Látum ekki ESB yfirtaka orkuauðlindir Íslands

    Evrópusambandið hefur það markmið að einkavæða orkugeirann. Er Þriðji orkupakkinn sem Alþingi hyggst innleiða aðeins lítið skref á þessari leið eins og fyrri tilskipanir Evrópusambandsins. Uppbrot gömlu orkufyrirtækjanna voru fyrri skref. Evrópusambandið þolir ekki stofnanir almennings, hefur enga trú á þeim, heldur vill aðeins kapítalísk fyrirtæki á markaði. Þriðji orkupakkinn er fullveldismál. Ef við innleiðum hann flyst forræði íslenskra auðlinda yfir til Evrópusambandsins, sem mótar og hefur eftirlit með framkvæmd orkustefnu fyrir öll ESB-ríki.

    Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra sagði í vel ígrundaðri grein sinni í Morgunblaðinu 14. apríl síðastliðinn:
    „Minnumst þess að ekki eru liðnir margir mánuðir síðan íslenskir skattgreiðendur voru    þvingaðir með dómi til að greiða Högum og öðrum verslunarrekendum þrjá milljarða í skaðabætur af völdum laga sem Alþingi Íslendinga hafði sett en þótti brjóta gegn "fjórfrelsi" ESB/EES.[...]

    Og við munum engu um það ráða hvort hingað verður lagður sæstrengur. Líklegt má heita að það yrði knúið áfram með dómsvaldi og við látin borga brúsann með hærra orkuverði. Annar afgjafi verður síðan græðgin sem mun stöðugt knýja á um meiri virkjanir. Þennan veg viljum við varla láta vísa okkur með íslenska nátttúru.“

    Peter Ørebech, sérfræðingur í Evrópu­rétti og laga­prófessor í Noregi, segir að það sé alveg á hreinu að ef fjárfestir, t.d. þýski raforku­risinn E.ON, hefur tækni­legan undir­búning að rafstreng frá Íslandi, dugir ekkert fyrir okkur að mótmæla því. Málið verður á vald­sviði stofnunar Evrópu­sambandsins, þ.e. ACER. Þetta er stofnun á embætti sem Ísland getur ekki gefið fyrirmæli eða haft áhrif á. ACER getur ekki hafnað slíkum streng því að slíkt myndi stríða gegn EES-samn­ingnum um magn­takmark­anir á inn- og útflutn­ingi, samanber 11. og 12. gr. samningsins. Það má því segja að verði orkupakki 3 innleiddur aukast líkurnar á að sæstrengur verði lagður á milli Íslands og raforkumarkaðs Evrópu. Með sæstreng myndi orkuverð hækka verulega, jafnvel margfaldast, ef marka má reynslu Norðmanna, sem myndi gera mörgum atvinnurekstri hérlendis mjög erfitt fyrir. Með sæstreng myndi stóraukast ásókn í virkjun fossa, jarðhita og vindorku.

    Sæstrengur til Íslands er nú þegar á lista yfir forgangsverkefni ESB á sviði millilandatenginga. Þótt ríkisstjórnin hafi óskað eftir, að Ice-Link færi út af þeim lista , er hún aðeins einn af mörgum umsagnaraðilum, og ESB tekur hina endanlegu ákvörðun. Listinn er endurskoðaður á tveggja ára fresti, og strengurinn getur farið aftur inn, þótt hann verði tekinn út.

    Ekkert land framleiðir meiri raforku á hvern íbúa en Ísland. Orkan er hrein. Við megum ekki glata forræði okkar yfir þessari verðmætu auðlind. Áhrif kjósenda á orkumál munu hverfa með orkupakkanum. Löggjöfin kemur frá ESB og hluti ríkis- og dómsvalds í orkumálum færist til erlendra stofnana. Við verðum skuldbundin til að innleiða löggjöf sem hentar ekki okkar aðstæðum og hagsmunum. Ísland hefur enga tengingu við orkumarkað ESB og því er ekki ástæða til að innleiða hér löggjöf sameiginlega orkumarkaðarins. EES-samningurinn fer ekki í uppnám þótt við segjum nei við orkupakkanum. Það er okkar réttur samkvæmt samningnum að segja nei.
    Höldum forræði yfir orkumálum Íslands.
    Valdaframsal sem orkupakki 3 krefst er stjónarskrábrot.
    Segjum NEI TAKK við 3. orkupakka ESB!


mbl.is Vilja undanþágu frá orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband