Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022

Hugvekja um persónu og líf Jesú Krists

Nú í dag, á föstudaginn langa, finnst mér við hæfi að hugleiða aðeins persónu Jesú Krists, eiginleika hans og ástæðu þess að hann kom til jarðar sem lítið barn.

Þegar Jesús var að koma að lokum þriggja ára þjónustu sinnar hér á jörðu, sendu æðstu prestarnir og farísearnir þjóna til að handtaka hann. Þeir komu til baka tómhentir, þeir höfðu ekki handtekið Jesúm. Vitnisburður þeirra sýndi að þeir höfðu orðið tilfinningalega, siðferðislega og andlega snertir af nærveru Jesú og því sem hann hafði að segja. Þegar þeir voru spurðir: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?" þá svöruðu þeir: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig." Með því að heyra í Kristi og finna máttinn í orðum hans, fylltust þeir slíkri lotningu á honum og ótta, að þeir gátu ekki handtekið hann.

Hann hafði eiginleika eins og: siðferðileg heilindi og guðlegt réttlæti, sem gerðu hann ólíkan öllum öðrum mönnum, ólíkan rabbínunum, kennimönnum Gyðinga, og spámönnunum sem voru sendir af Guði. Það sem hann hélt fram og kenndi fór langt fram úr því sem rabbínarnir höfðu fram að færa. Kennsla hans var þrungin sannleika og einlægri ást á Guði. Hann var heill, heilagur á öllum sviðum lífs síns, hann hafði samúð með þeim sem höfðu fallið á einhvern hátt, eins og til dæmis tollheimtumönnum og bersyndugum. Hann bauð þeim fyrirgefningu sína.

Þekking hans á lögmálinu, jafnvel þegar hann var aðeins 12 ára, gerði rabbínana forviða. Jesús átti ríkt bænasamfélag við Guð, hann beið hljóðlega og hæversklega en með krafti, hann fór oft upp á fjall til að biðjast fyrir. Kraftaverkin sem hann gerði tóku fram úr þeim kraftaverkum sem Elía og Elísa spámenn gerðu, þvílík kraftaverk höfðu ekki sést í Ísrael í 15 aldir síðan brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi átti sér stað. Þrátt fyrir það kallaði hann sjálfan sig hógværan og hann hrokaðist ekki upp.

Þótt hann væri maður, var hann einstakur og aðgreindur frá öllum öðrum. Persónu­eiginleikarnir sem hann bjó yfir og verkin sem hann gerði sýndu svo ekki varð um villst að hann var Messías sem lofað hafði verið og koma átti í heiminn. Þessir eiginleikar voru hans fullkomlega siðferðislega heill persónuleiki. Hann var Messías, og hann var í heiminum; orðin hans, gerðir hans og hvernig hann lifði lífinu staðfestu guðlegt hlutverk hans og stöðu. Í Guðs orði, Jóhannesarguðspjalli 1:10-12, stendur: "Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim er trúa á nafn hans."


Við skulum líta aðeins á fæðingu hans.

Fæðing hans var einstök. Lúkasarguðspjall 1:26-35. a) Hann var fæddur af mey sem Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um 700 árum áður. b) Hann fæddist í Betlehem samkvæmt spádómi Míka 700 árum áður. c) Fæðing hans var kunngjörð af englum. d) Hann fæddist nokkrum vikum eftir fæðingu Jóhannesar, sem engillinn Gabríel sagði um að væri sá sem myndi ryðja brautina fyrir hann. e) Vitringar komu að veita honum lotningu þegar hann lá í jötu. f) Fæðing hans var kunngjörð með stjörnu sem birtist á himni. g) Herskarar engla lofuðu Guð við fæðingu hans. h) Heródes reyndi að myrða hann. i) Fæðingu hans var fagnað af Símeon og Önnu sem sögðu hann vera Messías. í) Fyrir fæðingu hans gaf engill honum nafnið Jesús, sem þýðir Guð frelsar.

Að lokum er hérna ljóð eftir Helga Hálfdánarson.


Velkominn vertu,
vor Immanúel,
ástgjöf sú ertu,
allt sem bætir vel
böl, er hjörtu hrjáir,
haldin eymd og synd,
hvíld, er þreyta þjáir,
þyrstum svalalind.
Jesú góði, þökk sé þér,
þig að bróður fengum vér,
þitt oss blóðið lífgjöf lér,
ljóminn Guðs og mynd.

Kirkjusöngbók, sálmur 71.2.

Steindór Sigursteinsson.


mbl.is Trúin speglar mannlega tilveru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband