Aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við styðja við eigin búvöruframleiðslu með tollvernd

     Eins og kunnugt er tók tolla­samn­ing­ur Íslands og Evr­ópu­sam­bands­ins gildi 1. maí sl. Felur samningurinn í sér að tollur af rúmlega 340 vörutegundum verði felldir niður. Birg­ir Þór­ar­ins­son, þingmaður Miðflokksins, sagði á Alþingi í dag að í nýgerðum tollasamningi halli veru­lega á Íslenskan landbúnað og að samningurinn bjóði upp á mikið ójafnvægi. 

     Þing­menn Miðflokks­ins hafa gagn­rýnt um­rædd­an tolla­samn­ing um tíma. Lagði flokkurinn fram þings­álykt­un­ar­til­lögu í síðasta mánuði þess efn­is að samn­ingn­um yrði sagt upp. Í greinargerð til­lög­un­ar er sagt að skort­ur sé á út­tekt á áhrif­um samn­ings­ins á inn­lenda fram­leiðslu búvara. Enn frem­ur seg­ir að samn­ing­ur­inn sé óhag­stæður, þar sem hann heim­ili mun meiri inn­flutn­ing ákveðinna búvara til Íslands frá Evr­ópu­sam­band­inu en frá Íslandi til Evr­ópu­sam­bands­ins.

     Bændur hafa um langt skeið gagnrýnt þverrandi virkni tollverndar fyrir íslenskan landbúnað. Á Búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands 5. mars sl. komu fram miklar áhyggjur af tollasamingum sem gerðir voru við ESB á árunum 2007 og 2015. Í ályktun á Búnaðarþingi um tollamál er ætlast til að ríkisstjórn Íslands og Alþingi taki stöðu með innlendri matvælaframleiðslu með því að styrkja tollvernd íslensks landbúnaðar. Verði samningum við ESB um tollfrjálsa kvóta fyrir landbúnaðarafurðir frá árunum 2007 og 2015 sagt upp vegna breyttra forsenda.

     Varðandi aðgerðir vegna dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk leggja bændur höfuðáherslu á að íslensk löggjöf tryggi áfram vernd heilsu manna og dýra með bestu mögulegu aðferðum til að vernda innlenda búfjárstofna, koma í veg fyrir fjölgun matarsýkinga og aukningu á sýkingum af völdum sýklalyfjaónæmra baktería. Fara bændur fram á að niðurstaða EFTA-dómstólsins í málum E-2/17 og E-3/17 frá 14. nóvember 2017 verði ekki innleidd óbreytt. Verði það gert með samningaviðræðum við Evrópusambandið. Enn fremur verði leitað allra leiða til að nýta heimildir til að leggja tolla á innfluttar búvörur sem einnig eru framleiddar hér á landi.

    Tilgangur tollverndar er að jafna stöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innfluttri. Á Íslandi er hún meðal annars notuð til að styðja við fjölbreytta framleiðslu úr íslenskri sveit, þar sem hreinleiki umhverfisins er ótvíræður, sjúkdómar fáir, sýklalyfjanotkun þar af leiðandi í lágmarki og ekki má gleyma þvi að innlendur landbúnaður er ákaflega þýðingarmikill vegna þeirra starfa sem hann skapar í byggðum landsins. Ekkert af þessu er sjálfgefið og byggir meðal annars á því að tollverndin sé fyrir hendi.

     Allar þjóðir sem við berum okkur saman við styðja eigin búvöruframleiðslu með tollvernd að meira eða minna leyti. Rökin eru einkum þau að hagsmunir neytenda séu ekki fólgnir í því að veikja innlenda matvælaframleiðslu með auknum innflutningi á mat sem hægt er að framleiða í heimalandinu. Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði. Engin þjóð vill alfarið treysta á innflutt matvæli enda sýnir reynsla annarra þjóða að slíkt leiðir á endanum til hærra verðs, þegar aðrir kostir en innflutningur eru ekki lengur í boði.

     Merkileg ályktun var gerð á þinginu um innkaupastefnu opinberra aðila. Því er beint til fjármálaráðuneytis að endurskoða innkaupastefnu ríkisins og lög um opinber innkaup með það að markmiði að opinberar stofnanir skuli velja innlend matvæli þar sem því verður við komið. Það gæti skipt verulegu máli fyrir innlenda matvælaframleiðslu ef hér verður hugarfarsbreyting. Áætlað er að opinberar stofnanir íslenska ríkisins noti um 150 milljarða króna í innkaup á hverju ári og 300 milljarða ef sveitarfélög eru meðtalin. Með aukinni áherslu á innlend matvæli í innkaupastefnu ríkisins yrði samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar styrkt.

     Við gerð þessa pistils studdist undirritaður við leiðara Bændablaðsins 16. janúar 2015 og við 2 greinar úr samnefndu blaði 8. mars 2018.
http://www.bbl.is/frettir/skodun/leidari/tollverndin-virkar/5895/
http://www.bbl.is/files/pdf/bbl.-5.tbl.2018_web.pdf

Steindór Sigursteinsson


mbl.is Felldu niður tolla á 340 vöruliðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband