Það er engin ástæða til annars en að halda áfram kristilegri boðun í skólum.

Það hefur varla farið fram hjá mörgum, umræðan um ávarp háttvirts Innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á Kirkjuþingi.  Þar lýsir hún andúð sinni á að Kristnum áhrifum skuli hafa eins og verið ýtt út úr skólakerfinu.  Ég vil lýsa yfir hrifningu minni og velþóknun yfir orðum hennar og afstöðu að vilja styðja við Kristna trú.  Kristin trú er svo sannarlega ekki aðeins ein af mörgum lífskoðunum eins og margir vilja nefna hana þegar talað er um Kristna trú og skólastarf, heldur er hún trú á Almáttugan Guð sem skapað hefur alla hluti.

Í grunnskólum á Íslandi eins og í skólum um heim allan er kennd sú kenning að allt hafi orðið  til vegna þróunar og að við séum sennilega komin af öpum.  Og að alheimurinn hafi orðið til fyrir milljónum ára vegna mikillar sprengingar sem varð í einhverjum efnismassa.  Það er augljóst að samkvæmt þessu þá hafi eitthvað alltaf verið til staðar, einhver massi sem vísindamenn hafa ekki getað útskýrt hvernig hafi til orðið.  Ég vil benda á að þetta "eitthvað" er Guð skapari okkar, það er engin heilbrigð skynsemi í að halda að umheimurinn með öllum sínum lögmálum , gangi himinstjarnanna, öllum lífverunum þar á meðal okkur mannfólkinu hafi orðið til vegna sprengingar og einhverskonar íblöndunar efnasambanda.  Það er augljóst að það er einhver hönnuður eða hugsuður á bak við þetta allt.  Biblían, Orð Guðs bendir á að sjálf sköpunin sýni fram á tilvist Guðs, að við getum greint að það sé skapari á bak við allt saman í veröld okkar.

Í sálmi 19:2 stendur:  "Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa."  Takið þið eftir að á þessum árum sem þetta var ritað vissu menn lítið um það sem heldur stjörnunum á braut sinni, sem er  yfirleitt áhrif einhverrar stjörnu eins og td sólu sem fær þær til að snúast umhverfis viðkomandi stjörnu.  "Festingin" er þetta sem heldur stjörnunum á braut þeirra.  Það er stórkostlegt að Guðs orð segi frá þessu.  Það segja margir að Biblían segi ekki rétt frá lögun jarðar að ritað sé í Biblíunni að jörðin sé flöt.  Sannleikurinn er sá að orðið sem notað var í frumritningunum getur bæði þýtt "kringla" og "kúla". 

 Í Jobsbók 26:7 stendur:  "Hann þenur norðrið yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum."  Þarna greinir Biblían frá að jörðin "svífi" um í alheiminum sem er alveg satt.  Er nokkur ástæða til að hafna Orði Guðs Biblíunni og segja að hún eigi ekki erindi í skóla landsins og að hún sé úrelt helgirit.  Nei trúin á Guð og son hans Jesúm Krist sem gaf líf sitt fyrir syndir mannkyns hefur svo sannarlega fært heiminn til betri vegar, og í trúnni á Krist með lestri Guðs Orðs og með hlýðni við boð Guðs fær maðurinn ljós á veginum til góðra verka og kærleika við samferðafólk sitt.  Skólayfirvöld, sveitarfélög og aðrir sem með málefni grunnskólana fara ættu óhikað að opna dyrnar fyrir Kristinni trú eins og með því að færa Kristnifræðslu aftur til vegs og virðingar og bjóða presta, Gídeonmenn og aðra boðendur fagnaðarerindisins velkomna.


mbl.is Engin breyting á samskiptum kirkju og skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Það væri betra að kenna siðfræði frekar enn að hleypa "trúarnöttum" inn í skólana að nýju.

Ástæðan er einföld, þú lest hana hjá sjálfum þér á bloggsíðunni þar sem fram kemur hver höfundur sé...

Það á ekki heldur að ala fólk upp í að hafa ímyndaða vini til æfiloka, það getur ekki verið gott fyrir heilsuna...

Kveðja

Ólafur Björn Ólafsson, 19.11.2013 kl. 21:53

2 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Komdu sæll Ólafur. 

Það er mismunandi hver afstaða manna er til trúarinnar.  Ég hef tekið þá afstöðu að trúa á Guð og það sem stendur um hann í Biblíunni.  Ég tel að siðfræði án trúar sé ekki nóg veganesti fyrir skólabörnin.  Heldur hinn lífgefandi kraftur Guðs sem fæst fyrir trú á Jesúm Krist sem umbreytt getur lífum fólks.  Ég hef sjálfur fengið að reyna þetta og ég hef sjálfur séð það gerast hjá fólki sem hefur snúið sér til Guðs, eins og td ofdrykkjumönnum, eyturlyfjasjúklignum og fleirum sem hafa snúist til betra lífs.  Ég get ekki sannað tilvist Guðs, maður verður bara að trúa að hann sé til og að hann umbuni þeim sem hans leita.

Steindór Sigursteinsson, 19.11.2013 kl. 22:26

3 identicon

Þú getur heldur ekki sannað eða afsannað tilvist fljúgandi spagettí skrímslisins (sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/Flying_Spaghetti_Monster)

Þetta sem stendur í Biblíunni er byggt á trú og það sem er byggt á trú með vísan í trúarbrögð er órökrétt, ómælanlegt og ekki hægt að gera tilraunir með líkt og gert er með í vísindum.

Þó svo að vísindin geti ekki sannað eða útskýrt alla hluti er ekki þar með sagt að það fólk megi bara fylla upp í eyðurnar með vísun í þau ævintýri sem hendi eru næst hverju sinni.

Einu sinni þótti mjög eðlileg skoðun að sólin snérist í kringum jörðina sem aftur væri flöt. En nú er blessunarlega búið að afsanna það. Við sem lifum á 21. öldinni þurfum ekki lengur að reiða okkur á óstaðfestar sögur byggðar á trúarbrögðum til þess að útskýra heiminn okkar. Við höfum vísindin til þess og þau sækja á. Við þurfum heldur ekki siðfræði byggt á trúarbrögðum til þess að vísa okkur leiðina í siðferðislegum efnum, við höfum þá grundvallar reglu að koma fram við aðra líkt og maður vill að aðrir komi fram við sig.

bestu kveðjur

Bjorn (IP-tala skráð) 19.11.2013 kl. 23:58

4 identicon

Ég hef ekkert á móti þjóðkirkjunni en mér finnst ekki við hæfi að hún sé með annan fótinn í skólum landsins. Það er ástæða fyrir því að trú og ríkisvald séu aðskilin.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 20.11.2013 kl. 09:09

5 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Komdu sæll Björn.

það er margt í Biblíunni sem sannað hefur verið með rannsóknum vísindamanna og fornleifafræðinga eins og saga ýmsra landa og tilvist margra borga og staða sem Biblían greinir frá.  Það er minnst á Jesú Krist í öðrum samtíma heimildum og Ritningunum.  Samkvæmt ritningunum gerði hann mörg kraftaverk og reisti jafnvel upp dauða. 

það eru margir sem hafa þann vitnisburð að þeir hafi læknast fyrir trú á Jesú Krist, eða hafi losnað úr fjötrum vímuefna og ýmsum slæmum löstum fyrir trú.  Biblían segir um trú í Hebreabréfinu 11:1  "Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá."  Jesús sagði í Markús 11:23-24  "Hver sem segir við fjall þetta: Lyft þér upp, og steyp þér í hafið og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða að því." - Og annað gott vers um trú er í Rómverjabréfinum 10:10  "Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpæðis". - Jesús sagði .."ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs". Jóhannes 11:40b

Kær kveðja.

Steindór Sigursteinsson, 20.11.2013 kl. 19:52

6 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Komdu sæll H.T. Bjarnason,

Mér finnst það hafa haft góð áhrif á þjófélagið á Íslandi að Alþingi ákvað að Kristin trú skyldi verða ríkistrú.  Það hefur fært stjórnkerfinu góðan grundvöll að byggja lög sín á sem eru í grundvallaratriðum byggð á boðorðunum 10.  Og það hefur líka ýtt undir ýmislegt gott hjá fólki, sem Kristur kennir  eins og kærleika og umburðarlyndi.  

Með kærri kveðju.

Steindór Sigursteinsson, 20.11.2013 kl. 20:12

7 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæll Steindór,

Það er að vísu rangt hjá þér að ríkið hafi ákveðið þetta. Hið sanna er að þessu var troðið uppá þjóðina með illu af norskum kóngi sem var "trúarnötti" ekki ósvipað og flestir aðrir sem boða átrúnað á ósýnilega guði...

Hitt er svo að þessu var svo troðið inní stjórnarskrá en þá var þjóðin búin að hafa þessa "trúarnötta" yfir sér síðan árið 1000...

Með kveðju

Ólafur Björn Ólafsson, 21.11.2013 kl. 19:17

8 identicon

Það er ekki eitt einasta atriði sem styður við að guðinn þinn sé til, ekkert sem styður við að Jesúinn þinn hafi haft einvher súperpáver... þó svo að einhverjar fyllibyttur/fíklar hætti að drekka, þá sannar það ekki neitt, menn hafa hætt sukki og svínaríi á margsskonar máta.. Menn hrynja niður þegar þeir hætta að taka lyf við sjúkdómum en fara í staðinn í eitthvað hallelúja rugl, trúaðir sjá ekki þá sem létu lífið, grípa bara í þann sem læknaðist.. .1 af þúsundum, kristnir hoppa á hann og segja KRAFTAVERK..
Boðorðin 10, þú veist kannski ekki að þau styðja við þrælahald, telja konur vera eign karla ofl ofl...
Það er ekki hægt að hafa ríkistrú, ríkistrú er ekki bara heimska heldur líka mannrétindabrot og mismunun..

Lestu nú galdrabókina góurinn, sjáðu allan hryllingin og vitleysuna, og prísaðu þig sælan yfir því að guðinn hræðilegi er ekki til í alvörunni

DoctorE (IP-tala skráð) 22.11.2013 kl. 10:59

9 identicon

Bókagjöf er ekki trúboð. Best væri öll trúfélög væru svo örlát, til að auka kost grunnskólabarna, sem lesa minna og minna og menningarvit þjóðarinnar fer lækkandi. Siðbótin og vísindahyggjan hófu það góða samstarf með tilurð prentvélarinnar að leyfa fólki að lesa Biblíuna sjálft og túlka. Kirkjan hafði áður verið nær alráð vegna fáfræði almennings á Biblíunni. Lénsveldið og miðaldirnar koma aftur ef Pólítískur Rétttrúnaður nær að verða hinn nýji miðaldapáfi og meina fólki að lesa sjálft. Trúarbragðafræðsla í höndum kennara er að börnin fái bara að mynda sér skoðun á trúarbrögðunum eins og þau koma matreidd frá fullorðnum fólki og "sérfræðingum", eins og páfinn matreiddi líka Biblíuna ofan í ólæsan fjöldan hér á árum áður, með eigin túlkunum sniðna að "ómenntuðum skrýl" og eigin "best off" versum. Þannig verða þrælar til. Hér á landi er búsett merk Hindúakona frá Indlandi hverrar börn lásu bæði Biblíuna og Kóraninn í æsku og sóttu Biblíufræðslu kaþólsku kirkjunnar og lásu um Búddhískan sið. Svo þau mættu verða heimsborgarar og fá svipað uppeldi og William og Harry Bretaprinsar og önnur yfirstéttarbörn, sem, afþví þeim er ekki ætlað að verða þrælar sem eru ekki færir um hugsun, þekkja öll slík rit frá unga aldri, og fleiri. Hennar börn urðu enda merkisfólk, langskóluð, flugmenntuð og gjaldgeng hvar sem er. Okkar börn verða það ekki fái rétttrúnaðurinn að ráða. Hann þjónar sömu hagsmunaöflum og miðaldapáfinn forðum og vill sjálfur fá að matreiða kenningar ofan í fjöldann en meina þeim að lesa sjálf frumritin. Sama fólk hefur nær myrt okkar menningararf eins og hann leggur sig. Grimms ævintýrin eru til dæmis orðin froða í stað listaverka í meðförum þeirra, allt er gerilsneytt og steríliserað til að verða það pólítískt korrekt að allt listrænt gildi glatist. Það er þó skárra en að beinlínis taka grundvallarlykilrit vestrænnar menningar frá börnunum. Sjálfur Richard Dawkins, erkitrúleysingi nr.1, hefur lýst því yfir Biblíuþekking sé nauðsyn hverju bresku barni, því annars deyji bresk tunga og bókmenntir út. Þú getur til að mynda ekki skilið breska ljóðlist til hlýtar án þess að hafa lesið Nýja testamentið. Grundvallarþekking glatast því og menningarstuðullinn glatast hverfi Biblíuleg þekking. Dawkins er umhugað um ensku og bókmenntir ekki trú. En þrælslundað fólk sem vill endilega gera eigin börn þræla og ómenntaðan skrýl, fullt af þjónkun í garð yfirstéttarinnar og Stockholmssyndrome, skrýll sjálft, í merkingunni menningarlegar svellt með vanþróaða fagurfræði, mun auðvitað aldrei skilja hvað hann meinar.

Rask (IP-tala skráð) 22.11.2013 kl. 20:44

10 identicon

Ég vil nota tækifærið að koma á framfæri þeirri skoðun minni að Ásatrúarfélagi beri að koma að sambærilegri bókagjöf í grunnskóla. Enginn fær að útskrifast hér úr menntaskóla án þess að lesa Eddu og sambærileg heiðin rit, sem Ásatrú styðst við í sinni "reconstruction" á heiðnum sið. Það er ósanngjarnt efnaminni foreldrar þurfi sjálfir að fjármagna þennan bókakost og stuðlar að ójöfnuði til náms. Öll trúfélög ættu að feta í fótspor Gídeóns. Íslensk menningarfélög ættu sömuleiðis að bæta bókakost barna. Nú búa hér á landi fjölmörg börn á alfarið bókalausum og menningarlausum heimilum, sem ekki venjast því að lesa alvöru bókmenntir sjálf, og verða því undirmálsfólk í framtíðinni að öllum líkindum.

Rask (IP-tala skráð) 22.11.2013 kl. 20:48

11 identicon

Æfaforn trúarrit flokkast ekki undir "áróður". Þú þarft að læra Biblíuna hvort sem þú lærir guðfræði, bókmenntir eða mannfræði, svo bara örfá fög séu lesin. Þú telst aldrei meðal fólks með grunnþekkingu samkvæmt stöðlum yfirstéttarinnar hafir þú ekki lesið þessa bók. Meira að segja yfirstéttir Indlands og Kína lesa hana. Biblían er nauðsynleg fyrir skilning á vestrænni sögu, félagsgerð, heimspeki (sérstaklega þýsku heimspekingunum, nær öllum), , listasögu og fagurbókmenntum og telst sjálf á köflum, svo sem Jobsbók, til 100 helstu bókmenntaverka sögunnar, sem bókmenntaverk (ekki sem trúarrit), og því hafa allir vellæsir menn á fagurbókmenntir lesið hana. Biblían er sameign mannkyns. Lestur hennar er sérstaklega mikilvægur fyrir börn innflytjenda sem tilheyra annarri trú, svo þau nái betur að skilja þá menningu sem þau lifa og hrærast í, en fari ekki halloka, alveg eins og maður sem elst upp í löndum Araba en þekkir ekki Kóraninn á engan séns á að komast nokkurn tíman inn í samfélagið eða skilja nágranna sína til fulls. Það kemur trúnni ekkert við, heldur áhrif trúarinnar á menninguna. En eins og allir félagsfræðingar hafa bent á halda þau áhrif áfram löngu eftir, hundruðum ára eftir, að kirkjusókn dvín eða hættir. Trúarbrögð geta jafnvel haft meiri áhrif eftir að þau "hverfa". Við verðum leiksoppar þeirra áhrifa en höfum ekki það val að hafna þeim nema við sjálf lesum frumritin. því það sem er ómeðvitað er sterkar því sem er meðvitað. Vinnusiðferði venjulegs Íslendings og annarra Vesturlandabúa kemur til að mynda úr mótmælendatrú, og um það hefur fjöldi trúlausra félagsfræðinga, svo sem Weber, fjallað. Sá sem ekki þekkir þennan uppruna verður alltaf bara strengjabrúða, og getur ekki sjálfur valið að gangast við honum eða hafna honum. Hann verður bara á valdi hans án þess að vita um hvað málið snýst. Hvort hann sæki kirkju eða ekki kemur málinu ekkert við. Lesið bara Weber...

Rask (IP-tala skráð) 22.11.2013 kl. 20:54

12 Smámynd: Steindór Sigursteinsson

Ég þakka þér kærlega fyrir, sem ert skráður sem "Rask", fyrir góða grein um mikilvægi Biblíu kennslu, þar sem þú segir að mikilvægt sé að börn í grunnskólum læri um Biblíuna vegna menningarlegs mikilvægis hennar bæði hvað varðar Íslensku þjóðina og allan heiminn.  Að lestur hennar efli tilfinningu fólks og skólabarna fyrir ritmáli, ljóðlist ofl. 

Þetta er virkilega vel orðuð og ítarleg grein þar sem þú fjallar hlutlaust um gildi Biblíufræðslu út frá menningarlegu og fræðilegu sjónarhorni, að þekking á Biblíunni sé mikilvæg, ekkert endilega vegna trúarlegra ástæðna heldur til að skólabörn fái að kynnast ítarlega þeim þætti í sögu heimsins og lífi stórs hluta mannkyns sem Kristin trú og Ritningarnar - Biblían hefur fært. Mér skilst að þér finnist ekki nóg að börn læri aðeins um Kristni í trúarbragðafræðslu þar sem Kristin trú er kynnt lítillega ásamt öðrum trúarbrögðum heimsins, heldur læri um Biblíuna í góðri og ítarlegri Kristnifræðikennslu þar sem börnin læra um Biblíuna og boðskap hennar.

Ég er þér sammála að það sé mikilvægt fyrir innflytjendur, sem tilheyra öðrum trúarbrögðum, eins og td Múhameðstrúarfólk og börn þeirra, að læra um Biblíuna til þess að þau kynnist betur stórum þætti úr menningarlífi og hugsunarhætti þjóðarinnar.  Ég átti því láni að fagna þegar ég var í Grunnskóla að það var góð  Kristnifræðikennsla í skólanum mínum.  Ég tel að það sé góður grunnur fyrir börnin að byggja á bæði vegna aukinnar menningarlegrar og listrænnar þekkingar sem Biblíufræðsla gefur og svo vegna þeirrar blessunar sem Kristin trú getur fært börnunum.

Steindór Sigursteinsson, 23.11.2013 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband