Blekkingarleikur um svonefndar ESB-aðildarviðræður afhjúpaður af ESB!

Sumir flokkar virðast ætla að leika sama blekkingarleikinn og Samfylkingin og VG léku á tíma Jóhönnu­stjórnarinnar. En hann fólst í því að landsmenn gætu fengið að "kíkja í pakkann" að afloknum aðildarviðræðum við ESB. Látið var í veðri vaka að umsóknin að ESB og aðildarferlið væru aðeins samningaviðræður við sambandið með það að markmiði að "landa góðum samningi". Í frétt Mbl.is í dag notar Björt framtíð einmitt þetta sama orðalag en sá flokkur hefur lýst yfir vilja til að ganga í sambandið. Samfylkingin heldur blekkingarleiknum áfram og talar um að hald­in verði þjóðar­at­kvæðagreiðsla um frek­ari viðræður um aðild Íslands að ESB. Taka Viðreisn og Píratar í sama streng og samkvæmt frétt á Mbl.is í dag virðist VG vera reikandi í þessu máli.

Seint á síðasta ári sendi Svavar A. Jónsson, sóknarprestur á Akureyri fyrirspurn til ESB þar sem hann grennslaðist fyrir um eðli umsóknar og hvort í slíkri um­sókn fæl­ist að kanna án skuld­bind­inga hvað væri í boði eða hvort í henni fæl­ist yf­ir­lýs­ing um vilja til þess að ganga í sambandið.

Fékk hann það svar sem var í stuttu máli “að reglur ESB eru óumsemjanlegar. Þær verður að lögleiða og innleiða af umsóknarríkinu. Inngönguviðræður snúast í raun um það að samþykkja hvenær og með hvaða hætti umsóknarríkið tekur upp og innleiðir með árangursríkum hætti allt regluverk ESB.”

Flestum er í fersku minni ESB-aðildar-vegferð vinstri stjórnar Samfylkingar og VG en hún var byggð á flóknu baktjaldamakki samkvæmt því sem Árni Páll Árnason fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar greindi frá í febrúar á síðasta ári.

Fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, tókst að fá þingmenn VG á sitt band til að taka þátt í ESB-aðildarferlinu með hótunum um skjótan dauða hinnar langþráðu vinstri stjórnar. Ekki tókst það alveg því hún þurfti að láta einn þeirra, Jón Bjarnason, fara, því ekki vildi hann halda áfram með þann blekkingarvef sem hinar svonefndu ESB-aðildarviðræður voru. En þær voru ekki samningaviðræður, heldur umsókn Íslands að ESB og aðildarferli sem haldið var leyndu fyrir þjóðinni. Aðildarviðræðurnar sigldu í strand seint á tíma Jóhönnustjórnarinnar, en látið var í veðri vaka að um hlé á viðræðum væri að ræða.

Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum 2013 veittust fyrrverandi stjórnarflokkar að hinni nýju ríkisstjórn og kröfðust áframhalds ESB-aðildarviðræðna. En ríkisstjórnarflokkarnir höfðu gengið til kosninga með það að meginstefnu að hætta ESB-aðildarviðræðum. ESB-flokkarnir töpuðu illilega í kosningunum.

Að gera kröfu um að sigurvegarar með umboð gegn ESB-aðild spyrji þjóðina hvort hún vildi halda áfram misheppnuðum aðildarviðræðum var vægast sagt fáránlegt.

Síðan ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. kvaddi aðildarferlið í janúar 2013 hefur ástand innan Evrópu­sambandsins snarversnað. (Má þar nefna gengislækkun evrunnar, óstjórn hvað varðar móttöku flóttafólks, Brexit o.fl.) En þá hafði aðeins 11 af 33 samningsköflum verið lokað frá 2009. Ferlinu lauk með ágreiningi um kaflana um sjávarútveg og landbúnað þegar rann upp fyrir íslensku stjórnarherrunum að ESB krafðist aðlögunar í ferlinu og í bókum Brusselmanna væri ekkert til sem heitir könnunarviðræður.

Það má rekja upphaf nýja flokksins Viðreisnar til þráhyggju vegna þess að með kosningunum 2013 urðu þáttaskil í ESB-málinu. Aðildarbröltinu var hafnað.

Hérna eru 2 fróðlegar fréttir sem fjalla um þetta mál:

www.mbl.is/greinasafn/grein/1505686/

www.mbl.is/greinasafn/grein/1429386/

www.t24.is/?p=1098


mbl.is Hvað vilja flokkarnir í utanríkismálum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er lélegur samningamaður sem viðurkennir að hann sé tilbúinn til að gefa eftir áður en málin hafa verið tekin á dagskrá. Og það er heimskur maður sem trúir því að hann muni ekki gefa eftir og lætur ekki á það reyna. Enda hafa fengist varanlegar undanþágur hjá ESB og ýmislegt sem hægt er að semja um og samið hefur verið um. Bretar væru ekki að semja við ESB ef allt væri niður njörvað og ekki um neitt að semja. Dæmin sanna að margar reglur ESB eru umsemjanlegar og að ESB er sveigjanlegra en andstæðingar þess vilja halda fram. Hvort þar sé um að ræða heimsku eða vísvitandi blekkingarleik læt ég ósvarað. En viðbrögðin og hræðslan við að samið verði og að þjóðin fái svo að sjá þann samning og kjósa um hann segir sína sögu.

Espolin (IP-tala skráð) 24.10.2017 kl. 19:32

2 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Blekkingarleikurinn sem ég tala um lá í því að látið var í veðri vaka að aðildarferlið sem kom í kjölfar umsóknar um ESB væri aðeins samningaviðræður. En það er augljóst að svo var ekki. "Aðildarviðræðurnar" sigldu í strand þegar opna átti kaflann um sjávarútveginn og landbúnaðinn. Vegna þess að ákvæði skorti í stjórnarskrá sem heimilaði valdatilfærslu til erlends yfirvalds. Það er ljóst að orðið "aðildarviðræður" er villandi.

Steindór Sigursteinsson, 24.10.2017 kl. 20:22

3 identicon

Þér er náttúrulega frjálst að trúa hverju sem þínir félagar mata þig á.

ESB eru fjölþjóða samtök en ekki ríki. Það er ekkert í Stjórnarskránni sem bannar okkur að færa vald til fjölþjóðlegra stofnanna sem við erum aðilar að eins og fjölmörg dæmi eru um.

Aðildarviðræðurnar sigldu ekki í strand þegar opna átti kaflann um sjávarútveginn og landbúnaðinn. Viðræðum var frestað vegna þess að vitað var að þær yrðu erfiðar og tækju marga mánuði en aðeins voru vikur til kosninga. Það þótti því skynsamlegt að fresta viðræðum þar til eftir kosningar. Túlkanir félaga þinna og annarra ESB andstæðinga eiga ekki við nein rök að styðjast og eru þeirra skáldskapur.

En eins og ég sagði í upphafi þá er þér frjálst að trúa hverju sem er. Þér verður ekki snúið af öðrum en þínum félögum og því er tilgangslaust að reyna eitthvað frekar. Þú ert bara auðsveipur leppur manna sem vefja þér um fingur sér í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Gagnaöflun og úrvinnsla er ekki þín sterkasta hlið.

Espolin (IP-tala skráð) 25.10.2017 kl. 02:00

4 identicon

---

„Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.

Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.

Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“

---

Davíð Oddsson.

-------------------------------------------

Hvað er vandamálið við að "kíkja í pakkann" og ef ESB er svona ósveijanlegt eins og presturinn segir (eftir 2ja vikna samningaviðræður) þá verður samningnum einfaldlega hafnað og málið dautt....

Snorri (IP-tala skráð) 25.10.2017 kl. 08:32

5 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Espolin og Snorri, það hafa engir félagar mínir matað mig á þessum skoðunum. Ég hef myndað mér mínar skoðanir af fréttum, blöðunum og af netinu og af vel rökstuddum bloggum annarra. Í málgagni Ögmundar Árnasonar 25. ágúst 2010 er fjallað um Jón Bjarnason fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra;

"Jón Bjarnason hefur hins vegar sem ráðherra framfylgt þeirri stefnu sem Alþingi samþykkti varðandi aðildarumsóknina en hún gengur út á það , sem kunnugt er, að fá fram niðurstöður í viðræðum sem síðan yrði kosið um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar það síðan gerist að viðræðuferlið verður að aðlögunarferli - að því er séð verður - og boðið er upp á fjárveitingar til að smyrja ferlið sem best, þá spyrnir Jón Bjarnason við fótum enda er það í hans ráðuneytum sem mestu kröfurnar eru reistar". http://ogmundur.is/stjornmal/nr/5476/

Þarna kemur fram að aðildarviðræðurnar voru í raun aðildarferli.

Annar þingmaður, Gísli Árnason, formaður VG í Skagafirði sagði á Mbl.is 16. júlí 2012 (og á T24.is sama dag);

"Það er ekkert lát á aðlögun Íslands að ESB. Málið snýst ekki um að kíkja í pakkann heldur er verið að laga þjóðfélagið að ESB, þótt enginn vilji viðurkenna það. Hljóðið í Vinstri grænum í Skagafirði er verulega þungt. Ég held að flokkurinn fái slæma útreið í næstu kosningum og þá ekki aðeins úti á landi. Því var treyst sem forystan sagði um ESB. Þar stendur ekki steinn yfir steini".

Orð mín um að aðildarviðræðurnar sigldu í strand eiga sér fulla stoð í raunveruleikanum. Samkvæmt frétt á Mbl.is 14. apríl 2014 skrifaði Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra á Evrópuvaktina. Hérna er sú frétt:

"Björn Bjarnason skrifar á Evrópuvaktina og spyr hvort halda eigi blekkingarleiknum um aðildarviðræðurnar áfram endalaust. Nú sé komin fram skýrsla Alþjóðamálastofnunar HÍ þar sem enn sé látið eins og andrúmsloftið í Brussel sé svo gott að ekkert sé því til fyrirstöðu að halda ESB-viðræðunum áfram.

Björn bendir á að frá því í mars 2011 hafi viðræðurnar í raun verið leikaraskapur því að þá hafi verið orðið ljóst að ESB hafi ekki ætlað að halda viðræðunum áfram nema Ísland félli frá kröfum um yfirráð yfir 200 sjómílna lögsögunni.

Össur Skarphéðinsson hafi í janúar í fyrra viðurkennt að ekki væri unnt að ljúka samningi við ESB með minnisblaði í ríkisstjórn um að hægja á viðræðunum. Viðræðuferlið hafi runnið sitt skeið.

Viðræðunefnd, svokölluð samninganefnd var starfandi frá nóvember 2009 og hefði átt að ljúka störfum á árinu 2011 en ESB var ekki tilbúið til að veita undanþágur og Ísland eðli máls samkvæmt ekki tilbúið að gefa eftir fiskimiðin.

Viðræðurnar sigldu því í strand og eins og Björn bendir á varð þetta endanlega ljóst á svonefndri ríkjaráðstefnu í Brussel síðla árs 2012, með afstöðu stækkunardeildar ESB um að halda ekki áfram með sjávarútvegsmálin.

Þrátt fyrir allt þetta halda Alþjóðamálastofnun og aðrir málsvarar ESB-aðildar áfram blekkingarleiknum um að nauðsynlegt sé að láta "reyna á samninga".

Steindór Sigursteinsson, 25.10.2017 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband