Evran gæti gengið að Evrópusambandinu dauðu.
2.5.2014 | 23:46
Það er athyglisvert að aðild Íslands að Evrópusambandinu, undir þeim formerkjum að taka upp gjaldmiðilinn Evru sé enn í umræðunni. Þrátt fyrir að árum saman hafi skoðanakannanir leitt í ljós að meirihluti þjóðarinnar vilji ekki ganga í Evrópusambandið. Þær skoðanakannanir voru að engu hafðar þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna ákvað að sækja um aðild að ESB í júli 2009. Þessar aðildaviðræður voru síðan settar á ís af sömu ríkisstjórn snemma árs 2013. En pólitískar deilur um framhaldið hafa nú klofið þjóðina í tvennt. Það sem deilt er um núna er hvort stofna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðum eða ekki.
Frá því sótt var um aðild að ESB 2009 voru nánast einu rökin fyrir aðild þau, að Íslenska krónan væri ekki lengur nothæf sem gjaldmill. Því væri það eina raunhæfa leiðin að ganga í ESB og myntbandalag þess og taka upp evru.
Francois Heisbourg sem er einn kunnasti sérfræðingur Evrópu í öryggis- og alþjóðstjórnmálum sem gefið hefur út bókina "Endalok evrópska draumsins" telur að Íslendingar eigi ekki að taka upp evru. Hann tók svo djúpt í árinni á fyrirlestri sem hann flutti í Háskóla Íslands nýverið að "Evran gæti gengið að Evrópusambandinu dauðu". Hann sagði að fulltrúar á Evrópuþinginu séu að verða mjög þreyttir á því að ráðstafanir sem gerðar hafi verið á evrusvæðinu séu litlu að skila. Efnahagsvöxtur sé sáralítill. Atvinnuleysi sé fast í um 12% á evrusvæðinu. "Einhvers staðar, einhvern tíma mun verða pólitísk sprenging í mikilvægum ríkjum." Á sama tíma og verið væri að innleiða margvíslega þætti sem stuðla eigi að auknum efnahagslegum samruna evruríkjanna þá hafi menn verið að endurreisa bankakerfið á grundvelli einstakra ríkja. Nefndi hann sem dæmi að stóru bankarnir fjórir í Frakklandi sem áður hafi verið á alþjóðlegum markaði, spili nú á innanlandsgrunni. Sama þróun hafi verið í Þýskalandi og á Ítalíu hafi menn í raun aldrei komist út fyrir landssteinana hvað bankana snertir, sama sé upp á teningnum á Spáni, þar hafi sama þróunin átt sér stað. Sagði Heisbourg að tæknilega séð sé tiltölulega auðvelt fyrir þessi lönd að ganga út úr evrusamstarfinu. Og í raun séu evruríkin á fullu við að undirbúa að evran líði undir lok og ætla þá að vera tilbúin að taka upp eigin gjaldmiðil að nýju. Sagði hann að evran auki á vandann í frjálsu flæði vinnuafls milli landa og að löndum eins og Svíþjóð og Danmörku vegni vel vegna þess að þau eru með sinn eigin gjaldmiðil. Með öðrum orðum að evran væri ekki að skila tilætluðu hlutverki sínu. Sagðst Hedelbourg eiga mjög erfitt með að skilja rökin fyrir því að Íslendingar taki upp evru við núverandi aðstæður.
Ég vil taka undir með Heidelbourg að upptaka evru þjónar alls ekki hagsmunum Íslands. Og því er það hverjum manni augljóst að við höfum ekkert að gera inn í Evrópusambandið heldur. Við getum bjargað okkur sjálf með eigin gjaldmiðil, en hann gefur okkur færi á að fella gengið þegar okkur hentar. Hjá evruríkjunum er það ekki hægt og þörf er á að beita aðhaldsaðgerðum með niðurskurði og uppsögnum opinberra starfsmanna. Sveigjanleiki krónunnar er kostur á vissan hátt.
Ég vil hvetja ríkisstjórn Íslands að halda fast við fyrirhuguð slit á umsókn um aðild að ESB, því það tel ég vera þjóðinni fyrir bestu.
Einföld og skýr krafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.