Óskiljanlegt skeytingarleysi gangvart blómlegri atvinnugrein og eignarrétti fólks.
12.4.2014 | 11:31
Það er ljóst orðið að borgarstjórn Reykjavíkur hefur fastráðið að hefja niðurrif á svæði svonefndra Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli á næsta ári og byggja þar íbúðabyggð. Var það mál ákveðið með samþykkt deiliskipulags sem samþykkt var síðustu viku. Vilji borgaryfirvalda stendur til að Reykjavíkurflugvöllur víki alfarið úr Vatnsmýrinni í framtíðinni og að þetta verði fyrsta skrefið í þá átt.
Mér finnst þessi ákvörðun Borgaryfirvalda alveg óskiljanlegt skeytingarleysi gagnvart þessari starfsemi sem þarna fer fram og skilningsleysi viðkomandi á þeim skaða sem þetta mun valda, á þessari blómlegu og vaxandi atvinnugrein sem Flugskólarnir eru. Í flugskóla þá sem eru á Reykjavíkurflugvelli sækjast að jafnaði töluverður fjöldi erlendra flugnema. Er það vegna þess að kostnaður við flugnám er tiltölulega lágur hér á landi í samanburði við það sem gerist í öðrum löndum. Í Íslensku flugskólunum er rekin metnaðarfull kennsla með góðu starfsliði og tækjakostur hefur farið vaxandi eins og með tilkomu flugherma, er það til að gera Íslenska flugkennslu fyllilega samkeppnishæfa við það sem best þekkist. Einn flugskólinn hefur starfað í yfir 50 ár með góðum orðstýr. Á svæðinu eru líka rekin nokkur minni flugfélög og fjöldi einkaflugmanna hefur þar aðstöðu fyrir vélar sínar í flugskýlum sem eru á svæðinu.
Má nú segja að starfsemi þessi sé í hættu vegna skammsýni Borgaryfirvalda og eiginhagsmunastefnu að hugsa aðeins um að skapa rými fyrir íbúðabyggð, sem vel mætti vera staðsett annars staðar. En á sama tíma að leggja eigur viss hóps manna og hagsmuni tveggja atvinnustétta sem þarna starfa í rúst. Á ég varla orð til að lýsa vanþóknun minni á fyrirhuguðum aðgerðum Reykjavíkurborgar og trega minn vegna þessa fólks sem hefur rekið þessa mikilvægu flugstarfsemi á svæðinu, með góðum efnahagslegum áhrifum á landsvísu. Er það vegna starfsemi, minni flugfélaga með bættum samgöngum við landsbyggðina og vegna ýmsrar tengdrar þjónustu eins og skoðanir og viðhald á flugvélum, sala á varahlutum ofl.
Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu mikill skaði það yrði fyrir flugskólana og verðandi flugmenn ef flugkennsla leggst af á Reykjavíkurflugvelli. Reykjavíkurflugvöllur er alveg kjörinn fyrir flugnám, stærð hans og umferð sem um hann fer, er alveg kjörin fyrir einka- og atvinnuflugs nám. Það væri alvarlegra en orð fá lýst ef flugnám leggist að mestu leiti niður á Íslandi og verðandi flugnemar yrðu að leita fyrir sér erlendis með flugnám. Það mundi leiða til þess að verðandi flugmönnum mundi stór fækka, því er nefnilega þannig farið að nærvera við flugvöll, Flugdagar þeir sem haldnir eru á Reykjavíkurflugvelli og starfsemi flugskóla hafa laðað að sér margan manninn til að leggja í flugnám. Og margir menn og konur hafa smitast af flugbakteríunni, einmitt við það að fara í kynningarflug hjá einhverjum flugskólanna. Er nokkuð yndislegra og meira spennandi en að svífa um loftin blá í flugvél?
Ég vil hvetja Borgaryfirvöld í Reykjavík að endurskoða þessa ákvörðun sína með hagsmuni þessara starfstétta sem hafa lifibrauð sitt á svæðinu í huga og með þá blessun sem starfsemi flugskóla hafa á flugið í landinu.
Með kærri kveðju.
Reykjavík besti kennsluvöllurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér þykir aumkunarvert hvað fólkið í borgarstjórn getur verið skammsýnt.
Við búum á eldfjallaeyju og það er t.d. tímaspursmál hvenær gýs á Reykjanesi. Segjum að það færi að gjósa á versta stað og Reykjanesbrautin færi undir hraun....
Væri þá ekki kjörið að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni í lagi? Peningagræðgin á eftir að rústa þessari þjóð ef fólk fer ekki að hugsa skírt!
anna (IP-tala skráð) 12.4.2014 kl. 15:17
Komdu sæl Anna.
Ég er þér hjartanlega sammála. Ef stórt gos yrði td. á Bláfjallasvæðinu þá gæti hraun runnið til Hafnarfjarðar. Það er að koma betur og betur fram í fjölmiðlum hversu skaðlegt það er ef Reykjavíkurflugvöllur verður látin fara. Að sögn Icelandair mundu fargjöld jafnvel í utanlandsflugi stórhækka vegna þess að vélar þeirra þyrftu að hafa meira eldsneyti í tönkum sínum vegna þess að enginn varaflugvöllur væri nærri. Og af sömu sökum þyrfti oft að fresta Flugtökum á Keflavíkurflugvelli þegar eitthvað væri að veðri. Sama væri upp á teningnum varðandi innanlandsflugið, farþegavélar þyrftu að hafa færri farþega (3-4) vegna þess að meira eldsneyti þyrfti, vegna meiri vegalengdar í varaflugvöll og þá yrði að notast við Keflavíkurflugvöll fyrir áætlunarstað fyrir Reykjavík sem myndi lengja ferðartímann þangað, um 45-60 mínútur. Allt þetta mun stórhækka verð á flugfargjöldum, bæði innan lands og utan. Jafnvel svo mikið að varla yrði rekstrargrundvöllur fyrir innanlandsfluginu lengur.
Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um hver áhrif það hefði á flugnámið ef flugskólarnir yrðu að hafa sig í burtu frá Reykjavíkurflugvelli á næsta ári. Slíkt væri hvílik holskefla fyrir þessa atvinnustarfsemi. Enginn flugvöllur sem stenst kröfur varðandi góðan kennsluflugvöll er á næsta leiti.
Það eru miklar ógöngur sem Borgarstjórn Reykjavíkur er að koma landsmönnum út í, ásamt flugfélögunum og flugskólunum.
Mér finnst að leiðin út úr þessu sé að ríkisstjórnin taki af skarið og taki opinbera afstöðu í þessu máli og leiti leiða til þess - hreinlega að leggja lögbann á þessar aðgerðir Reykjavíkurborgar. Þetta mál er þess eðlis að ekki leikur vafi á því að hér er á ferðinni mál sem snertir þjóðaröryggi og þjóðarhag. Og ef farið verði út í þessar aðgerðir mundi það valda margvíslegum skaða á flugsamgöngum og skapa hættu bæði hvað varðar náttúruhamfarir á Reykjanesinu og koma í veg fyrir eðlilegt sjúkraflug á Reykjavíkursvæðinu.
Steindór Sigursteinsson, 13.4.2014 kl. 10:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.