Ekki ætti að veita leyfi til lagningar vegar á landi Hlíðarenda.

Nokkuð hefur borið á umræðum um áform Valsmanna um að reisa íbúðabyggð í landi Hlíðarenda sem er við austurenda neyðarflugbrautar Reykjavíkurflugvallar.  Í frétt á Mbl.is í gær var viðtal við Hjálm­ar Sveins­son, formann um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­vík­ur.  Þar ræddi hann um umsókn Valsmanna til að leggja veg á landi Hlíðar­enda sem muni skilja að íþrótta­svæði Vals á Hlíðar­enda og fyr­ir­hugað íbúðasvæði.  Sagði hann að hér væri um að ræða framkvæmdaleyfi sem fæli ekki í sér leyfi til þess að reisa byggingar á svæðinu.   „Fram­kvæmd­ir fyrsta kastið á Hlíðar­enda­land­inu munu ekki einu sinni hafa neitt að gera með neyðarbraut­ina, hina svo­kölluðu þriðju flug­braut," sagði hann.

Finnst mér með ólíkindum að formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur skuli lýsa því yfir að lagning vegs á Hlíðarendasvæðinu hafi "fyrsta kastið" ekki neitt að gera með neyðarbrautina.   Að sjálfsögðu fylgir íbúðabyggð þessum veg seinna meir fái áform Valsmanna fram að ganga, sem felur í sér að neyðarflugbrautin þurfi að víkja.  Það virðist ætlun borgarstjórnarmeirihlutans að lauma þessum framkvæmdum af stað og hefja þær þannig að ekki sé unnt fyrir velunnara flugvallarins að fá neinu um breytt.  Skriðþunginn í þessu máli er slíkur að það á að reyna að koma framkvæmdum af stað, án þess að Rögnunefndin svokallaða sem átti að meta þessi mál hafi skilað áliti sínu. 

Það er mikið hagsmunamál fyrir landsmenn alla að Reykjavíkurflugvöllur fái að vera áfram með öllum sínum 3 flugbrautum.  Neyðarflugbrautin er nauðsynleg þegar veður eru válind og vindar sterkir úr SV og NA áttum, en þær aðstæður skapast yfir 20 daga á ári.  Myndi öryggi flugvallarins skerðast verulega verði neyðarflugbrautin látin víkja. 

 Í samkomulagi sem undirritað var af háttvirtum innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Jóni Gnarr Kristinssyni fyrverandi borgarstjóra, kemur fram að tilkynnt verði um lokun neyðarbrautar Reykjavíkurvallar (NA/SV brautar) fyrir áramót.  En þá var hugsunin sú að Rögnunefndin hafi skilað áliti sínu, en nefnd þeirri hefur verið falið að finna framtíðarstaðsetningu fyrir Reykjavíkurflugvöll.  Síðustu fréttir frá Rögnunefndinni er sú að hugsanlegum möguleikum á framtíðarsvæði fyrir flugvöllum hafi fækkað úr 15 í 5 og er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni í breyttri mynd einn af þeim 5 valkostum.  Tel ég það ólíklegt að Rögnunefndin finni einhvern stað fyrir flugvöllinn sem henti vel fyrir þá starfsemi sem til staðar er á vellinum.  Yrði það óhemju kostnaðarsamt fyrir flugrekstraraðila sem þar reka starfsemi sína og landið allt sem af flutningi flugvallarins hlýst með lagningu nýs flugvallar með öllum þeim byggingum sem honum fylgja.  Yrði það gríðarlegur skellur fyrir innanlandsflugið, flugskólana flugverkstæðin ofl. sem færa þyrftu starfsemi sína og þetta myndi að lokum koma niður á landsmönnum öllum með hækkuðu verði á innanlandsflugi.

Háttvirtur forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tjáði sig á síðasta ári:  

„Ég myndi að sjálfsögðu helst vilja sjá flugvöllinn í þeirri mynd, sem hann er, þ.e.a.s. þriggja flugbrauta völl. Það er mjög óheppilegt á allan hátt þessi leið að reyna að þrengja stöðugt meira og meira að flugvellinum, og flytja hann nánast í pörtum úr Vatnsmýrinni, en í rauninni að reyna að gera flugvellinum ókleyft að starfa þarna. Það er stefna, sem að ríkið þarf að koma í veg fyrir að nái fram að ganga."

Það er einlæg ósk mín að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fái áfram að vera óskertur með öllum sínum 3 flugbrautum og að öll þau starfsemi sem þar hefur starfað lengi, fái að vera þar áfram.  Ég vil biðla til stjórnvalda að taka afstöðu í þessu máli og ræða þessi mál því orð eru til alls fyrst.  Ríkisstjórn og Alþingi þurfa að kryfja þetta mál til mergjar og komast til botns í því hvort skerðing á starfsemi flugvallarins og þeirra fyrirtækja sem þar eru, séu til að  efla hag fólksins í landinu.  Og hvort veita eigi hópi fólks og hagsmunaaðilum sem byggja vilja í Vatnsmýrinni án þess að hafa í huga alla þá hagsmuni sem í húfi eru fyrir flugtengda þjónustu sem rekin er á Reykjavíkurflugvelli og hag allra landsmanna, því innanlandsflugvöllur á Stór- Reykjavíkursvæðinu með öllu því hagræði sem því fylgir er mikið þjóðþrifamál.


mbl.is Engin áhrif á neyðarbrautina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband