Ríkisstjórnin stöðvi framkvæmdir strax á Hlíðarendasvæðinu.
14.4.2015 | 20:15
Samkvæmt frétt á Mbl.is í gær hófust framkvæmdir á Hlíðarenda kl níu í gær- morgun. Það er augljóst að Borgarstjórn og Valsmenn og fleiri sem að framkvæmdunum standa ætla ekki að virða pólitískt samkomulag um að flugvöllurinn verði látinn í friði á meðan Rögnunefndin svonefnda er enn starfandi. Er þetta mikið skeytingarleysi gagnvart flugrekstraraðilum sem hafa aðstöðu á svæðinu og hafa sagt að neyðarflugbrautin svokallaða sé nauðsynleg til að tryggja öryggi og notagildi vallarins.
Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði á flokksþingi Framsóknarflokksins "að grípa þurfi til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll". Ég vil segja að nú er tíminn og tækifærið til að grípa inn í atburðarásina og stöðva framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu. Ef það er ekki gert munu mikil verðmæti fara í súgin þar sem notagildi flugvallarins skerðist og mikil röskun verður á starfsemi flug- tengdra fyrirtækja á svæðinu því áframhaldandi framkvæmdir munu þýða eyðileggingu fasteigna á svæðinu.
Fyrir 2-3 dögum síðan kom frétt í sjónvarpinu að til athugunar væri hjá Rögnunefndinni hugsanleg staðsetning Reykjavíkurflugvallar á Hvassahrauni, kom fram að kostnaður við slíkan flugvöll yrði minni en við uppsetningu hraðlestar á milli Höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Ég vil segja að mér finnst þetta mjög slæm hugmynd. Í fyrsta lagi yrði flugvöllurinn nokkurn veginn á miðja vegu milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Í öðru lagi er í nágrenninu fjallgarður sem veldur óhagstæðum veðurskilyrðum fyrir flug á svæðinu. Af hverju viðurkenna þau sem að Rögnunefndinni standa ekki einfaldlega að áframhaldandi vera flugvallarins í Reykjavík sé lang besti kosturinn?
Framkvæmdir hafnar á Hlíðarenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.4.2015 kl. 18:18 | Facebook
Athugasemdir
Það voru engin fyrirfram gefin loforð um að beðið verði eftir áliti Rögnunefndar áður en framkvæmdir hæfust. Gert var ráð fyrir lokun brautarinnar í samkomulaginu. Margir hafa reynt að tefja þþessar framkvæmdir með rangfærslum og hreynum lygum.
Úr samkomulaginu:
http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2013/Samkomulag-um-Rvikurflugvoll-25.-oktober-f.-vefinn.doc
Vagn (IP-tala skráð) 14.4.2015 kl. 22:05
Komdu sæll Vagn. Það er ekki ætlun mín að fara með rangt mál í bloggfærslum mínum. Ég hef verið að athuga hvort ég hafi haft rangt fyrir mér þar sem ég sagði að Reykjavíkurborg, Valsmenn ofl. hafi gert loforð um að framkvæmdir skyldu ekki hafnar fyrr en álit Rögnunefndarinnar liggi fyrir. Ég kann að hafa haft rangt fyrir mér að viðkomandi hafi gefið loforð þessu viðvíkjandi, ég var kannski svolítið fljótfær að velja þetta orð. Ég hef verið að leita á netinu að upplýsingum um þessi mál. Sú leit skilaði mér eftirfarandi hluta úr bréfi sem Innanríkisráðuneytið sendi Isavia þann 30.des. 2013. En þar eru tilgreind 5 skjöl sem "fyrirhuguð lokun flugbrautar 06/24 byggir á. Í bréfinu er sá fyrirvari gefinn varðandi lokun 06/24 brautarinnar og er textinn feitletraður:
"Rétt er að ítreka að flugbrautinni skal þó ekki lokað eða aðrar ákvarðanir teknar sem leiða til þess að flugbraut 06/24 verði tekin úr notkun á meðan verkefnisstjórn, sem nú starfar undir forystu Rögnu Árnadóttur skv. samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group er enn að störfum og ákvörðun á grundvelli tillagna hennar liggur ekki fyrir."
Og annað skjal sem mig langar til þess að vitna í er samkomulag sem gert var milli Ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group. En þar er tilgreint að Ríki og Reykjavíkurborg muni vinna í samræmi við áður undirritaða samninga. En það er einmitt skjalið sem þú birtir hér að ofan. Þar er sagt að undirbúningur eftirfarandi verkefna muni þegar hefjast. Eru þar tilgreind 3 atriði. Vitna ég hér í síðasta liðinn: "Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu Innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar í samræmi við áður gefin fyrirheit vegna endurbyggingu vallarins um síðustu aldamót og skal stefnt að því að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og verða má".
Það er að mínu mati klárt mál að Reykjavíkurborg og Valsmenn hefðu átt að bíða eftir að Rögnunefndin hefði fundið kennslu- og einkafluginu heppilegan stað áður en framkvæmdir hófust á flugvallarsvæðinu
Steindór Sigursteinsson, 15.4.2015 kl. 17:46
Ég hef breytt orðalaginu aðeins í bloggfærslu minni. Þar sem ég talaði um að Reykjavíkurborg, Valsmenn ofl hafi ekki virt loforð sem þeir hafi gefið, hef ég breytt í að viðkomandi hafi ekki virt pólitískt samkomulag þessu viðvíkjandi.
Steindór Sigursteinsson, 15.4.2015 kl. 18:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.