Halda ber áfram útsendingu þessara góðu áratuga gömlu þátta á Rás 1.
17.8.2014 | 12:12
Það er leitt til þess að vita að hætta eigi útsendingu Orðs Kvöldsins og Morgunbænar. Dagskrárstjóri Rásar 1 hefur lýst yfir þeirri ákvörðun sinni að hætta útsendingu þessara þátta sem hafa verið samofin dagskrá RÚV um margra áratuga skeið. Það eru margir sem munu sakna þessara þátta sárt verði þeim hætt, þar á meðal aldraðir og sjúklingar sem hlusta á þessa þætti í hlustunarkerfum spítala og elliheimila. Samkvæmt könnun á vef Útvarps Sögu eru tæpl. 88% ósammála ákvörðun dagskrárstjóra um að leggja niður þessa þætti, en um 10,4% sammála. Dagskrárstjóri ætti að leggja það undir álit almennings hvort hætta eigi útsendingu þessara þátta, en ekki láta eigin geðþáttaákvörðun ráða för. Kristin trú hefur verið samofin menningu þjóðarinnar um aldaraðir og hefur fært mörgum manninum styrk til að takast á við málefni líðandi dags og visku til að haga lífi sínu á þann hátt að það sé til sóma og eftirbreytni og komið sé vel fram við náungann.
"Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni.
Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka." Títusarbréf 4:11-14
Ég vil hvetja útvarpstjóra til að halda útsendingu þessara mannbætandi og trúarstyrkjandi þáttum áfram.
Kær kveðja.
Rúmlega 3.200 vilja Morgunbæn áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þeir fáu sem hlusta á útvarp sögu eiga ekki að ráða dagskrá útvarps allra landsmanna. Ef útvarpi sögu er svona annt um svona þætti þá er þeim frjálst að setja þá á sína dagskrá.
Mannréttindi einskorðast ekki við meirihlutann. Almenningsálit ræður ekki hverjir skuli njóta mannréttinda. Dagskrárstjóri á að láta siðferðis og réttlætiskennd ráða för en ekki almenningsálit.
En kristin trú er greinilega ekki vel til þess fallin að kenna okkur mun á réttu og röngu ef þeir sem á þessa þætti hafa hlustað og heimta áfram á útvarpi allra landsmanna sjá ekki hvílík lítilsvirðing þeir eru við aðra.
Það er siðferðislega rangt að gefa einum trúflokki sérstöðu í útvarpi allra landsmanna. Og siðferði og réttlætiskennd fólks sem það heimtar augljóslega ekki til fyrirmyndar.
Vagn (IP-tala skráð) 17.8.2014 kl. 13:25
Það er siðferðislega rangt að taka frá hópi fólks eins og öldruðum og sjúklingum þætti sem þeim líkar svo vel að hlusta á. Það er rangt að vegna þess að það fyrirfinnist einhverjir vantrúaðir sem líkar ekki bæn og lestur í Orði Guðs að geti krafist þess að trúarlegum útvarpsþáttum sé hætt í Ríkisútvarpinu. Ég hef ekki áhuga á íþróttum og mér líkar ekki við glæpa- myndir, en mér dettur ekki í hug að krefjast þess að slíkir dagskrárliðir séu felldir niður. Varðandi það sem þú sagðir að ekki ætti að gera einum trúflokki hærra undir höfði en öðrum vil ég segja: Bæn og lestur orðs Guðs hentar hinum ólíku kristnu söfnuðum í landinu Lútherskum, kaþólskum, Fríkirkjunni, Hvítasunnusöfnuðinum ofl trúarsöfnuðum. Það eru fleiri trúarhópar eins og múslimar og fólk búddatrúar ofl trúarhópar sem ekki byggja á kristinni trú, en það réttlætir ekki að þættir með kristnu ívafi séu lagðir niður í Ríkisútvarpinu. Ef ég flyttist til einhvers lands í mið- austurlöndum þar sem Búddatrúarfólk er í meirihluta þá mundi ég ekki krefjast þess að efni varðandi þeirra trú kæmi fram í útvarpi.
Steindór Sigursteinsson, 17.8.2014 kl. 20:24
Ef þú vilt búa í landi þar sem fólki er mismunað eftir trúarskoðunum þá átt þú ekki heima hér. Íslenskt þjóðfélag er fyrst og fremst siðað hver sem trúarbrögðin eru. Þannig viljum við hafa það og þannig verður það. Krafa þín um sérréttindi eiga ekki við í siðuðu þjóðfélagi.
Þjóðfélag getur verið siðað án þess að vera kristið og kristið þjóðfélag er ekki endilega siðað. Það sést vel á þeim kröfum sem kristnir gera og samrýmast ekki siðuðu þjóðfélagi. Það samrýmist, til dæmis, ekki siðuðu þjóðfélagi að telja það í lagi að brjóta á fólki ef það er í minnihluta og að þess þurfi til að gleðja gamlingjana. Og það þarf verulega brenglaðan hugsunarhátt til að halda því fram að það sé siðferðislega réttlætanlegt.
Þú mundir ekki tala um að það væri siðferðislega rangt að taka frá hópi fólks þætti sem þeim líkar svo vel að hlusta á ef það væru daglegar útsendingar vinstri grænna á eina pólitíska þætti útvarps allra landsmanna.
Hafi einn trúflokkur útvarpsþátt þá á öllum að bjóðast það sama. Hafi eitt stjórnmálaafl útvarpsþátt þá á öllum stjórnmálaöflum að bjóðast það sama.
Vagn (IP-tala skráð) 17.8.2014 kl. 21:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.