Stjórnvöld ættu að athuga vel aðra kosti en að byggja upp framtíðaraðstöðu Landspítalans við Hringbraut
23.5.2016 | 19:12
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra telur mjög álitlegan kost að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut í Reykjavík. Til að mynda á Vífilsstöðum í Garðabæ. Kemur það fram í skriflegu svari hans við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstri grænna. En Steingrímur spurði hvort Sigurður telji koma til greina að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut og vísaði í því sambandi til sjónarmiða forvera hans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Um sjónarmið Sigmundar skrifaði undirritaður grein á vef Kristilegra Stjórnmálasamtaka 12. mars sl. en hana hef ég ákveðið að endurbirta hér.
Eru Vífilsstaðir heppilegur staður til að byggja á nýjan Landsspítala?
Í viðtali sem birtist í Mbl. í dag segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar að það sé arfavitlaus ákvörðun að staðsetja nýtt hátæknisjúkrahús við Hringbraut. Kvaðst hann hafa komið því á framfæri við bæði ráðherra og alþingismenn að hann teldi staðsetningu nýja sjúkrahússins við Hringbraut vera ranga. Benti hann á Vífilsstaði í Garðabæ sem ákjósanlega staðsetningu fyrir nýtt hátæknisjúkrahús.
Forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifaði á Facebook-síðu sína að í viðtalinu hafi Gunnar lýst því yfir með afdráttarlausum hætti að bærinn væri reiðubúinn í samstarf við stjórnvöld um byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Bæjaryfirvöld í Garðabæ eru tilbúin til að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt til þess að það geti gengið hratt og vel fyrir sig, sagði Sigmundur.
Sagði hann ennfremur: Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna, að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur, Tók hann þannig til orða að "ómögulegt [sé] að segja til um hversu marga áratugi í viðbót bútasaumsaðferðin við Hringbraut myndi taka."
Skrifaði hann ennfremur á Facebooksíðu sína: Ef það er möguleiki á að byggja nýjan flottan Landspítala þar sem allt er glænýtt og í samræmi við þarfir nútímaheilbrigðisþjónustu, hafa hann á góðum stað í fallegu umhverfi, skipuleggja spítalann þannig að hann virki sem öflug heild og gera þetta allt hraðar, hagkvæmar og betur en áður var talið, er þá ekki rétt að skoða það? Um þetta tilboð Garðabæjar skrifaði Sigmundur ennfremur: Mér finnst ekki hægt að líta framhjá þessum kosti nú, þegar bæjarstjórinn hefur stigið fram með þeim hætti sem hann gerði.
Sigmundur segir tvo kosti í stöðunni (stytt):
1. Að halda áfram hægvirkum og óhagkvæmum bútasaum við Hringbraut. Endalaus barátta við alkalískemmdir, myglu og gamalt lagnakerfi og úrelt tækni í tugum bygginga og við að tengja það gamla við nýbyggingar til að láta allt virka sem heild. Mikið rask mundi skapast á meðan á byggingarframkvæmdunum stæði. Eftir stendur svo þyrping ólíkra gamalla kassa og nýrra stærri grárra kassa. Þyrping sem stendur utarlega á nesi sem tengt er restinni af höfuðborgarsvæðinu með götum þar sem umferðarteppur eru regla fremur en undantekning.
2. Glænýr heildstæður hátæknispítali, hannaður til að virka sem ein heild og veita umgjörð um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Fallegt hús að innan sem utan á jaðri byggðarinnar, umkringt dásamlegri náttúru og útivistarsvæðum. Húsið mætti byggja hratt með lágmarkstruflun á framkvæmdum og lágmarkstruflun fyrir borgarbúa og fjármagna verkefnið að miklu leyti með sölu á eignum við Hringbraut, eignum sem ganga svo í endurnýjun lífdaga með nýtingu sem hentar svæðinu og styrkja og vernda miðborgina.
Það er skoðun undirritaðs að stjórnvöld ættu að athuga vel aðra kosti en að byggja upp framtíðaraðstöðu Landspítalans við Hringbraut. Vífilsstaðir í Garðabæ hafa verið nefndir sem ákjósanleg staðsetning fyrir nýtt hátæknisjúkrahús, og kemur það fram í umfjöllun um þetta mál í Morgublaðinu í dag. Væri ekki óábyrgt að velta þessu ekki fyrir sér á þessum tímapunkti, nú þegar ljóst er að Vífilsstaðaleiðin er fær? Það eru varla rök í málinu að búið sé að eyða hundruðum milljóna í að undirbúa mistök og þess vegna þurfi að klára að gera mistökin," sagði Sigmundur Davíð á Facebooksíðu sinni. Gunnar Einarsson bæjarstóri Garðabæjar sagði um þetta mál: Þegar búið er að taka svona vitlausa ákvörðun þá þurfa menn að hafa hugrekki og þor til að breyta henni".
Kristin stjórnmálasamtök hafa hins vegar sem slík ekki tekið þetta mál til umræðu enn sem komið er. En það eru ýmsar spurningar sem koma upp þegar þetta mál er skoðað, eins og hvort aukinn ferðatími fyrir margt fólk til og frá spítalanum sé vandamál og hvort fórna eigi fallegu landsvæði sem Vífilsstaðir eru undir spítalabyggingar.
Telur Vífilsstaði álitlega fyrir spítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.