Frásögn af gjöfulum formanni á Stokkseyri

Í tilefni Sjómannadagsins langar mig til þess að birta hluta úr viðtali sem tekið var við hann afa minn heitinn Steindór Sigursteinsson í bókinni Ysjur og Austræna 1 bindi.  En í henni eru sagnaþættir mjólkurbílstjóra á Suðurlandi.  Það er fróðlegt að lesa um hvernig lífið gekk fyrir sig hér áður fyrr.  Sagnaþátturinn nefnist "það lætur sig gerast þannig" en þannig tók afi til orðs.  En hann er fæddur í Mosfellshrepp 1. október 1913 en fluttist ungur með foreldrum sínum á Stokkseyri en síðar á Selfoss 1931, þar sem hann gerðist mjólkurbílstjóri 2 árum síðar.  Afi minn lést þann 14. febrúar 1986.  Ég stikla niður í frásögn þar sem hann greinir frá ævi sinni og uppvexti, hefst hér frásögnin (en myndin er af þessum afa mínum og alnafna): 

Afi minn Steindór Sigursteinsson."Það var alltaf til siðs á Stokkseyri, að róa á haustin á opnum skipum og af þeim var mikið til.  Innan við fermingu var ég látinn fara að gutla við ýsu.  Það var byrjað á því strax og hægt var, að láta mann gera eitthvað til gagns.  Ég man eftir einu atviki dálítið sérstöku.  Kristinn Grímsson, er síðar kenndi mér á bíl, var kominn með mótor í skip sitt.  Gæti trúað að það hafi verið með fyrstu trillunum.  Kristinn hafði mixað bílvél í bátinn.  Hann var mikill meikari þessi karl.  Einn daginn tvírær minn  formaður, Ingimundur Jónsson frá Strönd á Stokkseyri.  En svo fer hann að bræla, þetta var norðanátt og þessvegna var brimlaust eins og verður á Stokkseyri þegar norðankæla fer að standa og alltaf góðviðri.  Þetta kul var nóg til þess að hann fór að gera svolitla báru og þá fór að ganga ver hjá okkur á áraskipinu, Fönix eins og báturinn hét.  Þá kom Kristinn til okkar og tók okkur í slef.  Og það var nú meiri lúxusinn að geta stungið árunum niður í kjöl.  Í þetta sinn dró Kristinn okkur alla leið að bryggju.  Stundum komu fiskkaupmenn austur að Stokkseyri til að kaupa af okkur ýsu, þegar róið var.  Í fyrstu róðrunum á haustin komu margir í fjöruna til að fylgjast með afla, ekki síst konur.  Nú, það kom oft fyrir að maður sá Ingimund labba heim með hendur fyrir aftan bak, þá var hann búinn að gefa allan aflan sinn.  Ingimundur átti mörg börn og var víst ekkert of fjáður maður á þeim tíma.  En svona var hans hjartalag.  Hann fékk ábyggilega launað, sá maður, því hann var mikill afla og happa maður. 

Það mátti heita undantekningalaust, að hann væri aflahæstur á vertíðinni.  Ingimundur fékk oft blessunaróskir frá þessu fólki sem hann gaf hlutinn sinn.  Þó hann væri sjálfur með fullt hús af börnum var hann búinn að gefa hlutinn áður en hann vissi af.  Þá snérist ekki allt um peninga, heldur að koma til móts við fólkið, og fólkinu leið ekki verr þá en nú.  Þá var ekki þessi "stress" og læti".

Mér finnst þessi frásögn afa míns af örláta formanninum lýsa svo vel því örlæti sem við, manneskjur sköpuð í Guðs mynd, eigum að hafa.  Að meta náungann meira en okkur sjálf og vera fús til að miðla með öðrum því sem Guð hefur gefið okkur.  "Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau" stendur í Efesusbréfi 2,10.  Megi Guð gefa okkur náð til þess að vera örlát, og fús til þess að gera öðrum gott.  Því "Guð blessar glaðan gjafara" (2 Kor 9,2b) og "sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans." 

Að lokum er hérna gullfallegt ljóð eftir Hallgrím Pétursson:

http://krist.blog.is/blog/krist/#entry-1783173

Kær kveðja


mbl.is Kirkjuskip í Grafarholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband