Hver er réttur ófæddra barna í móðurkviði?
15.10.2018 | 18:58
Réttur ófæddra barna í móðurkviði er að heilsu þeirra sé gætt og að þau fái rétt til þess að fá að lifa. Íslensk lög standa ekki vörð um líf og heilsu allra ófæddra barna. Heilbrigðisstarfsfólki er ekki aðeins ætlað að standa vörð um líf fólks og ófæddra barna heldur er það svo að ef vissar félagslegar aðstæður eru fyrir hendi þá er félagsráðgjöfum heimilt að ráðleggja móður eða foreldrum að "láta eyða fóstri". Og fólki innan heilbrigðisþjónustunnar er þá heimilt með undangengnu samþykki móður/foreldra að deyða viðkomandi barn í móðurkviði. Þetta á líka við um ef barn í móðurkviði er greint með einhverskonar fósturgalla eða Downs heilkenni.
Þetta er mikill smánarblettur á íslensku heilbrigðiskerfi og á löggjöf Íslands. Lögin leyfa þetta, jafnvel þótt smávægilegar ástæður liggi þarna að baki.
Í yfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna um réttindi barnsins segir:
"Vegna líkamlegs og andlegs þroskaleysis þarfnast barnið sérstakrar verndar og umhyggju, þar með talið viðeigandi réttarverndar, fyrir fæðingu jafnt sem eftir hana." (Úr inngangi þessarar samþykktar Sameinuðu þjóðanna 1959). Einnig er þar að finna 4. frumregluna sem hljóðar svo: "Barnið skal hafa rétt til heilbrigðs vaxtar og þroska. Í þeim tilgangi skal veita bæði barni og móður sérstaka umhyggju og vernd, þar með talið umönnun bæði fyrir og eftir fæðingu."
Eins flestum er kunnugt hyggst heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir umturna núgildandi löggjöf um fóstureyðingar. Hefur hún lagt fram frumvarp um ný heildarlög um svonefnt þungunarrof þar sem fóstureyðing verður heimiluð fram að lokum 18. viku meðgöngu, en hefur hingað til verið fram að lokum 12. viku í miklum meirihluta tilvika (93,8% árið 2015), en í undantekningartilfellum á 13.-16. viku meðgöngu (4,2% árið 2015). Hefur orðinu fóstureyðing þarna verið breytt í þungunarrof sem er í raun fegrunaryrði. Í drögunum að frumvarpinu verður einnig heimilt að framkvæma fósturvíg eftir 18 viku meðgöngu ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar eins og sagt er. Sagði heilbrigðisráðherra í færslu á Facebook-síðu sinni að frumvarpið tryggi með skýrum hætti sjálfsákvörðunarrétt kvenna til þungunarrofs. Með öðrum orðum þurfa mæður því ekki að gefa neina sérstaka ástæðu fyrir fósturvíginu nema þá eina að þær VILJI það!
Að vilji og hentisemi konu sé nóg til þess að heimila slíka "aðgerð" er að mínu mati fullkomin lítilsvirðing fyrir lífi því sem Guð gefur foreldrum þegar barn er getið í móðurkviði. Þarna er verið að brjóta boðorð Guðs: "þú skalt ekki morð fremja". Það er ekki umhyggja fyrir þeim ófæddu að taka frá þeim lífsréttinn og vega að honum í sjálfum helgustu véum lífsins!
Læknarnir sjálfir eru í raun ekki vanmáttugir að verja ófædd börn því þeir geta neitað að taka þátt í þessu. Þeim ber raunverulega skylda til að skoða hug sinn í hverju læknisverki. En þeim hefur lærst að líta á sig sem þögult verkfæri löggjafans og hafa vanist því. Því miður. Hér er vert að benda á aðalatriðið sem að læknum snýr: Þeim ber ekki skylda til deyða fóstur því fóstureyðing er ekki læknisaðgerð í neinum venjulegum skilningi þess orðs og læknar sem stunda þær ættu að hugleiða alvarlega hvort þeir séu að brjóta læknaeiðinn. Neitun þarf að virða og taka vandræðalaust.
Að síðustu eru hér nokkrar vísindalega sannaðar staðreyndir um mannsfóstur.
Á 1. degi: Getnaður á sér stað. Allir erfðaeiginleikar ákvarðaðir.
Á 17. degi verða blóðkorn fóstursins til.
Á 20. degi er grundvöllur lagður að öllu taugakerfinu.
Á 21. degi slær hjartað.
Á 30. degi er komin regluleg blóðrás innan lokaðs æðakerfis. Eyru og nef byrja að þróast.
Á 42. degi er beinagrind mynduð (fyrst úr brjóski).
Á 56. degi eru öll líffæri starfandi. Úr þessu er aðeins um frekari vöxt að ræða.
Á 65. degi getur barnið kreppt hnefann og grípur um hlut sem strýkst við lófa þess.
Eftir 16. vikur hefur barnið náð hálfri þeirri lengd, sem það mun hafa við fæðingu.
Mættu stjórnvöld og þingmenn á Alþingi fá hugarfarsbreytingu í málum ófæddra barna og samþykkja ekki umrætt frumvarp. Er það skoðun greinarhöfundar að banna ætti fóstureyðingar hér á landi.
Páfi líkti þungunarrofi við leigumorð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.10.2018 kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ekki ætti að innleiða lög um dánaraðstoð hér á landi
22.9.2018 | 11:51
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, ræddi um dánaraðstoð á Alþingi 20. september sl. undir liðnum störf þingsins. Lagði hún fram spurninguna hvort dánaraðstoð sé réttlætanleg þegar fólk glímir við langvarandi og ólæknandi sjúkdóma.
Ég verð að segja að dánaraðstoð, öðru nafni líknardráp, stríðir gegn gegn öllu því sem ég tel vera rétt og samkvæmt góðu siðferði. Í boðorðunum 10 stendur: þú skalt ekki morð fremja. 2 Mósebók 20,13.
Með innleiðingu laga um líknardráp væri verið að lækka þann siðferðisstuðul sem snýr að virðingu fyrir lífinu sjálfu, að enginn skuli hafa vald til þess að stytta líf sitt eða að læknir geti aðstoðað einstakling til þess að deyja.
Læknum ætti ekki að vera gefið það vald að deyða sjúklinga sína, óski sjúklingarnir eftir því. Hlutverk læknis er að líkna og græða hina sjúku, ekki ætti að skikka lækna eða hjúkrunarfólk með lagasetningu til að ganga gegn þessu hlutverki sínu.
Lítil umræða hefur farið fram um dánaraðstoð hér á landi, þar sem lækni er heimilt að hjálpa sjúklingi sem glímir við ólæknandi sjúkdóm að binda enda í líf sitt. Mörgum er kunnugt um líknardeild Landspítalans í Kópavogi sem hægt er að segja að veiti dauðvona sjúklingum sínum líkn og umhyggju með hjálp verkjalyfja og með góðri aðstöðu fyrir aðstandendur til að vera með viðkomandi þegar ævilokin nálgast. Það fyrirkomulag er þakkarvert og til fyrirmyndar.
Líknardráp þykja ekki sjálfsögð almennt séð í Evrópu, því mörg siðferðileg álitamál koma upp þegar málið er skoðað niður í kjölinn. Eitt af þeim er að með lagasetningu sem heimilar líkardráp geta mál þróast svo að umrædd lagasetning verði útvíkkuð til að koma til móts við fleiri en dauðvona sjúklinga. En það er einmitt það sem gerðist í Belgíu. Líknardráp voru lögleidd í Belgíu árið 2002. Þar er ætlast til að tveir óháðir læknar staðfesti nauðsyn dánaraðstoðar í sérhverju tilfelli. Reynslar sýnir að það er í reynd engin trygging fyrir sjálfstæðu mati. hefur framkvæmd laganna færst í átt til víðrar túlkunar og gefa eftirfarandi dæmi innsýn í hvernig því er háttað:
Fyrir nokkru var 45 ára gömlum tvíburabræðrum veitt dánaraðstoð að eigin ósk vegna blindu.
44 ára gömul kona með króníska anórexíu fékk dánaraðstoð og 64 ára gömul kona með krónískt þunglyndi var líflátin að eign ósk, án þess að ástæða þætti til að láta aðstandendur vita.
Samkvæmt frétt á Mbl.is 2. júlí 2015 kemur fram að belgískir læknar hafa komist að þeirri niðurstöðu að 24 ára gömul kona sem hefur þjáðst af þunglyndi frá barnæsku hafi rétt til að binda enda á líf sitt. Þarna hefur hvað leitt af öðru og löggjöf sem fyrst um sinn heimilaði aðeins líknardráp dauðvona fólks hefur þarna verið svo útvíkkuð að jafnvel ungu fólki með þunglyndi er heimilað að binda enda á líf sitt. Nýlega hafa umræður á meðal stjórnmálamanna í Belgíu um það hvort foreldrar eigi að hafa rétt á að veita langveikum eða þroskahömluðum börnum sínum dánaraðstoð.
Fólk hlýtur að geta sammælst um að þessi þróun sé ekki æskileg hér á landi.
Með innleiðingu umræddra laga þá mundi virðing fyrir lífinu á einhvern hátt hraka og freistandi væri fyrir gamalt fólk að fá að stytta líf sitt, jafnvel þótt það eigi marga mánuði eða jafnvel nokkur ár eftir af æfi sinni. Gæti það jafnvel verið vegna lélegs aðbúnaðar sem viðkomandi byggi við eða vegna stolts sem oft einkennir gamalt fólk, þegar viðkomandi hefur samviskubit vegna erfiðleika sem aðstandendur hafa vegna umönnunar þeirra o.fl.
Margt dauðvona fólk t.d. sem haldið er ólæknandi krabbameini metur lífið sem það á eftir afar mikils og því finnst hver dagur sem það fær að lifa dýrmætur.
Steindór Sigursteinsson
https://www.mercatornet.com/articles/view/how_legal_euthanasia_changed_belgium_for_ever
https://krist.blog.is/blog/krist/entry/2212659/
Minntist á málþing um dánaraðstoð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Það er arfavitlaus ákvörðun að staðsetja nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut
9.5.2018 | 21:05
Það er skoðun undirritaðs að stjórnvöld ættu að athuga vel aðra kosti en að byggja upp framtíðaraðstöðu Landspítalans við Hringbraut. Hafa Vífilsstaðir í Garðabæ verið nefndir sem ákjósanleg staðsetning fyrir nýtt hátæknisjúkrahús. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur en með því að byggja við Hringbraut.
Það eru varla rök í málinu að búið sé að eyða hundruðum milljóna í að undirbúa mistök og þess vegna þurfi að klára að gera mistökin. Þegar búið er að taka svona vitlausa ákvörðun þá þurfa menn að hafa hugrekki og þor til að breyta henni.
Ef það er möguleiki á að byggja nýjan flottan Landspítala þar sem allt er glænýtt og í samræmi við þarfir nútímaheilbrigðisþjónustu, hafa hann á góðum stað í fallegu umhverfi, skipuleggja spítalann þannig að hann virki sem öflug heild og gera þetta allt hraðar, hagkvæmar og betur en áður var talið, er þá ekki rétt að skoða það?
Sigmundur Davíð Guðlaugsson sagði 2 kosti í stöðunni á Facebook síðu sinni 2016:
1. Að halda áfram hægvirkum og óhagkvæmum bútasaum við Hringbraut. Endalaus barátta við alkalískemmdir, myglu og gamalt lagnakerfi og úrelt tækni í tugum bygginga og við að tengja það gamla við nýbyggingar til að láta allt virka sem heild. Mikið rask mundi skapast á meðan á byggingarframkvæmdunum stæði. Eftir stendur svo þyrping ólíkra gamalla kassa og nýrra stærri grárra kassa. Þyrping sem stendur utarlega á nesi sem tengt er restinni af höfuðborgarsvæðinu með götum þar sem umferðarteppur eru regla fremur en undantekning.
2. Glænýr heildstæður hátæknispítali, hannaður til að virka sem ein heild og veita umgjörð um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Fallegt hús að innan sem utan á jaðri byggðarinnar, umkringt dásamlegri náttúru og útivistarsvæðum. Húsið mætti byggja hratt með lágmarkstruflun á framkvæmdum og lágmarkstruflun fyrir borgarbúa og fjármagna verkefnið að miklu leyti með sölu á eignum við Hringbraut, eignum sem ganga svo í endurnýjun lífdaga með nýtingu sem hentar svæðinu og styrkja og vernda miðborgina.
Steindór Sigursteinsson
Meirihlutinn haldi málum í gíslingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekki á að skylda konur til þess að ganga í kjólum á vinnustað sínum
9.5.2018 | 18:46
Hingað til hafa konur á Hard Rock Café klæðst skyrtum og buxum, líkt og karlar, en nú fer fyrirtækið fram á að þær klæðist kjólum í stað skyrtna og buxna.
Kemur krafan frá stjórnendum fyrirtækisins að utan. Leituðu starfsmenn til Stéttarfélags síns Eflingar vegna þessa.
Ég verð að segja að ég aðhyllist ekki feminískar skoðanir. En að skylda konur til þess að ganga í kjólum við vinnu á vinnustað sínum samræmist ekki Íslenskum hugsunarhætti. Slíkar einstrengingslegar kröfur varðandi kvennkyns starfsmenn á Hard Rock Café er ekki í anda umburðarlyndrar og frjálslegrar menningar Íslendinga.
Kjólakrafan kemur að utan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við styðja við eigin búvöruframleiðslu með tollvernd
3.5.2018 | 22:03
Eins og kunnugt er tók tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins gildi 1. maí sl. Felur samningurinn í sér að tollur af rúmlega 340 vörutegundum verði felldir niður. Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði á Alþingi í dag að í nýgerðum tollasamningi halli verulega á Íslenskan landbúnað og að samningurinn bjóði upp á mikið ójafnvægi.
Þingmenn Miðflokksins hafa gagnrýnt umræddan tollasamning um tíma. Lagði flokkurinn fram þingsályktunartillögu í síðasta mánuði þess efnis að samningnum yrði sagt upp. Í greinargerð tillögunar er sagt að skortur sé á úttekt á áhrifum samningsins á innlenda framleiðslu búvara. Enn fremur segir að samningurinn sé óhagstæður, þar sem hann heimili mun meiri innflutning ákveðinna búvara til Íslands frá Evrópusambandinu en frá Íslandi til Evrópusambandsins.
Bændur hafa um langt skeið gagnrýnt þverrandi virkni tollverndar fyrir íslenskan landbúnað. Á Búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands 5. mars sl. komu fram miklar áhyggjur af tollasamingum sem gerðir voru við ESB á árunum 2007 og 2015. Í ályktun á Búnaðarþingi um tollamál er ætlast til að ríkisstjórn Íslands og Alþingi taki stöðu með innlendri matvælaframleiðslu með því að styrkja tollvernd íslensks landbúnaðar. Verði samningum við ESB um tollfrjálsa kvóta fyrir landbúnaðarafurðir frá árunum 2007 og 2015 sagt upp vegna breyttra forsenda.
Varðandi aðgerðir vegna dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk leggja bændur höfuðáherslu á að íslensk löggjöf tryggi áfram vernd heilsu manna og dýra með bestu mögulegu aðferðum til að vernda innlenda búfjárstofna, koma í veg fyrir fjölgun matarsýkinga og aukningu á sýkingum af völdum sýklalyfjaónæmra baktería. Fara bændur fram á að niðurstaða EFTA-dómstólsins í málum E-2/17 og E-3/17 frá 14. nóvember 2017 verði ekki innleidd óbreytt. Verði það gert með samningaviðræðum við Evrópusambandið. Enn fremur verði leitað allra leiða til að nýta heimildir til að leggja tolla á innfluttar búvörur sem einnig eru framleiddar hér á landi.
Tilgangur tollverndar er að jafna stöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innfluttri. Á Íslandi er hún meðal annars notuð til að styðja við fjölbreytta framleiðslu úr íslenskri sveit, þar sem hreinleiki umhverfisins er ótvíræður, sjúkdómar fáir, sýklalyfjanotkun þar af leiðandi í lágmarki og ekki má gleyma þvi að innlendur landbúnaður er ákaflega þýðingarmikill vegna þeirra starfa sem hann skapar í byggðum landsins. Ekkert af þessu er sjálfgefið og byggir meðal annars á því að tollverndin sé fyrir hendi.
Allar þjóðir sem við berum okkur saman við styðja eigin búvöruframleiðslu með tollvernd að meira eða minna leyti. Rökin eru einkum þau að hagsmunir neytenda séu ekki fólgnir í því að veikja innlenda matvælaframleiðslu með auknum innflutningi á mat sem hægt er að framleiða í heimalandinu. Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði. Engin þjóð vill alfarið treysta á innflutt matvæli enda sýnir reynsla annarra þjóða að slíkt leiðir á endanum til hærra verðs, þegar aðrir kostir en innflutningur eru ekki lengur í boði.
Merkileg ályktun var gerð á þinginu um innkaupastefnu opinberra aðila. Því er beint til fjármálaráðuneytis að endurskoða innkaupastefnu ríkisins og lög um opinber innkaup með það að markmiði að opinberar stofnanir skuli velja innlend matvæli þar sem því verður við komið. Það gæti skipt verulegu máli fyrir innlenda matvælaframleiðslu ef hér verður hugarfarsbreyting. Áætlað er að opinberar stofnanir íslenska ríkisins noti um 150 milljarða króna í innkaup á hverju ári og 300 milljarða ef sveitarfélög eru meðtalin. Með aukinni áherslu á innlend matvæli í innkaupastefnu ríkisins yrði samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar styrkt.
Við gerð þessa pistils studdist undirritaður við leiðara Bændablaðsins 16. janúar 2015 og við 2 greinar úr samnefndu blaði 8. mars 2018.
http://www.bbl.is/frettir/skodun/leidari/tollverndin-virkar/5895/
http://www.bbl.is/files/pdf/bbl.-5.tbl.2018_web.pdf
Steindór Sigursteinsson
Felldu niður tolla á 340 vöruliðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvernig á söfnuður Guðs að vera?
1.4.2018 | 13:28
Helgaður Drottni. Verið heilagir, því ég er heilagur, segir Drottinn. Minn lýður á að vera heilagur lýður, segir Guð. En hvernig geta menn verið heilagir í þessum synduga heimi?
Það getur enginn í eiginn krafti, heldur í krafti Guðs. Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerndi Krists, því það er kraftur Guðs, til hjálpræðis, öllum þeim sem trúa, segir Páll postuli.
Það er eini vegurinn til helgunar, að heyra fagnaðarerindi Krists og varðveita það. Af því að Guð segir: Verið heilagir, þá ber okkur að vera það, því að Jesús er heilagur. Og honum eigum við að lifa, sem fyrir okkur er dáinn og upprisinn.
Þegar Jesús bað fyrir lærisveinum sínum, áður en hann leið, þá sagði hann þessi yndislegu orð í bæninni: " því er hið eilífa líf fólgið, að þeir þekki þig hinn eina sanna Guð og þann, sem þú sendir, Jesúm Krist.... Helga þú þá í sannleikanum, þitt orð er sannleikur". Og enn segir Jesús: "Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem trúa á mig fyrir orð þeirra. Allir eiga þeir að vera eitt, eins og þú, Faðir, ert í mér og ég í þér, eiga þeir einnig að vera í okkur, til þess að heimurinn skuli trúa, að þú hafir sent mig". Jóh. 17:22,21
LíKAMI KRISTS. Hver meðlimur í söfnuði Guðs verður að vera limur á líkama Krists, Kristur er höfuð safnaðar síns, en við erum limir á líkama hans. Eins og allur líkami mannsins þarf að vera heilbrigður, til þess að maðurinn geti unnið sitt starf, eins þarf hver meðlimur í söfnuði Guðs að vera frelsaður frá syndinni og frá öllum afleiðingum hennar, til að geta þjónað Drottni í öllum störfum sínum.
Jesús var fullkominn í öllum sinum verkum og gaf okkur hina fullkomnustu fyrirmynd til að breyta eftir. En það geta ekki nema þeir, sem af Andanum eru fæddir, því að hyggja holdsins er dauði, en hyggja Andans er líf og friður. En þér eruð ekki holdsins, heldur Andans menn, svo framarlega sem Andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki Anda Krists, þá er sá ekki hans, segir postulinn. Róm. 8,9. Jóhannes skírari var sendur af Guði til Gyðinganna, til að skíra iðrunarskírn, til fyrirgefningar syndanna. Jóhannes vitnaði fyrir fólkinu um Jesú og sagði: Eftir mig kemur sá, sem mér er meiri, og er ég ekki verður þess að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður í Heilögum Anda.
Svo kom Jesús fram. HANN, sem er ljómi dýrðar Guðs og ímynd veru hans. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum, sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn. Þeim, sem trúa á nafn hans, sem ekki eru af blóði né holds vilja, né af manns vilja, heldur af Guði getnir. Jesús sagði: Enginn getur komið til mín, nema Faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.
En Andinn Heilagi er gefinn til þess, að leiða alla að krossi Krists, sem ákalla hann; því að Jesús er staðgöngumaður vor hjá Föðurnum, og öllum er boðið að koma til hans og verða aðnjótandi himneskrar gleði og blessunar, sem hann hefur að gefa öllum sem vilja gefa honum hjarta sitt og líf.
Hvernig eiga Guðs börn að sýna trú sína í verkunum? Jesús sagði við Gyðingana: "Ef Guð væri faðir yðar, þá elskuðuð þér mig, því að frá Guði er ég kominn og enginn hefur elskað eins og hann. út genginn". Jóh. 8,42. Elskum hann umfram allt, því að "Hver sem elskar mig, mun varðveita mitt orð, og Faðir minn mun elska hann, og til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum", segir Jesús. Jóh. 14,23. Og sá, sem elskar Jesúm á líka að elska bróður sinn.
TRÚIN Á JESÚM. Ef við játum syndir okkar fyrir HONUM, þá fyrirgefur Guð okkur syndirnar og blóð Jesú Krists Guðs sonar hreinsar okkur af allri synd. Göngum því trúarörugg að hástóli náðarinnar og tökum á móti því, sem Jesús vill gefa. "Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til þess að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur", segir Páll postuli. Eins og Jesús gat frelsað Pál, sem ofsótti söfnuð Guðs, eins getur hann frelsað alla, sem koma til hans og ákalla hans heilaga nafn. Því að hver sem ákallar nafn Drottins mun frelsast, segir Guðs orð.
Og þá, sem Jesús frelsar, leiðir hann inn á nýjan veg og gefur þeim heilnæma fæðu, gefur þeim brauð lífsins, sem er hans Heilaga orð.
En það voru margir, sem ekki vildu trúa, og Jesús sagði eitt sinn við Gyðingana: Ef þér trúið ekki að ég sé sá, sem ég er, þá munuð þér deyja í syndum yðar.
Það eru margir enn í dag, sem ekki trúa á Jesúm og eiga ekki nöfn sín innrituð í himninum, því að enginn hefur rétt til að kallast Guðs barn, nema sá, sem trúir á Jesúm, sem sinn persónulega Frelsara, og hefur meðtekið hann í lifandi trú. En enginn maður getur tekið neitt, nema honum sé það gefið af himni, sagði Jóhannes skírari við lærisveina sína. Sjá: Jóh. 1, 27-30.
Af náð eruð þér hólpnir orðnir, fyrir trú, en það er ekki yður að þakka, heldur Guðs gjöf, segir postulinn Páll. Efesus 2,8. "Sæll ert þú, Símon Jónasson, Því hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur Faðir minn í himnunum", sagði Jesús, þegar Símon vitnaði um, að Jesús væri Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Hefði Símon gefið þessa játningu eftir eigin hyggjuviti, þá hefði Jesús ekki getað sagt hann sælan; því enginn getur orðið sæll af mannlegri þekkingu eða eigin hyggjuviti, heldur aðeins fyrir trúna á Guðs opinberaða Orð. En trúin kemur fyrir boðunina, en boðunin byggist á orði Guðs.
Við gerð þessarar hugvekju stiklaði undirritaður á stóru í grein í Aftureldingu 1. júní 1949.
Steindór Sigursteinsson
Biskup ræðir þjóðmálin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvaða þýðingu hefur kristið heimili ?
28.1.2018 | 11:45
Endurbirt grein úr aftureldingu 1. mars 1968.
Oskar Nilsson, félagsmálráðherra: Fyrstu mánuðina af ævi barnsins, tekur barnið inn til sín andrúmsloft heimilisins. Þau áhrif verða grundvallandi og einkennir meir og meir hinn verðandi mann í öllu, sem lýtur að rétti, sannleika, kærleika og réttlætistilfinningu. Vísast er áminninga þörf, en hitt hefur þó miklu meira að segja, áhrifin frá því heimili sem einkennist af guðhræðslu og bæn. Þetta er andlegur arfur, sem þroskast því meir með barninu og unglingnum, sem árin líða. Hvernig sem lífsvegurinn formar sig, verður andlegi arfurinn lifandi raunveruleiki hjá öllum.
Í hverju þjóðfélagi er hvert kristið heimili eins og lind ljóss og kraftar, sem ómögulegt er að meta að verðleikum.
Birgit Palm, frú: Það er ómögulegt að meta það of hátt. Dæmin frá sögu kristninnar eru svo fjölmörg, sem renna rökum undir mikilvægi kristins heimilis. Og sjálf hef ég innlifað blessanir þess sem kristið bernskuheimili veitir.
Mikið er undir því komið, að foreldrarnir í kristnu heimili hafi næma ábyrgðartilfinningu gagnvart skyldum sínum við börnin. Fordæmi foreldranna og uppfræðsla hefur oftast nær úrslita þýðingu á viðhorf barnsins til flestra hluta í lífinu.
Frú Booth, kona stofnanda Hjálpræðishersins, var eitt sinn spurð, hver væri leyndardómur þess, að hún hefði unnið öll börn sín til lifandi trúar á Jesúm Krist? Hún svaraði: Ég setti mér alltaf það markmið, að verða á undan Satan."
Það besta, sem við getum gefið börnum okkar, er ekki alltaf það sem þau óska sér. Nei, það er að gefa þeim kristið heimili.
Birger Andréen, forstöðumaður: Í raun og sannleika getur engin mannleg tunga sagt hve svimháa þýðingu kristið heimili hefur. Sérhverju heimili mæta margvíslegar áhyggjur. Þetta er gangur lífsins. Að hugsa sér þá, hvílíka þýðingu það hefur að geta varpað öllum áhyggjum sínum á Drottin! Heimili getur verið fátækt, en það er auðugt, ef Guð er miðdepill þess. Það dreifir skuggum fátæktarinnar.
Þau börn eru hamingjusöm sem alast upp í kristnu heimili. Persónuiega get ég játað það, að guðsótti móður minnar hefur fylgt mér og orðið mér til stöðugrar blessunar allt lífið.
Á umliðnum árum hef ég komið í mörg þúsund heimili í ólíkum löndum. Það hefur sýnt mér hvílíkur reginn munur er á milli kristinna heimila og hinna, sem ekki eru það. Eitt sinn fékk ég bréf frá móður fyrir austan járntjald. í bréfinu þakkaði hún fyrir fatnað, sem ég hafði sent henni, og svo skrifaði hún hugleiðingu nokkra, sem ég hef oft hugsað um. Hún skrifar: Nýju austurvaldhafarnir hafa nú þvingað manninn minn til að ferðast langt inn í Rússland, til þess að vinna þar. Getum við þá nokkurntíma vænst þess að hittast framar? Í mörg ár hefur hann aðeins getað komið heim einu sinni á ári, vegna þess hvað lítið hann hefur haft í aðra hönd. En hvernig mun það þá verða hér eftir? En við erum öll frelsuð, og við væntum endurkomu Krists. Við horfum fram til þess dags, er allar sorgir jarðlífsins eru að baki. Þá mælumst við til þess að eignast betra heimili um eilífð."
Hvílík von, sem kristið heimili á! Hvernig sem við veltum hlutunum fyrir okkur, verðum við að viðurkenna þann mikla ríkdóm og hamingju, sem kristið heimili er. Mættum við gera það að bænaefni okkar, að við öðluðumst sömu fjölskylduvakningu, sem Nói fékk að reyna, þar sem faðir, móðir og öll börnin völdu þann lífsveg, að ganga inn í frelsisörk Guðs.
Þetta er tekið úr víðlesnu snsku blaði.
Allir brotaþolar skjólstæðingar lögreglu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Alþingi ætti ekki að innleiða lög um dánaraðstoð
24.1.2018 | 19:52
Lítil sem engin umræða hefur farið fram um dánaraðstoð hér á landi, þar sem lækni er heimilt að hjálpa sjúklingi sem glímir við ólæknandi sjúkdóm að benda enda í líf sitt. Ég verð að segja að dánaraðstöð öðru nafni líknardráp stríðir gegn gegn öllu því sem ég tel vera rétt, heilagt og gott. Mörgum er kunnugt um líknardeild Landspítalans í Kópavogi sem hægt er að segja að veiti dauðvona sjúklingum sínum líkn og umhyggju með hjálp verkjalyfja og með góðri aðstöðu fyrir aðstandendur til að vera með viðkomandi þegar ævilokin nálgast.
Læknum ætti ekki að vera gefið það vald að deyða sjúklinga sína óski sjúklingarnir eftir því. Hlutverk læknis er að líkna og græða hina sjúku, ekki ætti að skikka lækna eða hjúkrunarfólk með lagasetningu að ganga gegn þessu hlutverki sínu.
Líknardráp þykja ekki sjálfsögð almennt séð í Evrópu, því mörg siðferðileg álitamál koma upp þegar málið er skoðað niður í kjölinn. Eitt af þeim er að með lagasetningu sem heimilar líkardráp geta mál þróast svo að umrædd lagasetning verði útvíkkuð til að koma til móts við fleiri en dauðvona sjúklinga. En það er einmitt það sem gerðist í Belgíu. Líknardráp voru lögleidd í Belgíu árið 2002 og hafa um 1.400 manns fengið aðstoð við að deyja á ári hverju. Árið 2013 voru lögin útvíkkuð og ná nú til barna sem þjást af ólæknandi sjúkdómum.
Samkvæmt frétt á Mbl.is 2. júlí. 2015 kemur fram að Belgískir læknar hafa komist að þeirri niðurstöðu að 24 ára gömul kona sem hefur þjáðst af þunglyndi frá barnæsku hafi rétt til að binda enda á líf sitt. Þarna hefur hvert leitt af öðru og löggjöf sem fyrst um sinn heimilaði aðeins líknardráp dauðvona fólks hefur þarna verið svo útvíkkuð að jafnvel ungu fólki með þunglyndi er heimilað að binda enda á líf sitt auk þess sem líknardráp á langveikum börnum er heimilt. Í þessu tilviki er ungri konu í blóma lífs síns heimilað af læknum að taka líf sitt. Mikill fjöldi fólks hefur sigrast á þeim þungbæra sjúkdómi sem þunglyndi er og hafa öðlast betra líf með hjálp lækna, eigin viljastyrk og ekki má gleyma með hjálp Guðs.
Með innleiðingu laga um líknardráp væri verið að lækka þann siðferðisstuðul sem snýr að virðingu fyrir lífinu sjálfu að enginn skuli hafa vald til þess að stytta líf sitt eða að læknir geti aðstoðað einstakling til þess að deyja. Með innleiðingu umræddra laga þá mundi virðing fyrir lífinu á einhvern hátt hraka og freistandi væri fyrir gamalt fólk að fá að stytta líf sitt jafnvel þótt það eigi marga mánuði eða jafnvel einhver ár eftir af æfi sinni. Gæti það jafnvel verið vegna lélegs aðbúnaðar sem viðkomandi byggi við eða vegna stollts sem oft einkennir gamalt fólk, þegar viðkomandi hefur samviskubit vegna erfiðleika sem aðstandendur hafa vegna ummönnunar þeirra ofl.
Margt dauðvona fólk t.d. Sem haldið er ólæknandi krabbameini metur lífið sem það á eftir afar mikils og því finnst hver dagur sem það fær að lifa dýrmætur.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/02/laeknar_heimila_24_ara_ad_deyja/
Steindór Sigursteinsson
Umræða um dánaraðstoð verði aukin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nafnið öllum æðra
25.11.2017 | 10:07
Meðal ómetanlegra verðmæta, sem bækur Biblíunnar flytja er boðskapurinn um Jesúm Krist. Ríkjandi þáttur í Postulasögunni, er nafnið Jesús. Við rannsókn þeirrar bókar, tekur maður eftir að líf og starf frumkristninnar var tengt nafninu Jesús og persónu hans.
Þegar menn þúsundum saman, fundu til þjáninga vegna synda og þörf á lausn, benti Pétur postuli á leið til fyrirgefningar og til nýs lífs, fyrir trúnað á nafnið Jesús: "Snúið ykkur og látið skírast í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda ykkar og þér munuð öðlast gjöf Heilags Anda."
Þetta hafði áhrif. Þrjúþúsund einstaklingar meðtóku þann dag náð til trúar á Jesú nafn, leystust frá syndum og öðluðust nýtt líf í Jesú og söfnuðinum.
Það sama átti sér stað með einstaklinginn, sem í örvæntingu og myrkri sjálfsmorðshugsana, fékk að heyra frá sendiboðum Drottins: "Trú þú á Drottinn Jesúm og þú munt verða hólpinn og heimili þitt." Þetta hafði stórkostleg áhrif. Örvæntingarfulli fangavörðurinn í Filippíborg fékk að reyna að í nafni Jesú er öryggi og friður. Sá er kominn var í örlög andlegs myrkurs og algjöra örvæntingu, umbreyttist þarna um nóttina, til lífs í Jesú Kristi.
Sami þráðurinn heldur áfram á síðum Postulasögunnar. Þar sem nafnið Jesú komst að, urðu algjörar breytingar. Við lesum hvernig lamaðir fá kraftinn í Jesú nafni. Illir og afvegleiðandi andar eru reknir út af mönnum, sem voru haldnir. Þeir voru reknir í nafni Jesú Krists. Umfram allt voru hópar fólks, sem eignuðust fyrirgefningu synda og lausn frá áhrifavaldi synda í nafni Jesú.
Píslavætti varð staðreynd, vegna nafns Jesú. Þeir sem stóðu með nafni Jesú voru teknir til fanga, húðstrýktir, smánaðir og nokkrir urðu deyddir. Það var andi undirdjúpanna, sem ekki þoldi nafnið Jesús. Ekkert nafn hefur verið svo elskað sem nafnið Jesús. Þess vegna voru þeir glaðir, sem álitust verðir að líða fyrir nafnið Jesú.
Andstaðan varð sigruð. Nafnið Jesús var boðað heiðingjum, sonum í Ísrael og fram fyrir ráðamenn og konunga. Nafnið Jesúm náði lengra og lengra.
Boðskapurinn um nafnið Jesús náði til norrænna manna. Hjá þeim var fyrir trú, á Óðinn og Þór, Frigg og Freyju, Valhöll, miðsvetrar blót og mannfórnum, drykkjuskap, siðleysi og ofbeldi. Þegar nafnið Jesús komst inn í þessar raðir, þá fóru hlutirnir að breytast. Kærleikur til nafnsins Jesús skapaði þýðu og umbreytingu frá hinu illa til hins góða og ekkert er betra en nafnið Jesús.
Að endingu: "Jesús Kristur er í dag og í gær hinn sami og um aldir." Heb.13,8. Ákallaðu Jesú nafn. Allt fer að breytast og verður þeim hagstæðara, sem ákalla nafnið Jesús.
Afturelding 4. tbl. 1985. Karl Erik Heinerborg. Fyrrum forstöðumaður (prestur) Fíladelfíukirkjunnar í Stokkhólmi.
Fangageymslur lögreglu fullar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tár frelsarans
4.11.2017 | 13:45
Jesús var sannur maður, jafnframt því, að hann var guðdómlegur. Hann sýndi sig aldrei annan en þann, sem hann var, þess vegna kæfði hann aldrei tilfinníngar sínar. Hve oft sjáum við ekki, að bak við brosandi andlit, er hrópandi tómleiki í hjartanu og óróleiki í sálinni. Því er sagt: Getur hjartanu liðið vel, þegar andlitið vitnar um annað?
Ætti það ekki að vera huggun fyrir okkur, sem í dag lifum í þessum heimi, sem er fullur af sorg og tárum, að Jesús gat grátið? Hve nálægur verður hann okkur ekki í mannlegum veikleika? Hve stór er hann ekki, þegar hann sveiflar svipunni í vandlætingu fyrir Guði í musterinu, eða þegar hann rekur út illa anda og hótar náttúruöflunum með sigri hrósandi myndugleika. En er hann minni, þegar hann fellir tár þjáninga og sorgar?
Biblían nefnir á þrem stöðum, að Drottinn Jesús hafi grátið. Við skulum nema staðar og athuga þessar frásögur. Guðspjallamaðurinn Lúkas segir frá því í 19: 41-44. í fylgd með honum voru lærisveinar hans og fjöldi fólks, En hvílíkum andstæðum mætum við ekki. Lærisveinarnir fögnuðu og sungu lofsöngva, meðan þeir fylgdu Meistara sínum og kennara inn í höfuðstað þjóðarinnar. Umhverfis þá, sjáum við fjölda af mönnum, konum og unglingum með sveiflandi pálmagreinar, og með fagnaðarhrópum hylla þann, sem það vonar að sé hinn, eftirþráði konungur. En hve þung voru ekki skref Meistarans á meðal þeirra. Drættir heilagrar sorgar móta hið göfuga andlit, og tár renna niður kinnar hans, meðan hann undir andvörpum setur fram hina þjáningarfullu yfirlýsingu, Það er sorg hins lítilsvirta kærleika, sem við sjáum hér. Það var ekki yfir götum, húsum eða musteri borgarinnar, sem hann grét. Nei, það var yfir hinu harðhjartaða, blinda og eftirtektarlausa fólki, sem ekki hafði þekkt vitjunartíma sinn, heldur gekk með haldin augu, móti hinni komandi eyðileggingu.
Társtokknum augum horfir Frelsarinn til hinna örlagaþrungnu daga, þegar rómverskir menn undir stjórn Titusar sitja um borgina, svelta fólkið, höggva það niður eða selja í ánauð, rífa niður borgina og brenna musterið.
Vinur, eru þessi sorgartár vegna þín? Ertu einnig meðal hinna gálausu, sem orsaka sorg í hjarta Frelsarans með því að lifa í synd og þverúð? Ef svo er, nem staðar um stund í hlíð Olíufjallsins, og athugaðu grátandi Frelsara þinn, láttu hin dýrmætu tár hans vekja þig og með krafti kærleikans leiða þig út frá valdi hins vonda, sem hefir bundið þig.
Önnur mynd er dregin upp fyrir okkur í Jóh. 11: 35. Þar er lýst, hvernig Jesús gengur grátandi á leiðinni að gröf Lazarusar. Gyðingar, sem voru með í förinni, álitu að sársauki hans og tár stöfuðu af þvi, að hann hafði misst vin sinn, Lazarus, og þeir sögðu: "Sjá, hve hann hefir elskað hann". Það er greinilega tekið fram í þessari frásögu, að Jesús elskaði Lazarus og systur hans, en þó er tæplega hægt að álíta, að sá aðskilnaður, sem dauðinn gerði. hafi hrært hann til tára, þar sem hann vissi, að endurlífgun Lazarusar myndi eiga sér stað. Það liggur nær að halda, að tár hans hafi verið sprottin af meðaumkun, Hið viðkvæma hjarta hans stundi í samúð með hinni djúpu sorg systranna. Hið minnsta vers Biblíunnar Jesús táraðist lýsir einu því stærsta, sem hægt er að segja um Jesú. Hve samúðarfullan Frelsara eigum víð ekki. Hann lítilsvirðir ekki neyð okkar, og snýr sér ekki burt frá syrgjandi hjörtum. Nei, hann beygir sig í meðaumkun niður að okkur og tekur þátt í sorg okkar. Og einmitt í þessu opinberast mikilleiki hans. Tár hans eru sönn tár þau voru staðfesting á virkilegri samúð.
Þú, reyndi bróðir og systir. Jesús gleymir þér ekki, þótt jarðneskir vinir bregðist. Hann er tryggari en bróðir. Ef þú, eins og Marta og María, sendir eftir honum í neyð þinni, þá muntu finna þann, sem skilur þig, þann, sem getur huggað fremur öllum öðrum; hjálpað, þar sem allt virðist vonlaust.
Þriðja myndin er frá sálarstríðinu í Getsemane. Það er eflaust þetta úrslitastríð, sem Hebreabréfið talar um (5: 7.-8.). Það voru tár dauðaangistarinnar, sem þar á milli trjánna runnu niður andlit hans og ásamt hinum blóðiblandaða svita féllu á jörðina. Þótt hann væri Sonur Guðs, gat hann ekki fullkomnað endurlausnarverkið, nema með því að ganga undir angist dauðans, sem á þessum skelfinga-augnablikum þrýsti fram bænar- og neyðarópi, já, jafnvel hrópi og tárum. Svo djúpt varð hann að stíga niður í djúp mannlegrar eymdar, að skelfing dauða-angistarinnar gegnumþrengdi sál hans, svo að hann einnig hér gæti komið hinum líðandi kynslóðum til hjálpar í innilegri samúð, með sinni eigin reynslu.
Einnig þá fékk hann bænheyrslu frá sínum himneska Föður. Hinn himneski sendiboði leysti hann frá angistinni og færði honum þann sálarstyrk, sem hann þurfti, til þess fríviljugur að gefa sig í hendur syndara.
Tár Getsemanestríðsins hafa því tvöfaldan boðskap til okkar. Þau minna okkur um hið órannsakanlega djúp af kærleika, að hann okkar vegna vildi tæma þjáningabikar dauða-angistarinnar, tii þess að geta frelsað frá, þrældómi og ótta dauðans. Þú sál, sem enn ekki átt fullkomið tillit til þíns miskunnsama Frelsara, lít þú á tár hans í Getsemane, og minnstu þess, að það var þín vegna, að hann gekk í gegnum þjáningarnar.
Getur þú efast um kærleik hans, þegar þú hefir horft á stríð hans? Nei, við ljómann af tárum hans. hefir efi og vantrú þúsundanna horfið, eins og dögg fyrir sólu.
Þú hrædda hjarta, sem með angist horfir móti dauðanum og eilífðinni, kom með ótta þinn til hans, sem grét í garðinum, og eins og grátur hans stöðvaðist, svo munu tár þín verða þerruð af, og óttinn víkja, við það að Andi hans gefur þér himneska huggun og styrk.
Afturelding 1. mars 1939. L. B. þýddi lauslega úr Biblisk Tidskrift.
Kynsjúkdómar aukist hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)