Hefði ekki verið betra að spyrja þjóðina þegar sótt var um ESB - aðild?
22.3.2014 | 13:59
Það hefur verið mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni upp á síðkastið, hvort efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB. Mótmæli hafa verið með stuttu millibili á Austurvelli þar sem ESB aðildarsinnar hafa boðað fólk til þáttöku til að krefjast atkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Það sem mér finnst skjóta skökku við er að þessi "pakki" sem fylgjendur aðildar hafa haldið fram að þurfi að opna og líta í er í raun og veru ekki til. Það eru margir stjórnmálamenn sem eru vel inni í þessu máli, því þeir þekkja málið af eigin raun. Einn þeirra er Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, hann skrifar um þetta mál í pistli á bloggsvæði Pressunar.
"Það virðast margir trúa því enn að aðildarviðræður snúist um að "kíkja í pakkann". Þessi "pakki" er regluverk ESB. Hann er þekktur og undan honum semur sig enginn. Aðildarviðræður, snúast í öllum meginatriðum um það hvernig regluverk ESB kemur til framkvæmda og á hvað löngum tíma. Stjórnmálamenn eiga því að hætta að blekkja almenning í þessu efni. Það eru engar vöruhillur í stórmarkaði ESB, sem Íslendingar velja úr af handahófi, eftir smekk og þörf. Við vitum hverjir eru kostir og gallar við aðild að ESB. Umræðan á að vera um hvert vegur þyngra, kostirnir eða gallarnir. Og hvort það prinsipp um að vera fullvalda þjóð í eigin landi skipti einhverju máli í því hagsmunamati."
Ég vil taka undir þessi orð Brynjars og ég vil benda á að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Ísland, sýnir ekki sé um að villast að Íslendingar verða að taka upp regluverk ESB óbreitt . Á bls 25 í viðauka I - umsókn Íslands og stækkunarstefnu ESB stendur:
"Þær breytingar á aðildarferlinu sem urðu með umsókn Mið- og Astur-Evrópuríkjanna hafa sætt gagnrýni. Með þeim hafi Evrópu-sambandið fengið yfirhöndina í aðildarviðræðum sem sé þróun sem hófst með fyrstu stækkuninni. Ríkjunum sé ekki eingöngu gert að samþykkja löggjöf sambandsins á fyrstu stigum heldur einnig að laga sig að stefnu sambandsins og hrinda löggjöf þess í framkvæmd fyrir gerð aðildarsamnings og gildistöku hans."
Af þessu ætti ljóst að vera að Evrópusambandið veitir ekki undanþágu frá aðlögunarkröfu sinni sem felur í sér að umsóknarríki tekur upp laga- og regluverk ESB á meðan á aðildarferlinu stendur. Það hefur margoft verið bent á að undanþágur eru almennt ekki í boði og þær undanþágur sem aðildarríki hafa fengið eru smávægilegar og hafa nánast alltaf átt sér stað áður en Esb breytti umsóknarferli sínu eftir að Mið- og Austur-Evrópuríkin hófu inngöngu í Sambandið.
Ég vil beina þeirri spurningu til þingflokks Samfylkingar og Vinstri Grænna: Af hverju var þjóðin ekki spurð álits þegar sótt var um aðild að ESB 2009? Skoðanakannanir á þeim tíma bentu til þess að um 75% þjóðarinnar var á móti aðild þá. Ég held að svarið við þeirri spurningu sé að ráðherrar Samfylkingar vissu að Íslendingar myndu ekki samþykkja aðildarumsókn ef gengið yrði til kosninga þá. Ég tel að ástæðan fyrir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, komst ekki lengra í aðildarferlinu er að meirihlutinn á Alþingi var ekki tilbúinn í þá aðlögun sem ESB krafðist.
Eftir síðustu Alþingiskosningar styrktist ESB-andstaðan á alþingi. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir hafa það skýrt í flokksamþykktum sínum að Íslandi sé best borgið utan ESB. Þeir sem aðhyllast inngöngu Íslands í ESB halda því fram að hægt sé að gera hlé á viðræðum og bíða færis að ræsa aðlögunarferlið ef það skyldi eiga sér stað að ESB sinnar næðu meirihluta á alþingi. Evrópusambandið vill ekki hálfvelgju í þessu máli; annað hvort er ríki umsóknarríki og á leiðinni inn í sambandið, eða ekki. Ísland getur ekki verið umsóknarríki að ESB, þegar vilji ráðamanna í ríkisstjórn er ekki til staðar né heldur vilji landsmanna til inngöngu í ESB.
Ég vil ljúka þessu spjalli mínu á að vitna í orð Jóns Bjarnasonar, fyrverandi ráðherra Vinstri Grænna sem hann lét falla í baráttufundum sem haldnir voru víða á landinu af Heimssýn, Ísafold - félagi ungs fólks gegn aðild að ESB og Herjan.
"Á fundunum var áberandi einhugur um að staðið yrði við afturköllun umsóknar að ESB." "Það er mjög afdráttarlaus og einlægur vilji hjá fólki að fara ekki í ESB og leika sér að þeim eldi. Fólk vill ekki framselja fullveldið, þrátt fyrir þúsundir blaðsíðna af skýrslum." "Það er í raun engin önnur heiðarleg leið heldur en að afturkalla umsóknina, hvorki gagnvart þjóðinni né öðrum þjóðum,"
Kær kveðja.
Mótmælt á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.