Sjálfstæðismenn hafa upp á margt gott að bjóða.
10.4.2013 | 22:27
Hið minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum undanfarnar vikur er að ég hygg tilkomið vegna þess að fylgið hefur færst frá Sjálfstæðisflokki yfir til Framsóknarflokks. Margir sem aðhylltust stefnu Sjálfstæðisflokksins urðu fyrir vonbrigðum með að flokkurinn skyldi vera afhuga banni á verðtryggingu húsnæðislána. Þar sem Framsóknarflokkurinn boðar að hann muni standa fyrir almennri flatri niðurfærslu húsnæðislána hafa margir hrifist af stefnu Framsóknarflokksins, og síðustu skoðanakannanir hafa endurspeglað það. Sjálfstæðismenn bjóða hins vegar uppá miklu hógværari leiðir til að létta til með húsnæðiskaupendum en það er: Skattaafsláttur af greiðslum lántakanda inná lán, hluti séreignarsparnaðar renni til innborgunar á láni, að boðið verði uppá bæði verðtryggð og óverðtryggð lán, og að vaxtaprósenta verði með tímanum sambærileg og vextir í nágrannalöndunum, að vægi verðtryggingar minnki með tímanum og ef aðstæður leyfa verði verðtryggingin afnumin, stimpilgjöld afnumin, og að hægt sé að skila lyklum af húsnæði ef skuldastaðan er óyfirstiganleg.
Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum en ég tel að ríkissjóður hafi ekki efni á stórfelldri niðurfærslu verðtryggðra lána, og þessi leið nýtist þeim best sem fjárfest hafa í dýrari eignum. Stefna Sjálfstæðisflokksins er raunsæ og skynsamleg og er ekki of kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð, og Sjálfstæðismenn eru ekki hræddir við að játa hana né aðhyllast því þeir vilja gefa fólki raunhæfar lausnir á skuldavanda heimilanna en ekki einhver gylliboð sem gætu bætt fylgi flokksins.
Sjálfstæðisstefnan er ekki aðeins stefna hinna ríku og mikils megandi. Lækkun tekjuskatts, lækkun virðisaukaskatts og lækkun bensínverðs eru á meðal stefnumála flokksins.
En öllu þessu verður ekki komið í gegn nema undirstaðan í efnahag þjóðarinnar, atvinnulífið ásamt fjárfestingu og nýsköpun, komist á góðan skrið aftur. En ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi það innsæi og atorku og góðar lausnir sem til þarf. Afnám gjaldeyrishafta, lægri skattar og gjöld á fyrirtæk, minni ríkisafskipti og miðstýring, stöðugt umhverfi fyrir atvinnulífið með fjölgun starfa og hækkandi launum eru meðal þeirra lausna sem Sjálfstæðisflokkurinn telur að koma megi atvinnulífinu til lífs á ný.
Ég tel að við eigum að halda okkur við Krónuna, Íslendingar hafa þrátt fyrir verðbólgu og stöðugt gengisfall krónunnar í gegn um árin verið talin með efnaðari þjóðum heims. Upptaka evru er engin töfralausn fyrir efnahag þjóðarinnar, því við verðum að koma á stöðugleika í ríkisfjármálum og vinna bug á verðbólgunni áður en við tökum upp Evruna og verðum að viðhalda stöðugleika ef ekki á illa að fara alveg eins og gildir með Krónuna. Tengdafaðir minn sem er búsettur í Belgíu hefur sagt að honum sé meinilla við Evruna. Að hans sögn hækkuðu flestar vörur í verslunum nokkuð þegar Evran var tekin upp 1998.
Ég vona að Íslendingar ljái atkvæði sitt í næstu Alþingiskosningum þeim flokki sem bætt getur hag fólksins í landinu.
Framsókn ánægð - sjálfstæðismenn brýna vopnin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.6.2013 kl. 08:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.