Ekki er gott að Ungir sjálfstæðismenn vilji brjóta niður kristin gildi í landinu þar á meðal tengsl ríkis og kirkju.

Leitt var að lesa grein í Mbl.is í fyrradag þar sem greint er frá að Ungir Sjálfstæðismenn vilji leggja fram á næsta aðalfundi að hjónavígslur færist alfarið í hendur sýslumannsembætta.  Og að í framhaldi af því verði hafin vinna við að aðskilja ríki og kirkju.  Einnig stendur vilji til þess að afglæpavæða eiturlyfjaneyslu og að heimila samkynhneygðum karlmönnum að gefa blóð.  En við því síðastnefnda eru skýr rök fyrir að slíkt teflir í hættu heilbrigði fólks sem þiggir blóð.

Ég veit eiginlega ekki hvert í stefnir hjá Sjálfstæðisflokknum og einkum þeim yngri þeirra á meðal.  Flokkurinn sem ég taldi aðhyllast kristin gildi er nú að beita sér gegn góðu fyrirkomulagi sem reynst hefur vel; að láta kirkjur sjá um hjónavígslur.  Unga fólkið í flokknum vill nú láta þrýsting minnihlutahóps í þjóðfélaginu fá sig til að leggjast gegn þjóðkirkjunni og taka hjónavígslur úr hendi hennar.  Er ekkert heilagt í huga þeirra?  Er veraldarhyggjan sem ég skilgreini sem vilji til þess að gera það sem fólki hentar án þess að taka tillit til Guðs eða það sem Orð Guðs segir, búin að taka yfir í hugum þeirra?  En þau vilja feta í spor vinstri manna og vantrúarfólks að krefjast aðskilnaðar ríkis og kirkju.  

Ungt sjálfstæðisfólk vill rífa niður það sem hefur verið við lýði um langan aldur og hefur reynst vel.  Að þjóðkirkjan sé samofin ríkisvaldinu. Hún er reyndar sjálfstætt starfandi samkvæmt stjórnarskrá en studd af ríkinu.  Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel því ef litið er út frá praktískum sjónarmiðum; þá sér hún um útfarir sem vantrúaðir og fólk í ýmsum frísöfnuðum nýta sér.  Og að maður tali nú ekki um hjónavígslur í kristnum sið sem til stendur að taka frá þjóðkirkjunni.

Kristin trú er ekkert sem við eigum að skammast okkar fyrir eða virða að vettugi.  Jesú Kristur gaf líf sitt fyir okkur svo að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Eins og ég minntist á fyrir ofan þá vilja yngri sjálfstæðissinnar að refsilöggjöf verði afnumin fyrir eiturlyfjaneyslu.  Væri þetta mikið óheillaskref til baka fyrir Íslendinga því þetta væri síður en svo til að hjálpa þeim sem þessari fíkn hafa ánetjast.  Því að fíkniefnaneysla er stórhættuleg ungmennum sem og eldri og margir hafa fallið fyrir þeim vágesti.  Stjórnvöldum ber að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk hefji neyslu vímuefna og að hjálpa þeim sem ánetjast hafa.

Ég vil hvetja ungt sjálfstæðisfólk að sjá að sér og snúa frá þeirri óheillabraut sem mér sýnist þau vera komin inn á.  Og ekki síst þeir sem eldri eru því sjálfur formaðurinn, háttvirtur fjármálaráðherra; Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir einu máli sem stríðir á móti góðu kristilegu siðferði og öryggi kvenna; afglæpavæðingu vændis árið 2007.  Ég vildi óska að flokkurinn sem ég hef fylgt frá unglingsárum stefni inn í braut kristilegs siðgæðis og heilinda.

Ég tel að það sé kominn tími á það að nýtt kristilegt stjórnmálaafl sjái dagsins ljós á Íslandi.

Ég vil benda á góða grein Guðmundar Pálssonar Læknis varðandi Sjálfstæðisflokkinn hér.

 


mbl.is Hjónavígslur aðeins hjá sýslumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband