Bætt fylgi Sjálfstæðisflokksins er gleðiefni.
18.4.2013 | 23:59
Eftir rúma viku göngum við til kosninga. Munum við þá velja þann flokk sem við teljum best treystandi til að taka að sér stjórn landsins okkar. Þá kemur upp í hugann það sem okkur finnst brýnast að komandi ríkisstjórn geri fyrir okkur. Lánamál heimilanna hafa þarna verið efst á baugi hjá allflestum landsmanna. Lausnir framboðanna eru margs konar í þessum viðkvæma málaflokki. Hefur oft verið talað um að lausnir sumra framboðanna séu óraunhæfar miðað við hvernig staða ríkissjóðs er núna. Samkvæmt skoðanakönnunum undanfarnar vikur eru þeir flokkar sem njóta mest fylgis Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur.
Samkvæmt skoðanakönnun Gallup í dag er fylgi Sjálfstæðisflokksins 24% á móti 27% hjá Framsókn, og að skoðanakönnun MMR sýndi fram á meira fylgi hjá Sjálfstæðisflokki en hjá Framsókn. Kemur fram á MBL.IS að aukið fylgi hjá Sjálfstæðisflokknum sé vegna þess að fyrrum fylgjendur flokksins séu að "snúa heim".
Það vill oft verða svo að menn láta glepjast þegar glæsi tilboð berast þeim. Og raunin varð sú að: Í þoku og illviðri, innistæðulítilla kosningaloforða hinna framboðanna, villtust sumir fylgjendur Sjálfstæðisflokksins í burtu frá flokknum. Eins og oft vill brenna við hjá okkur mannfólkinu þá var grasið í þeirra huga, grænna hinum meginn. En góðu heilli, virðast þeir nú hafa áttað sig, og eru nú að snúa heim, heim til heimastöðvanna, Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn býður raunhæfar lausnir í húsnæðislánum, þær eru að sögn Sjálfstæðismanna hvorki of íþyngjandi fyrir þjóðarbúið né skapa þær óstöðugleika né mikla verðbólgu. Þær virðast í fyrstu sýn vera umfangsminni en þær lausnir sem td. Framsóknarflokkurinn eða Samfylkingin hafa upp á að bjóða. En þegar grannt er skoðað sjáum við að þeim til viðbótar eru aðgerðir sem flokkurinn hyggst framkvæmda til að létta til með heimilunum (Lækkun tekju- og virðisaukaskatts og lækkun bensínverðs), sem gerir það að verkum að á heildina er litið eru lausnir flokksins heimilunum til handa verulega álitlegur kostur. (Lausnir varðandi lánamál heimilanna eru ma: Stimpilgjöld afnumin, skattaafsláttur af greiðslum inná lán, hluti séreignarsparnaðar renni til innborgunar á láni, boðið upp á verðtryggð og óverðtryggð lán, að vaxtaprósenta verði sambærileg og í nágrannalöndunum, minnkandi vægi verðtryggingar, og ef aðstæður leyfa verði verðtrygging afnumin)
Aðgerðir fyrir fyrirtækin og atvinnulífið í landinu eru að ég tel vel úthugsaðar lausnir, vel til þess fallnar að koma atvinnulífinu á skrið aftur og skapa hér velmegun í landinu. Því undirstaðan fyrir góðu gengi ríkisjóðs og fyrir bættum lífskjörum fólksins í landinu er öflugur atvinnuvegur ásamt fjárfestingu og nýsköpun. (Meðal þessara aðgerða eru: Afnám gjaldeyrishafta, lægri skattar og gjöld til fyrirtækja, minni ríkisafskipti og miðstýring, stöðugt umhverfi fyrir atvinnulífið með fjölgun starfa og hækkandi launum).
Ég vil hvetja þig til þess að ljá atkvæði þitt þeim flokki sem býður upp á raunhæfar lausnir fyrir fólkið í landinu til bættra lífskjara.
Framsókn stærst í könnun Gallup | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.6.2013 kl. 08:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.