Sú frétt kom á Stöð 2 núna rétt áðan að reynt hafi verið að hrekja burtu bænahópinn Lífsvernd, sem komið hefur saman fyrir utan kvennadeild Landsspítalans undanfarna þriðjudaga. Sást í fréttinni lítill hópur biðjandi fólks en hjá stóð fólk sem var augsýnilega að mótmæla, var ein konan berbrjósta. Kom fram í vitali við hana að hún væri að tengja mótmæli sín við "free the nipple átakið". En það er óskylt fyrirbæri sem ætlað er að vinna á móti hefndarklámi. Með öðrum orðum voru feministar að reyna að hrekja burtu lítinn bænahóp sem vildi biðja til Guðs að fóstureyðingum mættu hætta. Ætlunin var að mótmæla nærveru Lífsréttar við Fæðingardeild Landspítalans og bænum þeirra, sagði ofangreind kona sem rætt var við að hún vildi með þessum mótmælum sínum verja rétt kvenna til þess að ráða yfir eigin líkama.
Ég vil segja að mér finnst þetta hneykslanleg framkoma við fókið í bænahópnum. Fólk á rétt á því samkvæmt lögum að koma saman og biðja eða koma saman til fundarhalda svo fremi sem öryggi náungans sé ekki ógnað. Yfirráðaréttur kvenna yfir eigin líkama er eitt og réttur ófædds barns til lífs er annað. Það er óréttlætanlegt að ófætt barn (fóstur) sé deytt í móðurkviði og það oft vegna léttvægra ástæðna. Lítið fóstur hefur sínar tilfinningar og sársaukaviðbrögð, það hafa rannsóknir fyrir löngu sýnt fram á. Fóstureyðing er grimmileg eyðing á mannslífi. Fóstureyðing er brot á einu boðorða Guðs sem segir "Þú skalt ekki morð fremja".2 Mós 23,13
Kristið fólk. Snúumst á sveif með bænahópnum Lífsvernd og biðjum fyrir ófæddum börnum í móðurkviði að lífséttur þeirra sé virtur, að fóstureyðingar verði ekki leyfðar á Íslandi. Biðjum fyrir öllum barnshafandi konum á Íslandi að þær taki ekki þá ákvörðun að láta eyða fóstri. Biðjum einnig að deyðing barna með Downs syndrom verði hætt. Að síðustu vil ég segja að orð mín kunna að hljóma dæmandi gagnvart vissum hóp kvenna, en ég vil benda á að Guð er góður, hann vill okkur allt hið besta. Hann "sendi son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf". Jóhannes 3:16 Guð er fyrirgefandi Guð, hann rekur engan frá sér sem til hans kemur. Hann er fús að fyrirgefa syndir komi maður til hans og með iðrandi hjarta.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 2.4.2015 kl. 07:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.