirra."
    Guði sé lof! Allra þeirra, sem eiga eilífa lífið í Jesú Kristi er minnst. Til allra þeirra nær þetta fyrirheit Krists: „Ég lifi og þér munuð lifa." Og „þar, sem ég er, þar skuluð þér og vera."
    Kæra sál! Getur þú tileinkað þér fyrirheit Jesú Krists, svo mörg sem þau eru og dýrðleg?
    Guð veiti þér það af náð sinni.

Árni Eiríksson. Tímaritið Afturelding 1. maí.1936.


mbl.is Fámennt en góðmennt við bænastund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð er kærleikur

    „Sjáið hvílíkan kærleika Faðirinn hefir auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn, og það erum vér. Vegna þess þekkir heimurinn oss ekki, að hann þekkti hann ekki. Þér elskaðir, nú erum vér Guðs börn og það er ennþá ekki orðið bert hvað vér munum verða. Vér vitum, að begar hann birtist þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er. Og hver sem hefir þessa von til hans, hreinsar sjálfan sig eins og hann er hreinn". (1. Jóh. 3: 1—3).
    Þetta ritaði postulinn Jóhannes. En spyrjum nú okkur sjálfa: Hvernig getum við hreinsað okkur eins og hann er hreinn? Guðs Orð kennir, að við höfum öll syndgað og skortir Guðs dýrð. En postulinn segir í 1. kap. v. 9: „En ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti". Svo mikil er gæska Guðs við okkur, að hann fyrirgefur okkur allar syndir okkar, ef við játum þær fyrir honum af öllu hjarta og biðjum hann að fyrirgefa okkur þær og hreinsa okkur af þeim.
    „Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skulið ekki syndga; og jafnvel þótt einhver syndgi, þá höfum vér árnaðarmann hjá Föðurnum, Jesúm Krist hinn réttláta, og hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins".
    Á þennan hátt birtir algóður Guð sinn eilífa kærleika til okkar syndugra manna, að hann sendi sinn elskaða son Jesúm Krist í heiminn, til að láta líf sitt á krossinum, sem lausnargjald fyrir syndir allra manna. „Hann er steinninn, sem einskis var virtur af ykkur húsasmiðunum, hann er orðinn að hyrningarsteini. Og ekki er hjálpræðið í neinum öðrum, því að ekki er heldur annað nafn undir himninum, er menn kunna að nefna er oss sé ætlað fyrir hólpnum að verða". (Post. 4: 11—12). Pétur postuli, fylltur Heilögum Anda, talaði þessi undursamlegu orð til höfðingja Gyðinga, sem létu krossfesta Jesúm, af því að þeir trúðu því ekki, að hann væri sá fyrirbeitni Messías, sem Guð hafði lofað að senda, til þess að frelsa heiminn. En Guð lét vantrú Gyðinganna verða til þess, að Jesús fórnaði lífi sínu, sem sektarfórn fyrir syndir vorar og gera okkur að erfingjum eilífs lífs; því að það er ómögulegt að nokkur maður geti kvittað fyrir syndir sínar hjá Guði, með góðverkum sínum, því að öll okkar góðverk eru sem saurguð klæði í augum Guðs; heldur er það aðeins Jesú heilaga blóð, sem er fullkomið lausnargjald fyrir syndir okkar. Ekkert annað getur Guð tekið gilt, sem lausnargjald fyrir syndir mannanna. Án helgunar getur enginn komist inn í Guðs ríki.
    „Ekki mun hver sá er við mig segir: Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá er gerir vilja Föður míns, sem er í himnunum", segir Jesús. (Matt 7: 21). En það er vilji Guðs að allir menn trúi á Jesúm og taki á móti þeim gjöfum, sem hann vill gefa hverjum þeim, sem til hans kemur; því að Guð vill að allir frelsist. Þess vegna sendi hann son sinn í heiminn, til þess að heimurinn frelsaðist fyrir hann. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, sem ekki eru af blóði né af holdsvilja, né af mannsvilja, heldur af Guði getnir, segir guðspjallamaðurinn Jóh. 1: 12—13. Það, sem allir menn þurfa að gera, til þess, að geta komist inn í Guðs ríki, er að trúa á Jesúm af öllu hjarta, játa syndir sínar fyrir honum og biðja hann að hreinsa sig af öllum misgjörðum.
    „Að krossi Jesú kom og sjá hans kvöl, hans píslarmynd. Hann gaf sitt líf, hann gaf sitt blóð, sem gjald fyrir þína synd".
    Jesús tekur þá að sér, sem koma að krossi hans, með iðrunartárum. Og hann gefur þeim sinn frið. Líf þeirra verður fullt af unaði og gleði, þó að þrautir og erfiðleikar mæti manni, við og við, í þessum synduga heimi. En Jesús þekkir sína, og hann sleppir ekki verndarhendi sinni af þeim, sem hann tekur að sér. Hann leiðir þá að lifandi vatnslindum, sem er hans blessaða Heilaga Orð. Þar geta allir fengið hvíld og svölun fyrir anda sinn. „Komið til mín, allir, þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir, og ég mun veita sálum yðar hvíld", segir Jesús. „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá skuluð þér finna sálum yðar hvíld; því að ok mitt er indælt og byrði mín létt". Matt. 11: 28—30.
    Þetta eru undursamleg orð. Það er svo blessað að mega koma til Jesú með allar sínar ábyggjur og sorgir; alla sjúkdóma og allt, sem amar að. Því að Jesús megnar að bæta úr öllu böli okkar. Hann hefir allt valdið, bæði á himni og jörðu; svo að allir, jafnt háir sem lágir verða að lúta honum. Hann heyrir líka bænakvak sinna nauðstöddu barna, sem brópa til hans í neyð sinni. En hann hefir alltaf sérstakt markmið okkur til heilla með það böl, sem hann ætlar okkur að bera. Og þó hann bænheyri okkur ekki strax, eins og við biðjum hann, þá megum við vita. það, að hann gefur okkur annað betra, en við biðjum um; því hann vill styrkja okkur í trúnni og þolinmæðinni, með því að prófa okkur í eldraun þjáninganna, til þess að við getum skinið því skærar í dýrðinni hjá honum. „Ó þér að líkjast, ljúfasti Jesús. Löngun mín er og bæn sérhvern dag. Ef þú ert hjá mér einskis ég sakna, Ástríki Jesús, nær þér mig drag". Jesús sagði: „Hver, sem elskar mig, mun varðveita mitt Orð, og Faðir minn mun elska hann og til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum", Jóh. 14: 23. Elskum hann, því að hann hefir elskað okkur að fyrra bragði, og enginn ástvinur er sem hann. Hann bregst ekki sínum, því að loforð hans standa stöðug að eilífu.

Sœmundur Sigfússon. Tímaritið Afturelding 1. júní 1946.


mbl.is Prestsembætti endurvakið í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig deyja sannkristnir menn - endurbirt grein úr Aftureldingu 1.11.1940

B. Abbot trúboði hrópaði á dauðastundinni: “Dýrð sé Guði! Ég sé dýrð himinsins ljúkast upp fyrir mér”.

Mr. Allen, sem dó 1843, dó með eftirfarandi orð á vörum: "Ég hugsa um hin dýrðlegu orð Frelsarans: “Þér skuluð og vera þar sem ég er”.

Síðustu orð Mikaels Angelos, sem dó 1564,. voru: “Ég dey í trúnni á Jesúm Krist og í bjargfastri trú á betra líf”. Dr. Baleman, sem dó 1819, kallaði upp skyndilega: “Hversu dýrðlegt! Englarnir bíða mín! Drottinn Jesús, tak í móti sál minni! Verið sæl!”

Bosquet biskup, dáinn 1704, sagði á dauðastundinni: “Ó, dauði, þú gerir ekki áform mín að engu, en fullkomnar þau! Flýt þér - þú góði dauði!”

Jakob Böhme, sem lét lífið 1624, sagði við son sinn: “Heyrir þú hinn dýrðlega hljóðfæraslátt?” Þegar sonurinn svaraði neitandi, bætti faðirinn við: “Opnið dyrnar, svo að hann heyrist betur! Nú geng ég inn í Paradis!” J. Brown rétti fram höndina á dauðastundinni, og var spurður: “Eftir hverju seilist þú?” “Konungsríki”, hvíslaði hann.

Indianatrúboðinn David Brainerd, sem andaðist 1747, endaði líf sitt með þessum orðum: “Að þóknast Guði og vera honum fullkomlega sameinaður er sá himinn, sem ég þrái. Vökumaðurinn er hjá mér, hvers vegna bíður vagninn svo lengi? Athugið eftir hverju hann er að bíða!”

Greifinn af Buskan, dáinn 1829, hrópaði á dauðastundinni: “Hamingjusamur, hamingjusamur. Richard Cromwell, dáinn 1712, sagði að síðustu: “Lifið í kærleika! Ég fer til Guðs kærleikans”.

John Elliot trúboði, dáinn 1689, sagði á dauðastundinni: “Drottinn Jesús, sem ég hefi þjónað í 80 ár, kom í dýrð! Ég hefi lengi beðið komu þinnar. Velkomin, gleði!”

Deyjandi enskur prestur sagði: “Alla æfi mína hefi ég strítt við storminn, en nú sé ég að lokum höfnina”.

Hinn frægi sænski uppfinningamaður Jolm Ericson, dáinn 1889, sagði á dauðastund sinni: “Hvíldin er hugljúfari en henni verði með orðum lýst”.

Dr. Judson dó 1850 með þessi orð á vörum: “Ég fer með álíka mikilli gleði og drengurinn, sem hefir fengið frí frá skólanum”.

Karl af Bala, dáinn 1814, gekk yfir um með orðunum: “Það er borg frelsisins”.

Hinn ameríski trúboði dr. S. A. Keen sendi eftirfarandi kveðju frá dánarbeð sínum: “Hið fullkomna frelsi, sem við höfum boðað, er fullkomnara en nokkru sinni fyrr”.

Wittiam Knibb dó árið 1845 með þessi orð á vörum: “Hvílík dýrð að sjá skýin dreifast og að velþóknun Guðs hvílir yfir mér”.

Peter Kruse gekk yfir um með þessum orðum: “Allir himnanna herskarar!”

Kalkuttatrúboðinn Alphonse la Croix hrópaði undir það síðasta: “Allt er gott, enginn ótti, enginn efi, fullkominn friður, Jesús er nálægur!”

Dr. Lechman dó 1785 með orðunum: “Ég á ekki einungis frið á síðustu augnablikum mínum, en einnig gleði, sigurfögnuð - er alveg frá mér numinn. Hvaðan kemur þessi mikli fögnuður? Frá þessari bók (Biblíunni), því að hún gefur okkur fullvissuna um, að hið dauðlega uppsvelgist í sigur”.

R. Leister kallaði upp yfir sig á dauðastundinni: “Sigurinn er unninn!”

Marteinn Lúther andaðist 1546. Hann sagði: “Vor Guð er sá Guð, sem frelsið kemur frá. Guð er Drottinn, og í honum umflýjum við dauðann”.

Robert Lawe sagði: “Ég er deyjandi. Sjón mín er næstum horfin. En það verður bjartara og bjartara”. Presturinn Hugh McKeil, sem var líflátinn 1661, sagði við Guð: “Nú byrja ég samvist mína við þig, og hún mun aldrei enda taka”.

D. L. Moody, sem fékk heimfararleyfi 1899, sagði við elsta son sinn morguninn, sem hann dó: “Jörðin hverfur sýnum og himininn opnast yfir mér, Guð kal1ar”. “Er þig að dreyma, pabbi?” “Nei, Vill, mig var ekki að dreyma. Eg hefi verið innan við hliðin. Ég hefi séð barnsandlitin”. Því næst sagði hann: “Er þetta dauðinn? Þetta er dýrðlegt”. Enn þá seinna: “Guð kallar. Þetta er krýningardagur minn. Ég hefi lengi beðið eftir honum”.

Morris biskup dó 1877 með orðunum. “Framtíðin er björt”. Isaau Myers fagnaði á dauðastundinni, segjandi: “Sigur, sigur, fagnaðarríki sigur! Brátt er ég farinn - brátt er ég farinn - næstum heima - ég er tilbúinn! Hann er kominn, hann er kominn!”

James Needham kallaði upp yfir sig á dauðastund sinni: “Dýrð, heiður, vald, hátign og kraftur tilheyrir Guði og Lambinu að eilífu.

Síðustu orð dr. Newtons voru: “Eg er upprisan og lífið, sagði Jesús Kristur, Frelsari syndara. Lofið Drottin, lofi hann alheimur! Far vel synd, far vel dauði! Lofið Drottin! Lofið hann að eilífu!”

    Píslarvotturinn John Noys sagði við vini sína, þegar hann stóð í bálinu: “Við munum ekki missa líf okkar í þessum eldi, en við fáum það aðeins endurbætt. í stað kola fáum við perlur”. Annar píslarvottur, Bandioon, sem var brenndur á báli 1556 ásamt föður sínum, sagði við hann: “Ver hughraustur, faðir! Hið versta er bráðum búið. Sjá, ég sé himininn opinn og miljónir af ljósenglum tilbúna að taka á móti okkur. Blessanir himnanna munu oss nú gefnar verða! Aðeins nokkur augnablik og við munum ganga inn í hina himnesku bústaði.

John Owen sagði á dánardegi við Payne: “Hinn langþráði dagur er nú loks upprunninn, dagurinn, þegar ég fæ að sjá dýrðina á annan hátt en ég hingað til hefi séð”.

Síðustu orð J. Parsons voru: “Þegar ég geng inn til dýrðarinnar mun ég með rödd minni taka þátt í himneskum söng og veifa með pálmagreinum yfir höfðum hinna heilögu og hrópa: Sigur, sigur í blóði lambsins!”

Síðustu orð John Swails voru: “Ó, hvílík dýrð! Herbergið er fullt af ljóma!”

Topbady dó 1778 með þessi orð á vörum: “Dauðinn er ekki eyðilegging. Himininn er bjartur, það eru engin ský. Kom, Drottinn Jesús, kom fljótt!”

Samuel Walker dó 1761 með þessum vitnisburði: “Ég er borinn á englavængjum. Himininn hefir verið opnaður fyrir mér. Ég mun brátt vera þar. ó, vinur minn, ef ég hefði haft þrek til þess að tala, mundi ég hafa sagt þér þvílíkar nýjungar, að sál þín hefði stórkostlega fagnað. Ég sé þvílíkar undursamlegar sýnir, en ég megna ekki að segja meira”.

Síðasti vitnisburður W. Whytbys var: “Hver er þar? Hvað er þetta? Englar koma til mín!”

Rob. Wilkinson trúboði dó með þessum orðum: “Ó, hvílíka hluti hefir ekki Drottinn opinberað fyrir mér í kvöld! Ó, Guðs dýrð! Ó, Paradís með þína guðdómlegu fegurð og sælu! Guð er kærleikur! Ó, hjálpa mér að lofa hann! Ég mun lofa hann eilíflega!”

Sunnudagsmorgun einn árið 1860 kvaddi James Wilson þennan heim til þess að búa í húsi Drottins að eilífu. Hann sagði: “Það er ekkert myrkur í dalnum. Það er aðeins ljós!”

Mary Davis hrópaði á dauðastundinni: “Hvílík dýrð!”

Frú Glenontry sagði, þegar hún var að deyja: “Ef þetta er dauðinn, þá er hann hugþekkasta fyrirbrigöi, sem hugsast getur”.

Síðustu orð frú Hastings voru: “Ó, mikilleiki þíns guðdómlega fagnaðar, sem mér er úthlutaður. Síðasta orð Hönnu Mores var: “Gleði!”

Kveðjuorð Susönnu Wesley til barna hennar voru: “Börn, þegar ég er farin, þá syngið söng Guði til dýrðar!”

Sunnudagaskóladrengur einn, E. Lawrence, sagði á dauðastundinni við móður sína: “Ég kem! Jesús bíður mín og ég hans. Þar eru björt klæði, og þar er kóróna. Ég fer til þess að taka á móti þessu! Vertu sæl mamma!”

Rowland Hill trúboði, dáinn 1833, endurtók hvað eftir annað eftir að hann skildi við: “Jesús hefir elskað mig, ég get ekki sagt hvers vegna. Við erum eitt. Hann vill ekki vera í dýrðinni og láta mig vera fyrir utan”.

Gunnar Wingren var sænskur trúboði, og brautryðjandi hvítasunnusafnaðarins í Brasilíu. Hann lést árið 1933. Vinir hans, er stóðu við dánarbeð hans, sáu allt í einu björtum geisla slá yfir hann. Í geislanum komu fram tvær gegnumstungnar hendur, er fóru niður með síðum hans, eins og þær ætluðu að lyfta honum upp. Um leið fagnaði hann stórlega í Andanum og sagði: “Nú heyri ég sönginn - eins og inni í hjarta mínu”. Rétt á eftir dó hann.

T. B. Baratt, sem af mörgum hefir verið nefndur postuli hvítasunnuvakningarinnar á Norðurlöndum, dó 29. jan. 1940. Þegar hann var kominn að dauða, skrifaði hann þessa kveðju til hvítasunnufólksins víðs vegar: “Allir mínir kæru hvítasunnuvinir! Sækið fram, haldið ykkur nærri Guði, og trúið öllum þeim sannleika, sem Biblían hefir frætt okkur um. Ef einhverjir hníga og verða teknir heim í dýrðina, þá munu nýir ganga fram í eldlínuna. Það er aðeins tjaldbúð mín, sem er hrörleg nú, en andi minn fagnar í Drottni. - Ykkar bróðir og vinur T. B. Barratt”.

Nokkru síðar, þegar nákomnustu starfsbræður hans komu til þess að kveðja hann hinnstu kveðjunni, lyfti hann hönd sinni til himins og sagði með ástúðlegum kærleika í röddinni: “Ég mun sjá Konung konunganna í ljóma sínum”. — Nokkru þar á eftir gekk andi hans út úr tjaldbúðinni — og inn í dýrðina.

“Látum oss því og, þar sem vér erum umkringdir af slíkum fjölda votta, létta af oss allri byrði og viðloðandi synd, og þreytum þolgóðir skeið það, sem oss er fyrir sett og beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar ...” Hebr. 12, 1-2.

Ásmundur Eiríksson. (Fyrrverandi forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík).


mbl.is Sunnu­daga­skóli þjóðkirkj­unn­ar — myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur lífsins

    Ritningin sannar kröftuglega með mörgum augljósum dæmum upp­risu Jesú frá dauðum. Með upp­risu sinni og sigri yfir dauð­an­um leiddi hann í ljós lífið eilífa og óforgengi­leikann. En Drottinn Guð sagði við vald dauðans: Hingað og ekki lengra. Hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna. Engill, með valdi og umboði hins æðsta Konungs, braut rómverska innsiglið, velti steininum. Huggun fyrirgefningar Guðs gagnvart þeim, er trúa á Jesúm Krist, er staðfest, og gjöf eilífs lífs í Jesú Kristi, þeim til handa, sem á Hann trúa.

    Megum við þá treysta upprisusögunni um Jesúm? geta einhverjir spurt. Dr. Ludvig von Gerdtell, merkur guðfræðingur, segir svo í bók sinni, Miracles under fire: "Trúin á upprisu Jesú er sameiginleg fyrir öll Nýja-testamentis-ritin og tengir þau öll saman. Jafnvel hinir svæsnustu gagnrýnendur, eins og t.d. David Friedrich Strauss, hafa ekki vogað sér að mæla á móti þessari staðreynd. Ef frá sögulegu sjónarmiði nokkur möguleiki hefði verið, hver sem hann hefði verið, til að mótmæla þessu, mundi án nokkurs efa þessi efnishyggju-heimspekingur og kæni andstæðingur fagnaðarerindis Jesú Krists hafa neitað því. Í bók sinni, Old and new Faiths (Fornar og nýjar trúarkenningar) (sextándu útgáfu, 1904, bls. 20) "kallar Davíð Strauss upprisu Jesú Krists sögulega bábilju. Í sama kaflanum kannast hann samt sem áður við, að postularnir hafi haft hjartanlega sannfæringu um, að þeir hefðu raunverulega séð og talað við Jesúm upprisinn."

    Að upprisu Jesú höfum við mörg vitni, sem sáu hann annaðhvort einn maður í einu eða fleiri saman, ekki einu sinni, heldur a.m.k. sex sinnum með lengra eða skemmra millibili. Sumir þeirra sáu hann nokkrum sinnum. Að minnsta kosti tólf af þessum vitnum voru menn nákunnugir honum. Jafnvel Jakob bróðir hans var einn af þessum vitnum. Það gat því ekki verið um það að ræða, að þeir hafi ekki vitað fyrir víst, hvort það var Jesús sjálfur, sem birtist þeim. Það er vert að athuga það, að Páll gefur upp nöfn manna, sem votta að upprisu Jesú, og það frammi fyrir samkomu, þar sem voru á meðal menn, sem mótmæltu kenningunni um upprisu Jesú.

    En til þess að verða hluttakendur í upprisu til eilífs lífs með honum, þurfum við að hafa tekið á móti krafti hans inn í líf okkar. Við þurfum að þekkja og reyna kraft upprisu hans, sem gefur möguleika til að lifa sigrandi lífi yfir því valdi, sem leiðir til dauðans, en það er syndin. Þennan möguleika eignumst við í endurfæðingunni. Þegar við endurfæðumst eða frelsumst, kemur Jesús inn í líf okkar með kraft sinn, en ástand syndarinnar afmáist og dauðinn drottnar ekki lengur vfir okkur. Við megum vegna Jesú fagna og vænta óumræðilega dýrðlegrar eilífðar. Þessi sannleikur, að Jesús er upprisinn, hefur því ákaflega mikla þýðingu fyrir alla menn.

    Ritningin segir að Jesús sé kröftuglega auglýstur að vera sonur Guðs með upprisu sinni frá dauðum. Menn krefjast sannana nú sem fyrr, og hvað er meiri sönnun fyrir kenningu Jesú og Ritningarinnar en upprisa hans?
Það er sigurhljómur í orðum postulans, er hann segir: "En nú er Kristur upprisinn." Vegna þeirra sanninda gat Páll liðið hvað sem var. Vegna þessara sanninda er lausn að fá fyrir syndarann. Af því Jesús lifir, er hann fær um að endurleysa mannssálir frá dauða til lífs. Af því hann lifir gefur hann kraft Heilags Anda og úthellir honum yfir menn og konur í dag, svo sem við getum séð og heyrt. Af því Jesús er upprisinn og lifir í dag, gerast enn undur og kraftaverk. Sjúkir verða heilbrigðir, illir andar verða að víkja og jafnvel dauðir hverfa aftur til lífsins.
Allt, sem er af eðli eilífa lífsins á samhljóm sinn í Jesú. Fögnum því og gleðjumst yfir sigri lífsins yfir dauðanum. "Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesúm Krist."

    Gleðilega páska!


Við gerð þessarar greinar studdist undirritaður við tvær góðar páskahugvekjur úr Aftureldingu, 1. apríl 1952 og 1. apríl 1955.

Steindór Sigursteinsson


mbl.is „Verðum að breyta um lífsstíl“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það heimska að trúa ekki?

"Og hann sagði við þá: Ó, þér heimskir,
og tregir í hjarta til að trúa öllu því sem
spámennirnir hafa talað. Og hann byrjaði
á Móse og á öllum spámönnunum, og út-
lagði fyrir þeim í öllum ritningunum það
er hljóðaði um hann". Lúk. 24, 25—27.

    Er það heimska að trúa ekki þegar fólk segir að það sé heimska að trúa? Við heyrum fólk oft tala um þá sem trúa, eins og þeir væru einfeldningar. En Jesús segir, að þeir séu heimskir, sem ekki trúa og að lærisveinarnir væru heimskir, af því þeir trúðu ekki öllu, sem spámennirnir höfðu talað. Í dag mætum við mjög víða þeirri skoðun, að aðeins heimskingjar trúi öllu, sem Biblían segir.

    Jesús vildi, að lærisveinarnir tryðu, ekki aðeins því sem spámennirnir sögðu, en einnig Mósebókunum. Athugum það, Jesús sagði lærisveina sína heimska, af því þeir trúðu ekki Mósebókunum, bókum, sem nú eru stranglega gagnrýndar. Jesús gagnrýndi lærisveinana af því þeir trúðu ekki öllu, sem hann sagði þeim persónulega. Hann hafði sagt þeim fyrir um allt, er mundi koma fram. Hann spurði þá, hvers vegna þeir tryðu ekki því, sem hann hefði sagt þeim fyrir um, og björguðu sér þannig frá áhyggjum og sorg. Ef við höldum ekki fast við Guðs Orð, eins og það er skrifað í Biblíunni, höfum við engan raunverulegan grundvöll að byggja á. Í dag er það verk Satans að telja fólki trú um, að Biblían sé fölsuð.

    Þegar Jesús vildi sannfæra lærisveinana um, að hann væri upprisinn, leitaði hann staðfestingar frá Guðs Orði. Við getum verið viss um, að Jesús gat gefið næga staðfestingu um upprisu sína án Biblíunnar, en hann notaði einmitt Biblíuna við þetta tækifæri. Hann sýndi þeim naglaförin í höndum og fótum, og sagði þeim að snerta líkama sinn, til að fullvissa þá um, að hann væri ekki andi. Okkur getur fundist að þetta væri næg staðfesting á upprisunni. En Jesús stansaði ekki þar, þessi staðfesting var ekki fullnægjandi til að styrkja trú þeirra eftir himnaför hans, þegar þeir gátu ekki séð hann og snert hann lengur. Þess vegna reyndi Jesús að binda trú þeirra við Orð Guðs, sem þeir höfðu á meðal sín, þegar hann var farinn.

     Það er dásamlegt að hugsa um, að þótt hinn upprisni Frelsari bæri með sér hina fullkomnu staðfestingu á upprisunni, útskýrði hann með krafti upprisunnar bækur Móse, sálmana og spámennina. Þegar Biblíu-gagnrýnendur segja okkur, að Móse hafi ekki ritað bækur sem kenndar eru við hann, og á þann hátt reyna að grafa undan trú okkar, þá látum okkur minnast, að Jesús nefndi Móse höfund þeirra og varði trúna á Gamla testamentið með sínum eigin myndugleika, lofað sé nafn hans. Nýja testamentið staðfestir, að lærisveinarnir trúðu á upprisu Krists, og á ritningarnar.

Endurbirt grein úr Aftureldingu 1. október 1945.

Höfundur: Levi Petrus.


mbl.is Messað við sólarupprás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á söfnuður Guðs að vera?

Helgaður Drottni. Verið heilagir, því ég er heilagur, segir Drottinn. Minn lýður á að vera heilagur lýður, segir Guð. En hvernig geta menn verið heilagir í þessum synduga heimi?
     Það getur enginn í eiginn krafti, heldur í krafti Guðs. Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerndi Krists, því það er kraftur Guðs, til hjálpræðis, öllum þeim sem trúa, segir Páll postuli.
     Það er eini vegurinn til helgunar, að heyra fagnaðarerindi Krists og varðveita það. Af því að Guð segir: Verið heilagir, þá ber okkur að vera það, því að Jesús er heilagur. Og honum eigum við að lifa, sem fyrir okkur er dáinn og upprisinn.
     Þegar Jesús bað fyrir lærisveinum sínum, áður en hann leið, þá sagði hann þessi yndislegu orð í bæninni: " því er hið eilífa líf fólgið, að þeir þekki þig hinn eina sanna Guð og þann, sem þú sendir, Jesúm Krist.... Helga þú þá í sannleikanum, þitt orð er sannleikur". Og enn segir Jesús: "Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem trúa á mig fyrir orð þeirra. Allir eiga þeir að vera eitt, eins og þú, Faðir, ert í mér og ég í þér, eiga þeir einnig að vera í okkur, til þess að heimurinn skuli trúa, að þú hafir sent mig". Jóh. 17:22,21

LíKAMI KRISTS. Hver meðlimur í söfnuði Guðs verður að vera limur á líkama Krists, Kristur er höfuð safnaðar síns, en við erum limir á líkama hans. Eins og allur líkami mannsins þarf að vera heilbrigður, til þess að maðurinn geti unnið sitt starf, eins þarf hver meðlimur í söfnuði Guðs að vera frelsaður frá syndinni og frá öllum afleiðingum hennar, til að geta þjónað Drottni í öllum störfum sínum.
     Jesús var fullkominn í öllum sinum verkum og gaf okkur hina fullkomnustu fyrirmynd til að breyta eftir. En það geta ekki nema þeir, sem af Andanum eru fæddir, því að hyggja holdsins er dauði, en hyggja Andans er líf og friður. En þér eruð ekki holdsins, heldur Andans menn, svo framarlega sem Andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki Anda Krists, þá er sá ekki hans, segir postulinn. Róm. 8,9. Jóhannes skírari var sendur af Guði til Gyðinganna, til að skíra iðrunarskírn, til fyrirgefningar syndanna. Jóhannes vitnaði fyrir fólkinu um Jesú og sagði: Eftir mig kemur sá, sem mér er meiri, og er ég ekki verður þess að leysa skóþveng hans. — Hann mun skíra yður í Heilögum Anda.
     Svo kom Jesús fram. HANN, sem er ljómi dýrðar Guðs og ímynd veru hans. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum, sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn. Þeim, sem trúa á nafn hans, sem ekki eru af blóði né holds vilja, né af manns vilja, heldur af Guði getnir. Jesús sagði: Enginn getur komið til mín, nema Faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.
     En Andinn Heilagi er gefinn til þess, að leiða alla að krossi Krists, sem ákalla hann; því að Jesús er staðgöngumaður vor hjá Föðurnum, og öllum er boðið að koma til hans og verða aðnjótandi himneskrar gleði og blessunar, sem hann hefur að gefa öllum sem vilja gefa honum hjarta sitt og líf.
     Hvernig eiga Guðs börn að sýna trú sína í verkunum? Jesús sagði við Gyðingana: "Ef Guð væri faðir yðar, þá elskuðuð þér mig, því að frá Guði er ég kominn og enginn hefur elskað eins og hann. út genginn". Jóh. 8,42. Elskum hann umfram allt, því að "Hver sem elskar mig, mun varðveita mitt orð, og Faðir minn mun elska hann, og til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum", segir Jesús. Jóh. 14,23. — Og sá, sem elskar Jesúm á líka að elska bróður sinn.

TRÚIN Á JESÚM. Ef við játum syndir okkar fyrir HONUM, þá fyrirgefur Guð okkur syndirnar og blóð Jesú Krists Guðs sonar hreinsar okkur af allri synd. Göngum því trúarörugg að hástóli náðarinnar og tökum á móti því, sem Jesús vill gefa. "Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til þess að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur", segir Páll postuli. Eins og Jesús gat frelsað Pál, sem ofsótti söfnuð Guðs, eins getur hann frelsað alla, sem koma til hans og ákalla hans heilaga nafn. Því að hver sem ákallar nafn Drottins mun frelsast, segir Guðs orð.
     Og þá, sem Jesús frelsar, leiðir hann inn á nýjan veg og gefur þeim heilnæma fæðu, gefur þeim brauð lífsins, sem er hans Heilaga orð.
En það voru margir, sem ekki vildu trúa, og Jesús sagði eitt sinn við Gyðingana: Ef þér trúið ekki að ég sé sá, sem ég er, þá munuð þér deyja í syndum yðar.
     Það eru margir enn í dag, sem ekki trúa á Jesúm og eiga ekki nöfn sín innrituð í himninum, því að enginn hefur rétt til að kallast Guðs barn, nema sá, sem trúir á Jesúm, sem sinn persónulega Frelsara, og hefur meðtekið hann í lifandi trú. En enginn maður getur tekið neitt, nema honum sé það gefið af himni, sagði Jóhannes skírari við lærisveina sína. Sjá: Jóh. 1, 27-30.
     Af náð eruð þér hólpnir orðnir, fyrir trú, en það er ekki yður að þakka, heldur Guðs gjöf, segir postulinn Páll. Efesus 2,8. "Sæll ert þú, Símon Jónasson, Því hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur Faðir minn í himnunum", sagði Jesús, þegar Símon vitnaði um, að Jesús væri Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Hefði Símon gefið þessa játningu eftir eigin hyggjuviti, þá hefði Jesús ekki getað sagt hann sælan; því enginn getur orðið sæll af mannlegri þekkingu eða eigin hyggjuviti, heldur aðeins fyrir trúna á Guðs opinberaða Orð. En trúin kemur fyrir boðunina, en boðunin byggist á orði Guðs.

Við gerð þessarar hugvekju stiklaði undirritaður á stóru í grein í Aftureldingu 1. júní 1949.

Steindór Sigursteinsson


mbl.is Biskup ræðir þjóðmálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvekja um persónu og líf Jesú Krists

Nú í dag, á föstudaginn langa, finnst mér við hæfi að hugleiða aðeins persónu Jesú Krists, eiginleika hans og ástæðu þess að hann kom til jarðar sem lítið barn.

Þegar Jesús var að koma að lokum þriggja ára þjónustu sinnar hér á jörðu, sendu æðstu prestarnir og farísearnir þjóna til að handtaka hann. Þeir komu til baka tómhentir, þeir höfðu ekki handtekið Jesúm. Vitnisburður þeirra sýndi að þeir höfðu orðið tilfinningalega, siðferðislega og andlega snertir af nærveru Jesú og því sem hann hafði að segja. Þegar þeir voru spurðir: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?" þá svöruðu þeir: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig." Með því að heyra í Kristi og finna máttinn í orðum hans, fylltust þeir slíkri lotningu á honum og ótta, að þeir gátu ekki handtekið hann.

Hann hafði eiginleika eins og: siðferðileg heilindi og guðlegt réttlæti, sem gerðu hann ólíkan öllum öðrum mönnum, ólíkan rabbínunum, kennimönnum Gyðinga, og spámönnunum sem voru sendir af Guði. Það sem hann hélt fram og kenndi fór langt fram úr því sem rabbínarnir höfðu fram að færa. Kennsla hans var þrungin sannleika og einlægri ást á Guði. Hann var heill, heilagur á öllum sviðum lífs síns, hann hafði samúð með þeim sem höfðu fallið á einhvern hátt, eins og til dæmis tollheimtumönnum og bersyndugum. Hann bauð þeim fyrirgefningu sína.

Þekking hans á lögmálinu, jafnvel þegar hann var aðeins 12 ára, gerði rabbínana forviða. Jesús átti ríkt bænasamfélag við Guð, hann beið hljóðlega og hæversklega en með krafti, hann fór oft upp á fjall til að biðjast fyrir. Kraftaverkin sem hann gerði tóku fram úr þeim kraftaverkum sem Elía og Elísa spámenn gerðu, þvílík kraftaverk höfðu ekki sést í Ísrael í 15 aldir síðan brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi átti sér stað. Þrátt fyrir það kallaði hann sjálfan sig hógværan og hann hrokaðist ekki upp.

Þótt hann væri maður, var hann einstakur og aðgreindur frá öllum öðrum. Persónu­eiginleikarnir sem hann bjó yfir og verkin sem hann gerði sýndu svo ekki varð um villst að hann var Messías sem lofað hafði verið og koma átti í heiminn. Þessir eiginleikar voru hans fullkomlega siðferðislega heill persónuleiki. Hann var Messías, og hann var í heiminum; orðin hans, gerðir hans og hvernig hann lifði lífinu staðfestu guðlegt hlutverk hans og stöðu. Í Guðs orði, Jóhannesarguðspjalli 1:10-12, stendur: "Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim er trúa á nafn hans."


Við skulum líta aðeins á fæðingu hans.

Fæðing hans var einstök. Lúkasarguðspjall 1:26-35. a) Hann var fæddur af mey sem Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um 700 árum áður. b) Hann fæddist í Betlehem samkvæmt spádómi Míka 700 árum áður. c) Fæðing hans var kunngjörð af englum. d) Hann fæddist nokkrum vikum eftir fæðingu Jóhannesar, sem engillinn Gabríel sagði um að væri sá sem myndi ryðja brautina fyrir hann. e) Vitringar komu að veita honum lotningu þegar hann lá í jötu. f) Fæðing hans var kunngjörð með stjörnu sem birtist á himni. g) Herskarar engla lofuðu Guð við fæðingu hans. h) Heródes reyndi að myrða hann. i) Fæðingu hans var fagnað af Símeon og Önnu sem sögðu hann vera Messías. í) Fyrir fæðingu hans gaf engill honum nafnið Jesús, sem þýðir Guð frelsar.

Að lokum er hérna ljóð eftir Helga Hálfdánarson.


     Velkominn vertu,
     vor Immanúel,
     ástgjöf sú ertu,
     allt sem bætir vel
     böl, er hjörtu hrjáir,
     haldin eymd og synd,
     hvíld, er þreyta þjáir,
     þyrstum svalalind.
     Jesú góði, þökk sé þér,
     þig að bróður fengum vér,
     þitt oss blóðið lífgjöf lér,
     ljóminn Guðs og mynd.

Kirkjusöngbók, sálmur 71.2.

Steindór Sigursteinsson.

 


mbl.is Þjást til að öðlast fyrirgefningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðing um krossfestingu Jesú Krists í tilefni páskahátíðarinnar

Núna, á föstudaginn langa, þegar kirkjan heldur upp á og heiðrar þján­ingu Frels­arans og dauða hans á krossi og upp­risu, er vert að minnast þess sem Jesús Kristur gerði fyrir okkur.

Hann hafði verið svikinn af einum læri­sveina sinna, Júdasi Ís­kar­íot. Vinir hans, hinir læris­veinarnir, höfðu yfirgefið hann af hræðslu við að þeir kynnu líka að verða handteknir og þeim refsað ef þeir reyndu að koma honum til hjálpar. Hann hafði verið yfirheyrður af öldungaráði lýðsins, æðstu prestunum og fræði­mönn­unum sem dæmdu hann dauða sekan. Þeir fengu lýðinn til að samþykkja að hann yrði kross­festur þegar Pontíus Pílatus vildi bjóða þeim að hann yrði látinn laus í stað Barnabasar sem var ræningi. En það var hefð fyrir því hjá Pílatusi að frelsa einn bandingja á páskunum.

Við þekkjum flest frásögnina af því hvað gerðist eftir það. Hann var hýddur með gaddasvipu höggin 40, þyrni­kóróna var sett á höfuð hans, hann var látinn bera kross sinn til Golgatahæðar, en hann kiknaði undan byrðinni og maður að nafni Símon var látinn bera kross Jesú síðasta spölinn til aftökustaðarins. Þar á Golgatahæð var hann krossfestur, rómverskir hermenn ráku nagla í gegnum hendur hans og fætur og síðan var hann látinn hanga á krossinum. Eftir nokkurn tíma, um nón, gaf hann upp andann.

Jesú Kristur gerði þetta allt fyrir okkur. Hann vildi að við fengjum í gegnum fórnar­dauða hans eilíft líf og fyrirgefningu synda okkar. Hann gerðist staðgengill fyrir okkur. Við áttum skilda refsingu fyrir það illa sem við höfðum gert, en hann tók á sig refsingu okkar. Hann býður okkur öllum að koma til sín, taka trú á hann og fá hjá honum fyrirgefningu synd­anna og eilíft líf. Jóhannes postuli segir svo fallega í guðspjalli sínu: "Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver, sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf." Jóh 3:16.

Nafnið JESÚS þýðir Frelsarinn. Nafnið, sem honum var gefið af Guði, áður en hann var fæddur. "Eigi er heldur annað nafn undir himninum, er menn kunna að nefna, er oss sé ætlað fyrir hólpnum að verða". Post 4,12b. Einasti möguleikinn til frelsis fyrir alla menn er að þeir líti upp til Krists í trú. Og “í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði”, eins og stendur í Efesus 3,12b. En það er miklu meira í friðþægingarverki Krists en fyrirgefning syndanna. Þessi Jesús er Frelsarinn, sem frelsar okkur frá allri synd. Hann er Sigurvegarinn, sem gefur þann kraft, sem þarf til að lifa sigrandi lífi. Aðeins að við lítum upp til hans, því TRÚ VOR, hún ER SIGURAFLIÐ, sem hefur sigrað heiminn.

En lítum nú til hans, sem negldur er þar á krossinn á Golgata, með þyrnikórónu á höfðinu. Blóðið streymir úr sárum hans. Hver dropi er dýrmætur, því að það er líf Guðssonarins, sem gefið er í syndafórn. Hann er hlýðinn allt fram í dauðann á krossinum. Hann leið ekki aðeins líkamlegar kvalir, heldur miklu meira. Þegar hann tók syndir okkar á sig, þá sneri Guð sér frá honum, því að synd mannkynsins kom þá upp á milli hans og Guðs. Hann hrópaði í angist sinni á krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig”.

Kristur var þarna gerður að synd vor vegna, og þess vegna varð hann yfirgefinn af Guði. En um leið og hin kalda hönd dauðans kramdi hjarta hans til dauða, gat hann sigri hrósandi hrópað: „Það er fullkomnað! Faðir í þínar hendur fel ég anda minn!" Þá skelfdist himinn og jörð, sólin varð svört eins og hærusekkur og björgin klofnuðu. Einnig fortjaldið í musterinu rifnaði frá ofanverðu og allt niður í gegn.

Þá opnaðist hinn nýi og lifandi vegur alla leið inn í himininn. Þessi vegur byrjar þarna við Golgata og þegar maðurinn kemst til lifandi trúar á Krist, sem Frelsara sinn, þá fær hann að reyna sannleika þeirra orða, að Kristur er Vegurinn, og ef hann gengur Veginn, kemst hann heim til himna að lokum. En frásögn ritn­inganna endar ekki þarna því dauðinn fékk ekki haldið syni Guðs. Eftir dauða Jesú á kross­inum reis hann upp frá dauðum á þriðja degi. Að lokum eru hérna orð Krists í Jóhannes 11,25: "Jesús mælti: "Ég er upp­risan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi."

Steindór Sigursteinsson.


mbl.is Hvöss norðanátt og blint til aksturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

JESÚS EINSTÆDASTI PERSÓNULEIKI ALLRAR SÖGU

„Hvað virðist yður um Krist". Þannig spyr Jesús í Matt. 22:42. Margir hafa svarað þessari spurningu, og fyrr eða seinna þurfum við öll að gefa svör við því, hvað okkur virðist um Hann. Svar mitt er það, að Jesús Kristur, sem er Messías, Sonur Guðs, er einstæðasti persónuleiki allrar sögu. Það er enginn sem Hann. Hann er guðdómlegur." Hvers vegna er hann einstæðasti persónuleiki sögunnar? Látum okkur segja, vegna hans guðdómlegu fæðingar, vegna hans guðdómlega lífs og kenninga, vegna verka hans og guðdómlegs dauða.

FÆÐING JESÚ VAR ÖÐRUVÍSI EN ANNARRA. Líf Jesú byrjaði ekki við jarðneska fæðingu hans. Fæðing hans á jörðu var aðeins einn þáttur í lífi hans. Hann hafði alltaf lifað. En fyrir meira en nítján hundruð árum, steig hann niður frá hásæti sínu í himnum og tók á sig mannlega mynd. Yfir þrjátíu ár lifði hann mennsku lífi. hér í heimi. Eftir það hvarf hann aftur heim til Guðs. Og þar er hann nú. Um þetta farast Biblíunni orð á þessa leið: „Hann áleit það ekki rán að vera jafn Guði, þótt hann væri í Guðs mynd, heldur afklæddist henni, er hann tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur, og er hann kom fram að ytra hætti sem maður, lítillækkaði hann sjálfan sig og varð hlýðinn allt fram í dauða, já fram í dauða á krossi. Fyrir því hefur Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafninu Jesú skuli hvert kné beygja sig, þeirra sem eru í himni, og þeirra sem eru á jörðu, og þeirra sem undir jörðinni eru, og sérhver tunga viðurkenna, að Jesús Kristur sé Drottinn, Guði föður til dýrðar. (Filip. 2:6-11). Enginn annar er fæddur á þennan hátt. Ennfremur var Jesús fæddur af hreinni mey. Hann átti engan jarðneskan föður. Hann var getinn af Heilögum Anda. Hann viðurkenndi engan annan en Guð, sem föður sinn. Þess vegna hef ég fulla djörfung til að segja, að fæðing Jesú var einstæð.

LÍF JESÚ VAR ÖÐRUVISI EN ANNARRA. Hann var hafinn yfir synd, syndgaði aldrei. Það bar aldrei við, að hann féll fyrir freistingu. Hann eggjaði óvini sína til að sanna á sig synd. í einu og öllu var líf hans hreint og lýtalaust. Hve þetta er gersamlega ólíkt mínu og þínu lífi ! Jesús þekkti líf sitt fyrir fram . Hann sagði fyrir um þjáningar sínar, dauða sinn og upprisu. í smáatriðum gat hann talað um það, sem mundi mæta honum. En þótt hann vissi þetta allt fyrir fram , hvarflaði það ekki að honum að smeygja sér undan þeim miklu þjáningum, er lágu fyrir honum. Hversu ólíkt er þetta okkur! Í fyrsta lagi þekkjum við ekki framtíð okkar. Og í öðru lagi: ef við vissum, hvað okkur mundi mæta, reyndum við að komast hjá að mæta því, sérstaklega ef um erfiðleika og þrengingar væri að ræða. Jesús er allt öðruvísi. Með upplyftu enni gengur hann rakleitt til krossins. Veist þú, hvenær þú átt að deyja? Auðvitað ekki. En Jesús vissi það. Þessi þekking, sem hann átti um sjálfan sig, gerir hann að einstæðasta persónuleika allrar sögu.

KENNING HANS VAR ÖÐRUVÍSI EN ANNARRA. Jesús vitnaði til Móse, hins mikla löggjafa í Ísrael og sagði: „En ég segi yður". Þannig lyftir Jesús kenningu sinni langt yfir kenningu Móse. Þegar hann var að kenna mætti hann margsinnis andmælum, en aldrei kom það fyrir, að hann brestur rök. Síðustu vikuna, sem hann lifði á jörðinni gerðu skriftlærðir og Farisear ítrekaðar tilraunir til að bera sigurorð af honum. En í hvert skipti gaf hann þeim slík andsvör, að þau klemmdu þá við múrinn. Þeir hnitmiðuðu spurningar sínar við það, að hann hlyti að standa orðlaus gagnyart þeim, en þá voru það þeir sjálfir, sem stóðu orðvana við svörum hans. Það þekkist ekki einn einasti maður, sem hefur talað eins og Jesús. Þegar hann gekk um hér á jörðu í fábreyttum fötum júðsk trésmiðs, voru skriftlærðir Gyðingar þvingaðir til að spyrja: „Hver er þessi maður?" Allir voru slegnir undrun yfir orðum hans og kenningu. Þekking og kenning hans um Guð, mennina og eilífðina var alveg einstæð.

VERK JESÚ VORU|ÖÐRUVISI EN ANNARRA. Hann opinberaði vald sitt yfir náttúrunni. Hann ávarpaði æðandi bylgurnar „Þegi þú, haf hljótt um þig". (Mark. 4,35-41) Hann sýndi vald sitt yfir illum öndim Þegar maðurinn í Gerasena, sem haldinn var illum anda kom æðandi á móti honum, talaðiJesús til hans með máttugum orðum, svo hersing illra anda fór þegar út af manninum á samri stundu. Þannig bar hann .herravald yfir veldi hinna illu anda. (Mark. 5:1-20). Jesús opinberaði mönnunum mátt sinn yfir valdi hvers konar sjúkdóma. Líkþráir menn urðu hreinir við það að hann snerti við þeim. Hann þurfti ekki annað en segja eitt orð, þá vék hitinn úr fárveikum mönnum og þeir urðu heilir. Þegar hann talaði fengu blindir sýn og lamaðir gengu um kring. Fyrir honum var enginn sjúkdómur ólæknandi. Hann var sigurherrann yfir hvers konar sjúkdómum. (Mark 2:1-12) Hann bar sigurorð yfir dauðanum. Nýja testamentið segir frá þremur dæmum um það, er hann vakti menn upp frá dauðum. Getið er um unga stúlku og ungan mann. Hann kallaði þau bæði aftur til lífsins, enda þótt þau væru dáin. í þriðja lagi lesum við um Lazarus, sem dáinn hafði verið í fjóra daga, og komin var nálykt af honum. En fyrir guðdómlegt vald orða Jesú, gekk Lazarus út úr gröfinni. (Jóh. 11:1-44) Á öllum sviðum var vald Jesú ótakmarkað. Hann var herra yfir öllu og öllum. Aldrei, hvorki fyrr né síðar hefur jafningi hans komið fram. Þess vegna er hann einstæðasti persónuleiki allrar sögu.

JESÚS VAR ÖÐRUVÍSI EN AÐRIR.  Hann þurfti ekki að deyja. Hann gaf líf sitt sjálfviljuglega í dauðann. Hann sagði það afdráttarlaust, að hann hefði vald til þess að taka líf sitt aftur, og það gerði hann. Hann hrópaði: „Það er fullkomnað" og gaf upp andann. Jesús óttaðist ekki dauðann. Hann talaði með mikilli djörfung um það, að hann yfirgæfi þennan heim, og færi aftur til Guðs, þaðan sem hann hafði komið. Hann sagði skýrum orðum að hann væri kominn frá. Guði og færi til hans aftur. (Jóh. 13:3) Hann sagðist hafa komið ofan frá himninum og færi til himinsins aftur, eftir upprisu sína. Hann talaði um þá dýrð, er hann hefði átt áður hjá Guði. (Jóh. 17:5) Dauðinn var þannig enginn dauði fyrir hann. Hann fór aðeins aftur til síns upprunalega heimilis. Þess vegna fann hann ekki fyrir ótta, við dauðann. Jesús dó ekki sjálfs sín vegna. Hann dó fyrir aðra. Dauði hans hafði þýðingu fyrir gjörvallt mannkyn. Því að hann bar syndir alls heimsins á líkama sínum upp á tréð. Hann dó í okkar stað. „Drottinn lét misgjörðir vor allra koma niður á honum" (Jes. 53:6). Hann dó til þess að við mættum lifa. Dauði hans var friðþæging fyrir syndir okkar. Þess vegna getur Guð verið náðugur syndugum manni; vegna þess að milliveggurinn, sem skildi okkur frá Guði, er rifinn niður. Þetta gerðist fyrir fórnardauða Jesú Krists. . Enginn hefur dáið á líkan hátt og Jesús. Móse, Konfúsíus, Búdda, Múhammed og allir aðrir trúárbragðahöfundar voru venjulegir menn. Dauði þeirra hafði enga frelsandi þýðingu fyrir aðra. En Guðmennið Jesús Kristur gaf líf og frelsi gjörvöllu mannkyninu með dauða sínum. Það eina sem við þurfum að gera, er að viðurkenna þessa staðreynd. Og ennfremur: Jesús dó ekki til þess að vera dauðanum undirokaður. Nei, Guði sé lof! Hann reis upp aftur. Allir trúarbragðahöfundar þessa heims dóu og dauðínn ríkir yfir þeim líkamlega. Þess vegna geta þeir ekki frelsað nokkurn mann. En Jesús lifir frá eilífð til eilífðar. Það er þess vegna,sem hann er einstæðasti persónuleiki allrar sögu.

Afturelding 1. tölublað 1974.  Höfundur óþekktur.


mbl.is Niðurdýfing í Nauthólsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband