Hugvekja um persónu og líf Jesú Krists
14.4.2017 | 13:41
Nú í dag, á föstudaginn langa, finnst mér við hæfi að hugleiða aðeins persónu Jesú Krists, eiginleika hans og ástæðu þess að hann kom til jarðar sem lítið barn.
Þegar Jesús var að koma að lokum þriggja ára þjónustu sinnar hér á jörðu, sendu æðstu prestarnir og farísearnir þjóna til að handtaka hann. Þeir komu til baka tómhentir, þeir höfðu ekki handtekið Jesúm. Vitnisburður þeirra sýndi að þeir höfðu orðið tilfinningalega, siðferðislega og andlega snertir af nærveru Jesú og því sem hann hafði að segja. Þegar þeir voru spurðir: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?" þá svöruðu þeir: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig." Með því að heyra í Kristi og finna máttinn í orðum hans, fylltust þeir slíkri lotningu á honum og ótta, að þeir gátu ekki handtekið hann.
Hann hafði eiginleika eins og: siðferðileg heilindi og guðlegt réttlæti, sem gerðu hann ólíkan öllum öðrum mönnum, ólíkan rabbínunum, kennimönnum Gyðinga, og spámönnunum sem voru sendir af Guði. Það sem hann hélt fram og kenndi fór langt fram úr því sem rabbínarnir höfðu fram að færa. Kennsla hans var þrungin sannleika og einlægri ást á Guði. Hann var heill, heilagur á öllum sviðum lífs síns, hann hafði samúð með þeim sem höfðu fallið á einhvern hátt, eins og til dæmis tollheimtumönnum og bersyndugum. Hann bauð þeim fyrirgefningu sína.
Þekking hans á lögmálinu, jafnvel þegar hann var aðeins 12 ára, gerði rabbínana forviða. Jesús átti ríkt bænasamfélag við Guð, hann beið hljóðlega og hæversklega en með krafti, hann fór oft upp á fjall til að biðjast fyrir. Kraftaverkin sem hann gerði tóku fram úr þeim kraftaverkum sem Elía og Elísa spámenn gerðu, þvílík kraftaverk höfðu ekki sést í Ísrael í 15 aldir síðan brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi átti sér stað. Þrátt fyrir það kallaði hann sjálfan sig hógværan og hann hrokaðist ekki upp.
Þótt hann væri maður, var hann einstakur og aðgreindur frá öllum öðrum. Persónueiginleikarnir sem hann bjó yfir og verkin sem hann gerði sýndu svo ekki varð um villst að hann var Messías sem lofað hafði verið og koma átti í heiminn. Þessir eiginleikar voru hans fullkomlega siðferðislega heill persónuleiki. Hann var Messías, og hann var í heiminum; orðin hans, gerðir hans og hvernig hann lifði lífinu staðfestu guðlegt hlutverk hans og stöðu. Í Guðs orði, Jóhannesarguðspjalli 1:10-12, stendur: "Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim er trúa á nafn hans."
Við skulum líta aðeins á fæðingu hans.
Fæðing hans var einstök. Lúkasarguðspjall 1:26-35. a) Hann var fæddur af mey sem Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um 700 árum áður. b) Hann fæddist í Betlehem samkvæmt spádómi Míka 700 árum áður. c) Fæðing hans var kunngjörð af englum. d) Hann fæddist nokkrum vikum eftir fæðingu Jóhannesar, sem engillinn Gabríel sagði um að væri sá sem myndi ryðja brautina fyrir hann. e) Vitringar komu að veita honum lotningu þegar hann lá í jötu. f) Fæðing hans var kunngjörð með stjörnu sem birtist á himni. g) Herskarar engla lofuðu Guð við fæðingu hans. h) Heródes reyndi að myrða hann. i) Fæðingu hans var fagnað af Símeon og Önnu sem sögðu hann vera Messías. í) Fyrir fæðingu hans gaf engill honum nafnið Jesús, sem þýðir Guð frelsar.
Að lokum er hérna ljóð eftir Helga Hálfdánarson.
Velkominn vertu,
vor Immanúel,
ástgjöf sú ertu,
allt sem bætir vel
böl, er hjörtu hrjáir,
haldin eymd og synd,
hvíld, er þreyta þjáir,
þyrstum svalalind.
Jesú góði, þökk sé þér,
þig að bróður fengum vér,
þitt oss blóðið lífgjöf lér,
ljóminn Guðs og mynd.
Kirkjusöngbók, sálmur 71.2.
Steindór Sigursteinsson.
Þjást til að öðlast fyrirgefningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Furðulegt að menn, og það teljandi fullorðnir menn, skuli lifa sig svona inni í æsibókahetjur. - Havað er næst hjá þessu fólki, Harry Potter ? - Það er sitthvað að trúa á hið góða í heiminum (god = good) en að láta eins og krakki yfir teiknimynda-og æsifígúrum úr einhverri mörg þúsund ára marg-ritskoðaðri markaðsbók. Meira ruglið.
Már Elíson, 14.4.2017 kl. 18:04
Kom Jesú Kristur til jarðar? Væri fróðlegt að heyra þetta útskýrt aðeins betur. Voru það ekki dauðlegir menn, sem skrifuðu alla "vitneskjuna" og trúarririn?
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 15.4.2017 kl. 04:14
Már, ég er ekki sammála þér að frásagnirnar af Jesú Kristi séu barnalegar sögur um æsibókahetju. Kristið fólk sem sannarlega trúir á Krist trúir ritningunum. Úti í heimi er fólk sem er jafnvel tilbúið til að láta lífið vegna trúar sinnar á Jesúm Krist.
Þvert á það sem sumt vantrúarfólk fullyrðir þá er ævi Jesú staðfest í mörgum sagnfræðilegum heimildum sem ekki eru kristnar. Hér eru nokkur dæmi:
Rómverski sagnaritarinn Tacitus skrifaði árið 115 um ofsóknir á hendur kristnu fólki á stjórnarárum Nerós og vísaði til krossfestingar Jesú:
"Af þeim sökum, til að losna við þennan orðróm, ásakaði Neró og beitti hörðum pyndingum flokk fólks sem hatað var fyrir viðurstyggð sína, kallað "Kristnir" af almenningi. Kristur, en þaðan er nafnið dregið, hlaut hina endanlega refsingu í stjórnartíð Tíberíusar af hendi eins skattlandsstóra okkar Pontíusar Pílatusar. Ákaflega skaðleg hjátrú, því haldið í skefjum um þessar mundir, braust aftur út, ekki aðeins í Júdeu, helstu uppsprettu þessarar illsku, heldur einnig í Róm þar sem viðbjóður og sívirða frá öllum hornum heimsins festir rætur og nær hylli. Samkvæmt því voru allir þeir sem játuða á sig sekt handteknir, þar næst, eftir upplýsingum þeirra, var óhemjustór hópur sakfelldur, ekki vegna þess glæps að kynda undir óeirðum í borginni heldur fyrir hatur gegn mannkyni. Alls lags háðung var lögð á til viðbótar við dauða þeirra. Klædd skinnum af skepnum voru þau rifin í sundur af hundum og létu lífið eða voru negld á krossa eða voru dæmd til dauða á báli og brennd til að vera ljós í nóttinni þegar dagsljósið dvínaði."
Sem sérstaklega áhugaverð heimild þá vísaði þriðju aldar sagnaritarinn Júlíus Afrivanus í fyrstu aldar sagnaritarann Tallíus sem skrifaði um myrkrið sem skall á við krossfestinguna:
"Yfir alla veröldina lagðist hræðilegt myrkur og björgin klofnuðu í jarðskjálfta og margir staðir í Júdeu og í öðrum héruðum voru rústir einar. Þetta myrkur kallar Tallíus í sögubók sinni, að mér sýnist án ástæðu, sólmyrkva. Hebrearnir fagna páskahátíð gyðinga á 14. degi í samræmi við göngu tunglsins, og pína frelsara okkar féll á daginn fyrir hátíðina, en sólmyrkvi verður aðeins þegar tunglið kemur undir sólina. Og það getur ekki gerst á neinum öðrum tíma en í bilinu á milli fyrsta dags hins nýja tungls og hins síðasta af hinu gamla, það er þegar þau mætast. Hvernig ætti sólmyrkvi þá að geta orðið þegar tunglið er nær alveg á móti sólu."
Vísanir í Jesús birtast jafnvel í gyðinglegum heimildum, andsnúnum kristni. Við lok fyrstu aldar minntist til dæmis Flavius Josephus, sagnaritari af gyðingaættum, á Jesú, Jóhannes skírara og dauða Jóhannesar, bróður Jesú. Smáatriðin í mestu smáatriðatilvísunum um Jesú eru umdeilanlegri vegna jákvæðra lýsinga á honum en tilvísunin er mjög sennilega upprunaleg. Þar að auki vísa nokkrar gyðinglegar rabbínahefðir óbeint til ýmissa smáatriða í lífi og þjónustu Jesú.
Nánast allir fræðimenn eru sammála um að eftirfarandi staðhæfingar um Jesú og fylgjendur hans eru sagnfræðilega réttar:
1. Jesús lét lífið við rómverska krossfestingu.
2. Hann var grafinn, mjög sennilega í einkagrafhýsi.
3.Fljótlega eftir það höfðu lærisveinarnir misst allan kjark, voru syrgjandi og örvilnaðir og höfðu misst alla trú.
4. Komið var að grafhýsi Jesú tómu skömmu eftir greftrun hans.
5. Lærisveinarnir hittu mann sem þeir trúðu að væri hinn upprisni Jesú
6. Vegna þessarar reynslu gerbreyttist líf lærisveinanna. Þeir voru meira að segja tilbúnir til að láta lífið fyrir trú sína.
7. Opinber yfirlýsing um upprisu Krists kom mjög snemma fram, allt frá upphafi kirkjusögunnar.
8. Lærisveinarnir fluttu opinberan vitnisburð sinn og prédikun í Jerúsalem þar sem Jesús hafði verið krossfestur og grafinn stuttu áður.
Eina líklega skýringin á þessum staðreyndum er sú að Jesús hafi í raun og veru dáið og risið upp frá dauðum. Þess vegna var upprisa Jesú Krists yfirnáttúrulegt kraftaverk sem sýndi að Guð er til og að Jesús er frelsari heimsins sem fyrirheit eru gefin í ritningunni.
Steindór Sigursteinsson, 15.4.2017 kl. 10:24
Þetta sem þu setur niður með krossfestinguna, lestu öll guðspjöllin sem lýsa þessum meintu atburðum og þú munt sjá að þetta er versta lygasaga allra tíma, stendur ekki steinn yfir steini í lýsingum á þessu :)
DoctorE (IP-tala skráð) 15.4.2017 kl. 11:21
Halldór, ritningarnar segja frá að Jesú Kristur sé sonur Guðs sem yfirgaf himnana dýrð og fæddist sem lítið barn. Spámenn gamlatestamentisins spáðu fyrir um fæðingu Messíasar.
í Jesaja 7:14 stendur: "Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel".
Spámaðurinn Míka spáði að Messías mundi fæðast í Betlehem: "Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum." - Míka 5,1.
Jakob spáði fyrir um að Messías myndi koma frá ættkvísl Júda: "Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd". - Fyrsta bók Móse 49:10
Jeremía spáði fyrir um að Messías mundi vera afkomandi Davíðs konungs: "Sjá, þeir dagar munu koma segir Drottinn að ég mun uppvekja fyrir Davíð réttan kvist, er ríkja skal sem konungur og breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu.
Jesaja spámaður spáði fyrir um píslir krists, dauða: "Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber? Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann. Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum. Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum. Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða. Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans. En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða". - Jesaja 53,1-12.
Í nýjatestamentinu er augljóslega talað um að Jesús sé Guðs sonur sem yfirgaf himnana dýrð þar sem hann sat til hægri handar föðurnum.
Í Jóhannesarguðspjalli 11,27 vitnar Marta systir Lasarusar sem Jesús reisti upp frá dauðum um Krist: "Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn".
Í fyrsta bréfi Jóhannesar 5:20 skrifar Jóhannes lærisveinn Jesú: "Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið".
Til þess að trúa vitnisburði ritninganna þarf trú en Hebreabréfið 11,6. segir um það: "Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leit hans".
Steindór Sigursteinsson, 15.4.2017 kl. 11:39
Steindór, - Þú ert bara of trúgjarn og lætur ljúga að þér og ert meðvirkur í leiðinni. - Í staðinn fyrir að svara fólki í stuttu máli og málefnalega, seturðu fram einhverja romsu af óskiljanlegu rugli og uppdiktuðum tilvitnunum í menn og múmíur sem aldrei hafa verið til og græðir ekkert á því. - Reyndu að sjá ljósið og "trúa á tvennt í heimi.." eins og mér var kennt og trúi þessvegna á hið góða í manninum en læt hann ekki ljúga að mér. "DoctorE" kemst líka ágætlega að orði við þig og hættu svo þessu rugli og það á hvíldardögum okkar vinnandi manna.
Már Elíson, 15.4.2017 kl. 19:52
Már. - Þú talar um að ég eigi að tala í stuttu máli og málefnalega. Þessir menn sem ég nefndi eru þekktir fræðimenn. Ég fann þá alla á wilkipedía eða vísindavefnum eða öðrum stöðum. Reyndar er Tallius ekki skrifað með "í" eins og ég skrifaði. Þið Doctor.E kallið boðskap Biblíunnar um krossfestinguna og trúnna á krist samkvæmt biblíunni rugl eða lygasögur. Ég gæti haldið áfram að rökræða við ykkur en þið munduð aðeins halda áfram að hæða mig og trú mína. Már þú vildir stutt svar hérna færðu það: Kristin trú er ekki barnaleg eða heimskuleg, nema kannski í huga hins vantrúaða. Heilu þjóðfólög hins vestræna heims eru byggðar á kristinni trú og gildum. Þeirri trú sem sumir vantrúaðir og guðleysingjar vilja rífa niður. Í sálmunum 53,2a stendur: "Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn Guð er til!..."
Steindór Sigursteinsson, 16.4.2017 kl. 07:12
FB vinur skrifaði þessi fallegu orð:
Kristur var bæði sannur Guð og sannur maður. Og hann vissi að hann myndi verða krossfestur. Hann var Guði Föður svo hlýðinn og svo sterkur að það var með ólíkindum.
Kristur vissi líka að hans mikla þjáning og óendanlegi kærleikur yrði metinn af aðeins fáum og að meiri hluti allra myndi snúa við honum bakinu og láta sér fátt um finnast. Þeir myndu hafna kenningu hans og ofsækja þá sem trúðu á hann.
En fyrir hvern leið Frelsari heimsins? Hann leið fyrir okkur öll, hvern einasta okkar staðföstu syndara sem hvern dag völdum honum sorg með afskiftaleysi okkar, vanþakklæti og illskuverkum.
Jesú Kristur fyrirgaf ekki einungis andstæðingum sínum heldur óskaði þeim alls góðs. Þannig eigum við einnig að fyrirgefa óvinum okkar og gjalda þeim illt með góðu og blessa þá sem hæða okkur.
Steindór Sigursteinsson, 16.4.2017 kl. 07:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.