Einhliða fréttaflutningur varðandi Evrópumálin á Stöð 2 og Rúv.
6.3.2014 | 22:05
Á Mbl.is birtist frétt í gærmorgun þar sem greint var frá því að skýrsla Hagfræðistofnunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið hafi verið til umræðu á Alþingi síðastliðinn þriðjudag . Voru Stefán Már Stefánsson og Maximilian Conrad höfundar viðauka skýrslunnar, gestir fundarins. Í fréttinni tjáði Birgir Ármansson, formaður utanríkismálanefndar sig á þá leið að hæpið væri að undanþágur fáist, sem máli skipta fyrir Ísland á sviði sjávarútvegs og landbúnaðarmála. Sagði hann að það væru himinn og jörð á milli regluverks ESB á þessu sviði og þeirra sjónarmiða sem Íslendingar þyrftu að setja á oddinn. Sýndist honum að regluverk ESB væri þannig úr garði gert að það séu hreinir draumórar að halda því fram að Íslendingar nái fram einhverjum sérlausnum sem máli skipta. Enda þótt til séu dæmi um sérlausnir, eru þær aðeins á afmörkuðum þröngum sviðum, sagði hann.
Ég fylgdist með fréttatíma Stöðvar 2 og Rúv í gærkvöldi og í dag. Var ekkert minnst á þessi ummæli Birgis Ármannssonar varðandi þessa skýrslu, heldur var aðeins fjallað á heldur neikvæðan hátt um fyrirhuguð slit ríkisstjórnarinnar á aðildarviðræðum við ESB. Mér finnst fréttaflutningur þessara tveggja stöðva bera vott um neikvæða afstöðu til ríkisstjórnarinnar og tillögu hennar. Finnst mér alvarlegt þegar ríkisfjölmiðill eins og Rúv sem á að vera hlutlaus og óháður og er styrktur af skattgreiðendum sé ekki hlutlaus í fréttaflutningi sínum og sé hlutlægur varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar.
Ég held að það væri að bera vatn í bakkafullan lækinn að koma með einhver rök sem styðja þessi orð Birgis Ármanssonar varðandi það að ekki sé líklegt að Íslendingar nái einhverjum sérlausnum í samningum sínum við ESB. Um það hafa nokkrir bloggarar sem bloggað hafa við þessa sömu frétt útlistað nokkuð vel.
Kær kveðja.
Undanþágur hreinir draumórar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Birgir hefði mátt vera afdráttalausari þarna og orð hans bera þess merki að það sé eitthvað hugsanlega kannski opið í þessum efnum. Annað hvort stafar þetta af vanþekkingu á málinu eða þá að hann er tvístígandi í sannfæringu sinni.
Sérakvæði er hugtak sem ekki er til í viðræðum sem þessum, enda er átt við undantekningar þar sem ríki sem þegar hafa aðild geta fengið í tilfellum breytinga eða viðbóta víð sáttmála sambandsins, svona eftirá.
Í samningsramma ESB er skýrt tekið fram og ítrekað að undanþágur sem gefnar hafa verið áður hafi EKKI fordæmisgildi, enda var reglum um aðlögunarviðræður breytt 2006 og þær hertar svo ekkert umsóknarríki hefur fengið undanþágur eftir það.
Það er svo ítrekað tekið fram í reglum, Lissabonsáttmála og samningsrömmum að sáttmálar og regluverk sambandsins sé EKKI umsemjanlegt.
Það eitt að við settum skilyrði í svokölluðum samningum um sjávarútveg og landbúnað, sigldi viðræðum í strand. Það var að frumkvæði sambandsins, sem setti fram þær óaðgengilegu kröfur sem alltaf voru ljósar. Enn hefur ekki verið tíundað nákvæmlega hvað skeði þarna fyrir janúar 2013, en utanríkisráðuneytið hefur nú hafið athugun á því.
Þessvegna er öll þessi móðursýki í gangi. Eitthvað þolir ekki dagsins ljós og nú er allt reynt til að finna atriði sem fella mætti ríkistjórnina á og boða til kosninga. Slíkar þreyfingar um hálfgildings valdarán eru ekki nýjar úr þessari átt.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.3.2014 kl. 01:03
Komdu sæll Jón Steinar. Ég hef það líka á tilfinningunni að stjórnarandstaðan sé að reyna að fella ríkisstjórnina og sé að notfæra sér vanþekkingu landsmanna á aðildarferlinu, að ESB. Fólk virðist almennt telja að hér sé um viðræður að ræða og að ríkisstjórninni beri að drífa þessar aðildarviðræður af og bera "samninginn" fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu. Fólk gerir sér ekki grein fyrir að þessar "aðildarviðræður" eru ekki aðeins viðræður heldur aðildarferli. Þar sem Ísland verður á meðan á ferlinu stendur að breyta reglum sínum til samræmis við regluverk ESB og á sama tíma undirbúa allt stjórnkerfið og hinar ýmsu stofnanir ríkisins undir aðild að ESB. Að ekki sé hægt að semja við ESB varðandi mikilvæga málaflokka eins og sjávarútvegs og landbúnaðarmál, heldur beri umsóknarríki að gangast undir og samþykkja lög ESB viðvíkjandi þessu og þar að auki þurfi aðildarríki að samþykkja að framselja ákvarðanavald yfir viðkomandi málaflokki yfir til Brussel. Og eins og landsmenn virðast yfirleitt ekki gera sér grein fyrir að undanþágur eða sérsamningar séu ekki í boði, allavega ekkert í þeirri stærðargráðu sem Íslendingar þyrftu á að halda varðandi sjávarútveg sinn eða landbúnaðarmál og fleiri mikilvæga málaflokka. Það er ljóst að aðildarferlið er gríðar umfangsmikið ferli og útheimtir mikla vinnu Íslenskra ráðamanna og mikla fjármuni. Ef mig minnir rétt þá samanstanda aðildarviðræðurnar eins og þær birtust Íslensku samninganefndinni af 33 köflum og fyrri ríkisstjórn hafði aðeins lokið 11 köflum. Ástæðan var eflaust sú að viðræðurnar höfðu siglt í strand vegna þeirrar vitneskju ríkisstjórnarinnar að samningsviðmið varðandi mikilvægustu málin voru ósveigjanleg að hálfu ESB og að áframhaldandi aðildarferli útheimti breytingar á stjórnarskránni. Það er fáránleg krafa að núverandi ríkisstjórn stofni til þjóðaratkvæðagreiðslu og þurfi síðan jafnvel að halda aðildarviðræðunum áfram. Síðasta ríkisstjórn lauk 11 köflum á valdatíð sinni og núverandi ríkisstjórn þyrfti því að ljúka 22 köflum sem eftir eru. Það er líka ekki fýsilegur kostur fyrir Íslendinga að halda aðildarviðræðum opnum á meðan á þessu kjörtímabili stendur. Ef til vill verða þessir sömu flokkar kosnir aftur og ekkert verður af atkvæðagreiðslu. Það er rangt að halda stækkunarnefnd ESB í óvissu. Það er að ég held grundvallar krafa ESB að raunverulegur vilji sé fyrir aðild bæði að hálfu meirihluta Alþingis og þjóðar þegar sótt er um aðild Slíkar opnar aðildarviðræður skapa að ég held erfiðari samningsstöðu í sjávarútvegsmálum eins og Makrílveiðum.
Steindór Sigursteinsson, 7.3.2014 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.