Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018
Nú þegar styttist í jólin hlakka flestir til að vera með sínu nánasta fólki yfir jólahátíðina. Það á þó ekki við Tryggvi Ingólfsson sem lamaðist fyrir neðan háls í hestaslysi fyrir 12 árum. Hann og fjölskylda hans kveljast af kvíða þar sem Tryggvi hefur þurft að dveljast í litlu herbergi í 8 mánuði á Landspítalanum. Sveitafélagið hans Tryggva á Hvolsvelli lokaði dyrum sínum á Kirkjuhvoli hjúkrunarheimili á hann þrátt fyrir að hann hefði búið þar í 11 ár. Ástæðan fyrir því var að á meðan Tryggvi var í aðgerð á Landspítalanum skrifaði hluti starfsfólks heimilisins (12 manns) undir undirskriftalista þess efnis að það myndi ganga út ef Tryggvi sneri aftur á Kirkjuhvol. En hann á lögum samkvæmt að fá þjónustu í sinni heimabyggð þrátt fyrir sína hreyfihömluðun. Hefur hann verið útskriftarhæfur af Lungadeild Landsspítalans frá því í apríl 2018 samkvæmt vottorði dags. 27 mars 2018 af Þorgeiri Orra Harðarsyni lækni. Er þetta ekkert annað en mannréttindabrot.
Ný hjúkrunnarálma var opnuð á Kirkjuhvoli í vor. Það er mín skoðun að Tryggvi hefði átt að vera fyrsti íbúinn þar. Hagnaður af rekstri Kirkjuhvols fyrir árið 2017 var yfir 40 milljónir. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Tryggvi fái að dvelja á Kikjuhvoli. Það ætti ekki að vera svo að fólk sem ræður sig á hjúkrunarheimili geti ráðið hverjum það geti hjúkrað. Það sem þarf að koma til er kærleikur og sáttfýsi.
Brýtur þessi meðferð á Tryggva á móti lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38 frá 9. maí 2018.
Í 1. grein þessa laga stendur meðal annars; "Markmið laga þessara er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði".
3. grein byrjar á þessum orðum; "Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu.
Opinberum aðilum ber að tryggja að sú þjónusta sem veitt er skv. 1. mgr. sé samfelld og samþætt í þágu einstakra notenda. Einstaklingur sem hefur notið þjónustu samkvæmt lögum þessum á rétt á að njóta hennar áfram nema verulegar breytingar verði á stuðningsþörfum hans. Einstaklingur á rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og á lögheimili". Nokkru neðar stendur; Fatlaður einstaklingur á rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og á lögheimili.
Í 4. grein eftir fyrstu greinaskil; "Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögunum sé í samræmi við markmið þeirra, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og skuldbindingar á sviði mannréttindamála. Þá hefur ráðherra eftirlit með að réttindi fatlaðs fólks séu tryggð. Ráðherra getur ákveðið að eigin frumkvæði að taka til umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags samkvæmt lögum þessum. Réttur aðila máls til að kæra ákvörðun hefur ekki áhrif á þessa heimild. Telji ráðuneytið rétt að gera athugasemd getur það:
1. gefið út leiðbeiningar um túlkun laga þessara og stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu sviði,
2. gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins eða annars er eftirlit beinist að,
3. gert sveitarfélagi að koma með tillögur til úrbóta og/eða gert tillögur til sveitarfélags um úrbætur á þjónustu þar sem þess er þörf og stuðlað að samræmingu hennar".
Og að í 9. grein stendur meðal annars; "Fatlað fólk á rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt er að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi".
Með ósk um að málið nái farsælum endi og að fjölskylda Tryggva geti heimsótt hann heima í héraði um jólin.
Kær kveðja
Steindór Sigursteinsson
Verkamaður
Búsettur á Hvolsvelli
Boltinn er hjá Sjúkratryggingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)