Sorglegt að á Íslandi sé fólk sem vill vinna kirkjunni tjón.

Um klukkan fimm aðfaranótt skírdags var eldur lagður að kirkjuhurð Akureyrarkirkju og er hún hugsanlega ónýt.  Er leitt til þess að vita að hér á landi sé fólk sem valda vill tjóni á kirkjubyggingum.  Er þetta því leiðinlegra í ljósi þess að þetta var nóttina fyrir byrjun páskahátíðarinnar þegar Kirkjan heldur upp á, og heiðrar þjáningu Frelsarans og dauða hans á krossi.

Núna á föstudeginum langa þegar páskar eru í hönd er vert að minnast þess sem Jesús Kristur gerði fyrir okkur.  Hann hafði verið svikinn af einum lærisveina sinna, Júdasi Ískaríot.  Vinir hans, hinir lærisveinarnir höfðu yfirgefið hann vegna hræðslu, að þeir kynnu líka að verða handteknir og þeim refsað ef þeir reyndu að koma honum til hjálpar.  Hann hafði verið yfirheyrður af öldungaráði lýðsins, æðstu prestunum og fræðimönnunum sem dæmdu hann dauða sekann.  Þeir fengu lýðinn til að samþykkja að hann yrði krossfestur þegar Pontíus Pílatus vildi bjóða þeim að hann yrði settur laus í stað Barnabasar sem var ræningi.  En það var hefð fyrir því hjá Pílatusi að frelsa einn bandingja á páskunum. 

Við þekkjum flest frásögnina hvað gerðist eftir það.  Hann var hýddur með gaddasvipu höggin 40, þyrnikóróna var sett á höfuð hans.  hann var látinn bera kross sinn til Golgatahæðar en hann kiknaði undan byrðinni og maður að nafni Símon var látinn bera kross Jesú síðasta spölinn til aftökustaðarins.  Þar á Golgatahæð var hann krossfestur, Rómverskir hermenn ráku nagla í gegn um hendur hans og fætur og síðan var hann látinn hanga á krossinum.  Eftir nokkurn tíma, um nón gaf hann upp andann.

Jesú Kristur gerði þetta allt fyrir okkur.  Hann vildi að við fengjum í gegnum fórnardauða hans,  eilíft líf og fyrirgefningu synda okkar.  Hann gerðist staðgengill fyrir okkur.  Við áttum skilda refsingu fyrir það illa sem við höfðum gert, en hann tók á sig refsingu okkar.  Hann býður okkur öllum að koma til sín og trúa á hann og fá hjá honum fyrirgefningu syndanna og eilíft líf.  Jóhannes postuli segir svo fallega í guðspjalli sínu:  "Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf."  Jóh 3:16.  

Hugleiðum það sem Jesús Kristur hefur gert fyrir okkur, núna um páskahátíðina.


mbl.is Kirkjuhurðin líklega ónýt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband