Látið ykkur ekki dreyma um að hægt sé að afskrifa Sigmund Davíð úr stjórnmálum Íslands

Ef Sigmundur Davíð væri ennþá forsætis­ráðherra og ríkisstjórn hans hefði fengið að starfa út kjör­tímabilið væri margt á betri veg statt en nú er. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og BF hefur verið erlendum kröfu­höfum föllnu bankanna einkar vilholl þar sem höftum af þeim var aflétt umfram það sem fólkið í landinu fékk að njóta. Sigmundur skrifaði á Facebókar­síðu sína 12. mars sl.:

"Hér sannast endanlega að aðgerðir okkar til að endur­reisa efnahagslíf landsins og aflétta höftum heppn­uðust fullkomlega. Aðgerðir sem sagðar voru „einstakar í fjármálasögu heimsins."

"En í stað þess að klára planið eins og lagt var upp með og gera þetta að sigurdegi virðist stjórnvöld ætla að nota tækifærið til að leysa vogunar­sjóðina út með gjöfum, alla á einu bretti. Ótt­inn reynd­ist rétt­ur. Það stend­ur til að verðlauna hrægamm­ana sem vildu ekki spila með (í útboðinu í fyrra) og ákváðu þess í stað að beita áróðri og und­ir­róðri til að hafa áhrif á ís­lensk stjórn­mál," bætir hann við.

Sigmundur barðist eins og kunnugt er gegn ásælni erlendra hrægammasjóða í inneignir föllnu bankanna og að þeir mættu flytja fé sitt óheft úr landi; hann var líka á móti Icesave-kröfum erlendu bankanna, ESB og Alþjóða­gjaldeyris­sjóðsins sem vildu setja skuldaklafa á íslenska þjóð um ókomna framtíð.

Hann hefur sýnt fram á að hann er einn af meiri stjórnmála­skörungum sem Ísland hefur alið. Má þar nefna að hann og ríkisstjórn hans ýtti úr vör skulda­niðurfærslu til handa almennings með stökkbreytt íbúðalán. Fjárhagur ríkisins og kaupmáttur fólks tók mikið stökk upp á við í valdatíð ríkisstjórnar hans.

Það hafa engar sannanir verið færðar fram sem sýna fram á sekt fyrrver­andi forsætis­ráðherra varðandi svonefnd Panamaskjöl. Öðru fremur hefur Sigmundur Davíð sýnt fram á að hann og eiginkona hans hafi staðið skil á sköttum varðandi umtalaðar aflandseignir.

Stjórnarandstaðan stóð fyrir nokkurri gagnrýni á fyrrverandi ríkisstjórn og samflokksmann Sigmundar, fyrrverandi utanríkisráðherra, í tengslum við Evrópumálin. En eins og kunnugt er dró Gunnar Bragi umsókn Íslands að ESB til baka með bréfi til formanns ráðherraráðs ESB. Þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar og ESB-fylgjandi fjölmiðla var ekkert nema stormur í vatnsglasi. Það var enginn skaði skeður fyrir Íslendinga, síður en svo. Létu þingmenn Samfylkingar og hinir vinstri flokkarnir (því þeir snerust óvænt á sveif með Samfylk­ingunni í þessum áróðri) þau ummæli falla að þjóðin skuli fá að neyta réttar síns og fá að kjósa um áframhald aðildar­viðræðna.

En það er hvílík fásinna að það nær engu tali. Að sjálfsögðu er hér ekki um eiginlegar umræður eða samningaferli að ræða heldur aðlögun og innsetningu og tilskipun laga frá evrópska stórveldinu. Mætti íslensk þjóð varðveitast frá því að flækja sig í Evrópu- og evru-samstarfinu, því það er bágt efnahagsástand í mörgum ríkjum ESB sem margir vilja kenna evrunni um, og mikið atvinnuleysi sérstaklega á meðal ungs fólks, svo mikið að við Íslendingar höfum aldrei kynnst öðru eins.

Sigmundur Davíð hefur líka staðið vörð um stjórnarskrá lýðveldisins, en vinstri flokkarnir og Viðreisn vilja breyta henni til að auðvelda hugsanlega inngöngu í Evrópu­sambandið og einnig til að fá úr gildi tekin lög um tengingu ríkis og kirkju. En það er mikilvægt að Íslenska ríkið styðji áframhaldandi við kristna trú og kirkju og meti hana sem órjúfanlegan hluta af íslensku þjóðlífi, efli hana og að hún verði áfram hluti af starfi hins opinbera með launagreiðslum til presta og fleiri þjóna hennar.

Mætti hinn nýi flokkur Sigmundar Davíðs Miðjuflokkurinn sem og aðrir stjórnarflokkar standa vörð um kristin gildi og hafa kristin viðmið og kristin gildi í heiðri í gerðum sínum og flokks­samþykktum.

Endurbirt grein af bloggsíðu Kristilegra Stjórnmálasamtaka 25. maí 2017.


mbl.is Sigmundur býður fram undir X-M
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband