Ég lifi og þér munuð lifa

    Hver hefir sagt: ,,Ég lifi og þér munuð lifa?" Og hverjum sagði hann það? Jú, hann sagði það við lærisveina sína, skömmu áður en hann skildi við þá og fór til Föðurins. Jóh. 14, 19.
    Undursamlega huggunarrík hafa þessi áðurgreindu orð Krists verið fyrir lærisveina hans á þessari stóru stundu. En hvað er í raun og veru það að hugleiða þau, borið saman við það, að heyra þau flutt af Jesú Kristi sjálfum.
    Mér finnst eins og ég sjái lærisveina Krists einna gleggst í þetta skipti. Viðræða Drottins var að vísu æfinlega þrungin lífi og krafti, en í þetta skipti var það nokkuð nýtt og einkennandi. Meðal annars þetta, að hann færi burt til Föðurins.
    Kæri lesandi, vilt þú reyna að standa í sporum þessara lærisveina, þessara nemenda, í þetta skipti. Vilt þú hugleiða þetta, að Meistarinn mikli, Drottinn Jesús Kristur sagði til þeirra: „Ég fer burt." Hann, sem þeim hefir eflaust svo oft, já mörgum sinnum, verið búið að finnast mikið til um í orði og verki.
    Þú kæra sál, sem hefir átt trúan og góðan vin, hefði það ekki snert tilfinningar þínar að sjá honum á bak, lífs eða liðnum. Efalaust er slíkt eitt af vorum mestu tilfinningamálum.
    En það í sjálfu sér er lítil mynd af þeim mikla veruleika, sem hér er um að ræða. Þeim alheims sannleika, að Drottinn Jesús Kristur var í þann veginn að yfirgefa lærisveina sína og fara til Föðurins á himnum, eftir allar þær mörgu og guðdómlegu samverustundir, er þeir höfðu átt með honum. Mér finnst eins og andinn í brjósti mér segi: Hallelúja, lof sé Guði! Þegar ég hugsa um framhaldið á ræðu Jesú í þetta skipti, þá finnst mér það vera dýrðlegt fyrir allar sanntrúaðar sálir um allan heim.
    „Allt miðar þeim til góðs, sem Guð elskar." Þetta, að Drottinn Jesús færi burt og sem olli lærisveinum hans svo mikillar hryggðar, átti að miða þeim til góðs. Hvernig mátti það verða? í því var það fólgið, að ef hann færi ekki burt kæmi ekki Huggarinn, Andinn heilagi til þeirra, en þegar ég er farinn, þá sendi ég hann til yðar frá Föðurnum.
    Hvað átti svo Huggarinn, Andinn heilagi, að gera? Meðal annars: Sannfæra heiminn um synd, um réttlæti og um dóm, Jóh. 16, 8, bera Jesú Kristi vitni, Jóh. 15, 26., leiða þjóna Drottins í allan sannleikann og kunngera þeim það, sem koma á, Jóh. 16, 13., að því ógleymdu, að kenna þeim alt og minna. þá á alt, sem Kristur hafði sagt. Jóh. 14, 26. Að síðustu: Vegsama Jesúm Krist, vegsama Konung Konunganna og Drottinn Drottnanna. Lofað sé Drottins heilaga nafn!
    Þökk, kæri Jesús, fyrir allt, allt, sem þú hefir gert fyrir oss mennina, hvað viðvíkur eilífðarmálunum! Frá mínu sjónarmiði séð eru þau allt. Hins vegar játa allir menn og allar konur, er þekkja orð Krists, hans heilnæmu kenningu, sem er að finna í guðspjöllunum, að Drottinn Jesús gefur fyrirheit fyrir þetta jarðneska líf. Já, fyrir vorri tímanlegu heill. Meðal annars: „Leitið fyrst Guðs og hans réttlætis og þá mun yður veitast allt annað að auki." Minnist þess, kæru menn og konur, að loforð Drottins Jesú Krists eru skilorðsbundin, Trúið — og treystið Jesú.
    Kristur er hið sanna ljós, er koma átti í þennan heim, til þess að hrekja burtu myrkur, efasemda og hleypidóma. Gefa oss mönnunum andlegt ljós í stað hins andlega myrkurs, er vér sátum í. Gleði í stað hryggðar, frið í stað friðleysis og líf í stað dauða. Kæra sál, hefur þú öðlast þetta fyrir trúna á Krist? Ef ekki þá kepptu eftir því. Minnstu þess, að Kristur sagði: „Leitið og þér munuð finna." Ef til vill hefur þú leitað Krists, ef til vill hefur þú fundið. En sorgleg er þessi staðreynd, að margir menn og konur virðast leita að öllu öðru í þessum heimi en Jesú Kristi. En kæri lesandi, það, sem þér ríður mest á að leita að og finna í þessu lífi, er Jesús Kristur, hafir þú ekki þegar fundið hann. Hvers vegna? Vegna þess, að þú átt ódauðlega sál, sál, sem enginn getur bjargað nema Jesús Kristur. Hvers vegna? Vegna þess að Kristur sagði: „Enginn kemur til Föðurins nema fyrir mig."
    „Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið." Jóh. 14, 6.
    Mannleg skynsemi fær aldrei til fulls skilið þann mikla leyndardóm, sem fólginn er í Jesú Kristi. Nei. „Svo miklu sem himininn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum", segir Drottinn. Jesaja 55, 9. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir allt, vilja svo margir menn og konur skilja allt Guðs ráð.
    Líf Jesú Krists hér á jörðu, verk hans og hin guðdómlega kenning hans færir oss heim sannin um, að honum ber að trúa og treysta. Hann er meðalgangarinn milli Guðs og vor. Minnumst þess, er Páll postuli, hinn stórvitri maður, sagði í bréfinu til „Efususmanna".
    „Á honum — Kristi — grundvallast nú djörfung vor og hinn öruggi aðgangur að Guði, er vér eigum fyrir trúna á hann." 3, 12.
    Ef til vill kynnu einhverjir að segja, sem hafa litla eða enga þekkingu á orðum Krists, að hann hafi einvörðungu átt við þá lærisveina sína, er voru hjá honum á þessum stað og á. þessari téðu stundu. Þeir aftur á móti, er hafa kynnt sér orð Krists, sjá, að Drottin Jesús hefir haft fleiri í huga, því að hann segir í þetta sama sinn, á þessum sama stað, í bæn til Föðurins, Jóh. 17, 20.: „En ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem trúa á mig fyrir orð þeirra."
    Guði sé lof! Allra þeirra, sem eiga eilífa lífið í Jesú Kristi er minnst. Til allra þeirra nær þetta fyrirheit Krists: „Ég lifi og þér munuð lifa." Og „þar, sem ég er, þar skuluð þér og vera."
    Kæra sál! Getur þú tileinkað þér fyrirheit Jesú Krists, svo mörg sem þau eru og dýrðleg?
    Guð veiti þér það af náð sinni.

Árni Eiríksson. Tímaritið Afturelding 1. maí.1936.


mbl.is Fámennt en góðmennt við bænastund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband