Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Látum ekki ESB yfirtaka orkuauðlindir Íslands

    Evrópusambandið hefur það markmið að einkavæða orkugeirann. Er Þriðji orkupakkinn sem Alþingi hyggst innleiða aðeins lítið skref á þessari leið eins og fyrri tilskipanir Evrópusambandsins. Uppbrot gömlu orkufyrirtækjanna voru fyrri skref. Evrópusambandið þolir ekki stofnanir almennings, hefur enga trú á þeim, heldur vill aðeins kapítalísk fyrirtæki á markaði. Þriðji orkupakkinn er fullveldismál. Ef við innleiðum hann flyst forræði íslenskra auðlinda yfir til Evrópusambandsins, sem mótar og hefur eftirlit með framkvæmd orkustefnu fyrir öll ESB-ríki.

    Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra sagði í vel ígrundaðri grein sinni í Morgunblaðinu 14. apríl síðastliðinn:
    „Minnumst þess að ekki eru liðnir margir mánuðir síðan íslenskir skattgreiðendur voru    þvingaðir með dómi til að greiða Högum og öðrum verslunarrekendum þrjá milljarða í skaðabætur af völdum laga sem Alþingi Íslendinga hafði sett en þótti brjóta gegn "fjórfrelsi" ESB/EES.[...]

    Og við munum engu um það ráða hvort hingað verður lagður sæstrengur. Líklegt má heita að það yrði knúið áfram með dómsvaldi og við látin borga brúsann með hærra orkuverði. Annar afgjafi verður síðan græðgin sem mun stöðugt knýja á um meiri virkjanir. Þennan veg viljum við varla láta vísa okkur með íslenska nátttúru.“

    Peter Ørebech, sérfræðingur í Evrópu­rétti og laga­prófessor í Noregi, segir að það sé alveg á hreinu að ef fjárfestir, t.d. þýski raforku­risinn E.ON, hefur tækni­legan undir­búning að rafstreng frá Íslandi, dugir ekkert fyrir okkur að mótmæla því. Málið verður á vald­sviði stofnunar Evrópu­sambandsins, þ.e. ACER. Þetta er stofnun á embætti sem Ísland getur ekki gefið fyrirmæli eða haft áhrif á. ACER getur ekki hafnað slíkum streng því að slíkt myndi stríða gegn EES-samn­ingnum um magn­takmark­anir á inn- og útflutn­ingi, samanber 11. og 12. gr. samningsins. Það má því segja að verði orkupakki 3 innleiddur aukast líkurnar á að sæstrengur verði lagður á milli Íslands og raforkumarkaðs Evrópu. Með sæstreng myndi orkuverð hækka verulega, jafnvel margfaldast, ef marka má reynslu Norðmanna, sem myndi gera mörgum atvinnurekstri hérlendis mjög erfitt fyrir. Með sæstreng myndi stóraukast ásókn í virkjun fossa, jarðhita og vindorku.

    Sæstrengur til Íslands er nú þegar á lista yfir forgangsverkefni ESB á sviði millilandatenginga. Þótt ríkisstjórnin hafi óskað eftir, að Ice-Link færi út af þeim lista , er hún aðeins einn af mörgum umsagnaraðilum, og ESB tekur hina endanlegu ákvörðun. Listinn er endurskoðaður á tveggja ára fresti, og strengurinn getur farið aftur inn, þótt hann verði tekinn út.

    Ekkert land framleiðir meiri raforku á hvern íbúa en Ísland. Orkan er hrein. Við megum ekki glata forræði okkar yfir þessari verðmætu auðlind. Áhrif kjósenda á orkumál munu hverfa með orkupakkanum. Löggjöfin kemur frá ESB og hluti ríkis- og dómsvalds í orkumálum færist til erlendra stofnana. Við verðum skuldbundin til að innleiða löggjöf sem hentar ekki okkar aðstæðum og hagsmunum. Ísland hefur enga tengingu við orkumarkað ESB og því er ekki ástæða til að innleiða hér löggjöf sameiginlega orkumarkaðarins. EES-samningurinn fer ekki í uppnám þótt við segjum nei við orkupakkanum. Það er okkar réttur samkvæmt samningnum að segja nei.
    Höldum forræði yfir orkumálum Íslands.
    Valdaframsal sem orkupakki 3 krefst er stjónarskrábrot.
    Segjum NEI TAKK við 3. orkupakka ESB!


mbl.is Vilja undanþágu frá orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur lífsins

    Ritningin sannar kröftuglega með mörgum augljósum dæmum upp­risu Jesú frá dauðum. Með upp­risu sinni og sigri yfir dauð­an­um leiddi hann í ljós lífið eilífa og óforgengi­leikann. En Drottinn Guð sagði við vald dauðans: Hingað og ekki lengra. Hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna. Engill, með valdi og umboði hins æðsta Konungs, braut rómverska innsiglið, velti steininum. Huggun fyrirgefningar Guðs gagnvart þeim, er trúa á Jesúm Krist, er staðfest, og gjöf eilífs lífs í Jesú Kristi, þeim til handa, sem á Hann trúa.

    Megum við þá treysta upprisusögunni um Jesúm? geta einhverjir spurt. Dr. Ludvig von Gerdtell, merkur guðfræðingur, segir svo í bók sinni, Miracles under fire: "Trúin á upprisu Jesú er sameiginleg fyrir öll Nýja-testamentis-ritin og tengir þau öll saman. Jafnvel hinir svæsnustu gagnrýnendur, eins og t.d. David Friedrich Strauss, hafa ekki vogað sér að mæla á móti þessari staðreynd. Ef frá sögulegu sjónarmiði nokkur möguleiki hefði verið, hver sem hann hefði verið, til að mótmæla þessu, mundi án nokkurs efa þessi efnishyggju-heimspekingur og kæni andstæðingur fagnaðarerindis Jesú Krists hafa neitað því. Í bók sinni, Old and new Faiths (Fornar og nýjar trúarkenningar) (sextándu útgáfu, 1904, bls. 20) "kallar Davíð Strauss upprisu Jesú Krists sögulega bábilju. Í sama kaflanum kannast hann samt sem áður við, að postularnir hafi haft hjartanlega sannfæringu um, að þeir hefðu raunverulega séð og talað við Jesúm upprisinn."

    Að upprisu Jesú höfum við mörg vitni, sem sáu hann annaðhvort einn maður í einu eða fleiri saman, ekki einu sinni, heldur a.m.k. sex sinnum með lengra eða skemmra millibili. Sumir þeirra sáu hann nokkrum sinnum. Að minnsta kosti tólf af þessum vitnum voru menn nákunnugir honum. Jafnvel Jakob bróðir hans var einn af þessum vitnum. Það gat því ekki verið um það að ræða, að þeir hafi ekki vitað fyrir víst, hvort það var Jesús sjálfur, sem birtist þeim. Það er vert að athuga það, að Páll gefur upp nöfn manna, sem votta að upprisu Jesú, og það frammi fyrir samkomu, þar sem voru á meðal menn, sem mótmæltu kenningunni um upprisu Jesú.

    En til þess að verða hluttakendur í upprisu til eilífs lífs með honum, þurfum við að hafa tekið á móti krafti hans inn í líf okkar. Við þurfum að þekkja og reyna kraft upprisu hans, sem gefur möguleika til að lifa sigrandi lífi yfir því valdi, sem leiðir til dauðans, en það er syndin. Þennan möguleika eignumst við í endurfæðingunni. Þegar við endurfæðumst eða frelsumst, kemur Jesús inn í líf okkar með kraft sinn, en ástand syndarinnar afmáist og dauðinn drottnar ekki lengur vfir okkur. Við megum vegna Jesú fagna og vænta óumræðilega dýrðlegrar eilífðar. Þessi sannleikur, að Jesús er upprisinn, hefur því ákaflega mikla þýðingu fyrir alla menn.

    Ritningin segir að Jesús sé kröftuglega auglýstur að vera sonur Guðs með upprisu sinni frá dauðum. Menn krefjast sannana nú sem fyrr, og hvað er meiri sönnun fyrir kenningu Jesú og Ritningarinnar en upprisa hans?
Það er sigurhljómur í orðum postulans, er hann segir: "En nú er Kristur upprisinn." Vegna þeirra sanninda gat Páll liðið hvað sem var. Vegna þessara sanninda er lausn að fá fyrir syndarann. Af því Jesús lifir, er hann fær um að endurleysa mannssálir frá dauða til lífs. Af því hann lifir gefur hann kraft Heilags Anda og úthellir honum yfir menn og konur í dag, svo sem við getum séð og heyrt. Af því Jesús er upprisinn og lifir í dag, gerast enn undur og kraftaverk. Sjúkir verða heilbrigðir, illir andar verða að víkja og jafnvel dauðir hverfa aftur til lífsins.
Allt, sem er af eðli eilífa lífsins á samhljóm sinn í Jesú. Fögnum því og gleðjumst yfir sigri lífsins yfir dauðanum. "Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesúm Krist."

    Gleðilega páska!


Við gerð þessarar greinar studdist undirritaður við tvær góðar páskahugvekjur úr Aftureldingu, 1. apríl 1952 og 1. apríl 1955.

Steindór Sigursteinsson


mbl.is „Verðum að breyta um lífsstíl“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það heimska að trúa ekki?

"Og hann sagði við þá: Ó, þér heimskir,
og tregir í hjarta til að trúa öllu því sem
spámennirnir hafa talað. Og hann byrjaði
á Móse og á öllum spámönnunum, og út-
lagði fyrir þeim í öllum ritningunum það
er hljóðaði um hann". Lúk. 24, 25—27.

    Er það heimska að trúa ekki þegar fólk segir að það sé heimska að trúa? Við heyrum fólk oft tala um þá sem trúa, eins og þeir væru einfeldningar. En Jesús segir, að þeir séu heimskir, sem ekki trúa og að lærisveinarnir væru heimskir, af því þeir trúðu ekki öllu, sem spámennirnir höfðu talað. Í dag mætum við mjög víða þeirri skoðun, að aðeins heimskingjar trúi öllu, sem Biblían segir.

    Jesús vildi, að lærisveinarnir tryðu, ekki aðeins því sem spámennirnir sögðu, en einnig Mósebókunum. Athugum það, Jesús sagði lærisveina sína heimska, af því þeir trúðu ekki Mósebókunum, bókum, sem nú eru stranglega gagnrýndar. Jesús gagnrýndi lærisveinana af því þeir trúðu ekki öllu, sem hann sagði þeim persónulega. Hann hafði sagt þeim fyrir um allt, er mundi koma fram. Hann spurði þá, hvers vegna þeir tryðu ekki því, sem hann hefði sagt þeim fyrir um, og björguðu sér þannig frá áhyggjum og sorg. Ef við höldum ekki fast við Guðs Orð, eins og það er skrifað í Biblíunni, höfum við engan raunverulegan grundvöll að byggja á. Í dag er það verk Satans að telja fólki trú um, að Biblían sé fölsuð.

    Þegar Jesús vildi sannfæra lærisveinana um, að hann væri upprisinn, leitaði hann staðfestingar frá Guðs Orði. Við getum verið viss um, að Jesús gat gefið næga staðfestingu um upprisu sína án Biblíunnar, en hann notaði einmitt Biblíuna við þetta tækifæri. Hann sýndi þeim naglaförin í höndum og fótum, og sagði þeim að snerta líkama sinn, til að fullvissa þá um, að hann væri ekki andi. Okkur getur fundist að þetta væri næg staðfesting á upprisunni. En Jesús stansaði ekki þar, þessi staðfesting var ekki fullnægjandi til að styrkja trú þeirra eftir himnaför hans, þegar þeir gátu ekki séð hann og snert hann lengur. Þess vegna reyndi Jesús að binda trú þeirra við Orð Guðs, sem þeir höfðu á meðal sín, þegar hann var farinn.

     Það er dásamlegt að hugsa um, að þótt hinn upprisni Frelsari bæri með sér hina fullkomnu staðfestingu á upprisunni, útskýrði hann með krafti upprisunnar bækur Móse, sálmana og spámennina. Þegar Biblíu-gagnrýnendur segja okkur, að Móse hafi ekki ritað bækur sem kenndar eru við hann, og á þann hátt reyna að grafa undan trú okkar, þá látum okkur minnast, að Jesús nefndi Móse höfund þeirra og varði trúna á Gamla testamentið með sínum eigin myndugleika, lofað sé nafn hans. Nýja testamentið staðfestir, að lærisveinarnir trúðu á upprisu Krists, og á ritningarnar.

Endurbirt grein úr Aftureldingu 1. október 1945.

Höfundur: Levi Petrus.


mbl.is Messað við sólarupprás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband