Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015
Slegið á Samhjálparhönd
31.3.2015 | 22:42
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag. Finnst mér við hæfi að birta hana hér því umfjöllunarefni greinarinnar á erindi við alla sem láta sér kristilegt hjálparstarf varða.
Slegið á Samhjálparhönd. Eftir Börk Gunnarsson.
Á síðasta borgarstjórnarfundi samþykkti meirihlutinn í borginni að velferðarsvið borgarinnar tæki yfir reksturinn á götuskýli fyrir utangarðsfólk. Samhálp hefur rekið það undanfarin ár. Að þeirra sögn hafa þeir þurft að borga með sér þar sem tilboð þeirra hafði verið svo lágt síðast. Í reksturinn buðu þeir því aðeins hærra núna. Hjálpræðisherinn bauð einnig í verkið og var tilboð þeirra mjög svipað og tilboð Samhjálpar. Velferðarsvið borgarinnar fær þessi tilboð í hendurnar og býður svo sjálft í verkið, mjög svipað tilboðum hinna, nema rétt aðeins undir.
Þetta hlýtur að vera löglegt fyrst velferðarsviðið treysti sér til að gera þetta svona, en ekki er það siðlegt. Á almennum markaði væri örugglega ekki hægt að biðja um tilboð í verkefni sem lögbundið væri að bjóða út og þegar það er komið, bjóða þá sjálfur aðeins lægra og taka vekefnið sjálfur. Þetta lyktar af leiðindapólitík, þar sem pólitísku fulltrúarnir geta sagt opinberlega að þeir hafi tekið lægsta tilboðinu þótt það hafi verið nánast jafnhátt. Í ofanálag við að hafa tilboðið aðeins rétt undir hinum aukast líkurnar á því að reka þetta undir kostnaðaráætlun sinni og geta þá komið fram að reynslutímanum loknum og stært sig af því. En í sjálfu sér var munurinn það lítill á tilboðunum að það er eiginlega ekki hægt að not það sem rök með því að ryðjast inn í reksturinn og taka hann yfir sjálfir, og þar mað auka enn við fleiri borgarstarfsmenn. Hæsta tilboðið var rúm 81 milljón en það lægsta tæp 81 milljón. Það býr eitthvað annað að baki.
Hér grunar mann að fordómar séeu gagnvart kristnum uppruna þeirra hjálparsamtaka sem buðu í reksturinn. Annað þeirra hefur rekið skýlið með góðum árangri, unnið traust útigangsmannanna og rekið það með svo litlum tilkostnaði borgarinnar að samtökin þurftu að borga með sér.
Fordómar gagnvart kristnu fólki hjá trúleysingjum eru frekar hvimleiðir. Auðvitað er hægt að skilja það að þeir sem trúa á pítsu dagsins í dag og hamborgara morgundagsins eigi erfitt með að skilja fólk sem trúir á eitthvað sem nær lengra en morgundagurinn. En þó að það sé hægt að skilja þá sem hafa gert magann að meistara sínum í lífinu þá vill maður ekki samþykkja fordóma þeirra gagnvart þeim sem hafa fundið annan tilgang.
Það hefði verið auðvelt í minnihluta í verferðarráði að ráðast á meirihlutann í því klúðri sem þeir hafa margoft framkvæmt síðan ég steig þarna inn. En fram að þessu hef ég ekki efast um að vilji meirihlutans hafi verið góður og löngun til að gera hlutina vel hafi verið tær og einlægur. En í málinu með götuskýlið er vilji þeirra augljóslega ekki góður, þeir hafa ekki hagsmuni utangarðsfólksins í huga, heldur sinn eigin pólitíska rétttrúnað. Það má vel vera að Nigella Lawsen sé merkilegri en Jesús Kristur (höfundur þessarar bloggsíu er ósammála því), það má vel vera að Gordon Ramsays sé merkilegri spámaður en Móses (höfundur bloggsíðu aftur ósammála. Vinsamlegt innskot bloggara). En þegar meirihlutinn í borgarstjórn er farinn að leyfa fordómum sínum gagnvart kristinni hjálparhönd að stjórna ákvörðunum sínum gagnvart kristinni hjálparhönd að stjórna ákvörðunum sínum þá er þessi meirihluti farinn að hegða sér heimskulega. Maður slær ekki á hjálparhönd, jafnvel þótt það sé Samhjálparhönd.
Höfundur er varaborgarfulltrúi og stjórnarmaður í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sú frétt kom á Stöð 2 núna rétt áðan að reynt hafi verið að hrekja burtu bænahópinn Lífsvernd, sem komið hefur saman fyrir utan kvennadeild Landsspítalans undanfarna þriðjudaga. Sást í fréttinni lítill hópur biðjandi fólks en hjá stóð fólk sem var augsýnilega að mótmæla, var ein konan berbrjósta. Kom fram í vitali við hana að hún væri að tengja mótmæli sín við "free the nipple átakið". En það er óskylt fyrirbæri sem ætlað er að vinna á móti hefndarklámi. Með öðrum orðum voru feministar að reyna að hrekja burtu lítinn bænahóp sem vildi biðja til Guðs að fóstureyðingum mættu hætta. Ætlunin var að mótmæla nærveru Lífsréttar við Fæðingardeild Landspítalans og bænum þeirra, sagði ofangreind kona sem rætt var við að hún vildi með þessum mótmælum sínum verja rétt kvenna til þess að ráða yfir eigin líkama.
Ég vil segja að mér finnst þetta hneykslanleg framkoma við fókið í bænahópnum. Fólk á rétt á því samkvæmt lögum að koma saman og biðja eða koma saman til fundarhalda svo fremi sem öryggi náungans sé ekki ógnað. Yfirráðaréttur kvenna yfir eigin líkama er eitt og réttur ófædds barns til lífs er annað. Það er óréttlætanlegt að ófætt barn (fóstur) sé deytt í móðurkviði og það oft vegna léttvægra ástæðna. Lítið fóstur hefur sínar tilfinningar og sársaukaviðbrögð, það hafa rannsóknir fyrir löngu sýnt fram á. Fóstureyðing er grimmileg eyðing á mannslífi. Fóstureyðing er brot á einu boðorða Guðs sem segir "Þú skalt ekki morð fremja".2 Mós 23,13
Kristið fólk. Snúumst á sveif með bænahópnum Lífsvernd og biðjum fyrir ófæddum börnum í móðurkviði að lífséttur þeirra sé virtur, að fóstureyðingar verði ekki leyfðar á Íslandi. Biðjum fyrir öllum barnshafandi konum á Íslandi að þær taki ekki þá ákvörðun að láta eyða fóstri. Biðjum einnig að deyðing barna með Downs syndrom verði hætt. Að síðustu vil ég segja að orð mín kunna að hljóma dæmandi gagnvart vissum hóp kvenna, en ég vil benda á að Guð er góður, hann vill okkur allt hið besta. Hann "sendi son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf". Jóhannes 3:16 Guð er fyrirgefandi Guð, hann rekur engan frá sér sem til hans kemur. Hann er fús að fyrirgefa syndir komi maður til hans og með iðrandi hjarta.
Trúmál og siðferði | Breytt 2.4.2015 kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Biblían og Jesús.
29.3.2015 | 11:06
Í tilefni þess að í dag er Pálmasunnudagur finnst mér við hæfi að birta grein úr smáriti sem vinur minn og þjónn fagnaðarerindisins setti saman og sendi mér. Það byrjar á því þegar lærisveinarnir eru á göngu með frelsara sínum eftir upprisu hans frá dauðum. Sögðu þeir eftir að hann hafði talað við þá og hann var farinn frá þeim: (Byrjar hér greinin)."Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum". Lúkas 24.32
Áður en Jesús fór til himins flutti hann mögnuðustu Biblíufræðslu er um getur í víðri veröld. 24 kafli Lúkasarguðspjalls greinir frá því þegar Jesús upprisinn frá dauðum birtist lærisveinum sínum þar sem þeir voru samankomnir í Jerúsalem. Lestu þennan kafla.
1- Öll biblían er um Jesú. Jesús kynnti algjörlega nýtt viðmið við túlkun á Orði Guðs sem breytti gangi sögunnar. "Svo er skrifað," sagði hann "að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og prédikað skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem." (Lúkas 24:47) Höfuðumræðuefni Biblíunnar er ekki andlegs eðlis, siðfræði, heimspeki eða sagnfræði. Allt þetta er í öðru sæti en Jesús skipar efsta sæti. Biblían snýst fyrst og fremst um persónu og starf Jesú. Konungar, konungsríki, fórnir, meðalgöngumenn, bjargvættir og vísdómur sem við lesum um í Gamla testamentinu, bendir allt á Jesú Krist. Hann er meiri en allir konungar og heimsveldi. Hann gaf sjálfan sig sem hina fullkomnu fórn til að frelsa okkur frá syndinni. Hann er eini meðargangarinn milli Guðs og manna. Hann er lind og uppspretta sannleikans.
Í Lúkasarguðspjalli 24.13-49 er því lýst hvernig Jesús kenndi Biblíuna. "Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum." (Lúk.24.27) Biblían verður óskiljanleg nema hún tengist Jesú.
2 - Biblían er eina bókin frá Guði. "Að rætast ætti allt það sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum." (Lúk 24.44) Sökum fjölmargra uppfylltra spádóma og þar á meðal þeirra sem snerta Jesú sjálfan, vitum við að Biblín er bók Guðs. 25 prósent Gamla testamentisins eru spádómar er segja iðulega og ýtarlega fyrir um framtíðina. Enginn nema Guð þekkir framtíðina og aðeins Guð einn stjórnar framtíðinni. Og aðeins Guð getur gert framtíðina að veruleika. Sönnunarbyrðin hvílir á vantrúarmanninum. Ef Guð er ekki höfundur Biblíunnar - Hver þá? Hver gat vitað að Jesús mundi fæðast í Betlehem af ungri mey og verða krossfestur sem fulltíða maður? Það er hægt að læra ýmislegt af öðrum bókum, rithöfundum og kennurum, en við verðum að leita til Biblíunnar og spyrja: Hvað segir Guð? Það eru til tonn af bókum um Guð en aðins ein bók er eftir Guð.
3 - Auðmýkjum okkur undir kennivald Biblíunnar. Enginn lærisveina Jesú reyndi að koma sinni eigin skoðun að þegar Jesús var að útlista Biblíuna í Lúkas 24. Við heyrum ekki Tómas segja: "Herra, ég tel að Jesaja 53 sé myndlíking." Í rauninni er aðeins um tvenns konar viðhorf að ræða varðandi Orð Guðs. Annnað hvort hreykir þú þér upp yfir það eða beygir þig undir það. Ef ég set mig yfir Biblíuna ákveð ég hvað hún hefur að segja, og vinsa úr henni hverju skal halda og hverju sleppa. Þá verður Biblín eins og hver önnur bók með skiptar skoðanir á hlutunum. Ég er einnig um leið að ritskoða Biblíuna og breyta henni. Ef Biblían er mér æðri hlýti ég kennivaldi hennar og myndugleika. Ég hlusta á Orð Guðs og hlýði úrskurði Biblíunnar. Með slíkri afstöðu er Biblín til þess að breyta mér. Það er markmið hennar.
4-Biblían er fyrir okkur en hún er ekki um okkur. Í bæninni tölum við við Guð. Guð talar við okkur í Biblíunni. Þegar við opnum Biblíuna gefum við okkur undir valdsvið Guðs orðs, þannig að við getum vitað, hvernig við eigum að lifa að vilja Guðs. Guð býður lýð sínum mikla uppörvun, huggun og visku. Og við getum fundið fögnuð og fyrirgefningu í Jesú Kristi. Lærisveinarninr nutu tvímælalaust mikillar blessunar af Biblíuskýringum Jesú í Lúkasi 24. Það var þó ekki kjarni málsins. Jesús fól þeim ákveðið hlutverk. "Þér eruð vottar þessa." (Lúk 24.48) Biblían fjallar um Jesú. Fagnaðarboðskap, sem vert er að miðla örðum. Til að verða kröftugur boðberi Jesú Krists, er nauðsynlegt að skilja hvað Biblían snýst um. Orð Guð er sverð (Hebreabr.4.12). Tvíeggjað, beitt eggvopn getur verið hættulegt sé það meðhöndlað ógætilega. Þú þarft ekki guðfræðigráðu til að segja náganna þínum frá Jesú, En skorti þig sjálfan skilning á fagnaðarerindinnu, verður næsta torvelt að skila því til annara.
5- Án Heilags Anda getum við ekki skilið Biblíuna. Eftir að hafa brýnt lærisveinana að kunngera fagnaðarboðskapinn "öllum þjóðum" -Sem hlýtur að hafa verið spennandi viðgangsefnin fyrir þennana fámenna hóp - segir Jesús þeim að bíða! Blómlegt kristniboð, trúboðsstarf, Biblíulestur og rannsókn þarfnast nærveru Heilags Anda. Jesús hafði sagt lærisveinunum það sem þeir þurftu að vita, en þeir gátu ekkert gert með þessa vitneskju, fyrr en kraftur Heilags Anda mætti þeim til að þjóna Jesú.
Hvað þarf til að skilja Ritningarnar? Heilagur Andi verður að auðmýkja hjarta þitt og sinni og opna huga þinn. Biblían öll er innblásin af Heilögum Anda og þessi sami Heilagi Andi opnar einmitt Ritningarnar fyrir okkur. Ég hafði enga löngun að lesa Biblíuna, og því síður að skilja hana. Það var ekki fyrr en Heilagur Andi breytti hjarta mínu. Eftir þá undursamlegu umbreytingu verð ég ekki að lesa Biblíuna - ég vil lesa hana. Vegna áhrifa og nærveru Heilags Anda í lífi mínu langar mig að lesa Biblíuna. Þetta er því ekki skylduverk.
Hvernig veistu að þú hefur réttan skilning á Biblíunni? Ef þú opnar hana og lest eitthvað hugsunarlaust án bænar og Jesús virðist hvergi sjáanlegur, hefur þú tekið skakka beygju. Hagnýt, gaumgæfin Biblíuathugun, ígrundun orðsins og lestur getur af sér hatur á synd og kærleika til Jesú. Þú trúir á Jesú og þú villt hlýða honum og fylgja. Þegar erfiður staður mætir þér í Biblíunni skaltu treysta Jesú. Fylgdu sannleikanum hvert sem hann leiðir og þá muntu treysta Biblíunni og elska Jesú. Rannsakaðu og lestu Guðs orð fyrir sjálfan þig og leyfðu því að umskapa líf þitt. En þú skalt ekki geyma þetta eingöngu fyrir sjálfan þig. Gefðu öðrum hlut með þér í þessu dýrmæta og stórkostlega fjársjóði.
Mark Driscoll - Ljós af himni 2015.
Trúmál og siðferði | Breytt 30.3.2015 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Virðing við kristna trú á undanhaldi.
22.3.2015 | 00:53
Samkvæmt frétt á Mbl.is kom fram að á Skátaþingi sem stóð yfir á Selfossi í dag hafi verið samþykkt tillaga að breyttu orðalagi skátaheitisins . Snerist þessi breyting um að skátar geti valið um að strengja heit við Guð eða samvisku sína, einnig að valkvætt sé hvort notast sé við orðið ættjörð eða samfélag. Umrætt heit hefur hljóðað svo:
"Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess; að gera skyldu mína við Guð og ættjörðina, að hjálpa öðrum og að halda skátalögin."
Finnst mér það mikil hneysa að þessi ákvörðun hafi verið tekin á skátaþingi. Var sú skýring gefin á þessu að færa ætti skátana meira inn í nútímann og að opna fyrir alla hvort sem þeir trúa eða ekki á Guð eða hvaða guð þeir trúa á. Það er sífellt verið að ýta trúnni eins og til hliðar í samfélagi okkar, sérstaklega frá börnum á grunnskólaaldri. Heit þetta er samofið sögu og menningu skátastarfsins. Þetta heit sýnir að skátahreyfingin hefur verið stofnuð með grundvallarhugsjónir kristinsdómsins að leiðarljósi sem er að standa sig í mannlegu samfélagi, að rétta öðrum hjálparhönd og koma vel fram við aðra.
Þeir sem að skátahreifingunni koma ættu ekki að skammast sín fyrir að láta Guð vera ávallt nefndan þegar börn og unglingar fara með skátaheitið. Það að líta til tíðarandans og láta hugmyndir manna sem fráhverfir eru kristinni trú ráða ferð er rangt. Slíkar hugmyndir eru undir yfirskini "mannréttinda" og ganga út á það að helst eigi að ýta kristinni trú undir teppi vegna þess að hugsanlega eru einhver börn sem eiga vantrúaða foreldra eða foreldra annarra trúarbragða. Kristin trú og boðorðin 10 eru veganesti sem öllum börnum og unglingum er hollt að hafa fyrir lífsgöngu sína.
Þurfa ekki að strengja guði heit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Verklag Utanríkisráðherra varðandi afturköllun aðildarumsóknar er innan lagaramma.
16.3.2015 | 18:09
Það vakti mikla undrun á meðal landsmanna þegar sú frétt barst út að Utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hafi fært Utanríkisráðherra Lettlands Edgars Rinkevics bréf sem innihélt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka. En Edgar Rinkevics fer með forsætið innan Evrópuráðsins. Fá mál hafa valdið meira umróti á meðal stjórnarandstöðunar og ESB sinna og meint bréfaskrif Utanríkisráðherra. Hafa margir tjáð sig um á hvern hátt ríkisstjónin kom að þessu máli. Hefur mörgum þótt að hér væri vegið að þingræðinu og lýðræðinu, að Utanríkisráðherra hefði átt að leggja tillögu sína varðandi slit á aðildarumsókn Íslands fram á Alþingi.
Í frétt í dag á Mbl.is tók formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason svo djúpt í árina að segja aðgerðir Utanríkisráðherra "stappa nærri landráðum" og átti hann þar við viðræður Gunnars Braga við Evrópusambandið til að árétta orðalag í bréfinu umtalaða. Er ástæðan sú að bréfið og innihald þess kann að hafa vafist fyrir þeim sem það lásu. Var jafnvel talað um að bréfið hefði ekkert gildi að það breytti engu um að Ísland sé enn talið umsóknarríki að ESB. Hefði þurft að færa bréfið Ráðherraráði Evrópusambandsins til að afturköllunin gæti talist gild. Tel ég að Ríkisstjórninni beri að ganga í skugga um að bréf þetta hafi tilætluð áhrif, að Íslandi verði tekið af lista yfir umsóknarríki. Ef þörf krefur þarf ef til vill að skrifa annað bréf og þá til Ráðherraráðs ESB.
Ég vil segja að eftir því sem ég hef skoðað málið þá virðist leið sú sem Háttvirtur Utanríkisráðherra valdi til að draga umsókn Íslands að ESB til baka, vera lögum samkvæmt, en ekki brot á Þingræði eða lýðræði. Að mati Bjargar Thorarensen, prófessors í stjórnskipunarrétti hafði Utanríkisráðherra formlega heimild til þess að koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart Evrópusambandinu um aðildarumsóknina. Hún sagði reyndar: "Fullkomlega óeðlilegt var hins vegar að Utanríkismálanefnd hafi ekki verið tilkynnt um það." Aðgerðir Utanríkisráðherra eru að mínu mati fyllilega löglegar, ekki síst í ljósi þessa að Utanríkisráðherra reyndi að koma tillögunni fram á Alþingi fyrir ári síðan en stjórnarandstaðan bragst þá við með málþófi. Var Þingsályktunartillagan "tekin í gíslingu" eins og hann komst svo vel til orða.
Gunnar Bragi sagði í frétt í Mbl.is fyrr í dag að stjórnarandstaðan hafi sent Evrópusambandinu bréf þar sem ranglega var farið með "að ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 lýsi ríkjandi afstöðu á Alþingi og hafi einhvers konar lagagildi sem ríkisstjórninni sé óheimilt að víkja frá. Ekkert er fjær sanni. Þessi ályktun var samþykkt að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og fól í sér pólitíska stuðningsyfirlýsingu við þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Áhrif ályktunarinnar voru því fyrst og fremst pólitísks eðlis en ekki lagalegs." Fyrirvarar þeir sem fyrrverandi ríkisstjórn setti varðandi umsóknarferlið var að ef ríkisstjórninni leist svo á þá gat hún þá þegar slitið umsóknarferlinu. Núverandi ríkisstjórn er því síður bundin af þessari ályktun fyrrverandi ríkisstjórnar.
Stappar nærri landráðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enginn á að þurfa að borga lán sem hann hefur ekki skrifað upp á.
4.3.2015 | 17:36
Samkvæmt frétt í dag á Mbl.is gerði Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar Lánasjóð íslenskra Námsmanna að umtalsefni sínu. En eins og mörgum er kunnugt hefur sjóður sá tekið upp það verklag að senda afkomendum lántaka sjóðsins eða ábyrgðarmanna, kröfur um að þeir borgi niður lán fyrir látna ættingja sína. Eru það um 8000 þúsund manns sem hafa fenguð viðvörunarbréf frá sjóðnum. Sagði Árni þetta fara á svig við lög þessu lútandi, að þarna sé verið að leita leiða til þess að halda opnum ábyrgðum á fólk sem er algjörlega grandvaralaust aftur í tímann. Sagði hann þetta fullkomlega óásættanlegt.
Þarna verð ég að segja að ég er fullkomlega sammála formanni Samfylkingarinnar. Þetta er ábyggilega ólöglegt eins og hann segir. Því það er enginn vafi á því að enginn á að þurfa að taka á sig lán sem hann er ekki sjálfur skuldari fyrir eða hafi sjálfur skrifað upp á lán hjá einhverjum öðrum sem ábyrgðarmaður. Finnst mér þarna vera verðugt verkefni fyrir ríkisstjórnina og löggjafarvaldið að koma í veg fyrir svona óréttláta aðför að grandalausu fólki.
Þetta er fullkomlega óásættanlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Framsóknarflokkurinn á skilið meira en 11% fylgi á meðal landsmanna.
3.3.2015 | 21:02
Samkvæmt frétt á Mbl.is í gær mældust Píratar með 15,2 prósent fylgi í könnun Gallup, en þeir hlutu 5% fylgi í síðustu þingkosningum. Var fylgi Sjálfstæðisflokksins 26,1% en næst á eftir Samfylkingin 17,1%. Fylgi Framsóknarflokksins mældist lágt eða 11 prósent. Ég vil segja að fylgi Framsóknarflokksins getur vænkast fram að næstu Alþingiskosningum. Sigmundur Davíð er að mínu mati mjög traustvekjandi forsætisráðherra sem er verðugur fulltrúi þjóðar sinnar, hvort sem er inni á Alþingi þar sem hann berst fyrir baráttumálum sínum til hagsbóta fyrir landsmenn eða þar sem hann stígur fæti sínum á erlenda grund.
Eitt besta trompið sem hann hefur dregið fram er höfuðstólslækkun verðtryggðra lána. Það er kjarabót sem gagnast mörgum með áþreifanlega bættri afkomu og meiri afgangi í veskinu þegar nær líður mánaðarmótum. Bætt staða ríkissjóðs og aukinn kaupmáttur almennings síðasta ár er góðs viti og sýnir okkur að ekki er allt slæmt sem ríkisstjórnin er að gera. Framsóknarflokkurinn fær oft meira fylgi þegar kemur að kosningum en niðurstaða skoðanankannana hefur gefið til kynna. Mættum við öll velja rétt í næstu kosningum og kjósa þann flokk aftur inn í ríkisstjórn sem er besti samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins. En það er Framsóknarflokkurinn með dyggri forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Píratar í stórsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)