Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Ríkisstjórnin ætti að vera einörð í ákvörðun sinni í að hafna aðild að ESB.

Á fundi sameiginlegrar  þingnefndar Alþingis og Evrópuþingsins, tjáði  háttvirtur forsætisráðherra sig með eftirfarandi orðum  „Hvað varðar viðræðurnar á milli Íslands og Evrópusambandsins teljum við rétt að taka skref til baka og sjá hvert við stefnum áður en lengra er haldið,“  Varðandi þessi ummæli hans varðandi hugsanlega stöðvun eða frestun ríkisstjórnarinnar á aðildarviðræðum við Evrópusambandið vil ég segja:

Ég vil hvetja Forsætisráðherra og aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar að vera ákveðin í að halda ekki áfram aðildarviðræðum og hafna alfarið hugsanlegri inngöngu í ESB.  Það eru margir Íslendingar sem telja að við eigum að halda aðildarviðræðunum áfram og ljúka þeim til þess að hægt sé að "kíkja í pakkann" og sjá hvað er í boði.  Það er staðreynd að orðið aðildarviðræður eiga ekki við og er ekki rétt orð yfir þessar viðræður sem farið hafa fram í tíð síðustu ríkisstjórnar síðan 2009.  Það er staðreynd að þetta voru ekki aðildarviðræður heldur er rétta orðið aðildarferli.

Íslenska þjóðin hefur verið að taka við styrkjum frá ESB til aðlögunar að ESB.  Mikill fjöldi laga og reglugerða þurfti að innleiða til þess að Ísland gæti gengið í ESB og ótal mörg atriði þurfti Íslenska ríkið  að bæta og gangast undir eins og að bæta stöðu ríkissjóðs, skapa meiri stöðugleka og minni verðbólgu sem óhjákvæmilega hefur kostað mikinn niðurskurð í velferðarkerfinu.

Ég tel að Íslandi sé best borgið utan ESB.  Eyríki eins og Færeyjar og Grænland hafna alfarið inngöngu í ESB, eins og Ísland byggja þau afkomu sína að miklu leiti á sjávarafurðum.  ESB hefur ekki sagst gera einhvern sérsamning við Íslendinga í sjávarútvegsmálum heldur verðum við að gangast undir regluverk þess.  ESB hefur lýst því yfir nýverið að sambandið hyggist breyta reglum sínum varðandi fiskveiðar sem það lýsir yfir að séu hagstæðari fyrir Íslendinga en verið hefur.  En það breytir ekki þeirri staðreynd að Íslendingar eftir hugsanlega inngöngu í sambandið munu:

1)  Missa yfirráðin yfir 200 mílna lögsögu sinni og fiskiskip annarra þjóða fá að veiða fisk í stórum stíl í Íslenskri lögsögu. 

2)  Íslendingar hafa ekki rétt til að gera fiskveiðisamninga eða viðskiptasmninga við önnur ríki. 

3)  Löggjafar og dómsvald færist yfir til Brussel sem útheimtir breytingu á stjórnarskrá Íslands.

4)  Sjálfstæðið sem Íslenska þjóðin ávann sér 17 júni 1944 verður frá henni tekið og forsætisráðherra og ráðherrar ríkisstjórnarinnar verða aðeins eins og flugstjórar á flugvél sem er flogið á sjálfstýringunni einni saman og hafa ekki fullt vald yfir ákvarðanatöku þjóðarinnar.

Forseti Þýska sambandsþingsins lýsti því yfir nýverið að hann telji að Evrópusambandið eigi eftir að skiptast í tvennt í framtíðinni þar sem þau 17 ríki sem hafa Evruna sem gjaldmiðil munu halda áfram að auka samband sitt sín á milli án þáttöku hinna ríkjanna 10 sem ekki hafa Evruna sem gjaldmiðil.   Íslendingar hafa að ég tel ótal mörg tækifæri til viðskipta og efnahagslegs velfarnaðar utan ESB.  Álitið er að siglingar muni hefjast yfir norðurskautið og Íslendingar munu ekki þurfa að tilheyra ESB til að geta tekið þátt í hugsanlegri þjónustu eins og stórskipahöfn hér á landi til að þjónusta fyrirtæki sem taka þátt í þessu ævintýri.  Álitið er að olíu sé að finna í Íslenskri lögsögu og margt annað mætti nefna sem aukið getur hag landsins, eins og raforkustrengur milli Íslands og annarra landa.  Ríki sem tilheyra ESB hafa ekki verið þekkt fyrir mikinn efnahagslegan þjóðarhag.  Mér skilst að af þeim 27 löndum sem séu í ESB sé aðeins eitt land sem hefur minna atvinnuleysi en hér á landi.

Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að standa utan ESB.

 


mbl.is Pólitískur vilji þarf að vera til staðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkun veiðigjalda er nauðsynleg til að hindra gjaldþrot margra sjávarútvegsfyrirtækja.

Það hefur valdið talsverðri umræðu á Alþingi og á meðal almennings frumvarp ríkisstjórnarinnar varðandi lækkun á veiðigjaldi á sjávarútveginn á þessu ári og 2014.  Hafa þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna Samfylkingar og Vinstri Grænna lýst yfir andstöðu við þetta frumvarp.  Stofnað var til undirskriftasöfnunar á netinu til þess að mótmæla þessu frumvarpi.

Ég tel að lækkun á veiðigjöldum á sjávarútvegsfyrirtæki sé óumflýjanleg.  Margir útgerðarmenn og sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hafa lýst því yfir að hækkun á veiðigjöldum sem tók gildi með lögum frá 26. júní 2012 sé það geti valdið gjaldþroti eða miklum erfiðleikum hjá mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum.  Hefur það verið sagt að gjaldið taki burt nánast allan hagnað margra sjávarútvegsfyrirtækja og í sumum tilvikum jafnvel hærri upphæð en sem nemur hagnaðinum.

Annað atriði sem hefur verið nefnt er að fullkomin óvissa er um hvernig eigi að reikna út þetta gjald sem síðasta ríkisstjórn lagði á sjávarútvegsfyrirtækin.  Það var ekki hægt að leggja á gjald fyrir 2014 því fullkomin óvissa ríkti um hvert gjaldið ætti að vera.  Nefnd sem átti að reikna út grundvöll gjaldsins hefur ekki getað lokið vinnu sinni.

Í þriðja lagi voru hugmyndir um hækkun gjaldsins algerlega óraunhæfar og óskiljanlegt að til hafi staðið að taka allt að þriðja tug milljarða af atvinnugreininni í sérstaka skattlagningu.  Tala sumir um að nýja ríkisstjórnin hyggist afsala ríkissjóði tekjum með þessari lækkun á veiðigjaldi, 3,2 milljarða á þessu ári og 6,4 á næsta ári.  En staðreyndin er sú að ríkið hafði áskilið sér allt of stóran hlut af tekjum þessara fyrirtækja.

Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að koma gangi á atvinnumálin og iðnaðinn í landinu á ný.  Þessi aðgerð að lækka veiðigjaldið var gerð með það að markmiði að efla þessa atvinnugrein með meiri fjárfestingu og fleiri störfum.  Traust atvinnulíf og meiri fjárfesting í atvinnulífinu mun að mínu mati skapa undirstöðu fyrir bættan hag landsmanna og vænka hag ríkissjóðs, sem mun vonandi fljótt skapa svigrúm til að koma til móts við skuldavanda fólks.


mbl.is Tæplega 4.900 hafa skrifað undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga stjórnarmyndunarviðræðna Sigmundar og Bjarna.

Eftir að Sigmundur Davíð hafði tekið við stjórnmyndunarumboði frá Forseta Íslands sneri hann sér fyrst til vinstri framboðanna með gottið sem hann hyggst færa Íslensku þjóðinni sem eru aðgerðir þær sem hann hefur í hyggju að framkvæma þjóðinni til góðs.  Hann var svolítið smeykur við að koma til Bjarna með gottið því hann var hræddur um að Bjarni myndi kíkja í pokann hans og taka uppáhaldsmola hans sem eru lausnir þær sem hann hefur varðandi lánamál heimilanna.  Vegna þess sneri hann sér fyrst til vinstri til að kanna alla möguleika fyrst og sjá hvort hin höfðu ekki betra gotterí en Bjarni.  Eftir að hafa kíkt á gottið sem hin í vinstri framboðunum höfðu í nammi pokum sínum, tók hann sér stuttan umhugsunarfrest.  Og hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri óhætt að láta á það reyna að snúa sér til Bjarna. 

Og það var eins og við manninn mælt.  Bjarni tók honum mjög vel, og hann lét uppáhalds molann hans alveg vera.  Hann hafði prýðilega góðar hugmyndir um hvernig þeir gætu skipt molunum og mótað þá eftir hvernig þeim báðum líkaði og eftir því sem best kemur fyrir þjóðarhag.  Og Bjarni fór með Sigmund í sumarbústað föður síns og Bjarni hressti hann við og aðstoðarkona hans bakaði vöflur fyrir þá með sultu og rjóma.  Og fljótt hvarf öll hræðsla úr huga Sigmundar eins og dögg fyrir sólu og hann fann sig öruggan hjá Bjarna.  Og þeir settu molana saman í stóra skál, sem eru aðgerðir þær sem þeir hyggjast koma í verk, fólkinu í landinu og atvinnuvegunum til handa.

Og stjórnarmyndunarviðræðurnar gengu vel og oft komu fréttir af þeim félögum með myndum af þeim brosandi vegna þess góða árangurs sem þeir voru að ná og líka vegna vorangans í loftinu sem hafði eins og keim af betri tíð.  Og þeir fóru með sælgætisskálina, stjórnarsáttmálann til Reykjavíkur í Alþingishúsið og brátt var ríkisstjórn þeirra, hægristjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduð.

Núna eftir að ríkisstjórnin er nýmynduð komu Ráðherrar nýrrar ríkisstjórnarinnar ásamt mökum þeirra til að snæða saman.  Þetta var mjög góð hugmynd hjá  þeim.  Þessháttar samvera og matarboð eykur að ég held samhugann og eininguna hjá Ráðherrum ríkisstjórnarinnar. 

 


mbl.is Hópefli ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband