Engan veginn ! Neyðarflugbrautin ber að vera áfram ásamt Fluggörðum.

Í dag gaf að líta frétt á mbl.is sem var eitthvað á þessa leið að  Reykjavíkurborg hafi virt  samkomu­lag við inn­an­rík­is­ráðuneytið og Icelanda­ir um inn­an­lands­flug frá 25. októ­ber 2013 í einu og öllu.  Og að  nýtt deili­skipu­lag fyr­ir Reykja­vík­ur­flug­völl sé í fullu sam­ræmi við sam­komu­lagið og feli m.a. í sér; stækk­un flug­stjórn­ar­miðstöðvar, flug­stöðvar­inn­ar, niður­lagn­ingu þriðju flug­braut­ar­inn­ar ofl.  Þá er fullyrt að upp­bygg­ingaráform Vals­manna á Hlíðar­enda sé einnig í fullu sam­ræmi við sam­komu­lagið, þótt ekki sé talað sér­stak­lega um það í sam­komu­lag­inu.

Ég verð að segja að mér finnast þetta dapurleg orð sem koma fram í fréttinni; að leggja eigi niður neyðarflugbrautina sem skipað hefur flugvellinum í hágæðaflokk vegna öryggis og nýtingarhlutfalls.  Fréttin heldur áfram á eftirfarandi nótum að Borgarráð hafi gert bókun um mótun skipulags í Skerjafirði þar sem horft verði til niðurstöðu nefndar Rögnu Árnadóttur. Og ennfremur að Isavia hafi það verkefni að finna framtíðastaðsetningu fyrir æfinga- og kennsluflug.  Í samkomulaginu felst að Unnanríkisráðuneytið og Isavia hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar.  

Það er sorglegt að innanríkisráðuneytið hafi lagt samþykki sitt við að mikilvægur hluti flugvallarsvæðisins sem Fluggarðar eru verði teknir undir íbúðabyggð og að finna þurfi nýjan stað fyrir flugskólana og alla þá starfsemi sem fer fram á svæðinu.  Það var að ég held ákvörðun sem var tekin án þess að málið væri fyrst kannað í þaula.  Að sjálfsögðu var það ætlun innanríkisráðuneytisins að heimila ekki framkvæmdir á flugvallarsvæðinu fyrr en staður væri fundinn fyrir æfinga flugið.  En eins og kunnugt er hefur enginn staður fundist enn, sem hentar fyrir þessa starfsemi.  En til að kóróna allt saman þá hefur Borgarstjórn sú sem ríkt hefur undanfarin ár ákveðið að byrja framkvæmdir við enda neyðarflugbrautarinnar í haust og niðurrif fluggarða strax á næsta ári.

Það er von mín að komandi borgarstjórn dragi til baka samþykkt deiliskipulag í Vatnsmýrinni þar sem gert er ráð fyrir íbúðabyggð á svæði Fluggarða og þar sem neyðarflugbrautin er staðsett.  Þetta er mikið þjóðþrifamál að sú starfsemi sem þarna hefur þrifist um áratugaskeið fái að vera áfram.  Því Reykjavíkurflugvöllur með allri þeirri fjölbreyttu starfsemi sem þar er rekin eins og flugskólarnir, flugrekstraraðilarnir, flugverkstæðin og margt fleira ásamt einkafluginu hefur verið eins  og vagga flugsins á Íslandi.

Ég bind miklar vonir við oddvita lista Framsóknarflokksins og Flugvallarvina Sveinbjörgu Birnu Sveinbjarnadóttir sem kosin var í borgarstjórn ásamt flokksystur hennar; Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur.  Tel ég að þær geti haft áhrif á komandi borgarstjórn í þá átt að mál flugvallarins verði skoðað upp á nýtt og að sjónarmið þeirra sem hagsmuna eiga að gæta á flugvallarsvæðinu verði ekki fyrir borð bornir.

 


mbl.is Borgin hefur virt samkomulagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband