Utanríkisráðherra sýnir staðfestu og skynsemi með því að hafna aðildarumsókn.

Það er mikið rætt um orð háttvirts utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar að hætta beri umsóknarviðæðum við ESB og að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðildar viðræður verði ekki að hans frumkvæði. 

Samkvæmt skoðanakönnun sem Eurobarometer gerði fyrir ESB telja 57% landsmann að innganga í ESB þjóni ekki hagsmunum landsins en þriðjungur er á öndverðri skoðun.  En samkvæmt skoðanakönnun sem var gerð rétt fyrir alþingiskosningar 23 ágúst, kom fram að  talsvert fleiri vilja ljúka aðildarviðræðunum en hætta þeim.  Á þeim tíma sem síðargreinda skoðanakönnunin var gerð var skoðun meirihluta landsmanna að viðræður fyrrverandi ríkisstjórnar væru aðeins viðræður sem væru til þess gerðar að skoða hvað væri í boði fyrir Ísland innan sambandsins.  52,7% voru á þeirri skoðun að klára ætti viðræðurnar til að hægt væri að því loknu að "kíkja í pakkann" eins og sagt var, en 30,7% voru því andvíg.

En það vita flestir sem hafa kynnt sér þessi mál að þessar aðildarviðræður voru í raun ekki aðildarviðræður heldur var hér frekar um að ræða aðildarferli Íslands vegna hugsanlegrar inngöngu í sambandið og aðlögun að regluverki ESB.  Við getum séð að IPA styrkirnir voru veittir nokkrum ríkisstofnunum vegna aðlögunar reglna þeirra og vinnuferla sem ESB styðst við.  Og hugsanlega voru þessir styrkir veittir þessum stofnunum til að auka áhugann hjá þeim á inngöngu í sambandið.

Ég tel það óðs manns æði að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu  um áframhald aðildarviðræðna nú eða í allra næstu framtíð. Fólk gerir sér ekki grein fyrir eðli málsins, alla vega ekki eins og sakir standa.  Áframhald á viðræðum mundi taka mikið af tíma ráðamanna, stjórnmálamanna sem engann áhuga hafa á viðræðunum.  Og þessar viðræður sem ég kýs að kalla aðildarferli myndu sökkva landinu enn dýpra í regluverk ESB. Reglur sem við höfum ekkert við að gera og þegar þjóðaratkvæðagreiðsla væri síðan um samninginn væri búið að eyða miklum fjármunum til einskis.

Ég tel að Utanríkisráðherra sýni staðfestu og skynsemi með því að hafna alfarið aðild að ESB og að lýsa því yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna verði ekki að hans frumkvæði.  Ég tel að Íslendingum henti best að ráða sínum málum sjálfir en vera ekki undir stjórn erlends bandalags.  Þjóðarpersónuleiki okkar er þannig gerður að okkur líkar best að ráða okkur sjálf og þau atriði sem mestu skipta fyrir þjóðarhag, eins og fiskveiði og landbúnaður eru þess eðlis að okkur er best borgið með því að vera utan ESB.


mbl.is Óskar eftir upplýsingum frá Gunnari Braga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband