Góð stefnumörkun hjá lista Framsóknarflokksins og Flugvallarvina.
11.5.2014 | 00:21
Sveinbjörn Birna Sveinbjarnardóttir sem er efst á lista Framsóknar og flugvallarvina, tjáði sig á eftirfarandi hátt í frétt Mbl.is: "samþættingin hefur gengið mjög vel og við erum að ganga í sömu átt. Það mætti eiginlega segja að við séum að bíða eftir fyrsta ágreiningnum," En eins og flestum er kunnugt hefur Framsóknarflokkurinn teflt fram lista þar sem barist er fyrir áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýrinni. Hefur verið ákveðið að flugvallarvinir séu velkomnir inn á lista Framsóknar. Stefna listans í flugvallarmálinu er alger verndun Reykjavíkurflugvallar, þar með talið allar flugbrautir vallarins, öll aðstaða flugrekstraraðila og flugskýli sem eru á svæðinu.
Það er gott til þess að vita að framboð Framsóknarmanna í Reykjavík hafi tekið flugvöllinn upp á sína arma . Það er einnig baráttumál þeirra að ekki verði farið í óréttlætanlega og óraunhæfa samþjöppun byggðar á Reykjavíkursvæðinu með fækkun bílastæða og bílskúra og þrengingu margra gatna sem núverandi borgarstjórn hefur ráðgert að hrinda í framkvæmd. Listinn hefur líka fleiri mál á stefnulista sínum sem ég ætla ekki að útlista hér.
Mér líst vel á Sveinbjörgu Birnu sem skipar efsta sæti listans. Það er gott mál að listi Framsóknar skuli hafa komið í verk hugmyndum þeim sem fyrrverandi formaður Framsóknar kom með fyrir stuttu síðan og á ég þar við að standa vörð um flugvöllinn með hjálp flugvallarvina.
Það er augljóst að listi Samfylkingar og Vinstri grænna hafa það á stefnuskrá sinni að þétta byggð og taka land Reykjavíkurflugvallar smátt og mátt undir íbúða- og atvinnubyggð. Slíkar aðgerðir eru að sjálfsögðu algerlega óraunhæfar þar sem flugvöllurinn er bæði þjóðhagslega mikilvægur með innanlandsflugið, flugskólana og ýmsa starfsemi sem tengist fluginu í huga. Hann er líka öruggur út frá þjóðaröryggi hvað sjúkraflugið snertir og er neyðarflugbrautin einkar mikilvæg þar sem hún býður upp á lendingar þegar vindátt er óhagstæð til lendingar á öðrum brautum vallarins.
![]() |
Góð samstaða með flugvallarvinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Núna þegar skuldaniðurfærsla háttvirts forsætisráðherra er til umræðu í þinginu, eru þingmenn vinstri flokkana að láta í sér heyra. Hafa þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri Grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata talað niður til þingsálykturnartillögu Ríkisstjórnarinnar varðandi niðurfærslu höfuðstóls húsnæðislána. Má segja að þau finni tillögunni flest til foráttu. Um þetta mál vil ég segja eftirfarandi sögu, í ljósi þess að núna er um það bil ár liðið síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum:
Þegar þjóðin hafði valið Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til þess að fara með stjórn landsins, í síðustu kosningum, þá valdi forseti Íslands eins og kunnugt er formann Framsóknarflokksins til að leiða stjórnarmyndun. Þegar Sigmundur Davíð hafði tekið við umboði frá Forseta Íslands, sneri hann sér fyrst til vinstri með gottið sem voru aðgerðir þær sem hann hyggst koma í framkvæmd landinu og landsmönnum til góðs. Hann sneri sér ekki til hægri til formanns Sjálfstæðisflokksins, eins og eðlilegast hefði talist, heldur til vinstri framboðanna. Hann gekk til Birgittu, Árna, Katrínar og Guðmundar og skoðaði gottið sem þau höfðu upp á að bjóða, en það voru áform sem þau höfðu varðandi bættan hag landsins og fólksins í landinu. Þegar hann skoðaði í nammipokann hjá þeim sá hann enga mola sem voru eins góðir á að líta og hans eigin molar, hans eigin áform sem hann hafði áformað ásamt Þingflokk sínum að framkvæma. Varð honum þá hugsað til Bjarna Formanns Sjálfstæðisflokksins, skyldi hann ekki hafa betra gotterí en hin í vinstri framboðunum höfðu ? Það var bara einn hængur á, hann var ekki viss um að Bjarni myndi líka við gottið sem hann hafði í nammipoka sínum og Sigmundur hélt mikið upp á. Það var nefnilega svo að Sigmundur hafði sinn uppáhaldsmola í poka sínum. Og hann var svolítið smeikur um að Bjarni mundi kíkja í pokann hans og taka burtu uppáhaldsmolann hans, sem var kosningaloforð hans sem voru aðgerðir til handa skuldugum heimilum.
Á meðan var Bjarni einmanna og svolítið stúrinn á svip því honum fannst honum hafa verið hafnað. Ætlaði Sigmundur að fara til allra hinna í vinstri framboðunum en skilja sig út undan og flokk hans ? Á meðan var Sigmundur Davíð að velta því fyrir sér hvort hann ætti að snúa sér til Bjarna. Eftir nokkurn umhugsunartíma tók hann af skarið og fór á fund Bjarna.
En það var eins og við manninn mælt, Bjarni tók honum mjög vel, hann lét uppáhaldsmolann hans alveg vera. Þeir ræddu um sín á milli hvernig þeir gætu skipt gottinu og gefið það síðan landsmönnum sem voru svangir eftir langann kosningavetur. Þeir fundu alveg prýðilega leið til þess að móta molana og gera þá þannig úr hendi að gottið hentaði fólkinu í landinu sem best. Þeir mótuðu úr uppáhaldsmolum sínum einn mola sem voru aðgerðir þær sem þeir hyggjast koma í framkvæmd, sem er niðurfærslu höfuðstóls íbúðalána. Og þeir mótuðu alla molana eftir því sem þeim best leist og hvernig best kom sér fyrir þjóðarhag. Að því loknu helltu þeir öllum molunum í stóra skál, sem kallast Stjórnarsáttmáli Ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Og þeir fóru með sælgætisskálina til Reykjavíkur, í Stjórnarráðið, en þeir höfðu dvalist í sumarbústað á Suðurlandsundirlendinu þegar á stjórnarviðræðunum stóð. Eftir að hafa sýnt sínum eigin flokksmönnum gottið sem var í skálinni varð formleg stjórnarmyndun, og ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð. Var Sigmundur Davíð skipaður forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, auk þess fengu þeir fólk úr flokkum sínum sem skipuðu hin ýmsu ráðherraembætti hinnar nýju ríkisstjórnar. Þau voru: Sigurður, Gunnar, Egló, Kristján, Hanna Birna, Ragnheiður og Illugi. Stjórnarsamstarfið gekk vel og fólkið í hinni nýju ríkisstjórn var ánægt yfir því góða sem þau hugðust koma til leiðar fyrir land sitt. Tíminn leið og viðræður fóru fram á Alþingi um aðgerir ríkisstjórnarinnar. Stjórnarliðar höfðu nammiskálina sem þau höfðu fyrir fólkið í landinu.
En skjótt skipast veður í lofti. Þegar Sigmundur, Bjarni og öll hin í ríkisstjórninni voru að útdeila gottinu úr nammiskálinni, þá komu allt í einu hin úr vinstri framboðurnum; Árni, Katrín, Birgitta, Guðmundur og fleiri og réðust að þeim þar sem þau voru brosandi vegna þeirra góðu áforma sem þau höfðu í huga að framkvæma landsmönnum til góðs. Reyndu þau að hrifsa uppáhaldsmola þeirra Sigmundar og Bjarna úr sælgætisskálinni. En þau í ríkisstjórninni gerðu það sem þau gátu til þess að þau í vinstri framboðunum gætu ekki tekið gottið. Og það var mikil barátta um gottið á milli þeirra, á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, og lýkur hér þessari sögu.
![]() |
Góðar tillögur stöðugt talaðar niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.5.2014 kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Evran gæti gengið að Evrópusambandinu dauðu.
2.5.2014 | 23:46
Það er athyglisvert að aðild Íslands að Evrópusambandinu, undir þeim formerkjum að taka upp gjaldmiðilinn Evru sé enn í umræðunni. Þrátt fyrir að árum saman hafi skoðanakannanir leitt í ljós að meirihluti þjóðarinnar vilji ekki ganga í Evrópusambandið. Þær skoðanakannanir voru að engu hafðar þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna ákvað að sækja um aðild að ESB í júli 2009. Þessar aðildaviðræður voru síðan settar á ís af sömu ríkisstjórn snemma árs 2013. En pólitískar deilur um framhaldið hafa nú klofið þjóðina í tvennt. Það sem deilt er um núna er hvort stofna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðum eða ekki.
Frá því sótt var um aðild að ESB 2009 voru nánast einu rökin fyrir aðild þau, að Íslenska krónan væri ekki lengur nothæf sem gjaldmill. Því væri það eina raunhæfa leiðin að ganga í ESB og myntbandalag þess og taka upp evru.
Francois Heisbourg sem er einn kunnasti sérfræðingur Evrópu í öryggis- og alþjóðstjórnmálum sem gefið hefur út bókina "Endalok evrópska draumsins" telur að Íslendingar eigi ekki að taka upp evru. Hann tók svo djúpt í árinni á fyrirlestri sem hann flutti í Háskóla Íslands nýverið að "Evran gæti gengið að Evrópusambandinu dauðu". Hann sagði að fulltrúar á Evrópuþinginu séu að verða mjög þreyttir á því að ráðstafanir sem gerðar hafi verið á evrusvæðinu séu litlu að skila. Efnahagsvöxtur sé sáralítill. Atvinnuleysi sé fast í um 12% á evrusvæðinu. "Einhvers staðar, einhvern tíma mun verða pólitísk sprenging í mikilvægum ríkjum." Á sama tíma og verið væri að innleiða margvíslega þætti sem stuðla eigi að auknum efnahagslegum samruna evruríkjanna þá hafi menn verið að endurreisa bankakerfið á grundvelli einstakra ríkja. Nefndi hann sem dæmi að stóru bankarnir fjórir í Frakklandi sem áður hafi verið á alþjóðlegum markaði, spili nú á innanlandsgrunni. Sama þróun hafi verið í Þýskalandi og á Ítalíu hafi menn í raun aldrei komist út fyrir landssteinana hvað bankana snertir, sama sé upp á teningnum á Spáni, þar hafi sama þróunin átt sér stað. Sagði Heisbourg að tæknilega séð sé tiltölulega auðvelt fyrir þessi lönd að ganga út úr evrusamstarfinu. Og í raun séu evruríkin á fullu við að undirbúa að evran líði undir lok og ætla þá að vera tilbúin að taka upp eigin gjaldmiðil að nýju. Sagði hann að evran auki á vandann í frjálsu flæði vinnuafls milli landa og að löndum eins og Svíþjóð og Danmörku vegni vel vegna þess að þau eru með sinn eigin gjaldmiðil. Með öðrum orðum að evran væri ekki að skila tilætluðu hlutverki sínu. Sagðst Hedelbourg eiga mjög erfitt með að skilja rökin fyrir því að Íslendingar taki upp evru við núverandi aðstæður.
Ég vil taka undir með Heidelbourg að upptaka evru þjónar alls ekki hagsmunum Íslands. Og því er það hverjum manni augljóst að við höfum ekkert að gera inn í Evrópusambandið heldur. Við getum bjargað okkur sjálf með eigin gjaldmiðil, en hann gefur okkur færi á að fella gengið þegar okkur hentar. Hjá evruríkjunum er það ekki hægt og þörf er á að beita aðhaldsaðgerðum með niðurskurði og uppsögnum opinberra starfsmanna. Sveigjanleiki krónunnar er kostur á vissan hátt.
Ég vil hvetja ríkisstjórn Íslands að halda fast við fyrirhuguð slit á umsókn um aðild að ESB, því það tel ég vera þjóðinni fyrir bestu.
![]() |
Einföld og skýr krafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 3.5.2014 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Borgarbúar ættu að forðast að kjósa þá flokka sem berjast gegn tilveru Reykjavíkurflugvallar.
2.5.2014 | 20:51
Það hefur varla farið fram hjá neinum að Borgarstjórn Reykjavíkur hefur tekið mjög ákveðna afstöðu gegn tilveru Flugvallarins í Vatnsmýrinni. Í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðvanna í kvöld var sagt frá að Borgarstjórn hefði ráðgert að hefja gröft við enda neyðarflugbrautarinnar vegna fyrirhugaðrar byggingaframkvæmda í haust, og eyðileggja þannig neyðarflugbraut vallarins.
Staðreynd málsins er sú að farið er í þessar aðgerðir án þess að þar til gerð nefnd sem rannsaka átti málefni flugvallarins, hefði fengið að koma að málinu. Er hér um að ræða einhliða ákvörðun borgarstjórnar. Á ég varla orð til að lýsa hneykslun minni og vanþóknun á þessum áformum borgarstjórnar sem lýsir því yfir að mál þetta sé aðeins skipulagsmál byggðar í Reykjavíkurborg. En það er orðið hverjum manni augljóst að hér er á ferðinni öryggis og samgöngumál sem snertir landið allt. Þetta mál sem ég tel að kalla: yfirgengilega þröngsýni og sérhagsmunamál Borgarstjórnar Reykjavíkur.
Þetta er reyndar ekki einskorðað við þetta eina atriði, heldur er ráðgert að rífa alla aðstöðu og flugskýli svonendra Fluggarða strax á næsta ári. Er þar fótunum kippt undan mikilvægri atvinnustarfsemi, eins og flugskólum og ýmiskonar flugrekstraraðilum og fjöldamargir einkaflugmenn munu missa flugskýli fyrir flugvélar sínar. Er augljóst að borgarstjórnin er þarna að fara einhverskonar bakdyraleið að eyðileggingu flugvallarins. Í október 2013 skrifaði Borgarstjórn Reykjavíkur og Ríkisstjórnin undir samkomulag þess efnis að flugvöllurinn fengi að vera áfram í Vatnsmýrinni til 2022. Það þarf varla að bæta því við að borgarstjórnin ráðgerir að Reykjavíkurflugvöllur víki alfarið úr Vatnsmýrinni 2022. Það er margsannað mál og hefur verið útskýrt af fólki sem hefur góða yfirsýn yfir þessi mál að Reykjavíkurflugvöllur er nauðsynlegur fyrir öryggi landsmanna, hvað snertir sjúkraflug og líka samgöngulega mikilvægur með samgöngur við landsbyggðina í huga. Tiilvera Reykjavíkurflugvallar er líka mikilvæg fyrir þá starfsemi sem þar fer fram eins og flugnámið, því Reykjavíkurflugvöllur er einstaklega vel fallinn til flugnáms.
Er nokkur spurning að okkur ber að halda Reykjavíkurflugvelli á þeim stað sem hann er og að ekki skuli skerða þá starfsemi sem þar fer fram eða að fækka flugbrautum. Þeir flokkar sem hafa þá yfirlýstu stefnu að flugvöllurinn skuli vera áframi Vatnsmýrinni eru Stjórnarflokkarnir tveir: Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Reyndar eru frambjóðendur Framsóknarflokksins mun meira afgerandi í ummælum sínum þessu viðvíkjandi en Sjálfstæðisflokkurinn. Því mættu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins til sveitarstjórnarkosninga nú í vor, skerpa stefnu sína í þessum málum og taka meira afgerandi afstöðu með Reykjavíkurflugvelli sem mikilvægum miðborgarflugvelli.
Að síðustu vil ég segja þetta: Er nokkur ástæða að kjósa þá flokka í Borgarstjórn sem hafa það á stefnuskrá sinni að útrýma flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýrinni og þar með að svipta landsmönnum mikilvægasta innanlandsflugvelli landsins.
![]() |
Segja flugvöllinn aðalkosningamálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ríkisstjórnin ætti ekki að gugna á ákvörðun sinni um slit á aðildarviðræðum við ESB.
29.4.2014 | 21:08
Eins og fram kom í frétt á mbl.is tjáði Birgir Ármannson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis sig á þá leið að hann teldi ólíklegt að þingsályktunartillaga háttvirts utanríkismálaráðherra um að afturkalla umsókn Íslands að ESB verði afgreidd á þessu þingi. Jafnframt kom fram að sögn Einars K Guðfinnssonar, forseta Alþingis að engin áform séu uppi um sumarþing.
Mig langar til að segja: Er ríkisstjórnin nokkuð að gugna í ákvörðun sinni að slíta aðildarviðræðum við ESB ? Það hefur farið mikið fyrir fréttaflutningi í fjölmiðlunum upp á síðkastið að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gerst nokkuð djarfir í málflutningi sínum, þar sem þeir lýsa því yfir að ríkisstjórninni beri að hætta við fyrirhuguð viðræðuslit og að Íslandi sé best borgið innan ESB. Eru jafnvel uppi áform um að stofna nýjan stjórnmálaflokk með það að meginmarkmiði að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, og það án þess að formaður hefði fundist sem leitt gæti slíkt framboð. Yrði slíkur flokkur klofningur úr Sjálfstæðisflokknum ásamt öðrum sem fylgjandi eru inngöngu í ESB.
Ég vona að ríkisstjórnin, einkum sá hluti sem heyrir undir Sjálfstæðisflokkinn sé ekki að láta orð ESB -fylgjandi þingmanna Sjálfstæðisflokks og áróður ESB -hlyntra fjölmiðla, slá sig út af laginu eða láta hræðslu við áform um stofnun nýs ESB miðaðs stjórnmálaflokks stjórna gerðum sínum.
Það er nefnilega þannig, að sú staðreynd að Íslandi sé ekki vel borgið innan ESB stendur enn óhögguð, ekkert hefur breyst í þeim málum. Það er augljóst orðið að sá efnahagsdoði sem einkennt hefur ESB -ríkin, einkanlega Evruríkin hefur ekkert batnað upp á síðkastið. Sagt hefur verið af mörgum sérfræðingum sem fjallað hafa um þetta mál að ástæðan fyrir að ríki ESB fóru ver út úr kreppunni en mörg önnur ríki heimsins sé gjaldmiðillinn þeirra, Evran. Og að ekki sjái fyrir endann á efnahagslægðinni hjá evruríkjunum. Það er staðreynd að atvinnuleysi er mikið í Evru- löndunum 18, en það er að meðaltali 12%, en á Spáni er það 26%. Við Íslendingar stöndum því mjög vel að velli, með um 4,5% atvinnuleysi. En Íslenskt atvinnulíf og efnahagshorfur eru á mikilli uppleið.
Er nokkur ástæða til þess að ganga inn í þá lágdeyðu sem ESB innganga myndi færa okkur inn í ?
![]() |
Óljóst hvort ESB-tillaga klárast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 30.4.2014 kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jesús dó og reis aftur upp frá dauðum.
21.4.2014 | 10:46
- "Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.
- Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.
- Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,
- að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum
- og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.
- Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.
- Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum."
Jesú Kristur reis upp frá dauðum á þriðja degi eftir dauða sinn. Samkvæmt ritningunum voru rúmlega 500 manns vottar að upprisu hans. Upprisan hefur gefið okkur kristnu fólki von í gegnum aldirnar, um að við fáum einnig að lifa og dvelja með Drottni Jesú á himnum eftir að lífi okkar hér á jörðu er lokið. Biblían segir í I Korintubréfi 15:14:
"En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar."
En Guði sé lof, Kristur er upprisinn og það gefur okkur kristnu fólki von og tilgang með lífinu, að líf okkar taki ekki enda við dauða okkar og þess vegna beri okkur að útbreiða boðskap trúarinnar til annarra svo þeir mættu verða hólpnir.
Kær kveðja.
![]() |
Lífið er sterkara en dauðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kristin trú ætti að vera í hávegum höfð í grunnskólum landsins.
19.4.2014 | 19:40
Mikið hefur verið rætt um kristnifræði og kristilega innrætingu í skólum landsins undanfarin ár. Hafa vissir hópar fólks jafnvel beitt sér fyrir því að hætt verði að kenna kristnifræði í skólum eins og áður var, og kristnifræði verði aðeins lítillega kynnt ásamt öðrum trúarbrögðum heims. Hafa þessir hópar sett sig í gegn öllum kristilegum áhrifum, eins og heimsóknum presta og Gídeonfólks, heimsóknir í kirkjur ofl. Í kjölfar þess setti Reykjavíkurborg lög sem hömluðu mjög kristilegri innrætingu í skólum á Reykjavíkursvæðinu og bönnuðu heimsóknir presta, Gídeonmanna og annara boðbera Kristinnar trúar. Hafa margir skólar á landinu, fylgt fordæmi þeirra.
Um þetta sagði Karl Sigurbjörnsson biskup meðal annars í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins: Það er einfaldlega þannig að þegar fræðslu um trúarbrögð, trúariðkun og þátt trúarbragðanna í lífi og menningu er sópað undir teppi þá tekur fáfræðin við og fordómarnir fylgja í kjölfarið."
Margt fólk telur að Kristin trú eigi ekki upp á pallborðið í leik- og grunnskólum, að hún sé aðeins byggð á gamaldags hugmyndum sem eiga ekki lengur við í lífi fólks í dag. En sannleikur málsins er sá að Kristin trú á aldrei betur við nú á þessum tímum. Kristin trú kennir okkur góð og uppbyggileg gildi, eins og kærleika til náungans, miskunnsemi og langlyndi til handa samborgurum okkar. Kristin trú kennir okkur að bera hag náungans fyrir brjósti, einkannlega þeim sem hafa það bágt. Þjóðkirkjan rekur eins og kunnugt er Hjálparstofnun Kirkjunnar þar sem hún útdeilir mat til þeirra sem búa við kröpp kjör. Hún styður einnig við fólk í öðrum löndum sem býr við örbyrgð. Fjölmargar aðrar hjálparstofnanir sem byggðar eru á kristinni trú eru líka með margvíslegt hjálparstarf bæði innanlands og utan.
Karl sagði ennfremur: Ekki verður annað séð en að það sé að koma á daginn að þegar leitast er við að þvinga hið trúarlega undir yfirborðið og þagga niður, eins og mjög er tíðkað á Vesturlöndum, líka hér á Íslandi, þá fer ýmiss konar ofstæki að bæra á sér á ólíklegustu stöðum undir lítt geðþekkum formerkjum,"
Þegar dregið er úr kristilegum áhrifum og innrætingu í skólum dregur úr þekkingu barna á landinu á því sem kristin trú boðar. En það er áhersla á hófsemi og lítillæti og að elska náungann eins og sjálfan sig. Þegar hætt er að benda á kennslu Biblíunnar sem grunn að góðu lífi og réttlæti þá fyllast börnin meira rótleysi, og tilgangsleysi gerir vart við sig í lífum þeirra. Það á líka við okkur sem eldru erum, öll höfum við þörf fyrir orð Guðs. Er það skoðun mín eins og Karl Sigurbjörnsson sagði, að þegar boðskapur Krists er minna sýnilegur í þjóðfélagi okkar þá eykst ýmiskonar ofstæki á ýmsum sviðum. Getur það birst í ýmsum myndum, eins og óeðlilega hörð viðbrögð og mótmæli gagnvart stjórnvöldum, fordómar gagnvart útlendingum, ófriður við annað fólk sem hefur ekki sömu skoðanir og jafnvel fordómar gagnvart kristnu fólki. En Biblían kennir okkur að halda frið við alla menn, eins og okkur er unnt og á okkar valdi, og að við eigum ekki að hefna okkur, né koma illa fram við nokkurn mann.
Ég vil nota tækifærið til að biðja stjórnendur grunnskóla að styðja við að börnin fái að heyra orð Guðs og leyfi prestum og Gídeonfólki og fleiri boðberum Kristinnar trúar að boða börnunum fagnaðarerindið. Því Jesús sagði: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki."
Kær kveðja.
![]() |
Trúnni sópað undir teppi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 20.4.2014 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sorglegt að á Íslandi sé fólk sem vill vinna kirkjunni tjón.
18.4.2014 | 10:18
Um klukkan fimm aðfaranótt skírdags var eldur lagður að kirkjuhurð Akureyrarkirkju og er hún hugsanlega ónýt. Er leitt til þess að vita að hér á landi sé fólk sem valda vill tjóni á kirkjubyggingum. Er þetta því leiðinlegra í ljósi þess að þetta var nóttina fyrir byrjun páskahátíðarinnar þegar Kirkjan heldur upp á, og heiðrar þjáningu Frelsarans og dauða hans á krossi.
Núna á föstudeginum langa þegar páskar eru í hönd er vert að minnast þess sem Jesús Kristur gerði fyrir okkur. Hann hafði verið svikinn af einum lærisveina sinna, Júdasi Ískaríot. Vinir hans, hinir lærisveinarnir höfðu yfirgefið hann vegna hræðslu, að þeir kynnu líka að verða handteknir og þeim refsað ef þeir reyndu að koma honum til hjálpar. Hann hafði verið yfirheyrður af öldungaráði lýðsins, æðstu prestunum og fræðimönnunum sem dæmdu hann dauða sekann. Þeir fengu lýðinn til að samþykkja að hann yrði krossfestur þegar Pontíus Pílatus vildi bjóða þeim að hann yrði settur laus í stað Barnabasar sem var ræningi. En það var hefð fyrir því hjá Pílatusi að frelsa einn bandingja á páskunum.
Við þekkjum flest frásögnina hvað gerðist eftir það. Hann var hýddur með gaddasvipu höggin 40, þyrnikóróna var sett á höfuð hans. hann var látinn bera kross sinn til Golgatahæðar en hann kiknaði undan byrðinni og maður að nafni Símon var látinn bera kross Jesú síðasta spölinn til aftökustaðarins. Þar á Golgatahæð var hann krossfestur, Rómverskir hermenn ráku nagla í gegn um hendur hans og fætur og síðan var hann látinn hanga á krossinum. Eftir nokkurn tíma, um nón gaf hann upp andann.
Jesú Kristur gerði þetta allt fyrir okkur. Hann vildi að við fengjum í gegnum fórnardauða hans, eilíft líf og fyrirgefningu synda okkar. Hann gerðist staðgengill fyrir okkur. Við áttum skilda refsingu fyrir það illa sem við höfðum gert, en hann tók á sig refsingu okkar. Hann býður okkur öllum að koma til sín og trúa á hann og fá hjá honum fyrirgefningu syndanna og eilíft líf. Jóhannes postuli segir svo fallega í guðspjalli sínu: "Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf." Jóh 3:16.
Hugleiðum það sem Jesús Kristur hefur gert fyrir okkur, núna um páskahátíðina.
![]() |
Kirkjuhurðin líklega ónýt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrengt að einkaframtakinu og einkabílnum í deiliskipulagi fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík.
17.4.2014 | 09:37
Það hefur farið mikið fyrir umræðum í fjölmiðlum upp á síðkastið um fyrirhugaða þéttingu byggðar í og við miðborg Reykjavíkur. Er stefnan sú að almenningssamgöngur og reiðhjólið fái meira vægi í umferðinni í miðborginni. Er það ætlun Borgarstjórnar að þétta byggð, fækka bílastæðum en auka á sama tíma aðgengi reiðhjóla svo fólk geti nýtt sér betur þann umhverfisvæna ferðarmáta. Eru það einkum þrjú svæði þar sem byggð verður þétt, er það Vatnsmýrin, Elliðavogur og svæðið við gömlu höfnina. Hætt hefur verið við umferðarmannvirki eins og mislæg gatnamót, götur hafa verið þrengdar. Er þetta gert í þeirri trú að almenningur muni draga úr notkun einkabílsins en nýta sér þess í stað strætó eða að bregða sér á reiðhjól.
Stefnt er að lokun svonefndra Fluggarða með allri starfsemi sem þar er, en reisa þar íbúðabyggð þar sem verða meðal annars stúdentaíbúðir og reiðhjólastígar, svo nemendur í HÍ geti hjólað í og úr skóla. Í miðbænum hefur ma verið þrengt að kaupmönnum þar með lokun hluta Laugarvegarins og Skólavörðustígarins fyrir akandi umferð á sumrin og hafa bílastæðagjöld verið hækkuð. Talað er um að áætlun Borgarstjórnar sé ekki þétting byggðar heldur þrenging byggðar, því þrengt er að íbúum vesturhluta borgarinnar og lífsgæði þeirra skert í sumum tilvikum. Hið nýja borgarskipulag nýtist yngra fólki best sem ekki er með fjölskyldur, því almenningssamgöngur henta yfirleitt ekki fjölskyldufólki. því vinnutími er yfirleitt langur hjá fjölskyldufólki og það er þess vegna oft í kapphlaupi við tímann að koma börnunum sínum á milli skóla eða í tómstundir eða að versla og að bíða eftir strætó og fara með honum langar leiðir er ekki fýsilegur kostur. Það er alls ekki tímabært að fólk fari í stórum mæli að hætta að nota einkabílinn en snúi sér þess í stað að almenningssamgöngum og reiðhjólanotkun.
Er ætlun Borgarstjórnar að smátt og smátt að yfirtaka Reykjavíkurflugvöll fyrir íbúða og atvinnubyggð. Er yfirtaka fluggarða á næsta ári, fyrsta skrefið í þá átt. En þar eru reknir nokkrir flugskólar, minni flugfélög og einkaflugmenn eru þar allmargir með vélar sínar. Lítið sem ekkerti hefur verið haft samband við þinglýsta eigendur fasteigna á svæðinu og ekki hefur verið fundinn staður undir þessa starfsemi.
Í vor verða sveitarstjórnarkosningar, þá hafa Reykvíkingar færi á að velja þá frambjóðendur sem fara vilja með málefni deiliskipulags Reykjavíkurborgar af skynsemd og leyfa Reykjavíkurflugvelli að vera áfram aðalsamgönguhlekkurinn við landsybggðina og þyrma lífvænlegum atvinnugreinum eins og flugkennslu og flugi. Ásamt því að gæta hófs í þéttingu byggðar með lífsgæði íbúa Reykjavíkur og atvinnumöguleika í huga.
Með kærri kveðju.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lokun Reykjavíkurflugvallar snertir þjóðarhag og þjóðaröryggi.
13.4.2014 | 11:43
Það er að koma sífellt betur og betur í ljós í fréttum fjölmiðla hversu skaðleg lokun Reykjavíkurflugvallar yrði. Bæði fyrir flugfélög þau og flugskóla sem hafa aðsetur á vellinum ásamt einkaflugmönnum og ekki síst fyrir alla landsmenn, þar sem flugtími frá landsbyggðinni til Reykjavíkur mun lengjast til muna. þetta mun koma niður á buddu landsmanna fyrr eða síðar þar sem ferðir til annarra landa munu hækka töluvert í verði vegna tæknilegra örsaka í tengslum við missi á varaflugvelli. Fargjöld innanlands munu hækka töluvert. Er jafnvel talað um að vart verði grundvöllur fyrir innanlandsflugi verði Reykjavíkurflugvöllur lagður niður.
Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um hver áhrif það hefði á flugnámið ef flugskólarnir yrðu að hafa sig í burtu frá Reykjavíkurflugvelli á næsta ári. Slíkt væri hvílik holskefla fyrir þessa atvinnustarfsemi. Enginn flugvöllur sem stenst kröfur varðandi góðan kennsluflugvöll er á næsta leiti. Hætta væri á að þeir hreinlega legðu upp laupana og að flugnemar þyrftu að leita út fyrir landssteinana með flugnám, með stórauknum kostnaði því fylgjandi, ásamt hugsanlegum samdrætti í hópi þeirra sem hyggja vilja á flugnám.
Það þykir sjálfsagt í stórborgum úti í heimi að flugvellir séu inni í stórborgum. Eru þess dæmi jafnvel svo nokkur hundruðum skiptir. Nálægð flugvallar við Landsspítala sem á vonandi eftir að vaxa og auka húsakost sinn er ákaflega mikilvægur. Sagt hefur verið að rekstur þyrlu sé 6-8 sinnum dýrari en vængjavélar. Reykjavíkurflugvöllur er einnig mikilvægur ef til eldsumbrota kemur á Reykjanesinu ef hraun rynni yfir Reykjanesbraut.
Ég vil segja að það eru miklar ógöngur sem borgarstjórn Reykjavíkur er að koma landsmönnum út í, ásamt flugfélögum og flugskólum.
Mér finnst að leiðin út úr þessu sé að ríkisstjórnin taki af skarið og taki opinbera afstöðu í þessu máli og leiti leiða til þess - hreinlega að leggja lögbann á þessar aðgerðir Reykjavíkurborgar. Þetta mál er þess eðlis að ekki leikur vafi á því að hér er á ferðinni mál sem snertir þjóðaröryggi og þjóðarhag. Og ef farið verði út í þessar aðgerðir mundi það valda margvíslegum skaða á flugsamgöngum og skapa hættu bæði hvað varðar náttúruhamfarir á Reykjanesinu og koma í veg fyrir eðlilegt sjúkraflug á Reykjavíkursvæðinu.
Með kærri kveðju.
![]() |
Fargjöld munu hækka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)