Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Kjördæmaþing Framsóknarfélagana í Reykjavík vill flugvöllinn í óbreyttri mynd.

Í frétt á Mbl.is í kvöld kemur fram að Kjördæmaþing Framsóknarfélagana í Reykjavík hafi sent frá sér ályktanir um nokkur brýn úrlausnarefni.  Kemur ma fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Guðlaugssonar geti verið "stolt af mörgum stórmálum á stuttum tíma".  Kom fram í niðurlagi fréttarinnar að þess verði "einnig kraf­ist að flug­völl­ur verði áfram í Vatns­mýri í óbreyttri mynd".

Eins og flestum er kunnugt hafa Valsmenn nýlega hafið framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu svonefnda.  Samkvæmt þeim teikningum sem gerðar hafa verið af fyrirhugaðri byggð á svæðinu verða háreistar byggingar í fluglínu 06/24 neyðarflugbrautarinnar svonefndu en það þýðir að aðflug verður ekki mögulegt og flugbrautin því úr sögunni.  

Það er bagaleg staða sem komin er upp að Reykjavíkurborg hafi lofað upp í ermina á sér og gefið Valsmönnum vilyrði um jörð sem er ekki alfarið í eigu borgarinnar og gefið framkvæmdaleifi á Hlíðarendasvæðinu.  Er það í trássi við vilja ríkisvaldsins, kjósenda og allra landsmanna.  Í grein í morgunblaðinu 1 október sagði Ólöf Norðdal innanríkisráðherra "að á meðan ríkið reki inn­an­lands­flug­völl í Vatns­mýr­inni, megi ekki reisa bygg­ing­ar sem fari í bága við flug­línu og stefni flu­gör­yggi í hættu á meðan ríkið reki inn­an­lands­flug­völl í Vatns­mýr­inni".

Brynj­ar Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri Vals­manna hf. seg­ir að yf­ir­lýs­ing Ólaf­ar Nor­dal, hafi eng­in áhrif á bygg­ingaráform Vals­manna hf. á Hlíðar­enda­svæðinu.

Það hefur komið fram í fréttum undanfarið að mat sem Isavia hafi lagt á nothæfistuðul flugvallarins án neyðarflugbrautarinnar sé ekki rétt unnið og nothæfistuðullinn því rangt reiknaður. Allir sem koma nálægt flugi í landinu benda á að neyðarflugbrautin sé nauðsynleg þar á meðal Félag atvinnuflugmanna.

Þeir sem glöggt þekkja til þessa máls hafa bent á að vel mætti koma öllu byggingamagni fyrir á svæðinu með því að hliðra til byggð og lækka hæstu byggingarnar um nokkrar hæðir.  Það er augljóst að í skipulagi byggðarinnar að í fluglínu 06/24 flugbrautarinnar er gert ráð fyrir háum byggingum.  Virðist mér að það sé gert af ásettu ráði af hálfu Borgarstjórnar til þess að hefja niðurrif Reykjavíkurflugvallar.  Ef Reykjavíkurborg kemst upp með þetta hvert verður þá framhaldið?  Verður næsta skrefið að spilla fyrir þeim tveimur flugbrautum sem eftir verða?  

Eins og ég sagði hér að ofan þá stendur vilji Framsóknarfólagana í Reykjavíkur til þess að flugvöllurinn verði á sínum stað í óbreyttri mynd.  Framsóknarflokkurinn ætti því beita valdi sínu í ríkisstjórn ásamt innanríkisráðherra og stöðva framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu.  Það þyrfti ekki að banna fyrirhuguð byggingaáform alfarið heldur leyfa framkvæmdir á ný þegar nýtt deiliskipulag með breyttu fyrirkomulagi byggðar hefur verið lagt fram þar sem áframhaldandi notkun 06/24 flugbrautarinnar sé tryggð. 


mbl.is Ríkisstjórnin geti verið stolt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er gott að Ungir sjálfstæðismenn vilji brjóta niður kristin gildi í landinu þar á meðal tengsl ríkis og kirkju.

Leitt var að lesa grein í Mbl.is í fyrradag þar sem greint er frá að Ungir Sjálfstæðismenn vilji leggja fram á næsta aðalfundi að hjónavígslur færist alfarið í hendur sýslumannsembætta.  Og að í framhaldi af því verði hafin vinna við að aðskilja ríki og kirkju.  Einnig stendur vilji til þess að afglæpavæða eiturlyfjaneyslu og að heimila samkynhneygðum karlmönnum að gefa blóð.  En við því síðastnefnda eru skýr rök fyrir að slíkt teflir í hættu heilbrigði fólks sem þiggir blóð.

Ég veit eiginlega ekki hvert í stefnir hjá Sjálfstæðisflokknum og einkum þeim yngri þeirra á meðal.  Flokkurinn sem ég taldi aðhyllast kristin gildi er nú að beita sér gegn góðu fyrirkomulagi sem reynst hefur vel; að láta kirkjur sjá um hjónavígslur.  Unga fólkið í flokknum vill nú láta þrýsting minnihlutahóps í þjóðfélaginu fá sig til að leggjast gegn þjóðkirkjunni og taka hjónavígslur úr hendi hennar.  Er ekkert heilagt í huga þeirra?  Er veraldarhyggjan sem ég skilgreini sem vilji til þess að gera það sem fólki hentar án þess að taka tillit til Guðs eða það sem Orð Guðs segir, búin að taka yfir í hugum þeirra?  En þau vilja feta í spor vinstri manna og vantrúarfólks að krefjast aðskilnaðar ríkis og kirkju.  

Ungt sjálfstæðisfólk vill rífa niður það sem hefur verið við lýði um langan aldur og hefur reynst vel.  Að þjóðkirkjan sé samofin ríkisvaldinu. Hún er reyndar sjálfstætt starfandi samkvæmt stjórnarskrá en studd af ríkinu.  Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel því ef litið er út frá praktískum sjónarmiðum; þá sér hún um útfarir sem vantrúaðir og fólk í ýmsum frísöfnuðum nýta sér.  Og að maður tali nú ekki um hjónavígslur í kristnum sið sem til stendur að taka frá þjóðkirkjunni.

Kristin trú er ekkert sem við eigum að skammast okkar fyrir eða virða að vettugi.  Jesú Kristur gaf líf sitt fyir okkur svo að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Eins og ég minntist á fyrir ofan þá vilja yngri sjálfstæðissinnar að refsilöggjöf verði afnumin fyrir eiturlyfjaneyslu.  Væri þetta mikið óheillaskref til baka fyrir Íslendinga því þetta væri síður en svo til að hjálpa þeim sem þessari fíkn hafa ánetjast.  Því að fíkniefnaneysla er stórhættuleg ungmennum sem og eldri og margir hafa fallið fyrir þeim vágesti.  Stjórnvöldum ber að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk hefji neyslu vímuefna og að hjálpa þeim sem ánetjast hafa.

Ég vil hvetja ungt sjálfstæðisfólk að sjá að sér og snúa frá þeirri óheillabraut sem mér sýnist þau vera komin inn á.  Og ekki síst þeir sem eldri eru því sjálfur formaðurinn, háttvirtur fjármálaráðherra; Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir einu máli sem stríðir á móti góðu kristilegu siðferði og öryggi kvenna; afglæpavæðingu vændis árið 2007.  Ég vildi óska að flokkurinn sem ég hef fylgt frá unglingsárum stefni inn í braut kristilegs siðgæðis og heilinda.

Ég tel að það sé kominn tími á það að nýtt kristilegt stjórnmálaafl sjái dagsins ljós á Íslandi.

Ég vil benda á góða grein Guðmundar Pálssonar Læknis varðandi Sjálfstæðisflokkinn hér.

 


mbl.is Hjónavígslur aðeins hjá sýslumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sala á áfengi í matvöruverslunum mun setja stein í veg ungs fólks

Það er með eindæmum að áfengisfrumvarpið sem lagt var fram aftur í síðasta mánuði skuli ekki hafa verið slegið út af borðinu.  En miklar umræður hafa nú farið fram á Alþingi um frumvarpið. Samkvæmt frétt á Mbl.is 10 september sl. voru 16 þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum sem lögðu frumvarpið fram á nýjan leik.  Hljóðar frumvarpið upp á breytingar á lögum um að ríkið láti af einkasölu sinni af áfengi og sala þess verði gefin frjáls.

Það er mikil hneysa að svo margir þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum skuli taka þann ranga pól í hæðina að meta hag gróðafyrirtækja meira en heilsufar landsmanna og þá einkum unglinga og ungmenna.  Áfengisneysla hefur verið töluvert vandamál á Íslandi og það mun ekki batna ef áfengi verður sett í matvörubúðir til sölu þar sem það verður fyrir allra augum.  Er reynslan af samskonar löggjöf í Danmörku sú að áfengisneysla er þar mest á meðal unglinga á Norðurlöndunum.  

Eru þessir þingmenn svona ginkeyptir fyrir þrýstingi gróðafyrirtækja að þeir láta sér engu skipta æsku landsins?  Reynslan af þessu í nágrannalöndum okkar hefur sýnt að þessu fylgir aukin áfengisneysla.  En í Svíþjóð þar sem áfengissala var leyfð í matvörubúðum var hætt við umrædda löggjöf þegar auðsýnt þótti að hún orsakaði meiri áfengisneyslu á meðal unglinga. 

Látum reynslu nágrannaþjóða okkar vera okkur víti til varnaðar.  Mótmælum því að stjórnmálamenn láti undan þrýstingi manna sem hafa eigin gróða og fyrirtækja þeirra að meginmarkmiði.  Þeir stjórnmálamenn sem taka gróða fram fyrir velfarnað fólks ættu að skammast sín.

Hér á landi hefur verið unnið frábært forvarnarstarf gegn áfengisneyslu ungs fólks.  Sala á Bjór og víni í matvöruverslunum mun setja stein í veg ungs fólks þar sem þetta mun breyta ímynd þeirra varðandi áfengi.  Sú ranghugmynd mun óhjákvæmilega síast inn í huga þeirra að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara.  Unglingar og ungt fólk mun sjá hina fullorðnu kaupa þetta eins og hverja aðra vöru og það mun verða meira sjálfsagt mál í hugum þeirra að kaupa áfengi.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum eru frábær samtök sem standa gegn áfengisfrumvarpinu eins og allir sem eitthvað hugsa!  Þau hafa það að markmiði að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og fyrir bættu auglýsingasiðferði, með sérstaka áherslu á vernd barna og unglinga.  Skráum okkur á Facebook síðu samtakanna.

 

 


mbl.is Áfengisfrumvarpið flutt aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband