Það á að leyfa fólki að byggja sitt eigið íbúðarhús sjálft, og eftir eigin teikningu.
26.9.2015 | 13:39
Samkvæmt frétt í Mbl.is í dag þá eru óverðtryggðu lánin hjá Arion banka nú vinsælli en verðtryggðu lánin. Kom fram í fréttinni að bæjarstjórinn í Seltjarnarnesi Ásgerður Halldórsdóttir hyggst kanna hvort fara eigi að veita ungu fólki í sveitarfélaginu lán fyrir innborgun í íbúð.
Finnst mér þetta vera gott innlegg hjá Ágerði, því ungt fólk á Íslandi á oftast ekki fyrir innborgun í íbúð. Margir festast því á leigumarkaði og erfitt getur verið að standast greiðslumat, en oft er ódýrari kostur að borga mánaðarlegar afborganir af eigin húsnæði heldur en að leigja. Greiðslumat er að mínu mati allt of strangt, því af hverju má ekki veita fólki lán til íbúðakaupa með 100 þúsund króna afborgun á mánuði þegar viðkomandi hefur verið að borga 120-150 þúsund krónur í leigu á mánuði?
Í gamla daga var það oft að fólk byggði hús sitt sjálft. Enda reglur um byggingar og teikningar fyrir þær rýmri en nú er. Það á að afleggja þessar reglur varðandi það að fólk þurfi að skila inn teikningu unna af viðurkenndum arkitekt. Fólk á að fá að teikna sítt hús sjálft og fá að skila inn sinni eigin teikningu.
Árið 1988 byggði ég ásamt föður mínum sólskála við hús foreldra minna. Ég teiknaði sólskálann sjálfur og faðir minn skilaði henni inn til byggingarfulltrúa og var teikningin samþykkt.
Það þarf ekki arkitekt til að teikna íbúðarhús heldur ætti fólk að geta teiknað sjálft. Að sjálfsögðu yrði fólk að vanda sig og gera grein fyrir stærðum á timbri ofl. í veggjum og hversu svert efni sé notað í þaksperrur og hvernig burðarvirki sé háttað. Hlutverk byggingarfulltrúa ætti að vera að líta eftir að byggingar séu rétt byggðar og nógu traustar, og ætti hann að geta gefið ráð í því sambandi. Það þarf ekki flókna útreikninga til þess að reikna út burð og annað þessháttar því það er löngu búið að finna upp hjólið hvað húsbyggingar varðar. Það þarf ekki útreikninga verkfræðings eins og nú tíðkast (og er lögum samkvæmt) til að reikna út hvort hús standist byggingakröfur.
Einbýlishús úr timbri er tiltölulega auðvelt að hanna og teikna. Það mætti hafa upplýsingar til taks fyrir húsbyggjendur á vef viðkomandi sveitarfélags og þá í tengslum við byggingafulltrúa viðkomandi svæðis. Þar mættu vera leiðbeiningar fyrir tilvonandi húsbyggjendur td. hvað varðar burðarbita í veggjum eftir því hvort hús sé 1 eða 2 hæða, fyrirkomulag á þaksperrum og mismunandi uppbygging á þeim. Það er hægt að sýna hvað þaksperrur þurfi að vera efnismiklar miðað við mismunandi breidd hús og þar af leiðandi lengd sperra. Þetta er ekki flókið mál að skilja og það væri hægt að gera þetta aðgengilegt fyrir fólk að fara eftir. Samskonar upplýsingar ættu einnig að vera um steinhús en ég þekki uppbyggingu á þeim mjög lítið. Með þessu væri hægt að spara fólki umtalsverðar fjárhæðir.
Fólki ætti að sjálfsögðu að vera frjálst að byggja sitt eigið húsnæði sjálft. Núverandi reglugerð hljóðar upp á að húsasmíðameistarar sjái um það verk og meira að segja er krafist byggingastjóra (síðast þegar ég kynnti mér það mál). En þetta er mjög íþyngjandi reglugerð og bindur hendur fólks sem vill byggja sitt hús sjálft og spara með því miklar fjárjhæðir - jafnvel helming kaupverðs húss eða meira. En það er hægt að komast undan þessu ákvæði með einhverjum krókaleiðum að láta aðila skrifa upp á hjá sér en það er mikið vesen og leiðinlegt fyrir fólk að þurfa að kvabba á byggingameisturum til að fá undirskrifað.
Þegar maður ekur eftir aðalgötunni á Eyrarbakka þá getur maður séð mörg falleg gömul hús. Þau hús sem vekja mesta aðdáun hjá mér eru minnstu húsin sem eru oft hæð með háu þaki og risi þar sem eru svefnherbergi. Oft er búið að bæta við lítilli viðbyggingu 1 hæð við annan enda hússins. Þessháttar hús ættu að vera byggð enn þann dag í dag. Fólk gæti byggt slíkt hús fyrir ekki svo margar milljónir, byggt á mjög lítilli lóð jafnvel á helmingi eða þriðjungi því svæðis sem venjulegt einbýlishús þarfnast. Húsið gæti verið tiltölulega lítið eða 40-55 fm að grunnfleti, rishæðin yrði jafnvel fokheld þegar fólk flytti inn og biði betri tíma.
En þegar fjölskyldan hefur flutt inn þá má innrétta efri hæðina þegar efni og aðstæður leyfa. Eftir visst mörg ár gæti húseigandi svo stækkað húsið með viðbyggingu sem tiltölulega auðvelt og ódýrt væri að byggja, við annan enda hússins. Þá mundi gólfflötur viðkomandi húss fara td. úr 45 upp í 105-120 fm eða meira, (45 + 38-45 fm rishæð + 20-30 fm viðbygging) Seinna mætti svo bæta við bílskúr. Í staðinn fyrir að borga 4 milljónir í afborgun og svo 100 þúsund eða meira í afborgun af venjulegu húsi eða íbúð, væri hægt að byggja ofangreint hús fyrir tiltölulega fáar milljónir. Reyndar yrði að borga töluvert margar miljónir fyrir lóð á höfuðborgarsvæðinu en þeirri upphæð mætti halda tiltölulega lágri ef lóðin væri óvenju lítil sem svona hús gæti hæglega komist fyrir á. Best væri þá ef borgin mundi skipulegga svæði þar sem væru hús af svipaðri stærð.
Með þessum hætti gæti fjölskylda eða einstaklingur komist inn í eigið húsnæði á ódýran hátt. Það eru margir sem hefðu hugrekki og dugnað til þess að fara þessa leið eins og margt verkafólk eins og td. Pólverjar hér á landi sem hafa til að bera mikinn dugnað en litlar tekjur. Vinir og vandamenn gætu sameinast um að hjálpa til við húsbygginguna. Á þennan hátt gæti fólk komið sér undan þeirri fátæktargildru sem kaup á húsnæði eru. En tíminn sem tæki að byggja slíkt hús og erfiðið við það (og ánægjan) væri léttvægt í samanburði við þann þrældóm og fjárhagsáhyggjur sem kaup á venjulegu húsnæði kostar. En þar er maður að tala um kaupverð húss/íbúðar 15-40 milljónir og að fólk þurfi jafnvel að vinna 2-3 vinnur til að ná endum saman. En það slítir fólki óneytanlega út og rænir frá þeim þeim tíma sem annars færi í samvistir við fjölskylduna eða eitthvað annað uppbyggilegt.
Kær kveðja
![]() |
Óverðtryggðu lánin í sókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)