Fullveldi landsins borgið.
30.5.2015 | 10:13
Það voru miklar gleðifréttir sem bárust í gær að Evrópusambandið hafi tekið Ísland af lista sínum yfir umsóknarríki að sambandinu. Eins og kunnugt er þá voru ESB viðræðunum eða réttara sagt ESB-aðlögunarferlinu siglt í strand áður en núverandi ríkisstjórn tók við. Þetta var það besta sem Gunnar Bragi gat gert í stöðunni, að senda bréf frá Ríkisstjórninni til Ráðherraráðs ESB, og slá þetta mál endanlega út af borðinu. Það virtist vera að ESB ætlaði að virða þetta bréf að vettugi og halda umsókninni opinni en að lokum hefur sambandið brugðist rétt við þessu bréfi utanríkisráðherra.
Næsta mál á dagskrá ætti að vera að Ísland dragi sig út úr EES samningnum, en það eru margar raddir sem halda því fram að EES samningurinn sé ekki til hagsbóta fyrir Ísland. Það er mikið reglugerðafargan sem sífellt er verið að samþykkja vegna EES samningsins og það fer vaxandi. Margar þessar reglur eru íþyngjandi fyrir Ísland og hinn almenna neytanda og eiga ekkert erindi til okkar Íslendinga. Eins og bannið við glóperum og reglur sem verið var að ræða um nýlega; að takmarka eigi kraft ryksugna og hárblásara. Margar reglur hafa verið samþykktar sem vel hefði mátt hafna.
Kær kveðja.
Ísland af lista yfir umsóknarríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já, flestir eru farnir að sjá hvers konar fyrirbæri ESB er og kannski sést það best á auknu fylgi við sjálfstæði frá ESB innan aðildarríkja þess.
Jóhann Elíasson, 30.5.2015 kl. 14:02
Þakka þér fyrir Jóhann. Það er mikilvægt að fólk fái að vita hvers lags fyrirbæri ESB er. Vinstri flokkarnir sem hafa ESB aðild að takmrki sínu eða vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald "viðræðna" gætu komið aðlögunarferlinu af stað aftur komist þeir til valda næsta kjörtímabil.(Sem ég vona að verði ekki) Þess vegna þurfum við fullveldissinnar að halda vöku okkar og fræða fólk um það hvernig ESB í raun og veru er. Það hefur margoft verið sýnt fram á að það er mikill lýðræðishalli í Evrópusambandinu. Þar sem ákvarðanir eru teknar af litlum hópi fólks fjarri þeim sem ákvarðanirnar varða. Oft eru það ákvarðanir sem henta á sumum svæðum en ekki hér á landi. Sjávarútvegsstefna ESB hentar ekki Íslendingum og að ef við undirgengjumst slíka stefnu yrðu yfirráðin yfir auðlindinni formlega færð til Brussel. Það eru góðar fréttir að Gunnar Bragi hafi haft kjark til þess að stöðva þetta umsóknarferli. En hinu má ekki gleyma að ESB sinnar kunna að halda síbylju sinni áfram um ágæti ESB aðildar. Og þá ber okkur að láta ekki slá okkur út af laginu, heldur halda vöku okkar og berjast fyrir fullveldi landsins, okkur og afkomendum okkar til góðs.
Steindór Sigursteinsson, 31.5.2015 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.