Færsluflokkur: Evrópumál
Blekkingarleikur um svonefndar ESB-aðildarviðræður afhjúpaður af ESB!
24.10.2017 | 17:00
Sumir flokkar virðast ætla að leika sama blekkingarleikinn og Samfylkingin og VG léku á tíma Jóhönnustjórnarinnar. En hann fólst í því að landsmenn gætu fengið að "kíkja í pakkann" að afloknum aðildarviðræðum við ESB. Látið var í veðri vaka að umsóknin að ESB og aðildarferlið væru aðeins samningaviðræður við sambandið með það að markmiði að "landa góðum samningi". Í frétt Mbl.is í dag notar Björt framtíð einmitt þetta sama orðalag en sá flokkur hefur lýst yfir vilja til að ganga í sambandið. Samfylkingin heldur blekkingarleiknum áfram og talar um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um frekari viðræður um aðild Íslands að ESB. Taka Viðreisn og Píratar í sama streng og samkvæmt frétt á Mbl.is í dag virðist VG vera reikandi í þessu máli.
Seint á síðasta ári sendi Svavar A. Jónsson, sóknarprestur á Akureyri fyrirspurn til ESB þar sem hann grennslaðist fyrir um eðli umsóknar og hvort í slíkri umsókn fælist að kanna án skuldbindinga hvað væri í boði eða hvort í henni fælist yfirlýsing um vilja til þess að ganga í sambandið.
Fékk hann það svar sem var í stuttu máli að reglur ESB eru óumsemjanlegar. Þær verður að lögleiða og innleiða af umsóknarríkinu. Inngönguviðræður snúast í raun um það að samþykkja hvenær og með hvaða hætti umsóknarríkið tekur upp og innleiðir með árangursríkum hætti allt regluverk ESB.
Flestum er í fersku minni ESB-aðildar-vegferð vinstri stjórnar Samfylkingar og VG en hún var byggð á flóknu baktjaldamakki samkvæmt því sem Árni Páll Árnason fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar greindi frá í febrúar á síðasta ári.
Fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, tókst að fá þingmenn VG á sitt band til að taka þátt í ESB-aðildarferlinu með hótunum um skjótan dauða hinnar langþráðu vinstri stjórnar. Ekki tókst það alveg því hún þurfti að láta einn þeirra, Jón Bjarnason, fara, því ekki vildi hann halda áfram með þann blekkingarvef sem hinar svonefndu ESB-aðildarviðræður voru. En þær voru ekki samningaviðræður, heldur umsókn Íslands að ESB og aðildarferli sem haldið var leyndu fyrir þjóðinni. Aðildarviðræðurnar sigldu í strand seint á tíma Jóhönnustjórnarinnar, en látið var í veðri vaka að um hlé á viðræðum væri að ræða.
Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum 2013 veittust fyrrverandi stjórnarflokkar að hinni nýju ríkisstjórn og kröfðust áframhalds ESB-aðildarviðræðna. En ríkisstjórnarflokkarnir höfðu gengið til kosninga með það að meginstefnu að hætta ESB-aðildarviðræðum. ESB-flokkarnir töpuðu illilega í kosningunum.
Að gera kröfu um að sigurvegarar með umboð gegn ESB-aðild spyrji þjóðina hvort hún vildi halda áfram misheppnuðum aðildarviðræðum var vægast sagt fáránlegt.
Síðan ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. kvaddi aðildarferlið í janúar 2013 hefur ástand innan Evrópusambandsins snarversnað. (Má þar nefna gengislækkun evrunnar, óstjórn hvað varðar móttöku flóttafólks, Brexit o.fl.) En þá hafði aðeins 11 af 33 samningsköflum verið lokað frá 2009. Ferlinu lauk með ágreiningi um kaflana um sjávarútveg og landbúnað þegar rann upp fyrir íslensku stjórnarherrunum að ESB krafðist aðlögunar í ferlinu og í bókum Brusselmanna væri ekkert til sem heitir könnunarviðræður.
Það má rekja upphaf nýja flokksins Viðreisnar til þráhyggju vegna þess að með kosningunum 2013 urðu þáttaskil í ESB-málinu. Aðildarbröltinu var hafnað.
Hérna eru 2 fróðlegar fréttir sem fjalla um þetta mál:
www.mbl.is/greinasafn/grein/1505686/
www.mbl.is/greinasafn/grein/1429386/
Hvað vilja flokkarnir í utanríkismálum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 25.10.2017 kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fullveldi landsins borgið.
30.5.2015 | 10:13
Það voru miklar gleðifréttir sem bárust í gær að Evrópusambandið hafi tekið Ísland af lista sínum yfir umsóknarríki að sambandinu. Eins og kunnugt er þá voru ESB viðræðunum eða réttara sagt ESB-aðlögunarferlinu siglt í strand áður en núverandi ríkisstjórn tók við. Þetta var það besta sem Gunnar Bragi gat gert í stöðunni, að senda bréf frá Ríkisstjórninni til Ráðherraráðs ESB, og slá þetta mál endanlega út af borðinu. Það virtist vera að ESB ætlaði að virða þetta bréf að vettugi og halda umsókninni opinni en að lokum hefur sambandið brugðist rétt við þessu bréfi utanríkisráðherra.
Næsta mál á dagskrá ætti að vera að Ísland dragi sig út úr EES samningnum, en það eru margar raddir sem halda því fram að EES samningurinn sé ekki til hagsbóta fyrir Ísland. Það er mikið reglugerðafargan sem sífellt er verið að samþykkja vegna EES samningsins og það fer vaxandi. Margar þessar reglur eru íþyngjandi fyrir Ísland og hinn almenna neytanda og eiga ekkert erindi til okkar Íslendinga. Eins og bannið við glóperum og reglur sem verið var að ræða um nýlega; að takmarka eigi kraft ryksugna og hárblásara. Margar reglur hafa verið samþykktar sem vel hefði mátt hafna.
Kær kveðja.
Ísland af lista yfir umsóknarríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Verklag Utanríkisráðherra varðandi afturköllun aðildarumsóknar er innan lagaramma.
16.3.2015 | 18:09
Það vakti mikla undrun á meðal landsmanna þegar sú frétt barst út að Utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hafi fært Utanríkisráðherra Lettlands Edgars Rinkevics bréf sem innihélt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka. En Edgar Rinkevics fer með forsætið innan Evrópuráðsins. Fá mál hafa valdið meira umróti á meðal stjórnarandstöðunar og ESB sinna og meint bréfaskrif Utanríkisráðherra. Hafa margir tjáð sig um á hvern hátt ríkisstjónin kom að þessu máli. Hefur mörgum þótt að hér væri vegið að þingræðinu og lýðræðinu, að Utanríkisráðherra hefði átt að leggja tillögu sína varðandi slit á aðildarumsókn Íslands fram á Alþingi.
Í frétt í dag á Mbl.is tók formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason svo djúpt í árina að segja aðgerðir Utanríkisráðherra "stappa nærri landráðum" og átti hann þar við viðræður Gunnars Braga við Evrópusambandið til að árétta orðalag í bréfinu umtalaða. Er ástæðan sú að bréfið og innihald þess kann að hafa vafist fyrir þeim sem það lásu. Var jafnvel talað um að bréfið hefði ekkert gildi að það breytti engu um að Ísland sé enn talið umsóknarríki að ESB. Hefði þurft að færa bréfið Ráðherraráði Evrópusambandsins til að afturköllunin gæti talist gild. Tel ég að Ríkisstjórninni beri að ganga í skugga um að bréf þetta hafi tilætluð áhrif, að Íslandi verði tekið af lista yfir umsóknarríki. Ef þörf krefur þarf ef til vill að skrifa annað bréf og þá til Ráðherraráðs ESB.
Ég vil segja að eftir því sem ég hef skoðað málið þá virðist leið sú sem Háttvirtur Utanríkisráðherra valdi til að draga umsókn Íslands að ESB til baka, vera lögum samkvæmt, en ekki brot á Þingræði eða lýðræði. Að mati Bjargar Thorarensen, prófessors í stjórnskipunarrétti hafði Utanríkisráðherra formlega heimild til þess að koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart Evrópusambandinu um aðildarumsóknina. Hún sagði reyndar: "Fullkomlega óeðlilegt var hins vegar að Utanríkismálanefnd hafi ekki verið tilkynnt um það." Aðgerðir Utanríkisráðherra eru að mínu mati fyllilega löglegar, ekki síst í ljósi þessa að Utanríkisráðherra reyndi að koma tillögunni fram á Alþingi fyrir ári síðan en stjórnarandstaðan bragst þá við með málþófi. Var Þingsályktunartillagan "tekin í gíslingu" eins og hann komst svo vel til orða.
Gunnar Bragi sagði í frétt í Mbl.is fyrr í dag að stjórnarandstaðan hafi sent Evrópusambandinu bréf þar sem ranglega var farið með "að ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 lýsi ríkjandi afstöðu á Alþingi og hafi einhvers konar lagagildi sem ríkisstjórninni sé óheimilt að víkja frá. Ekkert er fjær sanni. Þessi ályktun var samþykkt að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og fól í sér pólitíska stuðningsyfirlýsingu við þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Áhrif ályktunarinnar voru því fyrst og fremst pólitísks eðlis en ekki lagalegs." Fyrirvarar þeir sem fyrrverandi ríkisstjórn setti varðandi umsóknarferlið var að ef ríkisstjórninni leist svo á þá gat hún þá þegar slitið umsóknarferlinu. Núverandi ríkisstjórn er því síður bundin af þessari ályktun fyrrverandi ríkisstjórnar.
Stappar nærri landráðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hagsmunir Íslands eru best tryggðir utan ESB.
3.2.2015 | 21:05
Samkvæmt frétt á Stöð 2 hefur þeim sem vilja að Ísland gangi í ESB fjölgað síðan Capacent gerði síðast könnun. Í könnuninni kom fram að íbúar höfuðborgarsvæðisins séu hlyntari aðild en íbúar landsbyggðarinnir. Var sú skýring dregin fram að það sé vegna þess að köflum um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál hafi ekki verið lokið ennþá og úbúar landsbyggðarinnar viti þess vegna ekki að hverju er að ganga ef Ísland gerðist aðili að ESB. Mér finnst að þessi útskýring sé út í hött. Íbúar landsbyggðarinnar gera sér grein fyrir því að skilmálum ESB varðandi sjávarútveg og landbúnað verður ekki breytt heldur verða Íslendingar að gangast undir lög og reglugeriðir ESB þessu viðvíkjandi og það hefur margoft komið fram að undanþágur séu ekki í boði. Við Íslendingar höfum ekkert í ESB að gera. Við verðum að framsala yfirráð yfir sjávarútveg og öðrum veigamiklum atriðum Íslensks efnahagslífs til Brussel. Við vitum ekkert hvernig ESB á eftir að breytast í framtíðinni. Íbúar margra ESB- landa vilja þangað út aftur og efnahagslegt óöryggi ríkir í mörgum evru-löndum og einstaklega mikið atvinnuleysi einkanlega á meðal ungs fólks. Með upptöku evru og ESB aðild er Ísland að taka niður fyrir sig.
Kær kveðja.
Meirihluti vill ekki í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ríkisstjórn og Alþingi þurfa ekki að samþykkja þessar reglugerðir ESB.
15.10.2014 | 19:35
Samkvæmt frétt á Mbl.is hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um visthönnun. Felur það í sér að tilskipanir evrópusambandsins varðandi svonefndar orkutengdar vörur ganga í gildi hér á landi. Felur það ma. í sér að sturtuhausar með takmarkaða vatnsnotkun verða lögleiddir , takmörk verði sett á afl ryksuga og hárblásara.
Finnst mér þetta vera með eindæmum fáránlegt. Á Íslandi höfum við nóg að heitu vatni eða vatni hituðu upp af rafmagni og nóg er með rafmagni til að knýja ryksugur með nægan sogkraft og öfluga, góða hárblásara. Finnst mér þetta vera eins og framhald af þeim fáránleika sem innleiðing sífellt fleiri evróputilskipana færa okkur.
Ég var svo fyrirhyggjusamur að ég keypti um 100 glóperur áður en bannið við sölu þeirra gekk í gildi (kostuðu frá 69 kr. stykkið). Ég er með nokkur lokuð ljós sem ég nota þessar perur fyrir, því ég hef fundið út að sparperurnar endast ákaflega stutt í þessum ljósum. Ef til vill er kælingin ekki nógu mikil. Ég get ekki hugsað mér að fara í sturtu með sturtuhaus með takmörkuðu rennsli, slíkt veldur því aðeins að maður er lengur að þvo sér og að skola af sér sápuna.
Þessar evróputilskipanir eru í takt við það sem maður er orðinn vanur að heyra, sífellt strangari reglur sem hefta bæði líf fólks, viðskipti og atvinnulíf. Við getum séð hvernig evrópureglur hafa farið með einkaflugið í landinu. Þar sem fáránleg pappírsvinna og óhentugar reglur varðandi tegundarviðurkenningar á íhlutum sem settar eru í flugvélar, ollu á tímabili tímabundinni stöðvun á flugi margra einkaflugvéla á landinu.
Er ekki kominn tími til að segja: hingað og ekki lengra. Hættum að innleiða ESB reglur, enda er það ekki ætlun Íslenskra stjórnvalda að ganga í ESB, né er það vilji almennings í landinu. Sendum evrópuráðinu langt nef og höfnum öllum þvingandi og óhentugum reglugerðum.
Kær kveðja.
Sturtur verða vatnsminni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einhliða fréttaflutningur varðandi Evrópumálin á Stöð 2 og Rúv.
6.3.2014 | 22:05
Á Mbl.is birtist frétt í gærmorgun þar sem greint var frá því að skýrsla Hagfræðistofnunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið hafi verið til umræðu á Alþingi síðastliðinn þriðjudag . Voru Stefán Már Stefánsson og Maximilian Conrad höfundar viðauka skýrslunnar, gestir fundarins. Í fréttinni tjáði Birgir Ármansson, formaður utanríkismálanefndar sig á þá leið að hæpið væri að undanþágur fáist, sem máli skipta fyrir Ísland á sviði sjávarútvegs og landbúnaðarmála. Sagði hann að það væru himinn og jörð á milli regluverks ESB á þessu sviði og þeirra sjónarmiða sem Íslendingar þyrftu að setja á oddinn. Sýndist honum að regluverk ESB væri þannig úr garði gert að það séu hreinir draumórar að halda því fram að Íslendingar nái fram einhverjum sérlausnum sem máli skipta. Enda þótt til séu dæmi um sérlausnir, eru þær aðeins á afmörkuðum þröngum sviðum, sagði hann.
Ég fylgdist með fréttatíma Stöðvar 2 og Rúv í gærkvöldi og í dag. Var ekkert minnst á þessi ummæli Birgis Ármannssonar varðandi þessa skýrslu, heldur var aðeins fjallað á heldur neikvæðan hátt um fyrirhuguð slit ríkisstjórnarinnar á aðildarviðræðum við ESB. Mér finnst fréttaflutningur þessara tveggja stöðva bera vott um neikvæða afstöðu til ríkisstjórnarinnar og tillögu hennar. Finnst mér alvarlegt þegar ríkisfjölmiðill eins og Rúv sem á að vera hlutlaus og óháður og er styrktur af skattgreiðendum sé ekki hlutlaus í fréttaflutningi sínum og sé hlutlægur varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar.
Ég held að það væri að bera vatn í bakkafullan lækinn að koma með einhver rök sem styðja þessi orð Birgis Ármanssonar varðandi það að ekki sé líklegt að Íslendingar nái einhverjum sérlausnum í samningum sínum við ESB. Um það hafa nokkrir bloggarar sem bloggað hafa við þessa sömu frétt útlistað nokkuð vel.
Kær kveðja.
Undanþágur hreinir draumórar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Umræðan um ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið hefur verið mjög áberandi í fjölmiðlum og á vörum landsmanna síðustu daga. Sýnist sitt hverjum og hafa ESB aðildarsinnar talað um að ríkisstjórnin sé með þessu að halda landi okkar frá þeirri velgengni sem þeir telja að aðild að sambandinu feli í sér. En þeir sem þetta mál hafa kynnt sér vita að svo er ekki, því að atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks er einstaklega mikið í allmörgum ríkjum ESB. Og ríki Evrópusambandsins fóru flest ver út úr kreppunni, sem gengið hefur yfir síðustu 5 ár, en ríki annars staðar í heiminum. Hafa sérfræðingar sem um þetta hafa fjallað, jafnvel sagt að þessu sé að kenna gjaldmiðlinum Evrunni og efnahagsstjórn þeirri sem tíðkast í Evrópusambandinu.
Mér finnst ráðherrar ríkisstjórnarinnar vera að gera það rétta í þessu máli með því að stöðva aðildarumsókn þessa. Mér fannst Bjarni Benediktsson efnahags og fjármálaráðherra, komast vel að orði í þættinum: Ísland í dag, nú í kvöld þar sem hann sagði að það væri rétt að ganga hreint til verks og láta ESB ekki lengur í óvissu. Að ekki væri vilji ráðherra ríkisstjórnarinnar á inngöngu né vilji landsmanna fyrir aðild að ESB og því væri þetta hið eina rökrétta að gera. Sagði hann ennfremur að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna án vilja þjóðar og Alþingis væri visst "flækjustig" sem væri ómögulegt að vinna úr ef niðurstaðan yrði áframhald viðræðna. Enda er það að sögn ESB skilyrði fyrir aðildarumsókn að vilji Alþingis fylgi þar máli.
Mér finnst að fylgjendur aðildar þar á meðal þingmenn stjórnarandstöðuflokkanahafa viðhaft mörg stór orð um ríkisstjórnina nú eftir að ákvörðun hennar var tilkynnt. Eru ráðherrar hennar sakaðir um að steypa þjóðinni í ógæfu hvað efnahag og viðskiptatækifæri varðar. Er þessu lýst eins og Íslendingar séu með þessu jafnvel að missa af möguleikanum á geta notið efnahagslegrar velgengni jafnfætis hinum Evrópuþjóðunum. Að Ísland verði skilið eftir í einhverskonar einangrun útilokað frá samstarfi við innri markað Evrópu. Þetta fólk gleymir því að fátækt er mjög mikil í mörgum aðildarríkjum ESB og hátt atvinnuleysi er eins og landlægt í ríkjum Sambandsins, eins og á Spáni þar sem atvinnuleysi á meðal ungs fólks er gríðarlegt.
Ég vil og geta þess að ég er í Sjálfstæðisfélaginu Kári í Rangárvallasýslu og ég er mjög ánægður með að félag mitt og fleiri Sjálfstæðisfélög hafa lýst yfir stuðningi við þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um slit á aðildarumsókn að ESB.
Lýsa yfir stuðningi við þingflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 25.2.2014 kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var betra að ganga beint til verks og stöðva aðildarviðræðurnar.
22.2.2014 | 11:39
Eins og komið hefur fram á fjölmiðlum þá samþykktu Ríkisstjórnarflokkarnir í gær tillögu þess efnis að slíta aðildarviðræðum við ESB, og var tillaga þessi lögð fyrir Alþingi í gærkvöldi. En tillagan felur það einnig í sér "að ekki verði sótt um aðild að ESB á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það".
Ég tel það rétt hjá ríkisstjórnarflokkunum að taka af skarið og stöðva aðildarviðræðurnar eða réttara sagt aðildarferlið að ESB. Þessi slit á viðræðunumr eru ekki svik á stjórnarsáttmálanum því í honum stendur: "Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðrænanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu." Það er ekki skrifað að aðildarviðræðum verði ekki slitið þangað til þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Heldur að málið verði ekki tekið upp aftur nema að aðstæður hugsanlega breytist hjá Evrópusambandinu og að áhugi skapist þar hjá Alþingi og þar með Íslensku þjóðinni á inngöngu í sambandið.
Ég tel að ráðherrar ríkisstjórnarinnar Sigmundur Davíð, Bjarni Benediktsson, Gunnar Bragi og fleiri ráðherrar hafi sýnt þarna röggsemi og kjark, að slíta viðræðum. Það er að ég tel ekki þjóðinni fyrir bestu að gengið verði í ESB og að þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem spurt væri um hvort landsmenn vildu halda áfram aðildarviðræðum við ESB væru villandi, þar sem fólk telur margt hvert ennþá að aðeins sé verið að ræða málin og að semja um einhverja vænlega kosti og undanþágur fyrir þjóðina í ýmsum mikilvægum málum sem lúta að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar eins og í Sjávarútvegi og Landbúnaði. Slíkar undanþágur og sérsamningar eru að sjálfsögðu ekki til þar sem í þeim tilfellum þar sem þjóðir í aðildarviðræðum hafa fengið undanþágur eru það yfirleit atriði sem er svo miklu minni í sniðum og léttvægara en þeir hagsmunir sem Íslenska þjóðin hyggst verja varðandi Sjávarútveginn og fleiri auðlindir. Og þær undanþágur eru eftir því sem ég hef heyrt ekki varanlegar og geta breyst.
Ég tel að ef kosið væri um áframhald viðræðna næsta vor myndi það hugsanlega enda með áframhaldi viðræðna (aðildarferlis). Sem væri mjög bagalegt því í þessar viðræður færi mikill tími ráðamanna og mikill kostnaður hlytist af þessu, sem við skattgreiðendur yrðum að borga. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar þar á meðal utanríkissráðherra Gunnar Bragi Sveinsson eru að sjálfsögðu algerlega andvígir slíkum viðræðum eða aðlögun að ESB, enda skilja þeir vel að þjóðinni er ekki til góðs að framselja framkvæmdavald sitt, þar á meðal stjórn fiskveiða og gerð viðskiptasamninga til erlends stórveldis. Ísland er mjög fámennt land með mjög miklar auðlindir af náttúrunnar hendi og það er þess vegna þjóð okkar í hag að Ísland standi utan ESB.
Ákveðið að slíta aðildarviðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að sögn Jacobs Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, "eru strandríkin farin að sjá til lands í deilunni" í Makrílviðræðunum sem standa yfir í Björgvin í Noregi. Hvað það þýðir veit ég ekki en það veit ég að ef Íslensk stjórnvöld sætta sig eitthvað minna en ca 16% Makrílkvótans eins og td eitthvað í nánd við þau 12% prósent sem ESB hefur verið að bjóða þá er það í mínum augum að gefast upp fyrir fiskveiðistjórn ESB.
Hótanir ESB eru að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráherra ólöglegar og eru að mínu mati átroðningur stórveldis gegn Íslendingum. Við Íslendingar ættum ekki að beygja okkur undir vald ESB í fiskveiðimálum, minnkandi hagur vegna samdráttar í Makrílveiðum er augljós ef 12 prósentin verða samþykkt.
Háttvirtur Sjávarútvegsráðherra ætti að láta renna á vaðið og blása á öll tilboð sem eru ekki sæmandi Íslenskum sjávarútveg og gera eins og stjórnvöld fyrr á tímum gerðu sem fóru fram með kjark og frumkvæði og háðu þorskastríðin svonefndu og komu landhelgi Íslands upp í 200 mílur. Ég treysti Sigurði Inga mjög vel og met hann mikils. Það kunna að verða einhverjar refsiaðgerðir af hálfu ESB en það er líka mikið sem tapast ef Íslensk útgerð þarf að minnka aflahlutdeild sína niður í 12%, og það veit ekki á gott að gefa eftir fyrir stórveldi á einn hátt því þá liggur beinast fyrir að gefa þá eftir á einhvern annan hátt. Best er frjálsum manni að lifa.
Sjá til lands í makríldeilu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 22.2.2014 kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur valdið talsverðri umræðu í fjölmiðlum og á netheimum undanfarið hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við ESB. Háttvirtur formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason sagði í morgunútvarpi Stöðvar 2 í gærmorgun að í aðildarviðræðunum hafi það verið samþykkt að "engar óafturkræfar breytingar yrðu gerðar á stofnanaaðlögun á aðildarumsóknartímanum". En eins og kunnugt er hefur þetta aðildarferli oft verið nefnt aðildarviðræður af ESB sinnum og fleiri landsmönnum, þar sem lokapunkturinn átti að vera þegar" kíkt væri í pakkann".
Mér finnst það góðs viti að það sé að koma meira og meira upp á yfirborðið í umræðunni um ESB að hér sé um að ræða aðlögunarferli þar sem lögum og stöðlum stofnana og stjórnkerfi Íslands sé breytt og aðlagað að ESB. Og að hér séu ekki aðeins viðræður að eiga sér stað eða einhverskonar samninsgerð. Finnst mér gott að formaður Samfylkingarinnar lýsir því hér yfir að hér sé um að ræða aðlögunarferli að lögum ESB.
Það ölli töluverðum ugg í huga mínum um daginn þegar ég las í frétt að erfitt getur verið að flytja inn vissar vörur frá Bandaríkjunum vegna staðla sem þær verði að uppfylla til að mega flytja þær inn. Er orsökin sú að reglur ESB og EES samningsins eru farnar að koma meira og meira inn í Íslenskt regluverk og heftir það innflutning frá öðrum löndum en ESB. Las ég jafnframt að innflutningur á bílum frá Bandaríkjunum væri jafnvel í hættu ef ekkert verði að gert. Mér finnst þetta forkastanlegt! Við höfum verið mikil vinaþjóð Bandaríkjanna og flytjum inn mikið af vörum þaðan. Viljum við láta innlima okkur meir og meir í tolla og staðlakerfi ESB og láta það binda hendur okkar svo að við neyðumst til að sækja í auknum mæli alls konar vörur frá Evrópu?
Það kann að vera að breytingar þær sem formaður Samfylkingarinnar talar um séu ekki óafturkræfar. En það er ég viss um að breytingar til fyrri horfs muni kosta mikla fjármuni og tima og fyrirhöfn, og að á meðan aðildarferlið sem ég vona svo sannarlega að fari ekki aftur af stað, muni kosta Íslensku þjóðina óþarfa óþægindi og fyrirhöfn og binda hendur þjóðarinnar í innflutningi á vörum eins og ég mynntist á og meiri undanlátssemi í sjávarútvegsmálum og nefni ég þar Makríldeiluna.
Ég vona að Landsmenn allir og stjórnmálamenn velji að standa utan ESB.
Kær kveðja.
Engin óafturkræf aðlögun að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 22.1.2014 kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)