Kristin trú ætti að vera í hávegum höfð í grunnskólum landsins.

Mikið hefur verið rætt um kristnifræði og kristilega innrætingu í skólum landsins undanfarin ár.  Hafa vissir hópar fólks jafnvel beitt sér fyrir því að hætt verði að kenna kristnifræði í skólum eins og áður var, og kristnifræði verði aðeins lítillega kynnt ásamt öðrum trúarbrögðum heims.  Hafa þessir hópar sett sig í gegn öllum kristilegum áhrifum, eins og heimsóknum presta og Gídeonfólks, heimsóknir í kirkjur ofl.  Í kjölfar þess setti Reykjavíkurborg lög sem hömluðu mjög kristilegri innrætingu í skólum á Reykjavíkursvæðinu og bönnuðu heimsóknir presta, Gídeonmanna og annara boðbera Kristinnar trúar.  Hafa margir skólar á landinu, fylgt fordæmi þeirra.

Um þetta sagði Karl Sigurbjörnsson biskup meðal annars í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins:   „Það er einfaldlega þannig að þegar fræðslu um trúarbrögð, trúariðkun og þátt trúarbragðanna í lífi og menningu er sópað undir teppi þá tekur fáfræðin við og fordómarnir fylgja í kjölfarið."

Margt fólk telur að Kristin trú eigi ekki upp á pallborðið í leik- og grunnskólum, að hún sé aðeins byggð á gamaldags hugmyndum sem eiga ekki lengur við  í lífi fólks í dag.  En sannleikur málsins er sá að Kristin trú á aldrei betur við nú á þessum tímum.  Kristin trú kennir okkur góð og uppbyggileg gildi, eins og kærleika til náungans, miskunnsemi og langlyndi til handa samborgurum okkar.  Kristin trú kennir okkur að bera hag náungans fyrir brjósti, einkannlega þeim sem hafa það bágt.  Þjóðkirkjan rekur eins og kunnugt er Hjálparstofnun Kirkjunnar þar sem hún útdeilir mat til þeirra sem búa við kröpp kjör.  Hún styður einnig við fólk í öðrum löndum sem býr við örbyrgð.  Fjölmargar aðrar hjálparstofnanir sem byggðar eru á kristinni trú eru líka með margvíslegt hjálparstarf bæði innanlands og utan.

Karl sagði ennfremur:  „Ekki verður annað séð en að það sé að koma á daginn að þegar leitast er við að þvinga hið trúarlega undir yfirborðið og þagga niður, eins og mjög er tíðkað á Vesturlöndum, líka hér á Íslandi, þá fer ýmiss konar ofstæki að bæra á sér á ólíklegustu stöðum undir lítt geðþekkum formerkjum," 

Þegar dregið er úr kristilegum áhrifum og innrætingu í skólum dregur úr þekkingu barna á landinu á því sem kristin trú boðar.   En það er áhersla á hófsemi og lítillæti og að elska náungann eins og sjálfan sig.  Þegar hætt er að benda á kennslu Biblíunnar sem grunn að góðu lífi og réttlæti þá fyllast börnin meira rótleysi, og tilgangsleysi gerir vart við sig í lífum þeirra.  Það á líka við okkur sem eldru erum, öll höfum við þörf fyrir orð Guðs.  Er það skoðun mín eins og Karl Sigurbjörnsson sagði, að þegar boðskapur Krists er minna sýnilegur í þjóðfélagi okkar þá eykst ýmiskonar ofstæki á ýmsum sviðum.  Getur það birst í ýmsum myndum, eins og óeðlilega hörð viðbrögð og mótmæli gagnvart stjórnvöldum, fordómar gagnvart útlendingum, ófriður við annað fólk sem hefur ekki sömu skoðanir og jafnvel fordómar gagnvart kristnu fólki.  En Biblían kennir okkur að halda frið við alla menn, eins og okkur er unnt og á okkar valdi, og að við eigum ekki að hefna okkur, né koma illa fram við nokkurn mann.

Ég vil nota tækifærið til að biðja stjórnendur grunnskóla að styðja við að börnin fái að heyra orð Guðs og leyfi prestum og Gídeonfólki og fleiri boðberum Kristinnar trúar að boða börnunum fagnaðarerindið.  Því Jesús sagði:  "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki."

Kær kveðja.

 


mbl.is Trúnni sópað undir teppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband