Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Það er engin ástæða til annars en að halda áfram kristilegri boðun í skólum.

Það hefur varla farið fram hjá mörgum, umræðan um ávarp háttvirts Innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á Kirkjuþingi.  Þar lýsir hún andúð sinni á að Kristnum áhrifum skuli hafa eins og verið ýtt út úr skólakerfinu.  Ég vil lýsa yfir hrifningu minni og velþóknun yfir orðum hennar og afstöðu að vilja styðja við Kristna trú.  Kristin trú er svo sannarlega ekki aðeins ein af mörgum lífskoðunum eins og margir vilja nefna hana þegar talað er um Kristna trú og skólastarf, heldur er hún trú á Almáttugan Guð sem skapað hefur alla hluti.

Í grunnskólum á Íslandi eins og í skólum um heim allan er kennd sú kenning að allt hafi orðið  til vegna þróunar og að við séum sennilega komin af öpum.  Og að alheimurinn hafi orðið til fyrir milljónum ára vegna mikillar sprengingar sem varð í einhverjum efnismassa.  Það er augljóst að samkvæmt þessu þá hafi eitthvað alltaf verið til staðar, einhver massi sem vísindamenn hafa ekki getað útskýrt hvernig hafi til orðið.  Ég vil benda á að þetta "eitthvað" er Guð skapari okkar, það er engin heilbrigð skynsemi í að halda að umheimurinn með öllum sínum lögmálum , gangi himinstjarnanna, öllum lífverunum þar á meðal okkur mannfólkinu hafi orðið til vegna sprengingar og einhverskonar íblöndunar efnasambanda.  Það er augljóst að það er einhver hönnuður eða hugsuður á bak við þetta allt.  Biblían, Orð Guðs bendir á að sjálf sköpunin sýni fram á tilvist Guðs, að við getum greint að það sé skapari á bak við allt saman í veröld okkar.

Í sálmi 19:2 stendur:  "Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa."  Takið þið eftir að á þessum árum sem þetta var ritað vissu menn lítið um það sem heldur stjörnunum á braut sinni, sem er  yfirleitt áhrif einhverrar stjörnu eins og td sólu sem fær þær til að snúast umhverfis viðkomandi stjörnu.  "Festingin" er þetta sem heldur stjörnunum á braut þeirra.  Það er stórkostlegt að Guðs orð segi frá þessu.  Það segja margir að Biblían segi ekki rétt frá lögun jarðar að ritað sé í Biblíunni að jörðin sé flöt.  Sannleikurinn er sá að orðið sem notað var í frumritningunum getur bæði þýtt "kringla" og "kúla". 

 Í Jobsbók 26:7 stendur:  "Hann þenur norðrið yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum."  Þarna greinir Biblían frá að jörðin "svífi" um í alheiminum sem er alveg satt.  Er nokkur ástæða til að hafna Orði Guðs Biblíunni og segja að hún eigi ekki erindi í skóla landsins og að hún sé úrelt helgirit.  Nei trúin á Guð og son hans Jesúm Krist sem gaf líf sitt fyrir syndir mannkyns hefur svo sannarlega fært heiminn til betri vegar, og í trúnni á Krist með lestri Guðs Orðs og með hlýðni við boð Guðs fær maðurinn ljós á veginum til góðra verka og kærleika við samferðafólk sitt.  Skólayfirvöld, sveitarfélög og aðrir sem með málefni grunnskólana fara ættu óhikað að opna dyrnar fyrir Kristinni trú eins og með því að færa Kristnifræðslu aftur til vegs og virðingar og bjóða presta, Gídeonmenn og aðra boðendur fagnaðarerindisins velkomna.


mbl.is Engin breyting á samskiptum kirkju og skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna á heiður skilið fyrir gott ávarp á Kirkjuþingi varðandi trú og skóla.

Eins og kunnugt er hefur háttvirtur Innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir tekið þátt í Kirkjuþingi þjóðkirkjunnar.  Ég var að kynna mér hvað hún hafði að segja í ávarpi sínu sem hún flutti á kirkjuþinginu.  Það hreif mig mjög að hún skyldi taka hlut hinna trúuðu varðandi hvort börn í grunnskólum landsins eigi að fá að heyra kristna trú boðaða í skólum.  Um það sagði hún að hún harmaði að sum sveitarfélög og sumir stjórnmálamenn hafi gert  það að forgangsverkefni að færa trúna sem lengst í burtu frá skólabörnum þessa lands.  Ég afritaði hluta ávarps hennar og birti það hér í bloggfærslu minni.  Því þetta er eins og talað út frá mínu eigin hjarta, því börnin þurfa svo sannarlega á Kristi að halda eins og við öll.  Hérna kemur hluti úr ávarpinu:

"Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu á liðnum misserum um gildi og hlutverk kristinnar trúar.

Það er ekkert nema eðlilegt að við sem samfélag skiptumst á skoðunum um slík grunngildi

en sum sveitarfélög og sumir stjórnmálamenn hafa talið það forgangsverkefni á þeim tímum sem við nú lifum að finna leiðir til að færa trúna, boðskap hennar og áherslur eins langt frá æsku þessa lands og mögulegt er. Á tímum þar sem eðlilega er mikið rætt um víðsýni, umburðarlyndi og fjölbreytni er þannig markvisst unnið að því að halda öllu sem skilgreina má sem trúarlegt frá skólabörnum.

Ég er ekki sammála þeirri stefnu og það segi ég ekki bara sem stjórnmálamaður -

heldur miklu frekar sem móðir tveggja barna á grunnskólaaldri. Á sama tíma og börnin okkar kynnast flestu ef ekki öllu sem gerist í samfélaginu; heimsækja reglulega á vegum skólans fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, fá í heimsókn boðbera ólíkra sjónarmiða í skólana sína, að því ógleymdu að dvelja flest óáreitt langdvölum í netheimum er Gídeonfélagið hins vegar sett á bannlista samhliða því sem af alvöru er rætt um að heimsóknir barna í kirkjur landsins, einstaka Faðir vor eða jólasálmar geti skaðað æsku þessa lands.

Á ögurstundum í lífi þessarar þjóðar getur það varla verið forgangsmál að forða börnunum okkar frá boðskap um kristni og kærleika enda hlýtur skólastarf nútímans að eiga að einkennast af fjölbreytni, vali og trú á því að einstaklingarnir sjálfir fái með fræðslu og upplýsingu tækifæri til að móta sínar lífsskoðanir, trú og sannfæringu."

kirkjuthing.is/kerfi//skraarsofn/kirkjuthing/2013/11/setning-avarp-radherra.pdf

 

 

 


mbl.is Kirkjuþing fái aukin völd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband