Færsluflokkur: Bloggar

Ríkisstjórnin ætti ekki að gugna á ákvörðun sinni um slit á aðildarviðræðum við ESB.

Eins og fram kom í frétt á mbl.is tjáði Birgir Ármannson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis sig á þá leið að hann teldi ólíklegt að þingsályktunartillaga háttvirts utanríkismálaráðherra um að afturkalla umsókn Íslands að ESB verði afgreidd á þessu þingi.  Jafnframt kom fram að sögn Einars K Guðfinnssonar, forseta Alþingis að engin áform séu uppi um sumarþing.

Mig langar til að segja:  Er ríkisstjórnin nokkuð að gugna í ákvörðun sinni að slíta aðildarviðræðum við ESB ?  Það hefur farið mikið fyrir fréttaflutningi í fjölmiðlunum upp á síðkastið að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gerst nokkuð djarfir í málflutningi sínum, þar sem þeir lýsa því yfir að ríkisstjórninni beri að hætta við fyrirhuguð viðræðuslit og að Íslandi sé best borgið innan ESB.  Eru jafnvel uppi áform um að stofna nýjan stjórnmálaflokk með það að meginmarkmiði að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, og það án þess að formaður hefði fundist sem leitt gæti slíkt framboð. Yrði slíkur flokkur klofningur úr Sjálfstæðisflokknum ásamt öðrum sem fylgjandi eru inngöngu í ESB.

Ég vona að ríkisstjórnin, einkum sá hluti sem heyrir undir Sjálfstæðisflokkinn sé ekki að láta orð ESB -fylgjandi þingmanna Sjálfstæðisflokks og áróður ESB -hlyntra fjölmiðla, slá sig út af laginu eða láta hræðslu við áform um stofnun nýs ESB miðaðs stjórnmálaflokks stjórna gerðum sínum.

Það er nefnilega þannig, að sú staðreynd að Íslandi sé ekki vel borgið innan ESB stendur enn óhögguð, ekkert hefur breyst í þeim málum.  Það er augljóst orðið að sá efnahagsdoði sem einkennt hefur ESB -ríkin, einkanlega Evruríkin hefur ekkert batnað upp á síðkastið.  Sagt hefur verið af mörgum sérfræðingum sem fjallað hafa um þetta mál að ástæðan fyrir að ríki ESB fóru ver út úr kreppunni en mörg önnur ríki heimsins sé gjaldmiðillinn þeirra, Evran.  Og að ekki sjái fyrir endann á efnahagslægðinni hjá evruríkjunum.  Það er staðreynd að atvinnuleysi er mikið í Evru- löndunum 18, en það er að meðaltali 12%, en á Spáni er það 26%.  Við Íslendingar stöndum því mjög vel að velli, með um 4,5% atvinnuleysi.  En Íslenskt atvinnulíf og efnahagshorfur eru á mikilli uppleið. 

Er nokkur ástæða til þess að ganga inn í þá lágdeyðu sem ESB innganga myndi færa okkur inn í ?

 


mbl.is Óljóst hvort ESB-tillaga klárast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jesús dó og reis aftur upp frá dauðum.

Ég vil taka undir orð  Agnesar M. Sigurðardóttur biskups yfir Íslandi sem hún flutti í páskaprédikun sinni í Dómkirkjunni.  En hún sagði um Jesú Krist:  "Allt rættist það sem hann hafði sagt um örlög sín, enda hafði það verið skrifað í hans helgu bók. Hann reis upp á þriðja degi og sigraði þar með dauðann."  Orð þessi hafa verið ein af undirstöðuatriðum trúar okkar kristinna manna.  Biblían segir í I Korintubréfi 15:1-7:

"Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.

Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.

Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,

að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum

og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.

Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.

Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum."

Jesú Kristur reis upp frá dauðum á þriðja degi eftir dauða sinn.  Samkvæmt ritningunum voru rúmlega 500 manns vottar að upprisu hans.   Upprisan hefur gefið okkur kristnu fólki von í gegnum aldirnar, um að við fáum einnig að lifa og dvelja með Drottni Jesú á himnum eftir að lífi okkar hér á jörðu er lokið.  Biblían segir í I Korintubréfi 15:14:

"En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar."

 En Guði sé lof, Kristur er upprisinn og það gefur okkur kristnu fólki von og tilgang með lífinu, að líf okkar taki ekki enda við dauða okkar og þess vegna beri okkur að útbreiða boðskap trúarinnar til annarra svo þeir mættu verða hólpnir.

Kær kveðja.


mbl.is „Lífið er sterkara en dauðinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrengt að einkaframtakinu og einkabílnum í deiliskipulagi fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík.

Það hefur farið mikið fyrir umræðum í fjölmiðlum upp á síðkastið um fyrirhugaða þéttingu byggðar í og við miðborg Reykjavíkur.  Er stefnan sú að almenningssamgöngur og reiðhjólið fái meira vægi í umferðinni í miðborginni.  Er það ætlun Borgarstjórnar að þétta byggð, fækka bílastæðum en auka á sama tíma aðgengi reiðhjóla svo fólk geti nýtt sér betur þann umhverfisvæna ferðarmáta.  Eru það einkum þrjú svæði þar sem byggð verður þétt, er það Vatnsmýrin, Elliðavogur og svæðið við gömlu höfnina.  Hætt hefur verið við umferðarmannvirki eins og mislæg gatnamót, götur hafa verið þrengdar.  Er þetta gert í þeirri trú að almenningur muni draga úr notkun einkabílsins en nýta sér þess í stað strætó eða að bregða sér á reiðhjól. 

Stefnt er að lokun svonefndra Fluggarða með allri starfsemi sem þar er, en reisa þar íbúðabyggð þar sem verða meðal annars stúdentaíbúðir og reiðhjólastígar, svo nemendur í HÍ geti hjólað í og úr skóla.  Í miðbænum hefur ma verið þrengt að kaupmönnum þar með lokun hluta Laugarvegarins og Skólavörðustígarins fyrir akandi umferð á sumrin og hafa bílastæðagjöld verið hækkuð.  Talað er um að áætlun Borgarstjórnar sé ekki þétting byggðar heldur þrenging byggðar, því þrengt er að íbúum vesturhluta borgarinnar og lífsgæði þeirra skert í sumum tilvikum.  Hið nýja borgarskipulag nýtist yngra fólki best sem ekki er með fjölskyldur, því almenningssamgöngur henta yfirleitt ekki fjölskyldufólki.  því vinnutími er yfirleitt langur hjá fjölskyldufólki og það er þess vegna oft í kapphlaupi við tímann að koma börnunum sínum á milli skóla eða í tómstundir eða að versla og að bíða eftir strætó og fara með honum langar leiðir er ekki fýsilegur kostur.  Það er alls ekki tímabært að fólk fari í stórum mæli að hætta að nota einkabílinn en snúi sér þess í stað að almenningssamgöngum og reiðhjólanotkun.

Er ætlun Borgarstjórnar að smátt og smátt að yfirtaka Reykjavíkurflugvöll fyrir íbúða og atvinnubyggð.  Er yfirtaka fluggarða á næsta ári, fyrsta skrefið í þá átt.  En þar eru reknir nokkrir flugskólar, minni flugfélög og einkaflugmenn eru þar allmargir með vélar sínar.  Lítið sem ekkerti hefur verið haft samband við þinglýsta eigendur fasteigna á svæðinu og ekki hefur verið fundinn staður undir þessa starfsemi.

Í vor verða sveitarstjórnarkosningar, þá hafa Reykvíkingar færi á að velja þá frambjóðendur sem fara vilja með málefni deiliskipulags Reykjavíkurborgar af skynsemd og leyfa Reykjavíkurflugvelli að vera áfram aðalsamgönguhlekkurinn við landsybggðina og þyrma lífvænlegum atvinnugreinum eins og flugkennslu og flugi. Ásamt því að gæta hófs í þéttingu byggðar með lífsgæði íbúa Reykjavíkur og atvinnumöguleika í huga.

Með kærri kveðju.


Lokun Reykjavíkurflugvallar snertir þjóðarhag og þjóðaröryggi.

Það er að koma sífellt betur og betur í ljós í fréttum fjölmiðla hversu skaðleg lokun Reykjavíkurflugvallar yrði.  Bæði fyrir flugfélög þau og flugskóla sem hafa aðsetur á vellinum ásamt einkaflugmönnum og ekki síst fyrir alla landsmenn, þar sem flugtími frá landsbyggðinni til Reykjavíkur mun lengjast til muna.   þetta mun koma niður á buddu landsmanna fyrr eða síðar þar sem ferðir til annarra landa munu hækka töluvert í verði vegna tæknilegra örsaka í tengslum við missi á varaflugvelli.  Fargjöld innanlands munu hækka töluvert.  Er jafnvel talað um að vart verði grundvöllur fyrir innanlandsflugi verði Reykjavíkurflugvöllur lagður niður. 

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um hver áhrif það hefði á flugnámið ef flugskólarnir yrðu að hafa sig í burtu frá Reykjavíkurflugvelli á næsta ári.  Slíkt væri hvílik holskefla fyrir þessa atvinnustarfsemi.  Enginn flugvöllur sem stenst kröfur varðandi góðan kennsluflugvöll er á næsta leiti. Hætta væri á að þeir hreinlega legðu upp laupana og að flugnemar þyrftu að leita út fyrir landssteinana með flugnám, með stórauknum kostnaði því fylgjandi, ásamt hugsanlegum samdrætti í hópi þeirra sem hyggja vilja á flugnám.

Það þykir sjálfsagt í stórborgum úti í heimi að flugvellir séu inni í stórborgum.  Eru þess dæmi jafnvel svo nokkur hundruðum skiptir.  Nálægð flugvallar við Landsspítala sem á vonandi eftir að vaxa og auka húsakost sinn er ákaflega mikilvægur.  Sagt hefur verið að rekstur þyrlu sé 6-8 sinnum dýrari en vængjavélar.  Reykjavíkurflugvöllur er einnig mikilvægur ef til eldsumbrota kemur á Reykjanesinu ef hraun rynni yfir Reykjanesbraut.

Ég vil segja að það eru miklar ógöngur sem borgarstjórn Reykjavíkur er að koma landsmönnum út í, ásamt flugfélögum og flugskólum. 

Mér finnst að leiðin út úr þessu sé að ríkisstjórnin taki af skarið og taki opinbera afstöðu í þessu máli og leiti leiða til þess - hreinlega að leggja lögbann á þessar aðgerðir Reykjavíkurborgar.  Þetta mál er þess eðlis að ekki leikur vafi á því að hér er á ferðinni mál sem snertir þjóðaröryggi og þjóðarhag.  Og ef farið verði út í þessar aðgerðir mundi það valda margvíslegum skaða á flugsamgöngum og skapa hættu bæði hvað varðar náttúruhamfarir á Reykjanesinu og koma í veg fyrir eðlilegt sjúkraflug á Reykjavíkursvæðinu.

Með kærri kveðju.

 


mbl.is Fargjöld munu hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanlegt skeytingarleysi gangvart blómlegri atvinnugrein og eignarrétti fólks.

Það er ljóst orðið að borgarstjórn Reykjavíkur hefur fastráðið að hefja niðurrif á svæði svonefndra Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli á næsta ári og byggja þar íbúðabyggð.  Var það mál ákveðið með samþykkt deiliskipulags sem samþykkt var síðustu viku.  Vilji borgaryfirvalda stendur til að Reykjavíkurflugvöllur víki alfarið úr Vatnsmýrinni í framtíðinni og að þetta verði fyrsta skrefið í þá átt.

Mér finnst þessi ákvörðun Borgaryfirvalda alveg óskiljanlegt skeytingarleysi gagnvart þessari starfsemi sem þarna fer fram og skilningsleysi viðkomandi á þeim skaða sem þetta mun valda, á þessari blómlegu og vaxandi atvinnugrein sem Flugskólarnir eru.  Í flugskóla þá sem eru á Reykjavíkurflugvelli sækjast að jafnaði töluverður fjöldi erlendra flugnema.  Er það vegna þess að kostnaður við flugnám er tiltölulega lágur hér á landi í samanburði við það sem gerist í öðrum löndum.  Í Íslensku flugskólunum er rekin metnaðarfull kennsla með góðu starfsliði og tækjakostur hefur farið vaxandi eins og með tilkomu flugherma, er það til að gera Íslenska flugkennslu fyllilega samkeppnishæfa við það sem best þekkist.  Einn flugskólinn hefur starfað í yfir 50 ár með góðum orðstýr.   Á svæðinu eru líka rekin nokkur minni flugfélög og fjöldi einkaflugmanna hefur þar aðstöðu fyrir vélar sínar í flugskýlum sem eru á svæðinu.

Má nú segja að starfsemi þessi sé í hættu vegna skammsýni Borgaryfirvalda og eiginhagsmunastefnu að hugsa aðeins um að skapa rými fyrir íbúðabyggð, sem vel mætti vera staðsett annars staðar.  En á sama tíma að leggja eigur viss hóps manna og hagsmuni tveggja atvinnustétta sem þarna starfa í rúst.    Á ég varla orð til að lýsa vanþóknun minni á fyrirhuguðum aðgerðum Reykjavíkurborgar og trega minn vegna þessa fólks sem hefur rekið þessa mikilvægu flugstarfsemi á svæðinu, með góðum efnahagslegum áhrifum á landsvísu.  Er það vegna starfsemi, minni flugfélaga með bættum samgöngum við landsbyggðina og vegna ýmsrar tengdrar þjónustu eins og skoðanir og viðhald á flugvélum, sala á varahlutum ofl.

Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu mikill skaði það yrði fyrir flugskólana og verðandi flugmenn ef flugkennsla leggst af á Reykjavíkurflugvelli.  Reykjavíkurflugvöllur er alveg kjörinn fyrir flugnám, stærð hans og umferð sem um hann fer, er alveg kjörin fyrir einka- og atvinnuflugs nám.  Það væri alvarlegra en orð fá lýst ef flugnám leggist að mestu leiti niður á Íslandi og verðandi flugnemar yrðu að leita fyrir sér erlendis með flugnám.  Það mundi leiða til þess að verðandi flugmönnum mundi stór fækka, því er nefnilega þannig farið að nærvera við flugvöll, Flugdagar þeir sem haldnir eru á Reykjavíkurflugvelli og starfsemi flugskóla hafa laðað að sér margan manninn til að leggja í flugnám.  Og margir menn og konur hafa smitast af flugbakteríunni, einmitt við það að fara í kynningarflug hjá einhverjum flugskólanna.  Er nokkuð yndislegra og meira spennandi en að svífa um loftin blá í flugvél? 

Ég vil hvetja Borgaryfirvöld í Reykjavík að endurskoða þessa ákvörðun sína með hagsmuni þessara starfstétta sem hafa lifibrauð sitt á svæðinu í huga og með þá blessun sem starfsemi flugskóla hafa á flugið í landinu.

Með kærri kveðju.


mbl.is Reykjavík besti kennsluvöllurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óréttlætanleg eignaupptaka á aðstöðu einkaflugmanna, flugskóla og minni flugfélaga.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að Reykjavíkurborg hefur ráðgert að taka yfir landrými það á Reykjavíkurflugvelli, sem nefnast "Fluggarðar".  Er það svæði þar sem einkaflugmenn, Flugskólar og nokkur minni flugfélög hafa aðstöðu og flugskýli fyrir flugvélar sínar.  Í síðustu viku samþykkti Reykjavíkurborg deiliskipulag, þar sem gert er ráð fyrir að Fluggarðar víki fyrir annarri byggð strax á næsta ári.

Ég á varla orð til að lýsa vanþóknun minni á fyrirhugaðri aðgerð Reykjavíkurborgar að flæma burt þeirri starfsemi sem þarna þrífst, með eignaupptöku og niðurrifi á flugskýlum og öðrum fasteignum einkaflugmanna, flugskóla og flugfélaga.  Er þetta niðurrif að ég tel algjörlega ólöglegt þar sem Reykjavíkurborg hefur lítið sem ekkert samráð haft við þinglýsta eigendur mannvirkja á svæðinu og hyggst ekki greiða þeim bætur. Hér er verið að ýta þeim flugrekstraraðilum sem hlut eiga að máli og einkaflugmönnum út á kaldan klakann.  Á svæðinu eru að jafnaði 85 flugvélar vistaðar í flugskýlum sem telja alls um 8000 fermetra, og að starfsemi þeirri sem fer fram á svæðinu koma nokkur hundruð manns.  Enginn flugvöllur kemur til greina fyrir starfsemi þessa, Keflavíkurflugvöllur getur ekki tekið við flugnáminu og einkafluginu, þar sem flug lítilla flugvéla og stórra þotna passar ekki saman.  Þar sem mikil hætta skapast á árekstrum milli kennsluvéla og farþegavéla að maður tali ekki um öfluga hvirfla sem stórar flugvélar skapa sem geta skapað mikla hættu fyrir einkaflugvélar.

Reykjavíkurflugvöllur er eins og kjörlendi fyrir flugskóla, því hér er  um að ræða flugvöll mjög vel tækjum búinn og með hæfilegri umferð flugvéla sem gera flugnámið meira krefjandi.  Að setja starfsemi flugskóla á lítinn flugvöll eins og á Selfoss eða á Hellu mundi gera námið mjög einhæft og takmarkað hvað varðar þjálfun í talstöðvarsamskiptum og maður talar nú ekki um vöntun á ýmiskonar aðflugs- og flugleiðsögu tækjum sem fyrirfinnast á stærri flugvöllum ásamt flugturni með flugumferðarstjórn.  En það er nauðsynlegt fyrir flugnema sem hyggja á áframhaldandi nám með atvinnuréttindum.

Ég vil hvetja borgarstjórn Reykjavíkur til að hætta við fyrirhugað niðurrif á Fluggörðum.  Sú starfsemi sem þarna fer fram er mikið þjóðhagsmuna-mál með hundruðum starfsfólks sem þarna hefur lifibrauð sitt.  Þetta er ekki aðeins niðurrif á einhverjum byggingum til þess að hægt sé að reisa þar íbúðabyggð heldur er hér um stærra og víðfeðmara mál að ræða.  Það er hætta á að starfsemi flestra flugskóla á Íslandi hreinlega þurrkist út.  Það er á engan annan stað að venda fyrir þá flugrekstraraðila sem þarna eru og einkaflugmenn í Reykjavík.  Á þessi sjónarmið ber Reykjavíkurborg að líta.  Ef Reykjavíkurborg hættir ekki við fyrirhugaðar aðgerðir á þessu svæði er það skoðun mín að Ríkisstjórninni beri að leggja lögbann á þessar aðgerðir.  Því hér eru hagsmunir á ferðinni sem snerta hag allrar þjóðarinnar.

Kær kveðja.

 


mbl.is Enginn vill einka- og kennsluflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrsla Alþjóðamálastofnunar tilgreinir ekki heimildarmenn og er án heimildarskrá.

Í fréttatímum Stöðvar 2 og Rúv var fjallað um skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.  Var þar fullyrt að Íslendingar mundu sennilega komast hjá því að fiskveiðiskip ESB myndu veiða í Íslenskri lögsögu þrátt fyrir inngöngu Íslands í ESB og að Íslendingar kæmust hjá því að erlendir aðilar fjárfestu í Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.  Var sagt að upptaka Evru myndi stórauka hag landsmanna og að kostirnir við upptöku Evru vægju þyngra en ókostirnir.

Vigdís Hauksdóttir þingmaður og formaður Heimssýnar gagnrýndi skýrslu Alþjóðastofnunar HÍ.  Sagði hún hálfsannleik koma þar fram og að í raun sé þetta "skýrsla óþekkta embættismannsins" þar sem vitnað er í nafnlausa embættismenn ESB og tveggja manna tal.  Sagði Vigdís að í skýrslunni komi fram að ósamstaða hafi verið í fyrri ríkisstjórn og ekki hafi verið hægt að opna ýmsa viðræðukafla vegana fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar.

Ég vil segja að þessi skýrsla virðist ekki vera mikið mark á takandi vegna þeirra annmarka sem á henni eru;  að ekki er vitnað í hverjir innan ESB hafi tjáð sig og að sögn Vigdísar var engin heimildaskrá sem fylgdi skýrslunni sem fylgja þarf ef skýrsla á að vera vel og faglega unnin.  Vigdís sagði líka að komið hafi fram í skýrslunni að ástæðan fyrir því að ekki var hægt að opna ýmsa viðræðukafla væri vegna fyrrverandi Sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar og sagði  hún það fjarstæðu að ætla núverandi ríkisstjórn sem er á móti inngöngu í ESB að halda viðræðunum áfram. 

Vil ég taka undir með Vigdísi að skýrsla þessi virðist ekki faglega unnin þar sem vitnað er í ónafngreinda embættismenn innan ESB og að tilvitnanaskrá vantar.  Skýrsla Hagfræðistofnunar Hí var hins vegar mjög fræðilega og vel unnin, þar kom fram að engar varanlegar undanþágur eða undanþágur sem máli gætu skipt fyrir Ísland væru í boði.

Kær kveðja.


mbl.is Skýrsla óþekkta embættismannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háttvirtur Fjármála- og Efnahagsráðherra sýnir ábyrgð í fjársýslu ríkisins.

Í frétt á Mbl. is er greint frá að Fjármálar-og Efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson geri ráð fyrir að sett verði 45% skuldaþak á skuldir ríkisins sem hluti af vergri landsframleiðslu.  En við núverandi aðstæður er skuldahlutfall ríkisins um tveir þriðju af landsframleiðslu.

Þarna er Bjarni Benediktsson að sýna fyrirhyggju og ábyrgð í fjármálum ríkisins, eins og honum einum er lagið.  Það er gott að gæta hófs þegar ákvarðanir eru teknar um fjárveitingar til ýmissa mála.  Vert er að hyggja að fjárhagslegum stöðugleika og skuldastöðu ríkissjóðs þegar fjárveitingar eru ákveðnar til ýmissa málaflokka og ekki síst einstakra hópa launþega.  Nýverið voru gerðir launasamningar á almennum vinnumarkaði.  Einkenndist samningavinnan af vilja bæði launþega og atvinnurekanda að skapa stöðugleika í landinu.  án efa hefði hækkun launa mátt vera meiri, ekki veitir af því fyrir skuldug heimili en þessar launahækkanir voru skref í rétta átt. 

Ég vil hvetja hlutaðeigandi aðila sem krefjast vilja mun hærri launahækkunar en sem fólk á almennum vinnumarkaði hlaut, að gæta hófs í launakröfum sínum.  Sú 10% launahækkun sem ríkið hefur boðið framhaldskóla kennurum ætti að samþykkja af samtökum framhaldskólakennara.  Miklar hækkanir einnar stéttar geta eins og kunnugt er sett af stað skriðu launadeilna hjá öðrum stéttum með aðgerðum eins og verkföllum.  Það er ekki rétt að núverandi ríkisstjórn þurfi allt í einu snemma á ríkisstjórnartíma sínum að hífa laun viðkomandi launafólks upp í það sem tíðkast hjá einka reknum fyrirtækjum. 

Fólk á almennum vinnumarkaði samþykkti með nýjustu samningum 2,8-5% launahækkun.  Grunnlaun verkafólks eru í mörgum tilvikum 230-240 þúsund á mánuði.  Verkafólk á ekki rétt á að vinnuafl þess sé álitið eitthvað minna mikilvægt en verkmennta- og háskólamenntaðs fólks.  Vinna þeirra er oft á tíðum erfið og lýjandi og vinnudagur langur.  Það er fáránlegt þegar talað er um að menntun sé eins og grunnskilyrði fyrir góðum lífskjörum í landinu.  Lág laun verkafólks er ekki vegna lélegrar menntunar þess fólks sem vinnur verkamannavinnu heldur lítilsvirðing og vanvirðing atvinnurekanda við verkafólk þar sem það er álitið á lægri stalli en aðrar stéttir. 

Kær kveðja.


mbl.is Sett verði 45% skuldaþak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu er þörf á Alþingi til að ljúka megi málum á tilsettum tíma

Það er ljóst að nokkuð miklar annir verða á Alþingi á næstunni, þar sem mörg mál bíða enn afgreiðslu.  En engir þingfundir eru dymbilviku, eða um páskana og framundan eru sveitarstjórnarkosningar í vor.  Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni kom fram að frestur til að leggja ný mál fram, rennur út á morgun.  Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis sagði í þættinum að hann telji að mál sem boðuð hafa verið muni ekki verða lögð fram fyrir tilskilinn frest.  muni það koma í ljós hvort samstaða verði til að taka þessi mál fyrir og afgreiða þau.  hann telji engu að síður að hægt sé að ljúka þinginu með skikkanlegum hætti og þá án þess að halda þurfi sumarþing.

Það hafa sjaldan verið eins mörg stór mál sem eru á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar í samanburði  við fyrri stjórnir Íslenska lýðveldisins.  Stórfelld skuldaniðurfærsla er í þann mund að eiga sér stað á næstu misserum.  Aðgerðir sem eru með þeim stærri sem farið hefur verið í, í Íslenskri stjórnmálasögu.  Sumir meta lítils þessar aðgerð ríkisstjórnarinnar, segja að þær nái ekki til þeirra sem eru með íbúð í félagslega kerfinu.  Tel ég að ekki sé loku fyrir það skotið að ríkisstjórnin komi til móts við þennan hóp fólks því að í fréttatíma einnar sjónvarpsstöðvarinnar eitt kvöldið var viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra þar sem hann tjáði sig á þá leið að sértækar aðgerðir eins og þessi væri í verkahring félagsmálaráðuneytisins að leysa úr.  Var þá Eygló Harðardóttir Félags og Húsnæðismálaráðherra innt svara varðandi þetta málefni.  Svaraði hún því til að þetta mál myndi verða skoðað. Þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar um almenna niðurfærslu höfuðstóls húsnæðislána er eitthvað sem koma mun sér vel fyrir skulduga húsnæðiseigendur og gott væri ef hægt yrði að koma einnig til móts við fólk í félagslega kerfinu.

Það hefur verið mikil umræða um ýmis stór mál á Alþingi eins og afturköllun ESB umræðnanna og mikill tími fór í umræður um þingstörf.  Slíkt tók mikinn tíma frá umræðu um önnur mikilvæg mál.  Mörg mál bíða enn og vona ég að almenn samstaða skapist um það á Alþingi að koma þeim málum í gegn og ljúka þeim á tilsettum tíma.  Vil ég hvetja fólk til að sýna hinni nýju ríkisstjórn þolinmæði varðandi mál sem hún hyggst koma í gegn fólkinu í landinu til hagsbóta. Ríkisstjórnin er að vinna að hagsbótum fyrir almenning í landinu.  Kaupmáttur launa fer hægt vaxandi og efnahagur ríkisins er á uppleið.

Kær kveðja.


mbl.is Viðbúið að annir verði miklar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðiefni að loforð ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfærslu sé brátt í höfn.

Það hefur verið ofarlega á baugi í fréttum í dag að ríkisstjórnin muni brátt hrinda í framkvæmd loforðum sínum varðandi niðurfærslu höfuðstóls og heimild til að verja séreignarsparnaði til enn frekari niðurgreiðslu lána.  Sigmundur Davíð Gunnlaugson, forsætisráðherra sagði á samtali við mbl.is eftir blaðamannafund í dag um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málum skuldugra heimila:  "Kosningaloforð sem var kallað stærsta kosningaloforð Íslandssögunnar.  Ætli við köllum þetta ekki stærstu efndir Íslandssögunnar," 

Mig langar til að segja að ég er ákaflega ánægður með þá Sigmund Davíð og Bjarna Benediktsson.  Þeir hafa náð að sætta ólík sjónarmið flokka sinna varðandi nálgun á þessu vandamáli, sem er skuldavandi heimilanna.  Þeir, formenn ríkisstjórnarflokkana hafa náð góðri samstöðu í þessu máli og samvinnu, og hafa þeir tvinnað listavel saman ólíkar áherslur flokka sinna í þessu máli.

Ég verð að segja að ég aðhylltist stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málum lengi vel í kosningabaráttunni og í upphafi ríkisstjórnarsamstarfs hinnar nýju ríkisstjórnar.  Fannst mér stefna Sjálfstæðisflokksins vera varkárari og ábyrgari en sú stefna sem Framsóknarflokkurinn boðaði í kosningaherferð sinni.  En fljótt sá ég þó að efndir myndu fylgja orðum hjá háttvirtum forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins, þegar ég sá stefnufestu hans og áræði hans í þessu máli.  Það má segja að ég leiki við hvern minn fingur, núna þegar frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til skuldugra húsnæðiseigenda er að líta dagsins ljós.  Enda er ég sjálfur íbúðaeigandi með áhvílandi lán á raðhús íbúð minni, eins og svo margir aðrir.  Þessar aðgerðir munu skila íbúðareigendum sem hafa lán á íbúðum sínum, verulegri kaupmáttaraukningu. 

Það er ekki satt sem haldið er fram af sumum sem mótfallnir eru ríkisstjórninni, að Framsóknarflokkurinn hafi lofað í kosningabaráttu sinni að aðgerðir til handa skuldugum húsnæðiskaupendum mundi nema 300 milljarðum króna.  Sigmundur Davíð lofaði aldrei að aðgerðir þessar yrðu ígildi 300 milljarða króna.  Slíkt er alger misskilningur og rangminni hlutaðeigandi aðila.

Kær kveðja.

 


mbl.is „Stærstu efndir Íslandssögunnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband