Það er arfavitlaus ákvörðun að staðsetja nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut
9.5.2018 | 21:05
Það er skoðun undirritaðs að stjórnvöld ættu að athuga vel aðra kosti en að byggja upp framtíðaraðstöðu Landspítalans við Hringbraut. Hafa Vífilsstaðir í Garðabæ verið nefndir sem ákjósanleg staðsetning fyrir nýtt hátæknisjúkrahús. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur en með því að byggja við Hringbraut.
Það eru varla rök í málinu að búið sé að eyða hundruðum milljóna í að undirbúa mistök og þess vegna þurfi að klára að gera mistökin. Þegar búið er að taka svona vitlausa ákvörðun þá þurfa menn að hafa hugrekki og þor til að breyta henni.
Ef það er möguleiki á að byggja nýjan flottan Landspítala þar sem allt er glænýtt og í samræmi við þarfir nútímaheilbrigðisþjónustu, hafa hann á góðum stað í fallegu umhverfi, skipuleggja spítalann þannig að hann virki sem öflug heild og gera þetta allt hraðar, hagkvæmar og betur en áður var talið, er þá ekki rétt að skoða það?
Sigmundur Davíð Guðlaugsson sagði 2 kosti í stöðunni á Facebook síðu sinni 2016:
1. Að halda áfram hægvirkum og óhagkvæmum bútasaum við Hringbraut. Endalaus barátta við alkalískemmdir, myglu og gamalt lagnakerfi og úrelt tækni í tugum bygginga og við að tengja það gamla við nýbyggingar til að láta allt virka sem heild. Mikið rask mundi skapast á meðan á byggingarframkvæmdunum stæði. Eftir stendur svo þyrping ólíkra gamalla kassa og nýrra stærri grárra kassa. Þyrping sem stendur utarlega á nesi sem tengt er restinni af höfuðborgarsvæðinu með götum þar sem umferðarteppur eru regla fremur en undantekning.
2. Glænýr heildstæður hátæknispítali, hannaður til að virka sem ein heild og veita umgjörð um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Fallegt hús að innan sem utan á jaðri byggðarinnar, umkringt dásamlegri náttúru og útivistarsvæðum. Húsið mætti byggja hratt með lágmarkstruflun á framkvæmdum og lágmarkstruflun fyrir borgarbúa og fjármagna verkefnið að miklu leyti með sölu á eignum við Hringbraut, eignum sem ganga svo í endurnýjun lífdaga með nýtingu sem hentar svæðinu og styrkja og vernda miðborgina.
Steindór Sigursteinsson
Meirihlutinn haldi málum í gíslingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.