Tilboð SA eins og blaut tuska í andlitið á þeim lægst launuðu.
10.5.2015 | 11:39
Samkvæmt frétt á Mbl.is hafa Samtök Atvinnulífsins komið með tillögu í kjaradeilu Starfsgreinasambandsins, en hún felur í sér í grófum dráttum að vinnutíminn verði gerður upp á mánaðargrundvelli, að yfirvinna reiknist af unnum vinnustundum yfir 160 klst á mánuði. Dagvinnutími yrði lengdur og verði frá kl 6-19, yfirvinnuálag lækki úr 80% í 50%. Er hugsun SA að bjóða upp á "Sveigjanlegri vinnutíma" þar sem hægt er að taka frí í næstu viku á eftir mikið vinnuálag fyrri vikuna. Það skammarlega við þetta er að hækkun dagvinnulauna sem boðið er upp á er 8% og á að koma í þremur þrepum.
Finnst mér þetta vera svo yfirgengilega sívirðileg tillaga af hendi SA að þetta er eins og blaut tuska í andlitið á verkafólki og öðru láglauna fólki. Það er hugmynd SA að verkafólk borgi fyrir hækkun launa sinna með auknu vinnuframlagi. Starfsgreinasambandið bendir á að þessi tillaga feli í sér 28000 kr "hækkun" fyrir launþega. En það veit hver maður að lágt launað verkafólk vinnur oft á tíðum myrkrana á milli til þess að ná endum saman. Yfirvinnuálagið 80% hefur hjálpað mikið til að ýta laununum upp, og hjá verkafólki sem neyðist til þess að vinna td. 30-70 yfirvinnustundir á mánuði, skiptir þetta miklu máli þegar grunnlaunin eru rétt yfir 200 þúsund á mánuði. Það að lækka yfirvinnuálagið mun lækka greidd laun fyrir yfirvinnu sem mun gera þá launahækkun sem SA vill bjóða verkafólki fyrir dagvinnu að engu. Það þarf ekki mikla eða flókna útreikninga til að sýna fram á þetta.
Ég vil hvetja samningsaðila SA að sýna kristilegan hugsunarhátt í samnigagerð við verkafólk og verkalýðssamtök þeirra Starfsgreinasambandið. Því "Verðugur er verkamaðurinn launa sinna. (Lúkas 10,17)
Kær kveðja.
8% hækkun og aukinn sveigjanleiki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:25 | Facebook
Athugasemdir
Það er að sjálfsögðu ekkert að því að gera vinnutímann upp á mánaðargrundvelli. Það er einungis sú hugsun í gangi að fólk skili 8 tímunum áður en það fær yfirvinnu. 160 tímar á mánuði er ígildi þessa (cirka). En það er mín skoðun að minnkun hlutfalls úr 80% í 50% á yfirvinnuna eigi ekki að vera umræðuefni í þessum samningum. Krafan er 300000 kr. lágmarkslaun fyrir 40 tíma vinnuviku og engan afslátt á að gera af þeirri kröfu. En eftir þessa samningalotu ætti að fara fram umræða um leiðréttingu launataxta í landinu og framtíðarskipulag kjarasamninga og þá er hægt að ræða yfirvinnuna og annað sem tengist launum. Það hlýtur að vera framtíðarlausn að allir geti lifað af dagvinnulaunum.
Jósef Smári Ásmundsson, 10.5.2015 kl. 13:41
Ég er þér hjartanlega sammála Jósef að halda eigi fast í 300000 kr lágmarkslaun fyrir 40 tíma vinnuviku. Og að ekki eigi að ræða lækkun yfirvinnuálags í þessum kjarasamningum. Það að yfirvinna reiknist á mánaðargrundvelli, það sem er umfram 160 tíma, getur lækkað útborguð laun miðað við það sem nú er í gildi, í þeim tilvikum þar sem launþegi tekur frí frá vinnu. Þá getur svo farið að eitthvað af þeim vinnutímum sem nú reiknast sem yfirvinna, reiknist sem dagvinna, nái þessi tillaga fram að ganga.
Steindór Sigursteinsson, 10.5.2015 kl. 19:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.